Bloggfærslur mánaðarins, júní 2022

Það er enginn með grímu hérna!

Ég er staddur á stórum alþjóðlegum flugvelli á leið í flug til Íslands. Í röðinni í innritun stóðu yndisleg fullorðin hjón og voru að furða sig á hægaganginum. Við spjölluðum aðeins saman. Konan var með grímu í hendinni og lítur á hana eins og hún væri að spá í að setja hana á sig en lítur í kringum sig og segir við mann sinn að það sé enginn með grímu. Og gríman var því ekki sett upp.

Ég skil vel að roskið fólk sé hrætt við veirusýkingar. Mjög vel. Og allar þessar sprautur hafa greinilega ekki gert það að verkum að grímurnar enduðu í ruslinu. En þetta snýst ekki um veiru. Þetta snýst um að hlýða. Allir með grímu? Ég með grímu! Allir að stökkva ofan í næstu skurði þegar barn mætir þeim á förnum vegi? Ég stekk í skurði! Allir að sprauta sig? Ég sprauta mig!

Íslendingar eru jú duglegastir allra að tileinka sér nýjustu tísku og strauma og fljótir að hoppa á næsta æði. Jójó, fidget-spinner, blómavasar, fótanuddtæki, loftsteikingarpottar og fleiri dellur sem dembast yfir alla og ganga yfir á nokkrum vikur. Svona eins og sprauturnar og grímurnar þótt þær dellur hafi reynst aðeins of langlífar.

En konan sá engar grímur og lét sína eiga sig. Það var gott. Megi þau ágætu hjón eiga hið ljúfasta ferðalag.


Fjöldi heimsfaraldra í gangi: 2

Þá er fjöldi heimsfaraldra sem ganga yfir orðinn tveir. Apabólan auðvitað í óteljandi fyrirsögnum og búin að fá sérstaka upplýsingasíðu hjá embætti landlæknis. Bóluefni keypt. Myndir af útbrotum. 

Einhvern veginn er kóvít líka að troða sér í fréttirnar: Bandaríkjamenn tilbúnir að sprauta litlu börnin og sóttvarnarlæknir Íslands búinn í fríinu sínu og orðinn sólbrúnn og sæll og tilbúinn að segja frá fjölda smita og innlagna um leið og hann biður kjörna fulltrúa um að halda kjafti nema þeir séu honum sammála. 

Ofan á þetta bætist við óðaverðbólga eftir peningaprentun veirutímans og svo er eitt stríð í gangi í heiminum sem verðskuldar athygli okkar. 

Um leið er lítið rætt um óbeinar afleiðingar sóttvarnaraðgerða og viðskiptaþvingana á líf venjulegs fólks, að ógleymdum heilsufarslegum skemmdarverkum sprautanna sem allir hafa verið hvattir til að stinga í sig. Ungbarnadauði í hæstu hæðum? Umframdauðsföll í kjölfar sprautuherferða? Hjartabilanir ungs íþróttafólks? Ekkert að sjá hér. Næsta mál. Stríð í Úkraínu! Verðbólga í boði Rússa!

Það hefur aldrei verið mikilvægara að taka lítið mark á fréttunum því þær eru einhliða áróður yfirvalda og hagsmunaaðila.


mbl.is ESB kaupir 11 þúsund skammta af apabólubóluefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungir sjálfstæðismenn að vakna til lífsins

Ungir sjálfstæðismenn tóku sig til um helgina og buðu upp á ókeypis skutl úr miðbænum. Mögulega lögbrot, mögulega tímabundin aðför að atvinnu launaðra bílstjóra, án efa umdeilt og kannski á jaðri þess að vera ábyrgðarlaust enda aldrei að vita hvað getur komið upp á þegar fullir farþegar setjast upp í bifreið.

En óháð öllu þessu: Frábær leið til að benda með áberandi hætti á stórt vandamál.

Akítvismi, eins og hann gerist bestur. Friðsæll, á eigin kostnað aðgerðasinna og án þvingunar.

Ungir hægrimenn voru óhræddir við slíkt á árum áður.

Mér kemur strax til hugar ólöglega útvarpið hans Hannesar Hólmsteins og félaga sem hlýtur að hafa flýtt fyrir afnámi ríkiseinokunar á útvarpsstarfsemi (já, ungu lesendur, það var í raun og veru bannað að reka frjálsa útvarpsstöð á árunum áður en Bylgjan var stofnuð).

Einnig áfengissala Ungra frjálshyggjumanna á Austurvelli og nokkrum árum áður áfengissala Heimdalls.

Ekki mikilvægustu málin segir einhver, og nýtur tollfrjálsa sopans sem var keyptur í seinustu utanlandsferð, en það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að víða treður ríkisvaldið á okkur eins og litlum maurum og þegar á það er bent með áberandi hætti þá opnast hugur margra fyrir hinni stóru mynd. Ríkisvaldið er ekki einhver verndarengill. Nei, það er fyrirbæri sem ver sjálft sig og vill auka við umsvif sín. Það stendur í vegi fyrir að kaupendur og seljendur fái að eiga frjáls, friðsæl og ofbeldislaus viðskipti, hvort sem það er skutlþjónusta eða handaskipti á svolitlum bjórsopa. Og margt, margt fleira.

Vonandi eru ungir hægrimenn, meðal annars þeir í Sjálfstæðisflokknum, aðeins að hrista af sér slenið. Samfélagið mun njóta góðs af slíku.


mbl.is Útiloka ekki að bjóða upp á skutl aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áminning! Fólk skiptir líka máli!

Úr svolitlu fréttabréfi sem ég fæ stundum:

In a major upset for Europe’s ambitious carbon plans, the European Parliament rejected this week a proposal to upgrade the EU carbon market, with lawmakers voicing concerns about hurting business with new stringent rules now, in a time of soaring energy costs and inflation. 

Sem sagt: Meira að segja á þingi Evrópusambandsins hafa menn uppgötvað að fólk skiptir meira máli en einhver aukning á snefilefni í andrúmsloftinu. Þetta eru góðar fréttir eins og þær að Hollendingar og Þjóðverjar ætli á ný að bora eftir nýjum gaslindum eftir að hafa áður ákveðið að það sé betra að kaupa orku frá fjarlægum ríkjum en sækja hana í eigin bakgarð. 

Ég segi ekki að innrás Rússlands í Úkraínu sé jákvætt fyrirbæri en stundum leiðir eitthvað slæmt af sér eitthvað gott. Evrópa er að vakna úr einhvers konar dái þar sem hún hélt að hún væri græn ef raforkan í rafbílum Þýskalands kæmi úr kolaorkuverum í Póllandi frekar en þýskum gasorkuverum, eða að rússneskt gas væri ásættanlegt í logni, þegar vindmyllurnar eru stopp, en annars ekki.

Þetta er ágætlega útskýrt hér, í íslensku samhengi:

Aukið afl er nauðsynleg stoð fyrir raforkukerfið hér á Íslandi til að geta tekið á móti frekari raforkuframleiðslu með vindmyllum.

Nokkuð sem fæstir skilja og jafnvel þeir sem skilja vilja ekki játa.

Orkuskiptin eru að eiga sér stað um allan heim. Á sumum svæðum er fólk að fara frá því að hafa enga orku í að hafa einhverja, á sumum að fara úr skítugri í hreina og enn öðrum úr hagkvæmri orku í óhagkvæma. Hérna passar ekki sama brókin á alla og kannski það sé loksins að verða mörgum ljóst.


Frétt í íslenskum fjölmiðli eftir 2-4 vikur

Nýtt afbrigði af heimsfaraldursveirunni! Hvern hefði grunað? BA.5 heitir það í þetta skipti og er víst að valda usla í Portúgal og í Danmörku eru einhverjir fundir í gangi, nýtt áhættumat á leiðinni og stjórnmálamenn komnir á tærnar.

Óformlegt reynslulögmál segir mér að eftir 2-4 vikur verði svipaðar fréttir byrjaðar að birtast í íslenskum fjölmiðlum.

Danir munu á þeim tíma hafa komist að því að þetta nýja afbrigði réttlæti ekki að krakkar missi af menntun og þurfi að segja bless við félagslíf sitt en íslenskir fjölmiðlar verða þá áfram nokkrum vikum á eftir áætlun og gleyma að minnast á það.

Þjóðhátíð aflýst, þriðja árið í röð? 

Nei, ætli það. Núverandi heilbrigðisráðherra virðist taka eigin ákvarðanir, ólíkt þeim fráfarandi. En blaðamenn gera sitt, eins og venjulega, og magna upp ótta. 

Því það selur.

Og gerir það því við kaupum.

Hugmynd: Hættum að kaupa eigin tortímingu.


Velkominn aftur, útblástur koltvísýrings

Þegar veiruhræðsla hafði meira og minna lamað heiminn sumarið 2020 voru sumir sem sáu tækifæri. Útblástur hefur minnkað! Loksins! Þetta var þá það sem þurfti til? Að loka fólk heima hjá sér og banna því að mæta í vinnuna! Snilld! Af hverju datt okkur ekki þetta í hug fyrr!

Nú hættir fólk öllu þessi flakki um heiminn og tekur í sátt nærumhverfi sitt. Ferðast innanlands og allt það. Tjald í Tálknafirði frekar en tequila á Tenerife. 

En svo fór ekki. Um leið og yfirvöld losuðu um hlekkina fór fólk á stjá á ný. Í Keflavík er flugumferð nú óðum að nálgast 2019-umferðina. Flugvellir víða glíma við starfsmannaskort og eiga erfitt með að þjónusta alla farþegana á leið í frí, vinnuferðir eða heimsóknir. 

Þetta er frábært, auðvitað. 

Um leið eykst útblástur koltvísýrings, og verður að teljast frábært líka. Orkunotkun knýr áfram lífskjör. Það sést á kortinu hér að neðan (gapminder.org) sem sýnir orkunotkun á íbúa. Afríka notar lítið af orku og er fátæk. Ísland er ríkt og notar mikið af orku (raunar mest allra vegna álveranna). 

orka

Sjálfur finn ég ágætlega fyrir því að heimurinn er að losna úr hlekkjum: Skrapp til Íslands um daginn og fer aftur í næstu viku, og þaðan til Hollands og þaðan til Kaupmannahafnar. Og enn og aftur Ísland í júlí. Æðislegt, losandi og frelsandi. Og Jörðin grænkar fyrir vikið.


mbl.is Áttfalt fleiri farþegar en í fyrra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki treysta vísindunum

Allt fram til ársins 2020 hafa Íslendingar talið lýsi vera allra meina bót, hollt og gott, styrkir ónæmiskerfið og varðveitir bein og sjón.

Lýsi gæti jafnvel hjálpað líkamanum að takast á við veirur!

En svona tal er víst ekki vísindalegt. Í athyglisverðri frétt um vandræðagang íslensks lýsisframleiðanda kemur meðal annars fram að vísindarannsóknir á lýsi hafi fengið opinberan styrk sem var svo dreginn til baka og framleiðandinn fékk að auki skammir frá opinberri eftirlitsstofnun fyrir að fjalla um lýsi sem heilseflandi varning. Hið opinbera reyndi þannig að þagga niður í öllu þessu lýsistali og vísar í lista Evrópusambandsins yfir heimilar fullyrðingar.

Sem betur fer tók ég ekkert mark á þessum ríkisvísindum og jók um haustið 2020 daglega lýsisneyslu mína í 2 matskeiðar, auk fjölvítamíns, og hef haldið þeim takti síðan.

Þegar ég fékk COVID-19 í janúar upplifði ég það sem svolitla syfju í nokkra daga. Þegar börn mín fengu COVID-19 á færibandi nokkrum vikum seinna og hóstuðu í 2-3 daga framan í mig þar sem þau lágu í sama rúmi og ég þá tók ég ekki eftir neinum einkennum þótt ég væri að þiggja mikinn örvunarskammt af veirum. 

Ég ætla því að gera það sem lýsisframleiðandi má ekki og fullyrða, eins og amma mín heitin og mamma alla tíð, að lýsi er heilsueflandi og styrkir ónæmiskerfið og bæta við að lýsi getur hjálpað fólki að sigrast á heimsfaraldri án þess að veikjast alvarlega. 

Og þessi listi Evrópusambandsins er nothæfastur sem klósettpappír.

Ríkisvísindin eru hér eins og í mörgum öðrum málum úti á þekju og þau má rólega hunsa afleiðingalaust.


Þegi þú, sá sem segir eitthvað annað en meginstefið leyfir!

„Tvær vikur af fréttnæmasta fréttaflutningi sem ég hef séð á íslensku, horfnar“, skrifaði til mín vökull borgari sem sá að fréttasíðan www.frettin.is hafði legið niðri um stund í dag og opnast aftur eins og spóluð til baka, til 25. maí. 

Einhver (eða einhverjir) lagði á sig tíma og orku og beitti þekkingu og jafnvel hæfileikum til að koma í veg fyrir að svolítil fréttasíða gæti starfað. 

Óþægileg flís í rassi, kannski?

Svona þöggunartilburðir koma ekki á óvart lengur. Aðferðir kínverskra kommúnista og rússneskra einræðisherra eru orðnar að viðteknum vopnum í huga riddara hins pólitíska rétttrúnaðar. Þeir sem fylgja ekki meginstefinu þurfa einfaldlega að þegja eða hverfa. 

Því miður mun þessi árás - þessi tilraun til þöggunar - ekki ganga upp. Og vonandi engar slíkar í framtíðinni. Hugtakið mál„frelsi“ er ekki skilgreiningaratriði sem ræðst af túlkun þess sem vill sem minnst af því. Þvert á móti.


Ný Marshall-áætlun?

Utanríkisráðherra skrifar í blaðagrein sem birtist í dag:

Það er ekki að ástæðulausu að nú sé talað um að huga þurfi að „nýrri Mars­halláætl­un“ fyr­ir Úkraínu. Sag­an sýn­ir nefni­lega að áætl­un­in skipti geysi­legu máli fyr­ir þær þjóðir sem hana hlutu og kem­ur ekki á óvart að gripið sé til slíkra sögu­vís­ana við þær aðstæður sem uppi eru.

Ný Marshall-áætlun já. Aðeins um þá gömlu:

By no means was Marshall Plan aid a ‘blank cheque’ for European governments. The US was determined to fund essential areas of development and avoid corruption or ‘skimming’. The Americans set rigorous conditions on Marshall Plan funding, reserving the right to cease this funding if recipient nations did not follow certain directives.

Einnig:

Not only was the Marshall Plan successful in stabilising many European governments and blocking Soviet expansion, it built a ‘new Europe’ with a political economy was based on open markets and free trade, rather than protectionism and self-interest. This allowed American exporters to enter European markets more easily than was possible before World War II.

Þetta var sem sagt eitthvað allt annað en það sem fer núna fram: Ókeypis peningar, ekkert eftirlit, vopnasendingar sem kannski og kannski ekki enda í höndum hermanna á vígvelli (en tvímælalaust að hluta á svarta markaðinum) og auðvitað bara traust til spilltasta ríkis Evrópu

Marshall-áætlun (sem hafði nú alveg sína ókosti á sínum tíma) myndi þýða eftirlit, kröfu um að opna hagkerfi Úkraínu fyrir erlendum fyrirtækjum og fjárfestum, þrýstingur á að virða lýðræðið og vökul augu sem fylgjast með styrktarfé og hafa afskipti af því í hvað það er notað.

Kannski það sé betri áætlun en sú sem fyllir aflandsreikninga spilltra stjórnmálamanna. Og um leið settir einhverjir strengir á brúðuna sem Úkraína yrði.


Sameiningaráráttan

Enn og aftur er stungið upp á því að sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem er alveg hræðileg hugmynd eins og ég rek í tímaritsgrein frá 2014.

Í stuttu máli þýða stærri sveitarfélög einfaldlega meira bákn, fleiri gæluverkefni og aukna sóun. Það eina sem mögulega heldur þeim á mottunni er að sumir kjósendur sjá í gegnum óráðsíuna og skuldasöfnunina. Það er mjög veikt aðhald borið uppi af mjög fámennum hópi stjórnmálamanna. 

Vandamál sveitarfélaganna er fyrst og fremst að þau sinna of mörgum verkefnum. Sumum verða þau að sinna skv. lögum (og meðal þeirra eru verkefni sem mætti alveg koma úr höndum hins opinbera án þess að nokkur tæki eftir því) en önnur hafa þau sjálf fundið upp á. Í Reykjavík er til dæmis rekin svokölluð mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa og innan hennar eru ráð og nefndir og allt þarf þetta að manna og hýsa og kaupa prentarapappír fyrir skýrslurnar sem enginn les án þess að borgarbúar finni fyrir bættum lífskjörum. 

Íbúar annarra sveitarfélaga en Reykjavík á höfuðborgarsvæðinu eru sennilega mjög fegnir því að þurfa ekki að standa í braggamálum borgarbúa (orðið „braggamál“ stefnir í að verða nýtt gæluheiti fyrir opinberar framkvæmdir þar sem verktakar fá óútfyllta ávísun). Um leið ganga þessi sveitarfélög á lagið þegar þau sjá að Reykjavík er að vanrækja ýmsar þarfir, eins og lóðaframboð, og hefja sókn í íbúa og fyrirtæki.

Ekki eru það heldur íbúar annarra sveitarfélaga en Reykjavík á höfuðborgarsvæðinu sem vilja sameinast Reykjavík, öðru nær. Reykjavík vill einfaldlega krækja í sjóði hinna betur reknu sveitarfélaga og gera að sínum. Hin verða þá að nýjum Árbæjarhverfum og Grafarholti sem þurfa að sækja vegaframkvæmdir og skólabyggingar með betlistaf til ráðhússins.

Legg ég frekar til að löggjafinn rýmki um heimildir til að kljúfa sveitarfélög upp með íbúakosningum eða álíka úrræðum. Þannig finnst mér blasa við að Grafarholt og Grafarvogur og jafnvel Árbær tilheyri miklu frekar Mosfellsbæ en Reykjavík, a.m.k. landfræðilega. Grafarvogur og Mosfellsbær eru hvort eð er að bráðna saman og fylgi við Samfylkinguna fellur nánast línulega með fjarlægðinni frá ráðhúsinu.

Reykjavík

Stundum er skilnaður friðsælasta leiðin til að vinna að sameiginlegum markmiðum en á Íslandi er einskonar kaþólsk löggjöf sem meinar hverfum að skilja og stofna til nýrra sambanda. Líklega má skrifa það á ákefð ríkisvaldsins að búa til sem stærst sveitarfélög sem er hægt að troða enn fleiri verkefnum inn í.

Á meðan þarf krakkinn að horfa á foreldra sína hnakkrífast yfir minnstu smáatriðum í stað þess að vera fylla út skilnaðarpappírana og ræða samstarfið sem tekur við.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband