Bloggfærslur mánaðarins, september 2019
Mánudagur, 30. september 2019
Hvað með að gefast upp?
Ég legg það til í fúlustu alvöru að ríkisvaldið og sveitarfélögin hreinlega gefist upp á því að reka sómasamlegt samgöngukerfi. Þetta á við um vegi, gatnamót og almenningssamgöngur.
Það er sama hvað hið opinbera hamast: Fólk virðist aldrei geta fallist á að opinberar samgönguáætlanir séu hin rétta lausn. Traffíkin er lamandi, strætóarnir tómir utan álagstíma og hafsjór af himinháum sköttum á bíla og bensín, niðurgreiðslur á almenningssamgöngum og umbunanir fyrir ákveðnar, óhagkvæmar gerðir bíla bíta ekki, eða illa og seint.
Eða hvenær er nóg komið? Hvenær má lýsa yfir uppgjöf og halda reisn sinni?
Ríkið reyndi að halda úti farsímakerfi en það var ekki fyrr en einkaaðilar komu til sögunnar að það fór á flug.
Ríkið reynir að reka sjónvarps- og útvarpsstöðvar en gerir það núna fyrst og fremst með því að apa eftir einkaaðilunum.
Ríkið þráaðist við að halda opinni sementsverksmiðju á Íslandi og þegar hún var seld kom í ljós að innlend framleiðsla var ekki samkeppnishæf við þá erlendu.
Hið opinbera ætti að gefa út yfirlýsingu sem gæti hljómað svona:
Kæru landsmenn,
Við gefumst upp! Það virðist ekkert bíta á ykkur, sama hvað við ályktum mikið og óháð því hvað við kreistum mikið fé út úr ykkur til að koma ykkur úr einu faratæki í annað. Vegirnir eru að molna undan ykkur, þeir eru stíflaðir og þið eruð enn að kaupa bensínbíla. En núna gefumst við upp og ætlum að einbeita okkur að einhverju öðru. Þið munuð í frjálsu samstarfi finna lausnir sem duga eins og í öðru sem við höfum gefist upp á og við óskum ykkur velgengni í því. Nú er hins vegar kominn tími til að taka tæknileg úrlausnarefni af dagskrá stjórnmálamanna svo þeir geti einbeitt sér að einhverju öðru og áður en okkar ágætu fulltrúar fara að sóa ræðutíma Alþingis í að tala um eldsneytistegundir og brúarsmíði.
Heillaóskir,
Íslenskir stjórnmálamenn á öllum stjórnsýslustigum
Verður stóra umræðan í haust | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 29. september 2019
Enn eitt gagnslausa bullplaggið
Í skýrslu sem unnin var fyrir leiðtogaráð fyrir sjálfbæra hagnýtingu hafsins (e. High Level Panel for a Sustainable Ocean Economy) er lagt til að frá og með á næsta ári verði gripið til aðgerða sem draga úr flutningi sjávarafurða með flugi til þess að draga úr kolefnisspori sjávarútvegs.
Ég hef ekki lesið þessa skýrslu en giska á að menn hafi viljandi horft framhjá eftirfarandi þáttum:
- Flug er góð leið til að koma fersku hráefni í hendur neytenda
- Flugvélar fljúga ekki bara með fiskinn heldur líka farþega, póst og allskyns annan varning. Flutningsaðilar munu ekki bara leggja flugvélunum og lýsa sig gjaldþrota án baráttu
- Það kostar líka að orku að sigla með hluti
- Það kostar orku að frysta það sem áður var ferskt
- Fiskur er hollur og góður, sérstaklega ferskur. Neytendur borga vel fyrir ferskt hráefni og eiga að fá að hafa þann valkost að borða ferskan mat
Vissulega má skera upp herör gegn niðurgreiðslum (á öllu), því þær enda oftar en ekki á því að verðlauna sóun á auðlindum og fé. Þetta á samt ekki við um íslenskan sjávarútveg sem er skattlagður svo mikið að heilu fyrirtækin hafa þurft að hætta rekstri.
En takk fyrir þessa skýrslu kæru samtök. Hún er núna komin ofan í skúffu með öllu hinu gagnslausa þvaðrinu um yfirvofandi heimsendi vegna örlítillar breytingar á samsetningu andrúmsloftsins.
Leggja til að hætt verði að flytja fisk með flugi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 28. september 2019
Loksins aðhald frá vinstri
Það er ekki einfalt að finna sinn stað í stjórnmálum. Menn geta haft sínar hugsjónir og allt það en á endanum þarf að kjósa einhverja flokka og þeir flokkar eru yfirleitt mikið á flökti í leit að atkvæðum og bærast oft eins og lauf í vindi skoðanakannana í þeirri viðleitni.
Sá sem styður Vinstri-græna þarf til dæmis að samþykkja að í fjármálaráðuneytinu er maður sem vill borga niður opinberar skuldir.
Sá sem styður Sjálfstæðisflokkinn þarf að sætta sig við að í forsætisráðuneytinu er einstaklingur sem óttast veðurspánna og vill gera að fyrsta forgangsatriði með tilheyrandi bruna á almannafé.
Sá sem vill báknið í burtu þarf að leita til flokks sem hefur það að fyrsta forgangsatriði að verja ríkismiðstýringu á landbúnaði.
Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2020 er ágætur holdgervingur fyrir þessa togstreitu. Þar er kveðið á um að einhvern tímann standi til að lækka einhverja skatta um agnarögn korteri fyrir næstu kosningar en einnig að milljörðum eigi að dæla í allskyns risavaxin ríkisverkefni. Þau útgjöld þarf að fjármagna með því að stórhækka skatta á alla sem geta ekki annað en borgað þá ella sitja fastir heima eða rífa sig upp með rótum og flytja að næstu strætóleið.
En þá gerist hið ótrúlega: Vinstrið bregst við skattahækkun! Veggjöld og fasteignabrask á ekki að nota til að fjármagna risaframkvæmdir! Það bitnar á láglaunafólki!
(Síðan tekur við hið óheppilega: Skattahækkanir sem slíkar eru velkomnar, bara ekki af þessari tegund.)
Áttum okkur á einu: Allir skattar eru lágtekjuskattar. Vinstrið þarf að skilja það eins og aðrir. Kannski er sá skilningur að fæðast.
Andstæð álögum sem éti upp lífskjarasamninginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 26. september 2019
Það sem blasir við og það sem gerir það ekki
Stjórn Arion banka samþykkti á fundi sínum í morgun nýtt skipulag bankans sem tekur gildi í dag. Starfsfólki bankans mun við breytingarnar fækka um 12% eða um eitt hundrað manns.
Uppgefnar ástæður eru:
- Dýrt regluverk
- Háir skattar
Til samans leiða þessir þættir til versnandi samkeppnisstöðu.
Því þarf að lækka kostnað.
Í tilviki Arion-banka er þetta stórt mál sem nær athygli fjölmiðlamanna. Uppsagnir hjá Arion-banka eru samt bara sýnidæmi sem blasir við.
Það sem blasir ekki við eru öll störfin sem hafa aldrei orðið til vegna regluverks og hárra skatta. Fyrirtæki hafa haldið að sér höndum og sparað sér ráðningar og veigrað sér við að takast á við áskoranir sem krefjast meiri mannafla eða krefjast hlýðni við fleiri reglur.
Það sem blasir ekki við eru öll töpuðu tækifærin. Stjórnmálamaður getur hirt háa skatta og notað þá til að byggja brú. Hún blasir við. En hvað tapaðist í staðinn? Stærri fjölskyldubíll? Vandaðri fatnaður á börnin? Hraðari afborganir af yfirdrættinum? Eitthvað tapaðist en af því það er okkur ósýnilegt þá tökum við ekki eftir því. Við sjáum bara brúna og kjósum stjórnmálamanninn sem barðist fyrir henni.
Ég mæli með því við alla að lesa lítið rit eftir hinn franska Bastiat, That Which is Seen, and That Which is Not Seen.
Úr einu af hans frægu dæmum:
The window being broken, the glazier's trade is encouraged to the amount of six francs; this is that which is seen. If the window had not been broken, the shoemaker's trade (or some other) would have been encouraged to the amount of six francs; this is that which is not seen.
Vissulega eru aðstæður hjá Arion-banka sorglegar fyrir þá sem verður sagt upp en hver ætlar að láta þær koma sér stórkostlega á óvart? Og hvaða vinnustaður er næstu?
Hundrað sagt upp hjá Arion banka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 25. september 2019
Fóstruríkið
Ímyndaðu þér barn á ungbarnaleikskóla.
Allt innandyra er öruggt, handföngin eru hátt uppi og engin hvöss horn eru á borðum. Sérhæfðir starfsmenn elta krakkana allan daginn og grípa þá ef þeir detta.
Viljum við að allt samfélagið sé innréttað á sama hátt?
Allt sem er hugsanlega hættulegt er þá bannað. Allt sem gæti leitt okkur á ófyrirsjáanlegar brautir er lokað.
Þú færð ekki að smíða skúr því þú gætir meitt þig. Nei, fáðu til þess iðnaðarmann sem notar þykka hanska.
Þetta er slæm þróun en um leið ein meginástæða þess að eftirlitsbáknið þenst út á Íslandi, með ærnum tilkostnaði en vafasöfum ávinningi.
Helgi í Góu sagði einu sinni í viðtali orð sem hafa fengið mig til að sjá samfélagið öðruvísi allar götur síðan:
"Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekkert gera fyrr en öll leyfi eru komin."
Maðurinn var sem sagt að opna stað sem djúpsteikir kjúkling samkvæmt eldgamalli hefð sem hann er með mikla reynslu í að framkvæma.
Sjálfur hef ég orðið vitni að því hvernig eftirlitsbáknið knésetta litla fiskbúð sem kom sér aldrei á flug eftir að hafa eytt stórfé í breytingar að tillögum hinna ýmsu eftirlitsstofnana (stundum mótsagnarkenndum).
Sem betur fer hefur aðeins borið á umræðu um eftirlitsbáknið undanfarið. Það hefur vaxið risaskrefum seinustu árin og má hæglega trappa niður aftur án neikvæðra afleiðinga.
Svo má ekki gleyma því að það sem er ekki bannað eða er ekki leyfisskylt þarf ekki opinbert eftirlit. Að afnema boð og bönn er því fljótleg leið til að minnka eftirlitsbáknið.
Sunnudagur, 22. september 2019
Svartur markaður býr til hvata
Þegar eitthvað er bannað er það um leið orðið að nýju starfssviði glæpamanna. Glæpamenn hafa ekki mikið fyrir rekjanleika, gæðastjórnun og vottun. Þeir selja bara það sem þeir geta. Með því að banna efni er það tekið út úr opinberri rýni neytenda og löglegra verslana, og auðvitað eftirlitsaðila (opinberra og óháðra).
Það mætti því segja að með því að banna efni sé verið að gera það hættulegra en það þyrfti annars að vera.
Ólöglegir vökvar í rafsígarettur eru til dæmis byrjaðir að skjóta upp kollinum. Það er ný hliðarafurð boða og banna á slíka vökva.
Vel þekkt vímuefni eins og hass og kókaín eru orðin sterkari og hættulegri en áður en efnin voru bönnuð (yfirleitt á fyrstu áratugum 20. aldar).
Þegar neytendur og löglegir rekstraraðilar fá að stunda markvisst aðhald á opinberum vettvangi þá heldur það framleiðendum á mottunni.
Bannið er hættulegra en efnin sem bönnin ná yfir.
Menn eru búnir að ná þessu víða í tilviki kannabisefna og áfengis. Hvenær kemur að hinum vímuefnunum?
Fundu flutningsleið fíkniefna neðansjávar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 20. september 2019
Bannið er hættulegra en efnið
Eftir því sem saga boða og banna á ýmsum efnum stækkar kemur betur og betur í ljós að bönnin eru hættulegri en efnin. Í Bandaríkjunum hafa boð og bönn á rafrettuvökva til dæmis leitt til svartamarkaðs-starfsemi á framleiðslu og sölu slíks vökva, og það er hinn ólöglegi vökvi sem inniheldur hættuleg aukaefni.
Kæra ríkisvald, láttu rafsígaretturnar í friði!
100 tegundir af rafrettuvökvum teknar úr sölu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 17. september 2019
Stormur í vatnsglasi
Brexit er enginn heimsendir og þegar Brexit er gengið yfir - jafnvel án svokallaðs samnings - mun fátt breytast.
ESB hefur ekki efni á því að loka á bresk viðskipti svo engir tollamúrar rísa.
Bretar vilja stunda viðskipti við alla, þar á meðal ESB, og gera það.
Bretar munu að vísu herða landamæragæslu sína. Það er alveg skiljanlegt. Mikið meira verður það ekki.
Bandaríkin sögðu sig úr Bretlandi á sínum tíma án samnings. Einhver átök áttu sér stað en svo verður ekki núna. Þýskir og franskir hermenn munu ekki ráðast á London.
Íslendingar sögðu sig úr Danmörku á sínum tíma. Það var farsælt fyrir alla.
Noregur, Sviss og Ísland eru ekki í ESB en hafa gert ýmsa samninga við sambandið og það er gott fyrir alla.
Brexit er stormur í vatnsglasi. Vonandi gengur hann yfir sem fyrst.
Lét Boris Johnson heyra það | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 16. september 2019
Hagvöxtur er uppspretta annarra lífsgæða
Ef við tökum peningaprentun ríkisseðlabanka út fyrir sviga (peningafölsun með það að markmiði að framleiða hagvöxt í Excel) þá er hagvöxtur uppspretta allra annarra lífsgæða.
Forsenda raunverulegs hagvaxtar er verðmætasköpun.
Verðmætasköpun okkar allra hefur aukist mikið undanfarna áratugi. Fleiri geta unnið verðmætaskapandi störf sem skila sér í betri launum.
Þegar hesturinn veik fyrir traktornum jókst verðmætasköpun bóndans.
Þegar bókhaldskerfi urðu aðgengileg fleirum gátu fleiri sinnt bókhaldi. Það er hægt að sinna afgreiðslu, móttöku og bókhaldi með sömu manneskju, í stað þriggja áður.
Að fórna hagvexti í markaðshagkerfi er glapræði. Það er eins og segja upp vinnunni sinni til að eyða meiri tíma í garðinum. Þegar peningarnir eru búnir fer garðurinn í órækt, óumflýjanlega.
Þurfi að líta á aðra þætti en hagvöxt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 11. september 2019
Þegar Jörðin var hlýrri ...
Jörðin hefur oft verið hlýrri en í dag. Rifjum aðeins upp afleiðngar þeirra hamfaratímabila (svo tungutak nútímans sé notað).
Þegar Jörðin var hlýrri ...
... á víkingaöld, þá ræktuðu menn korn á Íslandi, höfðu aðgang að náttúrulegum nytjaskógum og ólu sauðfé á Grænlandi.
... á tímum Rómverja, þá ræktuðu menn vínþrúgur á Englandi.
... fyrir nokkur þúsund árum þá leiddi hlýrra loftslag til meiri uppgufunar og meiri rigningar sem vökvaði Sahara-eyðimörkina svo hún var græn og stóð undir útbreiddri nýtingu mannsins.
Hræðsluáróðurinn er að ná hápunkti sínum og fer að falla um sjálfan sig. Menn eru hættir að nota venjulegt tungutak og tjá sig varla nema til að spá enn einum heimsendinum. Kannski einhver þýskur sérvitringurinn finni fljótlega upp hagkvæma leið til að framleiða orku með kjarnasamruna, flæði hræódýrri orku yfir heiminn og bjargi vitleysingunum fyrir horn áður en einhver krakkinn bendir á að keisarinn er nakinn?
Endurheimt landgæða lykilatriði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |