Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2020

Rökréttar ástæður til hamfaraótta

Blaðamenn, stjórnmálamenn og aðrir hópar gáfaðra einstaklinga sem vilja hlutast til um líferni hins sauðsvarta almúga boða nánast daglega nýjar hamfarir. Hamfarirnar verða líka sífellt langsóttari, svo sem að örlítill vöxtur á einni lofttegund í andrúmsloftinu geti nú kveikt skógarelda í Ástralíu umfram það sem hefði annars brunnið.

Hinn raunverulegi ótti er hins vegar ekki réttilega staðsettur. Í stað þess að óttast hamfarir í fjarveru ríkisafskipta er sennilega skynsamlegra að óttast hamfarir vegna ríkisafskipta af ýmsu tagi. Dagleg heimsókn á ZergoHedge.comAntiwar.com og Mises Wire viðheldur réttmætum ótta við ríkisafskipti. Þetta eru gjörólíkar heimasíður í efnistökum, hugmyndafræðilegri nálgun og viðhorfum almennt en fyrir tortrygginn frjálshyggjumann hef ég gagn af þeim öllum (miklu frekar en hinum hefðbundnu áróðurspésum vinstriblaðamannanna).

Ríkisvaldið heldur á lífi tæknilega gjaldþrota bankakerfi (brotaforðakerfi er tæknilega gjaldþrota um leið og lánsfé er annað en sparnaður), heldur hagkerfi og samfélagi rækilega í gíslingu skatta og íþyngjandi reglugerða (t.d. með rekstri svonefnds velferðarkerfis) og enginn er í raun óhultur þótt hættan á ofsóknum hins opinbera sé vissulega mismikil eftir ríki.

Nú er auðvitað ekki hægt að neita því að margt jákvætt á sér stað í heiminum en þegar á heildina er litið eru mörg teikn á lofti um meiriháttar bresti í bæði hagkerfi og samfélagi okkar tíma.

Í stað þess að senda skólakrakka heim með hausinn troðfullan af hugmyndum um ný ríkisafskipti á að hvetja þá til að hugleiða frekar ágæti óþvingaðs samstarfs frjálsra einstaklinga á frjálsum markaði, að mestu óáreittir af stjórnmálamönnum.


Móteitur við hamfaraótta

Blaðamenn, stjórnmálamenn og aðrir hópar gáfaðra einstaklinga sem vilja hlutast til um líferni hins sauðsvarta almúga boða nánast daglega nýjar hamfarir. Hamfarirnar verða líka sífellt langsóttari, svo sem að örlítill vöxtur á einni lofttegund í andrúmsloftinu geti nú kveikt skógarelda í Ástralíu umfram það sem hefði annars brunnið.

Það er því gott að geta gripið í móteitur við hamfarasýkinni, t.d. að lesa reglulega greinar á HumanProgress.org.

Nú er auðvitað ekki hægt að neita því að margt neikvætt á sér stað í heiminum en þegar á heildina er litið er flest að mjakast í rétta átt. Það ætti að gefa gott tilefni til bjartsýni.

Í stað þess að senda skólakrakka hrædda heim á að hvetja þá til að líta á vandamál heimsins sem áskoranir sem má leysa.


Sól- og vindorka: Áhugamál ríkra þjóða

Í afskaplega fróðlegri grein Matt Ridley á The Spectator um framlag vind- og sólarorku til orkuframleiðslu heimsins kemur mjög margt áhugavert fram.

Fyrirsögnin ein og sér hristir sennilega upp í mörgum:

Wind turbines are neither clean nor green and they provide zero global energy

We urgently need to stop the ecological posturing and invest in gas and nuclear

Í greininni er meðal annars sagt:

"Their trick is to hide behind the statement that close to 14 per cent of the world’s energy is renewable, with the implication that this is wind and solar. In fact the vast majority — three quarters — is biomass (mainly wood), and a very large part of that is ‘traditional biomass’; sticks and logs and dung burned by the poor in their homes to cook with. Those people need that energy, but they pay a big price in health problems caused by smoke inhalation."

"Now if we are to build 350,000 wind turbines a year (or a smaller number of bigger ones), just to keep up with increasing energy demand, that will require 50 million tonnes of coal a year. That’s about half the EU’s hard coal–mining output."

"The truth is, if you want to power civilisation with fewer greenhouse gas emissions, then you should focus on shifting power generation, heat and transport to natural gas, the economically recoverable reserves of which — thanks to horizontal drilling and hydraulic fracturing — are much more abundant than we dreamed they ever could be."

Eftir að hafa lesið greinina stendur eftirfarandi upp úr:

  • Vindmyllur og sólarorka eru áhugamál ríkra þjóða og kostar þær stórfé án þess að ná tilætluðum markmiðum.
  • Áreiðanlegir orkugjafar (vatnsföll, kjarnorka, bruni á tré og kolum, olía og gas) sjá okkur fyrir orkunni í raun og veru og svo mun áfram verða.
  • Vindmylla er alls ekki jafnumhverfisvæn og margir telja þegar það er tekið með í reikninginn að það þarf að framleiða hana og setja upp. Hún birtist ekki bara og byrjaði að dæla í okkur ókeypis rafmagni.

Greinar eins og þessar eru alltof sjaldgæfar. Margir, og sérstaklega skólabörn sem eru fóðruð með vitleysu, lifa hreinlega í öðrum veruleika en raunveruleikanum. Því miður. 

Það er allt í lagi að setja sér einhver markmið, hvort sem það er að draga úr losum CO2 (óþarfi að vísu en á óskalista margra engu að síður), eiturögnum í loftinu, losun á sorpi í sjóinn og þess háttar, en er ekki lágmark að skattgreiðendur fái árangur fyrir skattheimtuna? 


8 farnir, bara 290 eftir

Nýtt skipurit Seðlabanka Íslands var kynnt í gær og tilkynnt að átta starfsmenn muni hverfa frá bankanum við breytingarnar.

Þá vantar bara að 290 í viðbót fari og þá er hægt að leggja Seðlabanka Íslands niður.

Nú veit ég vel að SÍ sinnir mörgum hlutverkum og fleiri í dag en fyrir áramót en eitt hlutverk hans er að gefa út peninga. Af hverju er íslenska ríkið að gefa út peninga? 

Til að tryggja stöðugt verðlag?

Til að halda aftur af verðbólgu?

Til að styrkja útflutning á kostnað innflutnings?

Til að tryggja stöðugleika?

Til að gefa ríkisvaldinu hagstjórnartæki?

Til að tryggja rétt verðlag á lánsfé?

Til að halda bönkunum í skefjum? Eða til að efla þá á kostnað innlánseigenda og skuldara?

Til að tryggja lánsfé? Eða til að koma í veg fyrir of mikla skuldsetningu?

Allt á þetta við, eftir aðstæðum. 

En af hverju er íslenska ríkið svona upptekið af verðlagi á peningum, framleiðslu þeirra og dreifingu í innlán og útlán?

Ástæðurnar eru ekki:

  • Að annars yrðu engir peningar í umferð
  • Að enginn gæti sparað
  • Að enginn gæti lánað
  • Að vextir yrðu ekki ákveðnir

Þetta verður opin spurning í bili en vonandi umhugsunarefni fyrir einhverja lesendur.


mbl.is Lykilfólk hverfur frá Seðlabankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar orðavalið skiptir máli

Blaðamenn eru fólk orða. Þeir eru bókstaflega allan daginn að semja setningar og margir mjög góðir í því. Margir þeirra kalla sig hlutlausa og segjast bara vera að segja fréttir en oft má greina ákveðinn ásetning í fréttaflutningi þeirra og þá þarf að skoða orðalagið vel.

Í einni frétt er til dæmis sagt:

Nýliðið ár var næstheitasta ár sögunnar frá því mælingar hófust.

Nú má spyrja sig: Hvenær hófust þessar mælingar? Er verið að tala um fyrstu kvikasilfursmælingarnar? Gervihnattamælingar? Þetta skiptir máli. Sé verið að tala um gervihnattamælingar þá ná þær ekki nema nokkra áratugi aftur í tímann og segja enga langtímasögu. Sé verið að tala um samfelldar mælingar á stað sem er ekki kominn í miðja stórborg með tilheyrandi hlýnun af tækjum, malbiki og byggingum þá segja þær kannski aðra sögu.

Punkturinn er sá að það skiptir máli að nefna þetta. Mælingar á hita hafa staðið yfir í margar aldir en sumar mælingar hófust seinna en aðrar. Mismunandi mælingar yfir mismunandi tímabil segja gjörólíka sögu.

Hérna var blaðamaður ekki að segja frétt heldur reka áróður. Skamm!


mbl.is Aldrei áður jafn heitt í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert er ókeypis nema eftirfarandi ráð

Stundum er sagt að ekkert í lífinu sé ókeypis. Vissulega á þetta við um nýja Apple-síma, demantshringa og glansandi bifreiðar en margt í lífinu er vissulega ókeypis. Andadrátturinn er það, ferska loftið, hugsanir þínar, gamlar bækur og margt fleira.

Og líka eftirfarandi ráð með mínu orðalagi.

Mörg þeirra má kaupa fyrir tugi þúsunda á námskeiðum en ég gef þau. Gjörið svo vel!

Markaðssetning: Viltu slá í gegn í markaðsstarfi? Þá skaltu eyða svimandi fjárhæðum í það og hafa einhvern boðskap. Það er ekki lengur nóg að ráða Pétur Jóhann til að grínast. Þú þarft að segja í hrífandi máli frá vörunni og af hverju hún er peninga neytenda virði. Helst þarftu að hafa eitthvað gott til sölu sem fyrstu kaupendur tala vel um við næstu. Árangur tryggður! Óþarfi að sækja dýr námskeið!

Skilvirkni: Viltu bæta skilvirkni þína í starfi? Þá þarftu að gera tvennt: Ná einbeitingu (t.d. með því að slökkva á hljóðum í símanum) og vera undirbúinn. Þú þarft að vita hvað þú ert að gera og læra svo að sinna starfinu hraðar og hraðar. Árangur tryggður! Óþarfi að sækja dýr námskeið!

Hraðlestur: Taktu texta sem þú þekkir vel og notaðu puttann til að fylgja honum þegar þú lest. Æfðu þig nokkrum sinnum á sama textanum og finndu leshraðann aukast. Árangur tryggður! Óþarfi að sækja dýr námskeið!

Lestur frétta: Flestar fréttir eru lítið annað en blússandi áróður öflugra þrýstihópa sem vilja skattleggja þig um seinustu krónu þína í nafni velferðarkerfisins, umhverfisins og loftslagsins. Ekki trúa þessu þvaðri. Finndu manneskju sem þú berð virðingu fyrir og þefaðu uppi hennar skrif og viðhorf. Þú færð áfall þegar þú sérð hvað hefðbundnar fréttir eru mikið rusl í samanburðinum. Árangur tryggður! Óþarfi að sækja dýr námskeið!

Síþreyta: Þjáist þú af síþreytu? Þá þjáist þú annaðhvort af líkamlegri eða andlegri vannæringu. Taktu vítamín og lýsi, borðaðu hollar, kúplaði þig frá hversdagsleikanum, farðu í göngutúra og ræddu sálarflækjur þínar við einhvern. Árangur tryggður! Óþarfi að sækja dýr námskeið!

Markþjálfun: Áttu erfitt með að ná markmiðum þínum? Ertu alltaf að fara af sporinu? Endist þú ekki í ræktinni? Skrifaðu niður á blað hvað þú vilt gera og brjóttu svo leiðina að þeim markmiðum niður í raunhæfa bita, helst svo smáa að þú getur náð þeim fyrsta á einum degi. Finndu einhvern til að deila með þér markmiði og þið hvetjið hvort annað áfram. Árangur tryggður! Óþarfi að sækja dýr námskeið!

Ég vona að námskeiðshaldarar landsins verði ekki brjálaðir út í mig nú þegar ég er búinn að þurrka út milljónavirði af viðskiptum en þeir jafna sig og reyna bara að gera betur.


Ef í vafa um utanríkismál Bandaríkjanna: Lesa Ron Paul

Margar og misvísandi fréttir berast nú frá Miðausturlöndum eftir að Bandaríkjamenn sprengdu í loft upp háttsettan embættismann og vonast nú til að samlandar hans skjóti fyrsta skotinu (svipuð aðferðafræði og var notuð til að þröngva Japönum til að skjóta fyrsta skotinu í síðari heimstyrjöldinni). 

Ef maður er í vafa um hver hin skynsamlega og yfirvegaða afstaða til utanríkismála Bandaríkjanna er þá er ég með ráð: Kynna sér viðhorf fyrrverandi öldungadeildarþingmannsins Ron Paul.

Í tilfelli Írans segir hann núna:

At some point, when we’ve been lied to constantly and consistently for decades about a “threat” that we must “take out” with a military attack, there comes a time where we must assume they are lying until they provide rock solid, irrefutable proof. Thus far they have provided nothing. So I don’t believe them.

Þessa afstöðu ætla ég að gera að minni. Bandaríkin eru að reyna espa upp stríðsástand til fá átyllu til að breyta Miðausturlöndum endanlega í holu í jörðinni. Ég ætla ekki að styðja slíkt þótt álit mitt á stjórnmála- og trúarbragðaleiðtogum heimshlutans sé ekki upp á marga fiska.


mbl.is Hetja eða hryðjuverkamaður?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nefndir og aðrar leiðir til að forðast ákvarðanatöku

Greinin hér að neðan birtist í Morgunblaðinu í dag (með annarri fyrirsögn) og er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.

**************************************

Í lýðræðisríki er reglulega kosið um stjórnendur á hinum ýmsu stjórnsýslustigum til að tryggja að kjósendur hafi eitthvað um það að segja hvaða ákvarðanir eru teknar, a.m.k. þegar kemur að stóru málunum.

Þetta er allt gott og blessað. Vissulega eru stjórnmálamenn kosnir og þeir samþykkja lög og annað slíkt sem geta haft mikil áhrif á samfélag og hagkerfi. Í kosningabaráttu lofa frambjóðendur einu og annað og kjósendur geta stuðst við slík loforð til að mjaka stóru málunum í einhverja átt. Einhverjir boða fóstruríki og aðrir ekki. Sumir vilja gera sem flesta að þurfalingum velferðarkerfisins á meðan aðrir telja að hóflegt öryggisnet dugi til að grípa þá fáu sem geta sér litla björg veitt af ýmsum ástæðum.

Það blasir samt við að stjórnmálin ein og sér duga kjósendum ekki til að hafa áhrif á gang mála því innan opinbers reksturs starfar ógrynni allskyns nefnda og stofnana sem kjósendur koma hvergi nærri. Ókjörnir embættismenn ráða of meiru um framkvæmd laga og reglugerða en sjálfir stjórnmálamennirnir. Embættismennirnir hafa ekki endilega skoðanir kjósenda í huga. Miklu frekar er þeirra áhersla á eigið starfsöryggi. Það má tryggja með því að túlka allt eins strangt og hægt er og efla þannig eftirlitsiðnaðinn, setja eins mörg skilyrði og lögin heimila til að hámarka magn umsóknareyðublaða og tefja mál eins lengi og hægt er til að byggja upp rök fyrir frekari fjárheimildum. Stjórnmálamenn eru eins og lamaðir þegar kemur að því að eiga við embættismannaverkið og finnst kannski bara gott að hafa það til að skella skuldinni á þegar einhver vinnustaðurinn deyr drottni sínum undan þunga skrifræðisins, eða flýr erlendis.

En þetta versnar enn. Stjórnmálamenn eiga það til að hlaupa í felur frá eigin hugsjónum þegar blaðamenn ber að garði eða skoðanakannanir sýna lítinn stuðning við tiltekið mál. Þá er upplagt að stofna nefnd eða starfshóp, moka í fé í litla hít, fá til starfa fólk með stórar háskólagráður og bíða svo eftir skýrslunni. Í umræðuþáttum bera stjórnmálamennirnir svo á borð skoðanakannanir sem sýni þjóðarviljann svokallaða og hvernig hann fellur að skoðunum viðkomandi en ekki annarra við borðið, nefna þörfina á heildarendurskoðun og ítarlegri úttekt, ásaka mótherja sína um spillingu eða stuðning við slíka og enda oftar en ekki á því að krefjast nýrrar stjórnarskrár.

Hvað eiga kjósendur að gera við svona stjórnmálamenn? Af hverju þora stjórnmálamenn ekki bara að segja blákalt að þeir vilji frjálst markaðshagkerfi eða hina sósíalísku andstæðu þess? Viltu að Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki? Viltu að skattar og opinber útgjöld hækki eða lækki? Eða viltu kannski að skattar lækki, útgjöld hækki og skuldir aukist? Aðspurður um slíkt, af hverju þarftu þá alltaf að vísa í nefnd eða heildarendurskoðun í stað þess að hafa bara skoðun? Er spurningin of umfangsmikil til að hægt sé að svara henni í beinni útsendingu? Skrifaðu þá grein eða langan pistil og gerðu grein fyrir máli þínu.

Þessi flótti stjórnmálamanna frá eigin skoðunum í gegnum embættismannaverkið, nefndarstörfin og loðnu svörin er vandamál fyrir lýðræðið og heldur kjósendum í raun frá allri raunverulegri stefnumörkun í samfélaginu. Það eina sem má ganga að vísu er að allir stjórnmálamenn þora að hækka opinber útgjöld og skatta og hljóta þannig blessun vinstrisinnaðra blaðamanna sem ráða ferðinni í raun.

Er ekki hægt að gera betur?


Einfaldleikinn falinn með heilræðum

Ekki vantar góð ráð allskyns sérfræðinga og spekinga við hverju sem er.

Hvernig á að léttast? Hvað á að borða? Er kaffi hollt? Hvað er hæfileg áfengisneysla? Hvernig minnkar nikótín-neysla líkurnar á heilahrörnunarsjúkdómum? Hvað er hæfileg kannabisneysla krabbameinssjúklings til að byggja upp matarlystina?

Við öllum spurningum má finna óteljandi svör.

Oft er einfaldleikinn samt bestur, og hyggjuvitið.

Til dæmis má nefna þynnku. Af hverju verður maður þunnur daginn eftir mikla áfengisneyslu?

Jú, af því líkaminn notar mikið magn vatns til að skola áfenginu út. Með vatninu fer líka mikið af salti úr líkamanum. Besta þynnkuráðið er því að drekka vatn og borða salt.

Enn betra er að drekka vatn og borða salt samhliða drykkjunni en það nenna því ekki allir.

En það má segja fólki að drekka vatn og borða salt á marga vegu, t.d. með því að selja því kók og pizzu. Kókið inniheldur mikið af vatni og sykri og pizzan inniheldur mikið af salti. Kók og pizza er því bara vatn og salt.

Gleðilegt nýtt ár!


mbl.is Það sem vinnur best á þynnkunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband