Hver rétti valdfíklinum dópið sitt?

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætti að kenna okkur eina afskaplega mikilvæga lexíu:

Ekki færa stjórnmálamönnum of mikil völd!

Donald Trump hefur í vopnabúri sínu alveg ótrúlega mörg tæki og tól til að stjórna, reka, ráða, sprengja, drepa, fangelsa, yfirheyra, kúga, skattleggja og ofsækja.

Hann fann ekki upp nein af þessum tækjum og tólum heldur fékk þau í arf frá fyrirrennurunum sínum. Að beiting hans sé frumleg og jafnvel yfirgengin er önnur saga. Krakki getur ekki skorið sig á hníf nema einhver opni hnífaparaskúffuna, og það gerðu fyrirrennarar hans.

Þessi lexía á jafnvel við um Ísland, Evrópusambandið og Bandaríkin.

Við getum kannski skrifað greinar, vælt og veinað, betlað, grátbeðið, kosið og mótmælt en þegar stjórnmálamennirnir eru komnir með völdin er erfitt að taka þau af þeim og enn erfiðara að hafa áhrif á valdbeitinguna.

Viltu koma í veg fyrir að næsti Trump verði þinn valdamesti stjórnmálamaður? Taktu þá þátt í því að minnka völd þeirra stjórnmálamanna sem sitja núna! Núna!


mbl.is Trump rekur þjóðaröryggisráðgjafann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hvernig getur maður tekið þátt í því? Hvað á maður að gera? Kjósa fleiri stjórnmálamenn? 

Jón Steinar Ragnarsson, 10.9.2019 kl. 22:50

2 identicon

Getum við ekki byrjað smátt og tekið þau völd af stjórnmálamönnum að bannfæra þjóðir líkt og ESB gerði við Rússa útaf Krím og íslendingar sitja einir í súpunni útaf deilu sem engin lausn er til fyrir.

Frakklandsforseti vildi hinar "klassísku" viðskiptaþvinganir gegn Brasílíu vegna skógarelda en það rann út í sandinn því Trump hringdi í forseta Brasilíu og spurði - hvað getur USA gert til aðstoðar.

Grímur (IP-tala skráð) 11.9.2019 kl. 00:44

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Jón Steinar,

Inn á milli finnast frambjóðendur sem vilja minnka völd ríkisins, t.d. með því að fækka reglum og lækka skatta. Þeim má hampa og þá má aðstoða í sínu kosningavafstri. Til dæmis yrði mjög til bóta að þingmaðurinn Óli Björn Kárason fengi meira um það að segja hvernig ríkisvaldið fer sínu fram.

Grímur,

Voru viðskiptaþvinganir ESB ekki mjög takmarkaðar við nokkra einstaklinga? Rússar svöruðu svo með almennum viðskiptaþvingunum á heilu ríkin, t.d. Ísland. En auðvitað eiga stjórnmálamenn ekki að komast upp með það þegjandi og hljóðalaust að takmarka frjáls viðskipti og samskipti þvert á landamæri.

Geir Ágústsson, 11.9.2019 kl. 06:50

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Í þessu tilfelli er nú reyndar sögusviðið það sem ég hugsa að flestir séu sammála um að sé einmitt eðlilegt svið ríkisvaldsins - varnarmálin. Boðvaldið yfir þeim verður tæpast tekið frá stjórnmálamönnum.

Bolton er einn haukanna, sem gjarna vilja beita hernaðarmættinum. Trump hneigist fremur til þess að mynda tengsl við andstæðingana, byggja upp traust, og fara samningaleiðina.

Hin leiðin hefur verið reynd ansi oft, og skilað ansi litlu. Kannski er það einmitt gott að kjósendur eigi sér þá þess kost að velja forseta sem treystir sér til að taka völdin úr höndum hinna stríðsglöðu embættismanna, eða hvað?

Þorsteinn Siglaugsson, 11.9.2019 kl. 14:18

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Þorsteinn,

Auðvitað á hver sem er að ráða því hvaða ráðgjafa hann hefur, og vissulega eru varnarmálin í verkahring ríksins, og að sjálfsögðu ber að fagna því að Trump sé síður hneigður til innrása en hið gagnstæða.

Þetta er hins vegar þriðji maðurinn á kjörtímabilinu til að gegna þessari stöðu. Ætti hann kannski bara að sleppa því að manna þetta embætti ef menn eiga bara að bergmála hugsanir forsetans? Kannski. Þá tæki hann a.m.k. fulla ábyrgð og getur ekki klínt því á embættismannaverkið. Er það kannski bara til fyrirmyndar? Mér finnst stjórnmálamenn vera aðeins of gjarnir á að láta embættismenn taka fyrir sig ákvarðanir. 

Geir Ágústsson, 11.9.2019 kl. 17:22

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, en Trump er greinilega ekki svo gjarn á það, hvað sem má annað um hann segja. Og er það ekki bara ágætt?

Reikna fremur með að einhver lög mæli fyrir um að hann þurfi að hafa þennan og hinn embættismanninn.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.9.2019 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband