Bloggfærslur mánaðarins, september 2020

Val á mælikvarða?

Ég lauk í gærkvöldi við bókina Framfarir: Tíu ástæður til að taka framtíðinni fagnandi, og verð að segja að ég er núna uppfullur af bjartsýni fyrir hönd heimsins, framtíðarinnar, umhverfisins, kvenna, minnihlutahópa og komandi kynslóða. Þó er á því fyrirvari: Að við setjum ekki hið frjálsa samfélag okkar á bak við lás og slá af ótta við ... eitthvað!

Ótta við hryðjuverkamenn.

Ótta við sjúkdóma.

Ótta við spákaupmenn.

Vestrænt samfélag hefur vissulega verið í hálfgerðu neyðarástandi seinustu 19 ár. Á flugvöllum er rakspírinn og vatnsbrúsinn tekinn af okkur við öryggishliðið. Leyniþjónustur fylgjast með ferðum okkar á netinu. Vestrænir hermenn dveljast í Miðausturlöndum og skiptast á sprengjum við innfædda sem hefna sín svo með því að sprengja upp almenna borgara á Vesturlöndum. Peningaprentvélarnar hafa ekki stoppað í 20 ár með tilheyrandi raski á verðmyndun, vaxtastigi og stöðugleika fjármálakerfa. Og nú fletja vestræn ríki hagkerfi sín til að fletja út veiru sem drepur sennilega hagkerfin hraðar en veiruna. 

En við erum ennþá frjáls á Vesturlöndum, þrátt fyrir allt.

Þetta leiðir samt huga minn að því hvaða mælikvarða við notum til að bæði vega og mega ástand heimsins og til að nota við áætlunagerð til framtíðar.

Sá sem fylgist vel með fréttum myndar í höfði sér þá hugmynd að heimurinn fari versnandi. Fréttamenn játa að neikvæðar fréttir selja betur en jákvæðar. Frávik frá reglu eru áhugaverðari en reglan. Það ýtir enginn á fyrirsögn sem segir að 40 milljónir flugvéla lendi á hverju ári heilu og höldnu. Hrapi ein úr loftinu er það hins vegar stórfrétt sem vekur mikla athygli. Skiljanlega, en tekið úr samhengi getur slík frétt brenglað upplifun okkar á heiminum.

Undanfarna mánuði er búið að hamra mikið á því að fjölgun á smitum á veiru sé á niðurleið eða uppleið og smitin notuð til að réttlæta hin og þessi inngrip í samfélagið. Þetta var kannski skiljanlegt í upphafi þegar ný veira með óþekkta eiginleika fór á stjá, en ekki lengur. Læknar eru orðnir ótrúlega færir í að eiga við veiruna. Og enginn er að deyja nema á gamals aldri eða vegna undirliggjandi sjúkdóma sem hefðu sigrast á líkama með hjálp hvaða veiru eða bakteríu sem er.

Með því að halda umfjöllun um veiru frá dauðsföllum og að smitum er hægt að mála alveg skelfilega mynd af einhverju frekar saklausu.

Tökum danskar tölur sem dæmi.

Hér er smitkúrfan:

smit

Heimsfaraldur!

Líkhúsin eru að fyllast!

Gjörgæslan er sprungin!

Ættarstapi!

Eða hvað?

Hér er kúrfa dauðsfalla fyrir sama tímabil:

daudfoll

Hvað er í gangi? 

Eru menn farnir að passa sig á hjúkrunarheimilunum og verja þá með undirliggjandi sjúkdóma á meðan unga fólkið djammar, kelar og knúsast og skiptist á veiru eins og enginn sé morgundagurinn? (Enda á nú að þvinga það heim núna.)

Hugsanlega. Því það er aðallega yngra fólkið sem fær veiruna, enda mest á ferðinni:

aldursdreifing smita

Og eins og með allar veirusýkingar er það aðallega eldra fólkið sem deyr þegar það sýkist.

aldursdreifing daudsfalla

Með því að fletja út hagkerfið tekst kannski að halda veiru í skefjum en þá byrjar fólk að deyja af ýmsu öðru. Sjálfsmorð eru fyrirsjáanlega byrjuð að aukast vegna vonleysis, atvinnuleysis og tekjuleysis. Læknar hafa séð vísbendingar um að fleiri hafi dáið úr hjartaáföllum en annars hefði verið raunin því fólk var hrætt við að hringja í sjúkrabíl og verða rúllað inn í veirubæli. Margir hafa frestað læknisheimsókninni til að athuga með krabbamein og aðra langvinna sjúkdóma. Og enn skal haldið áfram á sömu braut, til að fletja úr veiru.

Er ekki kominn tími til að skoða aðra nálgun?


Námsskylda, ekki skólaskylda

Samkvæmt íslenskum lögum er skólaskylda í grunnskólum Íslands og er einstaklingum frá 6 til 16 ára aldurs skylt að sækja þá (nema veittar séu undanþágur), eða svo segir Wikipedia mér.

Börn eru því múlbundin við skóla.

Í Danmörku er ekki skólaskylda heldur kennsluskylda (undervisningspligt). Það er einfaldlega á ábyrgð foreldra að sjá til þess að barnið gleypi í sig grunnskólanámið á einn eða annan hátt.

Kannski finnst einhverjum þetta ekki vera mikill munur, en kannski er þetta gríðarlegur munur. Eðlismunur, frekar en stigsmunur.

Heimakennsla er hratt vaxandi fyrirbæri. Margir foreldrar sjá ekki lengur nytsemina í því að kvelja sálina úr barni sínu innan fjögurra veggja skólastofunnar. Hagsmunaaðilar í núverandi fyrirkomulagi spyrna eðlilega við fótum. Það á ekki að láta slíkt hindra sig í að hugsa í lausnum. Foreldrar eru ábyrgir fyrir börnum sínum, ekki ríkið. Ekki gleyma því.


mbl.is Áform um heimakennslu eru umdeild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sjá ekki skóginn fyrir trjánum

Orkuskipti í samgöngum eru forsenda þess að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum samkvæmt Parísarsamningunum. Markmið stjórnvalda miða að því að minnka útblástur frá samgöngum á landi um 37%, miðað við árið 2018, fyrir árið 2030.

Og hvernig á að gera það?

Kannski með sama hætti og mannkynið hefur alltaf unnið, þegar hvatarnir eru til staðar: Fyrst þarf bara orku - einhverja orku. Svo þarf hún að menga minna. Um leið þarf hún að verða hagkvæm og skilvirk. Niðurstaðan er í stuttu máli sú að endalaus orkuskipti hafa átt sér stað seinustu aldir, og eiga sér stað í sífellu: Mykju- og móbruni verður trjábruni sem verður kolabruni og loks gas- og olíubruni, hreinsibúnaðurinn batnar og nýtnin eykst. 

Með þessum hætti hefur t.d. íslenska útgerðin stórminnkað útblástur sinn seinustu áratugi, og það án alþjóðlegra skuldbindinga á herðar skattgreiðenda, því hún hefur einfaldlega stefnt að aukinni hagkvæmni. Og bílaflotinn heldur í raun áfram að blása minna og brenna betur, jafnvel þótt bílaeign hafi aukist, þökk sé kröfuhörðum neytendum sem halda framleiðendum bifreiða við efnið (hér eru Danmörk og Ísland sennilega ekki á sömu vegferð, því Danir ríghalda í ofurskattlögðu bílana sína eins lengi og þeir geta á meðan Íslendingar vilja helst vera á nýjum eða nýlegum bílum). 

Útblástur frá bílum er líka ósköp lítil stærð í hinu stóra samhengi, sé útblástur á annað borð talinn áhugaverð stærð, og ef ótalin er svo mismununin í skattkerfinu sem bitnar fyrst og fremst á ökumönnum. Með því að þröngva einhverjum orkuskiptum þar í gegn er verið að eyða stórfé. Nú fyrir utan að yfirvöld hafa með engum hætti útskýrt hvernig skattkerfið sem á að fjármagna vegagerð á að breytast þegar skattfrjáls batterí koma í stað brennsluvéla. Eða jú, með fleiri sköttum!

Rafmagnsbílar og rafmagnstæki af öllu tagi eru krúttlegar græjur og nothæfar í mörgu samhengi. Ég þekki marga sem þeytast nú um á rafskútum um götur borgarinnar og láta bílinn bíða heima. Græjufíklar vilja auðvitað eiga flotta Teslu. Í stórborgum erlendis eru rafmagnsbílar sniðug leið til að færa útblásturinn frá þéttbýlinu og út í sveit eða til annarra ríkja (rafmagnsbílar í Þýskalandi draga mjög á orkuframleiðslu kolavera í Austur-Evrópu). Og það er ljóst að bílaframleiðendur eru að vinna að ýmsum nýjungum, neytendum til hagsbóta. Sem dæmi má nefna hugmyndir Hyundai um að smíða vetnisbíla sem keyra á vetni framleitt með sól og vind (nú eða bara gasi, ef því er að skipta). Það þarf mun færri afríska námuverkamenn í Afríku í slíka hugmyndafræði, sé miðað við batterísblætið.

Nú fyrir utan alla talnaleikfimina sem er notuð til að réttlæta framgang batterísins. Þar lifa margar goðsagnir um ágæti hinna og þessara svokölluðu grænu orkugjafa.

En menn virðast ætla grafa skotgrafir: Annaðhvort olía eða batterí. Annaðhvort brennsla eða hleðsla. Það er óþarfi. Og það ættu allir að hafa varann á þegar stjórnmálamenn valsa um með milljarða af fé skattgreiðenda og lofa bjartri framtíð. Allir.


mbl.is Orkuskipti í samgöngum forsendan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matarsóun

Í rándýrri viðleitni til að reyna minnka notkun á jarðefnaeldsneyti hafa menn dottið niður á svolitla aðferð: Að brenna matvæli!

Þannig er eldsneyti með mikinn orkuþéttleika tekið úr umferð, a.m.k. að hluta, og eldsneyti með lítinn orkuþéttleika notað í staðinn.

Þetta hefur allskyns afleiðingar. Til að byrja með leiðir þetta til verra eldsneytis og dýrara. Vefþjóðviljinn tók þetta ágætlega fyrir í mörgum pistlum, t.d. með eftirfarandi orðum:

Í tíð vinstri stjórnarinnar voru leiddar í lög kvaðir sem þvinga bensínstöðvar til að blanda dýrum og orkusnauðum jurtaafurðum í bensín og Dieselolíu. ... Vínandinn eða korn-etanólið, sem nú er blandað í bensín, er dýrara í innkaupum en bensín. Etanólið er einnig um þriðjungi orkuminna en óblandað bensín. Íblöndunin leiðir því til aukinnar eyðslu í bílvélum og fleiri ferða á bensínstöðvar og þar með aukins innflutnings eldsneytis.

Enn er þessi kjánalega kvöð í gildi, því miður.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Hvaðan eiga öll þessi matvæli að koma? Jú, frá ökrum bænda. Bændur senda uppskeru sína í bílvélarnar og hin aukna eftirspurn eftir afurðum þeirra þrýstir upp verði á mörkuðum, m.a. þeim þar sem fólk er að reyna kaupa sér í matinn. Hið hækkandi verð hvetur svo bændur til að leggja enn meira land undir ræktunina, þá vitaskuld á kostnað náttúrunnar. Lokaniðurstaðan er: Fátækt fólk hefur minna að borða, og náttúran fær skellinn.

Af því við viljum ekki nota jarðefnaeldsneyti sem liggur bara í jörðinni og bíður eftir því að breytast í hagkvæma orku.


mbl.is Prófa vistvæna repjuolíu á Keflavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðefnaeldsneyti er frábært

Allt tal um að hætta notkun á jarðefnaeldsneyti er tómt tal. Mannkynið hvorki ætti né getur hætt að nota jarðefnaeldsneyti með núverandi tækni, og það eru fá teikn á lofti um að tæknin geti leyst jarðefnaeldsneytið af á næstu áratugum. 

Auðvitað geta rík lönd talað á öðrum nótum. Það er alveg hægt að neyða almenning til að taka upp hálfþróaða tækni og niðurgreiða með svimandi fjárhæðum valkosti við jarðefnaeldsneyti. Auðvitað. Og um leið láta börn í Afríku grafa á eftir sjaldgæfu málmunum sem þarf í öll þessi batterí. En fyrir heiminn, heilt á litið, eru það bara heimatilbúnar og svæðisbundnar æfingar sem skipta engu máli fyrir heildarmyndina og mannkynið. Á Ísland að nota jarðefnaeldsneyti eða ekki? Svarið skiptir ekki máli nema fyrir íslenska skattgreiðendur.

Nú fyrir utan að jarðefnaeldsneyti er ekkert vandamál í sjálfu sér. Jú, auðvitað veldur ósíaður kolareykur usla, en hreinn gasbruni eða bruni bensínvélar er engin sérstök óværa. Fyrir milljónir fátækra Jarðarbúa er raunar mikil framför í að komast í kol til brennslu, sem valkost við bruna dýraskíts innandyra með tilheyrandi reykeitrun og jafnvel hættu á dauða.

Hafi menn áhyggjur af styrkleika koltvísýrings í andrúmsloftinu og því að hann hafi meiri áhrif á hitastig lofthjúpsins en sjálf sólin þá er sú goðsögn á góðri leið með að verða afhjúpuð sem ósönnuð tilgáta. Koltvísýringur er ekki mengun. Hann er tiltölulega áhrifalítill fyrir lofthjúpinn, en meiri styrkur um leið frábær áburður fyrir plönturnar. Því meira, því betra (upp að ákveðnu marki, auðvitað).

Svo þurfum við að muna að jarðefnaeldsneyti er ekki bara eldsneyti heldur líka hráefni. Það kæmi mér mjög á óvart ef það væru færri en 50 hlutir í kringum þig, sem þetta les, sem á einn eða annan hátt eru framleiddir með notkun olíu sem hráefnis.

Mörgum er tíðrætt um orkuskipti. Þau eru ekki frá jarðefnaeldsneyti í græna orku (svokallaða), heldur frá skítugri orku til hreinni.


mbl.is Orkuskipti rædd á opnum ársfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gráðuverðbólgan

Undanfarin ár hefur svokölluð gráðuverðbólga (educational inflation) hrjáð Vesturlönd. Í Danmörku er, eða var a.m.k. um tíma, markmið yfirvalda að 75% allra nemenda ljúki skólagöngu sinni með háskólagráðu. Á Íslandi er nú krafist, eftir því sem kostur er, háskólaprófs til að sinna börnum á leikskólum og til að kenna krökkum að lesa og skrifa. Hugmyndir um að lögreglunám fari á háskólastig voru eitthvað í umræðunni á tímabili.

Á yfirborðinu er alltaf talað um auknar faglegar kröfur. Fólk þarf jú að kunna vélrita og nota tölvur, ekki satt? Það þarf að fylla út miklu fleiri eyðublöð nú eða áður og uppfylla miklu fleiri kröfur til gæða og skriffinnsku, ekki satt?

En auðvitað blasir við að hér eru menn einfaldlega að minnka samkeppni innan starfsstétta. Það er ljóst að laus staða leikskólakennara fær töluvert færri umsækjendur ef háskólapróf er gert að skilyrði. Þar með eykst þrýstingur á launakjörin. Háskólapróf er einfaldlega leið til að minnka framboðið á meðan eftirspurnin er alltaf til staðar.

Mörg fyrirtæki nota líka kröfur um háskólapróf til að fækka umsækjendum. Þetta er leið til að spara mannauðsdeildinni fyrirhöfn. 

En nú er kannski eitthvað byrjað að breytast. Í frétt er sagt frá því að fyrirtæki eins og Netflix og Apple séu í auknum mæli að hætta að gera háskólapróf að skilyrði fyrir ráðningu.

Svolítil tilvitnun:

Now prominent companies such as Google and Apple are hiring employees who have the skills required to get jobs done, with or without a degree. LinkedIn found many of today’s hottest companies to work for do not require that employees have a college degree.

Þetta eru góðar fréttir. Ég efast um að það verði gert mikið úr þeim á Íslandi en úti í hinum stóra heimi er baráttan við gráðuverðbólguna hafin. Háskólar eru góðir fyrir marga en ekki alla. Háskólapróf sem skilyrði er í raun útilokun á ákveðnu fólki sem á erfitt með að troða sér í ferköntuð form formlegrar háskólagöngu.

Ef við viljum hlífa mannauðsdeildum við álagi og styðja við kjarabaráttu leikskólakennara þá eru til aðrar leiðir en sóa lífum hæfileikafólks með óþarfa bóknámi.


Fyrirsögn: Enginn veiktist

Einn nemandi við Verslunarskólann greindist með kórónuveiruna í gær. Enginn er veikur. Málið er dautt. 

Eða hvað?

Aldeilis ekki: Vegna greiningar eru fjórtán nemendur skólans komnir í sóttkví og tveir kennarar til viðbótar.

Hjálpi mér!

Núna sitja sextán hraustir og heilbrigðir einstaklingar heima hjá sér og reyna að láta hluti ganga upp af því einhver nemandi ákvað að fara í próf og greindist með veiru.

Ekki fylgir sögunni hvenær eða hvernig hann smitaðist. Sennilega í einhverju teitinu eða af því hann stóð nálægt manneskju í Krónunni sem talaði hátt í síma og þeytti agnarsmáum dropum út úr sér.

Ennþá er markmið yfirvalda að útrýma smitum í stað þess að eiga við sjúkdóm þeirra sem veikjast. Ekki smitast, heldur veikjast. Þetta var kannski viðeigandi í tímabundnu óvissuástandi en alls ekki lengur.

Sem betur fer er andspyrnan smátt og smátt að rísa upp úr jörðinni. Greinar sem gagnrýna yfirvöld skjóta reglulega upp kollinum og höfundar þeirra engir viðvaningar. 

Smit er ekki sjúkdómur! Þetta er mikilvægt að hafa í huga. Við erum að smitast af allskyns veirum og bakteríum á hverjum degi, og engum dettur í hug eltast við slíkt með rándýrum prófunum og lokun landamæra og morði á heilu atvinnugreinunum, nema þegar veiran heitir COVID-19. Það er fyrst að einhver verður veikur að einhver á að gera eitthvað.

Hrausta fólkið nær aldrei að mynda varnarvegg fyrir þá sem eru veikastir fyrir sjúkdómum ef allir eru heima í sóttkví.

Hættum þessari vitleysu.


mbl.is Nemandi Versló greindist með veiruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr 2 í 1

Frétt segir:

Hann [Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir] sagði rannsóknir benda til að einn metri á milli einstaklinga minnki líkur á smiti fimmfalt sem er ásættanlegt og auðveldar framkvæmd auk þess að hún hafi virkað vel í skólum landsins. 

Já, mikil ósköp. Svo virðist sem sóttvarnarlæknir hafi loksins farið inn á heimasíðu WHO, þar sem segir:

Maintain at least 1 metre (3 feet) distance between yourself and others. Why? When someone coughs, sneezes, or speaks they spray small liquid droplets from their nose or mouth which may contain virus. If you are too close, you can breathe in the droplets, including the COVID-19 virus if the person has the disease.

Nú eða hringt í einhvern í Danmörku, en þar hefur síðan í byrjun maí verið 1 metra regla og enginn talað um að það hafi bætt á vandann. Þvert á móti hefur fólk miklu raunhæfari möguleika á að virða 1 metra en 2 metra, og tekur það því alvarlegar. 

Það tekur flöskuskeyti langan tíma að berast til Íslands en á endanum tekst það, og það opnað og lesið.

Annars ætla ég að taka fram að ég tel sóttvarnarlækni hafa staðið vaktina vel, sem slíkur. Ég hef ekkert á móti honum, hans ráðleggingum og hans tilmælum. Hann er sóttvarnarlæknir og hugsar um sóttvarnir (nema þegar honum leiðist). Ég er hins vegar steinhissa á því að stjórnvöld hafi valið að setja nánast öll önnur sjónhorn ofan í skúffu og þar með kafsiglt hagkerfinu án þess að bjarga einu einasta mannslífi, og jafnvel þvert á móti ýtt mörgum hættulega nálægt bjargbrúninni.

Eða er ekki orðið illt í efni þegar embættismaður biður yfirvöld vinsamlegast um einblína ekki á eigin orð og byrja að „taka tillit til annarra hagsmuna“?


Gæluverkefnin laumast inn um bakdyrnar

Sjaldan lætur hið opinbera góða krísu fara til spillis.

Nú þegar er búið að knésetja hagkerfið og óveðursskýin hrannast upp er upplagt að leggja til leiðir til að komast aftur á fætur. Ríkisvaldið er hér tilbúið að rétta þér hækju eftir að hafa brotið á þér hnéskeljarnar.

Gott dæmi er svolítil hugmyndavinna frá Viðreisn. Þar leynast mörg gullkorn:

  1. Að fara á fullt í að leggja Borgarlínuna svokölluðu, i nafni hagkvæmra opinberra framkvæmda! Nú er ekki tíminn til að ræða ágæti þess að fjölga strætisvögnum og bera saman við aðra kosti. Nei. Í nafni neyðarástands skal byggja fyrir 100 milljarða af lánsfé, strax!
  2. Að hraða því eins og frekast er unnt að nota óhagkvæma orkugjafa í stað hagkvæmra.
  3. Tímabundnar skattalækkanir og ríkisstyrkir til fyrirtækja frekar en að lækka bara skatta almennt, á alla línuna, varanlega. Auðvitað.
  4. Almennt stóraukin fjárútlát fyrir lánsfé úr tómum ríkissjóði.

Ég skal alveg viðurkenna að það er ekki allt alslæmt við tillögu Viðreisnar, og gott hjá þeim að setja hugmyndir í pottinn, en almennt má samt segja að Viðreisn sé að reyna gera gæluverkefni sín að þjóðþrifamálum, í nafni neyðarástands, og vonar að þau verði gripin á lofti í örvæntingu og keyrð í gegn. Og viðbúið að fleiri flokkar hugsi það sama, nú fyrir utan alla vitleysuna sem nú þegar er í gangi.


mbl.is Vilja snarpari viðbrögð ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin íslenska sænska leið

Þrjú börn hafa verið fjarlægð af heimili sínu í Svíþjóð eftir að foreldrar þeirra lokuðu þau inni í fjóra mánuði af ótta við kórónuveirufaraldurinn.

Þarna er þá kannski sænska leiðin sem Íslendingar völdu, að hluta a.m.k. upp á síðkastið, að fara: Að reyna læsa loftborna veiru úti og koma í veg fyrir smit.

Markmiðið er þá ekki að reyna verja heilsu fólks.

Markmiðið er ekki að hlífa heilbrigðiskerfinu.

Markmiðið er ekki að dreifa smiti yfir lengri tíma.

Nei, markmiðið er að læsa veiru úti, sem er auðvitað ekki hægt.

Kannski það sé kominn tími til að taka upp hina sænsku leiðina, sem er sú jarðtengda hugsun að heilbrigt fólk fær í sig allskyns óværu, en flestir sigrast einfaldlega á henni og myndar varnarvegg fyrir hina sem þola slíkt verr.


mbl.is Óttuðust faraldurinn og lokuðu börnin inni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband