Sameiningaráráttan

Enn og aftur er stungið upp á því að sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem er alveg hræðileg hugmynd eins og ég rek í tímaritsgrein frá 2014.

Í stuttu máli þýða stærri sveitarfélög einfaldlega meira bákn, fleiri gæluverkefni og aukna sóun. Það eina sem mögulega heldur þeim á mottunni er að sumir kjósendur sjá í gegnum óráðsíuna og skuldasöfnunina. Það er mjög veikt aðhald borið uppi af mjög fámennum hópi stjórnmálamanna. 

Vandamál sveitarfélaganna er fyrst og fremst að þau sinna of mörgum verkefnum. Sumum verða þau að sinna skv. lögum (og meðal þeirra eru verkefni sem mætti alveg koma úr höndum hins opinbera án þess að nokkur tæki eftir því) en önnur hafa þau sjálf fundið upp á. Í Reykjavík er til dæmis rekin svokölluð mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa og innan hennar eru ráð og nefndir og allt þarf þetta að manna og hýsa og kaupa prentarapappír fyrir skýrslurnar sem enginn les án þess að borgarbúar finni fyrir bættum lífskjörum. 

Íbúar annarra sveitarfélaga en Reykjavík á höfuðborgarsvæðinu eru sennilega mjög fegnir því að þurfa ekki að standa í braggamálum borgarbúa (orðið „braggamál“ stefnir í að verða nýtt gæluheiti fyrir opinberar framkvæmdir þar sem verktakar fá óútfyllta ávísun). Um leið ganga þessi sveitarfélög á lagið þegar þau sjá að Reykjavík er að vanrækja ýmsar þarfir, eins og lóðaframboð, og hefja sókn í íbúa og fyrirtæki.

Ekki eru það heldur íbúar annarra sveitarfélaga en Reykjavík á höfuðborgarsvæðinu sem vilja sameinast Reykjavík, öðru nær. Reykjavík vill einfaldlega krækja í sjóði hinna betur reknu sveitarfélaga og gera að sínum. Hin verða þá að nýjum Árbæjarhverfum og Grafarholti sem þurfa að sækja vegaframkvæmdir og skólabyggingar með betlistaf til ráðhússins.

Legg ég frekar til að löggjafinn rýmki um heimildir til að kljúfa sveitarfélög upp með íbúakosningum eða álíka úrræðum. Þannig finnst mér blasa við að Grafarholt og Grafarvogur og jafnvel Árbær tilheyri miklu frekar Mosfellsbæ en Reykjavík, a.m.k. landfræðilega. Grafarvogur og Mosfellsbær eru hvort eð er að bráðna saman og fylgi við Samfylkinguna fellur nánast línulega með fjarlægðinni frá ráðhúsinu.

Reykjavík

Stundum er skilnaður friðsælasta leiðin til að vinna að sameiginlegum markmiðum en á Íslandi er einskonar kaþólsk löggjöf sem meinar hverfum að skilja og stofna til nýrra sambanda. Líklega má skrifa það á ákefð ríkisvaldsins að búa til sem stærst sveitarfélög sem er hægt að troða enn fleiri verkefnum inn í.

Á meðan þarf krakkinn að horfa á foreldra sína hnakkrífast yfir minnstu smáatriðum í stað þess að vera fylla út skilnaðarpappírana og ræða samstarfið sem tekur við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

Sæll Geir, það væri ekki svo vitlaust hugmynd að búa til borg úr sveitarfélögunum í kringum Reykjavik. Íbúafjöldi Reykjavíkur er um 133 þúsund en sameiginlegur íbúafjöldi annarra sveitafélaga höfuðborgarsvæðisins er 103 þúsund manns. Þannig væri hægt að láta borgirnar tvær keppa innbyrgðis um íbúa og fyrirtæki.

Birgir Loftsson, 6.6.2022 kl. 14:06

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Birgir,

Mögulega já, en ég er bara hræddur um að þegar er búið að bræða eitthvað saman þá verði það ekki sundrað aftur, jafnvel ekki þótt árangurinn sé neikvæður. Eftir því sem þú fjarlægist ráðhúsið meira, því minna er tekið mark á þér.

En ég skil hvað þú átt við. Ef Reykjavík yrði skorin út við Elliðaár og Fossvoginn þá yrði hitt samfelld byggð frá Mosó í austri til Hafnarfjarðar í vestri og gæti þá gleymt fjaðrafokinu í ráðhúsinu.

Geir Ágústsson, 6.6.2022 kl. 14:38

3 identicon

2-3 sveitafélög á höfuðborgarsvæðinu, svona næstum 101 og hinir.

Mjög ólíkar þarfir þarna.

En eitt sveitafélag gengur ekki það er svona eins og að sameina bónus, nettó og krónuna og halda að það auki samkeppni á matvælamarkaði

Emil (IP-tala skráð) 6.6.2022 kl. 15:49

4 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Meiri miðstýring veldur fyrringu - sem er líklega það sem ríkisvaldið leitast eftir.  Fjarlægð valdsins frá fólkinu.

Nánd við sjtórnina er góð.  Fyrir alla.

Ásgrímur Hartmannsson, 6.6.2022 kl. 17:23

5 Smámynd: Þórhallur Pálsson

Það þarf að kljúfa miðborg Reykjavíkur ásamt Vatnsmýrinni út úr sveitarfélaginu Reykjavík og gera að sérstöku svæði þar sem allir landsmenn hafa kosningarétt og stjórna. 
Þetta svæði væri höfuðborg Íslendinga, hvar sem þeir kynnu að búa.

Þórhallur Pálsson, 6.6.2022 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband