Hver eru valdmörk ríkisvaldsins?

Ráðherra bannaði nýlega veiðar á langreyðum á Íslandi. Var það bann réttlætt með vísun í kvalarfullan dauða hvala við veiðar mannsins. Ráðherra hefur ekki gert athugasemdir við aðrar orsakir hvaladauða, eins og langvinn dauðastríð við rándýr úti á hafi, en látum það eiga sig í bili.

Vitaskuld hafa ýmsir aðilar brugðist við þessu enda verið að taka lifibrauðið af fólki. En veigamesta athugasemdin hlýtur að vera sú er snýr að lagagrundvellinum. Má ráðherra bara banna hvalveiðar? Á hvaða forsendum? Á hvaða lagagrunni? Í gegnum hvaða ferli? Með hvaða fyrirvara? 

Það má vel vera að ráðherra geti án fyrirvara bannað hvalveiðar, eða fiskveiðar, eða hvað sem er. Kannski stenst þetta allt saman lög og stjórnarskrá og hvaðeina.

En það er eins og öllum sé alveg sama. Eins og að það skipti mestu máli að mynda sér skoðun og að afgangurinn sé bara einhver lagatæknileg flækja sem skipti engu máli.

Nú borða ég ekki hvalkjöt nema við sérstök tilefni og er ekki rekinn hérna áfram af einhverri hugsjón um að hvalveiðar verði eða verði ekki að eiga sér stað. Það er fyrir mér aukaatriði. Mér finnst aðalatriðið vera að ákveðin starfsemi var stunduð, löglega og af fólki sem gerði áætlanir byggðar á henni, og sé nú búið að kippa úr sambandi, og að því er virðist á vafasömum forsendum út frá sjónarhóli laganna.

Núverandi ráðherra hvalveiða var ráðherra veirutíma á sínum tíma. Þessi ráðherra komst upp með að haga sér í starfi eins og að engin stjórnarskrá væri í gildi á Íslandi og komst upp með það og fær ennþá að starfa á sömu forsendum. Þessi ráðherra er mögulega búinn að þróa með sér mikilmennskubrjálæði og einræðistilburði. Hvað gerir kerfið við því? Væntanlega ekkert. Hvað verður um þá sem mótmæla og mæta jafnvel fyrir dómstóla til þess? Væntanlega hunsaðir. Þegar ríkið úrskurðar í máli gegn ríkinu er sigurvon annarra lítil.

Og öllum er eiginlega bara nákvæmlega sama, því hvalirnir eiga að deyja úr sjúkdómum, háhyrninga- og hákarlaárásum og eftir að hafa strandað og kafnað til dauða, en ekki vegna skutulsins.

Lengra nær réttarríkið ekki. 

Velkomin til miðalda.


mbl.is „Verulega slæmt“ fyrir hátt í 200 fjölskyldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það skeður sennilega nokkuð oft á ári, þó það lendi sjaldnast í fjölmiðlum, að starfsemi sem ekki er stunduð eða virðist ekki vera stunduð samkvæmt þeim lögum sem um starfsemina gilda er fyrirvaralaust stöðvuð. Ekkert athugavert við það. Og þó einhverjir reyni sjálfsagt að grugga vatnið og blanda óskyldum og ótengdum málum í umræðuna þá er það bara heilalaus pólitík og innihaldslaust blaður.

Vagn (IP-tala skráð) 22.6.2023 kl. 01:28

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Það kemur mér ekki á óvart að þú sért hlynntur handahófskenndri valdbeitingu ríkisvaldsins, nema auðvitað að þú getir útskýrt fyrir okkur sauðunum hvaða lög voru brotin, nú eða reglur, og hvernig fjárfestingar og samningar sem fjúka nú út í veður og vind verði bættar, og hvaða rekstur annar á Íslandi er í hættu á að loka skyndilega því einhver túlkar skyndilega regluverkið sem svo að hann sé í raun ólöglegur.

Geir Ágústsson, 22.6.2023 kl. 05:49

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

Kærunefnd útlendingamála, Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og nú Fagráð um velferð dýra. 

Andlitslausar nefndir sem virðast bera ægishjálm yfir íslenskri stjórnsýslu og  vilja lýðræðiskjörnra fulltrúa Íslands.

Björn Leví skrifar í Morgunblaðið í dag um að hvar eigi að draga línuna en eins og venjulega þá fer hann bara í hring án nokkurrar niðustöðu.

Grímur Kjartansson, 22.6.2023 kl. 06:48

4 identicon

Það er á ábyrgð rekstraraðila að starfsemin sé samkvæmt lögum. Bætur fyrir rekstrarstöðvun á rekstri sem er stöðvaður fyrir að fara ekki að lögum um reksturinn eru engar. Rekstur má stöðva sé verið að brjóta lög. Það gildir um allan rekstur á Íslandi.

Aflífun hvala virðist ekki vera í samræmi við lög og áður útgefnar fullyrðingar rekstraraðila.

Vagn (IP-tala skráð) 22.6.2023 kl. 08:47

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Það er nú bara ekki svo að hver sem vill megi veiða hval. Til þess þarf sérstakt leyfi frá yfirvöldum og gildir fyrir ákveðin skip í eigu ákveðinna útgerða. Yfirvöld veita það ekki nema að uppfylltum skilyrðum sem lýst er í reglugerð sem byggir á lagastoð.

Lagastoðin, reglugerðin, skilyrðin og leyfi yfirvalda - greinilega ekki merkilegur pappír. Ekki í tilviki hvalveiða og varla almennt heldur.

Geir Ágústsson, 22.6.2023 kl. 10:14

6 identicon

Ef rekstraraðili gefur rangar upplýsingar til að fá rekstrarleyfi er ekki við stjórnvöld að sakast komi til rekstrarstöðvunar þegar það uppgötvast.

Vagn (IP-tala skráð) 22.6.2023 kl. 11:45

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Þetta verður fróðlegra eftir því sem þögnin um það hvaða lög nákvæmlega voru brotin lengist.

Úr lögum um velferð dýra:

 27. gr. Veiðar.
 Ávallt skal staðið að veiðum þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka og aflífun þeirra taki sem skemmstan tíma. Skylt er veiðimönnum að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aflífa þau dýr sem þeir hafa valdið áverkum.
 Við veiðar er óheimilt að beita aðferðum sem valda dýri óþarfa limlestingum eða kvölum. Við veiðar á villtum dýrum skal að auki fara að fyrirmælum gildandi laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
 Ráðherra setur í reglugerð, að höfðu samráði við ráðherra er fer með stjórn veiða, vernd og friðun villtra fugla og villtra spendýra, nánari ákvæði um aðferðir við veiðar.

Úr álitinu sem ráðherra styðst við til að banna tímabundið veiðar á langreyð:

Aflífun er ekki möguleg á skjótan og sársaukalausan hátt. Dauðastríð hvalanna samkvæmt eftirlitsskýrslu MAST varði að meðaltali í 11,5 mínútur auk þess sem tvær langreyðar háðu dauðastríð í meira en eina klukkustund

Lögin segja að aflífun eigi að taka eins skjótan tíma og hægt er. Fagráðið segir að ekki séu til leiðir til að drepa hvali hraðar en í dag, en um leið að það taki of langan tíma.

Þetta tvennt stangast á. Ef menn væru að veiða hvali með spjótum frekar en fullkomnustu tækjum sem völ er á, það er eitt. En þegar fagráðið játar að ekki séu til leiðir til að drepa hvalina hraðar þá er erfitt að sjá að um lagabrot sé að ræða.

Það má kannski gera betur - setja upp tvær skutulbyssur eða hvaðeina - en ráðið segir ekkert um það.

Ég tek undir með þeim sem gagnrýna þessa ákvörðun sem gerræðislega.

Það má veiða hvali.

Það er gert eins hratt og hægt er.

Geir Ágústsson, 22.6.2023 kl. 17:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband