Bloggfærslur mánaðarins, september 2019

Hver rétti valdfíklinum dópið sitt?

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætti að kenna okkur eina afskaplega mikilvæga lexíu:

Ekki færa stjórnmálamönnum of mikil völd!

Donald Trump hefur í vopnabúri sínu alveg ótrúlega mörg tæki og tól til að stjórna, reka, ráða, sprengja, drepa, fangelsa, yfirheyra, kúga, skattleggja og ofsækja.

Hann fann ekki upp nein af þessum tækjum og tólum heldur fékk þau í arf frá fyrirrennurunum sínum. Að beiting hans sé frumleg og jafnvel yfirgengin er önnur saga. Krakki getur ekki skorið sig á hníf nema einhver opni hnífaparaskúffuna, og það gerðu fyrirrennarar hans.

Þessi lexía á jafnvel við um Ísland, Evrópusambandið og Bandaríkin.

Við getum kannski skrifað greinar, vælt og veinað, betlað, grátbeðið, kosið og mótmælt en þegar stjórnmálamennirnir eru komnir með völdin er erfitt að taka þau af þeim og enn erfiðara að hafa áhrif á valdbeitinguna.

Viltu koma í veg fyrir að næsti Trump verði þinn valdamesti stjórnmálamaður? Taktu þá þátt í því að minnka völd þeirra stjórnmálamanna sem sitja núna! Núna!


mbl.is Trump rekur þjóðaröryggisráðgjafann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ríkisvaldið að hafa fjölmiðlana í vasanum?

Íslendingar eru ýmsu vanir þegar kemur að samskiptum ríkis og fjölmiðla. Í marga áratugi var ekki hægt að sjá fréttir né heyra nema úr munni ríkisstarfsmanna (sem betur fer voru til prentaðir miðlar til mótvægis). Núna rekur ríkið eina stærstu fréttastofu landsins. Og undanfarin ár er það farið að veita fréttamönnum verðlaun fyrir að dansa réttu sporin!

Þetta er ekki í lagi og ég vísa í skrif Andrésar Magnússonar fyrir knappan en allt að því tæmandi rökstuðning gegn verðlaunaveitingum ríkisvaldsins til fjölmiðlamanna [hér, og skyld umræða hér]. 

En hvar annars staðar otar ríkisvaldið fé skattgreiðenda að útvöldum hagsmunaaðilum til að kaupa sér vinsældir og velvild? Víða! Velferðarkerfið er gott dæmi: Ríkið hirðir himinháa skatta af sjálfbjarga fólki, gerir það ósjálfbjarga og hendir svo í það bótum til að halda því á floti.

Hvenær ætlum við að læra sjá í gegnum þessa tálsýn? 


mbl.is Tilnefnd til Fjölmiðlaverðlauna umhverfisráðuneytisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bólufrumvarpið

Nýtt fjárlagafrumvarp hefur verið sett saman og þar eru margir athyglisverðir þættir.

Skuldirnar eru háar og eiga að halda áfram að vera háar.

Yfir 2 milljarðar fara í að keyra sjúklingum framhjá einkareknum heilsugæslum í Reykjavík og í flugvél þar sem þeim er flogið til útlanda til að gangast undir áríðandi aðgerðir fyrir margfaldan kostnað miðað við innlenda þjónustu.

Útgjöldin halda áfram að vaxa á ógnarhraða. Óli Björn Kárason, þingmaður, hefur bent á þetta í færslu á fésbókinni, þar sem hann segir meðal annars:

Á komandi ári verða útgjöld ríkisins, fyrir utan fjármagnskostnað, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar, um 62 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs og 44 milljörðum hærri en endurmetin áætlun gerir ráð fyrir. Á næsta ári verða útgjöldin um 206 milljörðum hærri en 2017!

Heildarútgjöld skv. frumvarpi verða 862 milljarðar. Ef menn hefðu bara staðið á bremsunni fyrir litlum tveimur árum væri hreinlega hægt að ganga mjög langt í að afnema virðisaukaskattinn (32% af heildartekjum upp á 920 milljarða, eða 294 milljarðar).

Hvað hafa menn fengið fyrir aukalega 206 milljarða á tveimur árum? Nýtt sjúkrahús? Nei. Ánægða opinbera starfsmenn? Nei. Bætta heilbrigðisþjónustu? Það er erfitt að sjá. 

Fengu menn kannski bara stærri opinbera hít?

Og enn skal haldið áfram á sömu braut!

Þetta fjárlagafrumvarp er galin útþensla á opinberu bákni sem virðist fyrst og fremst framleiða óánægða starfsmenn, biðlista, gagnslausar háskólagráður og holur í gegnum fáfarnar heiðar. 


mbl.is Margra grasa kennir í fjárlagafrumvarpinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hollt að hugsa, óhollt að gleypa hrátt

Margir vilja gjarnan lifa umhverfisvænu lífi og það er í sjálfu sér allt í lagi, að sjálfsögðu. Hreint umhverfi er heilsusamlagt og oft verðmæt auðlind í sjálfu sér, hvort sem umhverfið er stofan okkar, svalirnar, garðurinn eða náttúran utan við bæjarmörkin.

Þeir sem vilja lifa umhverfisvænu lífi þurfa samt að vara sig því það er ekki allt satt sem sagt er um umhverfisvænt líferni, og sumt er satt en beinlínis skaðlegt heilsu okkar.

Til dæmis eru fjölnota burðarpokar gróðrarstía fyrir bakteríur og það fer mikil orka í að framleiða þá (og þrífa, ef menn nenna því). Þá er betra að nota bara plastpoka, sem er svo hægt að nýta sem ruslapoka sem enda í urðun eða brennslu og gera engum mein (megnið af plastúrgangi hafsins rennur úr örfáum stórfljótum i vanþróuðum ríkjum).

Allskyns ílát úr málmi og gleri eru þung og orkufrek í framleiðslu og þarf að þrífa í sífellu með heitu vatni og sápu. Plastbrúsarnir eru jafnvel betri í mörgum tilfellum.

Einkabíllinn (fjölskyldubíllinn) gerir fólki kleift að versla inn til margra daga og það hvetur fólk til að skipuleggja þarfir sínar nokkra daga fram í tímann. Í því felst töluverð hagkvæmni, bæði fyrir veskið og umhverfið. 

Plast er létt og sterkt og nýjar bifreiðar eru að stóru leyti úr plasti sem léttir þær og minnkar eldsneytisnotkun. Stál er þungt og mikil orka fer í að framleiða það og það þarf mikla orku til að færa það á milli staða. 

Allt sem er fjölnota þarf að þrífa svo það safni ekki í sig sýklum og sveppum. Allt sem er einnota þarf að urða, brenna eða saxa niður og endurnota. Stundum er fjölnota skynsamlegt, stundum ekki.

Endurvinnsla getur verið hagkvæm og skynsamleg en hún getur líka verið orkufrek og krafist allskyns eiturefna og orkufrekra ferla sem nota miklu fleiri auðlindir en að einfaldlega urða eða brenna.

Það er hollt að hugsa og gott fyrir bæði efnahaginn og náttúruna að vanda stundum valið. En það getur kostað bæði fé og sóun að gleypa allan áróðurinn.


mbl.is Stærsta áskorunin að kaupa minna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"In Iceland, we have high taxes and many regulations"

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, opnaði nýjan upplýsingavef sem fengið hefur nafnið Work in Iceland. Vefurinn er heildstæð upplýsingagátt og hefur það að markmiði að kynna Ísland á ensku sem ákjósanlegan stað til búsetu og vinnu, en ekki síst að laða erlenda sérfræðinga til Íslands í sérfræði- og hátæknistörf. 

Ef upplýsinavefur er það eina sem menn ætla að gera til að laða að erlenda sérfræðinga þá eru menn að sóa tíma sínum.

Það þyrfti að minnsta kosti að veita allskyns ívilnanir og mismuna hinum verðmætu sérfræðingum svo þeir nenni að koma til Íslands. Það þarf að veita þeim ríkulega skattaafslætti og einfalda til muna alla þá pappírsvinnu sem felst í því að búa á Íslandi.

Með öðrum orðum: Hinir erlendu sérfræðingar þyrftu að búa við töluvert betri kaup og kjör en innfæddir Íslendingar.

Þannig laða önnur háskattaríki til sín erlenda sérfræðinga. 

Svo mætti auðvitað taka stærri skref og lækka skatta á alla Íslendinga, og einfalda reglugerðafrumskóginn fyrir þeim líka. Þá þarf ekki að mismuna neinum og Ísland gæti orðið að einskonar Sviss norðursins sem sogar til sín hæfasta vinnuafl plánetunnar og fjárfestingar alþjóðlegra fyrirtækja. 

Er von á slíku?


mbl.is Opna upplýsingagátt til að laða að hæft vinnuafl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næg rök gegn bölsýnisvísindunum

Það þarf ekki að ræða persónu sænskra unglinga til að átta sig á því að sumir þeirra eru boðberar falsvísinda.

Boðskapurinn um hamfarir í loftslagi Jarðar vegna aðgerða mannsins stendur á brauðfótum. Þess vegna er alltaf reynt að hamra á því að vísindin séu einfaldlega afgreidd og að það eina sem sé eftir er að hefja smíði löggjafar sem tekur markaðshagkerfið í gíslingu.

Ég var að hlusta á svolitla sagnfræði um daginn, um upphaf fíkniefnastríðsins í Bandaríkjunum. Þar höfðu ákveðin öfl í samfélaginu ákveðið að ríkið þyrfti að gera allskyns vímuefni ólögleg. Þar var öllum brögðum beitt, meðal annars segja að vísindin séu afgreidd og ekkert þyrfti að rökræða á vettvangi þeirra lengur. Menn töluðu stundum gegn betri vitund, en stundum á ófullnægjandi grundvelli. Í dag hefur flest af hinum svokölluðu vísindum þess tíma verið rakið (og við blasir að það hættulegasta við vímuefni er bann gegn þeim).

Áfengisbann Bandaríkjanna var líka rökstutt með tilvísun í afgreidd vísindi og auðvitað hræðsluáróður.

Sænskir unglingar eru einfaldlega hluti af langri hefð sem snýst um að hræða fólk til hlýðni og loka á alla umræðu um vísindaleg ágreiningsefni. Og eins og fyrri daginn mun sagan fordæma slíka taktík. Vonandi!


mbl.is Ofurkraftar fylgja sérstöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband