Orkuskiptin og allt það

Ég verð að viðurkenna að eftir að hafa lesið bókina Fossil Future: Why Global Human Flourishing Requires More Oil, Coal, and Natural Gas—Not Less eftir Alex Epstein þá hefur orðið ennþá erfiðara fyrir mig en áður að lesa fréttir af meintum orkuskiptum sem móteitri við svokallaðri loftslagsvá. Bókin er góð og vel rökstudd og jafnvel hörðustu andstæðingar hagkvæms jarðefnaeldsneytis gætu lært mikið af henni, þó ekki nema til að kynna sér almennilega þær áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir í að afla sér orku og hvað er mikið í húfi að það takist.

Ísland er orkueyja. Á eyjunni eru fallvötn og jarðhiti sem veita aðgang að stöðugri og hagkvæmri orku - ekki bara sveiflukenndu rafmagni heldur stöðugu streymi af bæði hita og rafmagni. Svolítil viðbót í formi jarðefnaeldsneytis tryggir svo samgöngur, siglingar og varaafl. Á Íslandi er hægt að reka álverksmiðjur sem losa töluvert minna af koltvísýringi en þær sem eru staðsettar víða annars staðar, og álið svo nýtt til að skipta út stáli í bílum og flugvélum, létta þessi tæki og minnka eldsneytisnotkun þeirra. Koltvísýringurinn stuðlar svo að örvun á plöntuvexti og gerir Íslendingum kleift að rækta korn og byggja upp skóglendi. Þetta er dásamleg blanda.

En það vantar meiri orku. Stöðuga og hagkvæma orku. Orku eins og þá sem vatnsfallsvirkjanir framleiða. En þær má helst ekki reisa. Þær breyta jú ásýnd landslagsins, raska fiskigöngum og rýra vatnabúskap, ekki satt? 

Hver er þá lausnin?eag

Að taka spjaldtölvurnar og rafmagnsbílana af fólki? Að hækka rafmagnsverð á ákveðnum tímum sólarhrings, þá helst þegar barnafjölskyldur þurfa að sjóða vatn til að elda mat (að hætti Dana)?

Nei, reisa vindmyllur!

Þá er allt í lagi að breyta ásýnd landslagsins. Fuglar gætu orðið fyrir röskun (eins og þeirri að missa höfuð eða væng) en gleymum því. Rafmagn má allt í einu fara úr því að vera stöðugt, ódýrt og áreiðanlegt í óstöðugt, dýrt og óáreiðanlegt og krefjast varaafls í formi rafstöðva og annars konar virkjana - tvöfalt kerfi í stað einfalds. 

Vindmyllur eru örugglega sniðugar í ákveðnum tilvikum, t.d. þegar valkostir eru fáir, plássið mikið, vasarnir djúpir og neytendur ríkir. En þær eru sjón- og hljóðmengun, raska náttúrunni, óstöðug uppspretta orku, kosta mikið í viðhaldi og mun síðri valkostur en margt annað sem er raunverulega í boði á Íslandi.

Bara svo því sé haldið til haga.


mbl.is Vill reisa vindorkugarða í nágrenni Hellisheiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Geir.

Þú ert ekki einn um að fatta ekki alla vitleysuna, burt séð frá skoðunum fólks varðandi meinta hlýnun jarðar af mannavöldum.

Þegar eðlilega greint fólk fattar ekki þessa vitleysu, þá stendur eftir hin stóra spurning, er eitthvað í alvöru verið að gera til að koma í veg fyrir óhjákvæmilegar hörmungar hlýnunar jarðar??

Fíflin segja Já, og benda á vindmyllur, kolefnisskatta og eitthvað þaðan af heimskara, sem engu breytir, en kastar umræðunni á dreif.

Þú sem ert skeptískur, spyrð spurninga, réttmætra spurninga, og svar staðreyndanna er því miður; Nei.

Forheimskan kristallast í því sem stefnt er að á Íslandi, og þess sem er gert.  Varðandi orkuskipti er það nákvæmlega ekki neitt nema að hækka skatta sem bitna mest á annars vegar lágtekjufólki, og hins vegar á forsendum búsetu á landsbyggðinni.

En ef eitthvað hefði verið gert, sem nákvæmlega ekki var gert, þá hefðu meint orkuskipti kallað á orku, uppbyggingu raforkuinnviða og svo framvegis.

Þar sem nákvæmlega ekkert hefur verið gert, hvorki að útvega nýja orku eða endurnýja lykilþætti aldinna orkuinnviða.

"Orðin" hafa hins vegar gert mikið, og ætla sér að gera mikið, ennþá meir.

Því máttu líka halda til haga Geir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.6.2023 kl. 18:27

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ómar,

Ef þessi umræða er vitleysa almennt, sem hún er, þá er hún alveg sérstaklega vitlaus á Íslandi með alla sína orkugjafa.

En nei. Sendum ruslið úr landi til að framleiða orku í Svíþjóð. Virkjum ekki vatnsföllin og stingum í staðinn niður vindmyllum. Á meðan raforkunotkun er almennt að aukast án þess að ný orkuver séu reist þá skulum við bæta enn við með niðurgreiðslum á rafmagnsbílum. Um leið dregur það úr tekjum til innviðaviðhalds sem koma í dag frá eldsneytissköttum á jarðefnaeldsneyti. 

Þetta er allt svo hrópandi og gapandi vitlaust, skammsýnt, dýrt og lélegt að það mætti með góðu móti segja að ef menn væru vísvitandi að búa til eins lélega áætlun fyrir íslenska innviði og hægt er að þá væri ekki hægt að gera betur.

Geir Ágústsson, 29.6.2023 kl. 12:04

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Já Geir, þetta gerist stundum, við erum svo sammála að það hálfa væri nóg.

Kom aðeins inn til að endurtaka þessi orð þín;

"Þetta er allt svo hrópandi og gapandi vitlaust, skammsýnt, dýrt og lélegt að það mætti með góðu móti segja að ef menn væru vísvitandi að búa til eins lélega áætlun fyrir íslenska innviði og hægt er að þá væri ekki hægt að gera betur.".

Þetta er sorglega satt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.6.2023 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband