Svartur markaður býr til hvata

Þegar eitthvað er bannað er það um leið orðið að nýju starfssviði glæpamanna. Glæpamenn hafa ekki mikið fyrir rekjanleika, gæðastjórnun og vottun. Þeir selja bara það sem þeir geta. Með því að banna efni er það tekið út úr opinberri rýni neytenda og löglegra verslana, og auðvitað eftirlitsaðila (opinberra og óháðra).

Það mætti því segja að með því að banna efni sé verið að gera það hættulegra en það þyrfti annars að vera.

Ólöglegir vökvar í rafsígarettur eru til dæmis byrjaðir að skjóta upp kollinum. Það er ný hliðarafurð boða og banna á slíka vökva.

Vel þekkt vímuefni eins og hass og kókaín eru orðin sterkari og hættulegri en áður en efnin voru bönnuð (yfirleitt á fyrstu áratugum 20. aldar). 

Þegar neytendur og löglegir rekstraraðilar fá að stunda markvisst aðhald á opinberum vettvangi þá heldur það framleiðendum á mottunni. 

Bannið er hættulegra en efnin sem bönnin ná yfir. 

Menn eru búnir að ná þessu víða í tilviki kannabisefna og áfengis. Hvenær kemur að hinum vímuefnunum?


mbl.is Fundu flutningsleið fíkniefna neðansjávar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er bannað að setja hættuleg og heilsuspillandi efni í neysluvörur. Það skapar svartan markað með neysluvörur með hættulegum efnum í. Lausnin er ekki að hætta eftirliti og leyfa hættuleg og heilsuspillandi efni í neysluvörur.

Þegar rekstraraðilum er treyst til að stunda sjálfir eftirlitið og haga sér með líf og heilsu almennings í huga þá fáum við Boeing Max sem hrapar, ópíoiðafaraldur og bankahrun.

Vagn (IP-tala skráð) 23.9.2019 kl. 09:23

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Þú nefnir lyf og flugvélar og banka. Eru til svið þar sem gilda fleiri reglur og hafa meiri tiltrú á opinberu eftirliti? 

Geir Ágústsson, 23.9.2019 kl. 16:10

3 identicon

Opinbert eftirlit frekar en rekstraraðilar passa að þú sért ekki að moka í þig salmonellu og að frostlögur sé ekki notaður sem bætiefni í barnamat og vín. Og ef lögreglan væri ekki til að passa umferðina væri engin ástæða til að vera edrú og slá af á götum sem börnin þín ganga til skóla. Byggingar hrynja þar sem framkvæmdaraðilar komast upp með að svindla til að spara. Vatnsból spillast þar sem eftirlit er ófullnægjandi. Og þú færir varla inn í lyftu ef eftirlit væri ekki strangt og reglulegt.

En þú býrð svo vel að búa þar sem öflugt eftirlit opinberra stofnana fækkar ótímabærum dauðsföllum, eitrunum og alvarlegum sýkingum í þinni fjölskyldu. Það er þér e.t.v. ekkert gleðiefni og eftir sem áður getur þú lokið sunnudagsrúntinum á fullri ferð á vegg eða eldað fyrir ykkur næsta dauða kött sem þú rekst á. Flestum öðrum þykir það hins vegar óþarfi að sleppa eftirliti og gera það refsilaust að veitingastaðir gefi þér rotinn kött að borða eða bílaframleiðandi hundsi að gera stýrisbúnaðinn þannig að hann virki á miklum hraða.

Vagn (IP-tala skráð) 23.9.2019 kl. 22:17

4 identicon

Segðu  lagsmaður gæðamálin eru ekki  góð í undirheimum. Tréspíra eitrun er nánast útilokuð  í brennivíninu og  áfenginu sem selt er í ríkinu.

Væri mun  algengara ef  það ríkti  afengis bann og undirheimar væru að selja afengi.

Hörður (IP-tala skráð) 23.9.2019 kl. 22:37

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Dópistinn verður ekkert minni dópisti þótt hann kaupi dópið í ríkinu. Og verði það selt þar mun dópistunum vafalítið fjölga, þótt ekki sé nema vegna þess að margt fólk hneigist til að forðast að gera ólöglega hluti.

Meginvandinn sem bann við dópi veldur er að bannið leiðir til glæpastarfsemi.

Öryggi vörunnar? Ég held að það sé nú yfirleitt fljótt að fréttast í undirheimum ef neytendurnir taka að stráfalla af dópi frá einhverjum seljandanum. Ekki sannfærður um að þótt dóp yrði leyft og sett undir eftirlit Matvælastofnunar myndi þetta breytast mikið. Opinbert eftirlit er nefnilega fjarri því að vera fullkomið. Það sýnir dæmið af Boeing.

Þorsteinn Siglaugsson, 23.9.2019 kl. 23:52

6 identicon

Það verður ætíð togstreita milli lýðheilsusjónarmiða þeirra sem vilja fækka dauðsföllum og hinna sem vilja leyfa almenningi að skaða og drepa sig og aðra, svo lengi sem einhver græðir á því. Frábærast þykir hinum síðarnefndu ef ríkið græðir á skattlagningu og þeir uppskera vinsældir almennings og fjárframlög fyrirtækja.

Það er mikið frelsi sem hugnast sumum að mega skaða sjálfan sig og aðra. Áfengistengdum dauðsföllum fækkaði bannárin. Áfengisbannið var ekki afnumið til að lágmarka skaða. Þar réðu pólitík og peningar, líf og heilsa almennings fékk að víkja.

Vagn (IP-tala skráð) 24.9.2019 kl. 00:25

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Hann hefur lengi fengið ráða, hópurinn sem vill neyslustýra og sökkva samfélaginu í opinbert eftirlit með það að markmiði að passa fólk frá sjálfu sér. Þessi hópur á sér nokkrar hetjur sem hafa notað hermenn og lögreglu til að berja á almennum borgurum sem hafa engum gert mein (og varla sjálfum sér), brenna uppskeru bænda í fátækjum ríkjum og sverta sakaskrá ungmenna og loka þá svo inni svo þeir komist aldrei upp á yfirborðið í samfélaginu aftur.

Það er fyrir löngu kominn tími til að mæta þessi viðhorfi.

Opinbert eftirlit er ekki upphaf og endir alls. Fólk lifði alveg af fjarveru Matvælastofnunar, svo dæmi sé tekið. Eða hvenær var það stofnað? Árið 873, árið áður en Ingólfur Arnarson stofnaði fyrstu varanlegu byggðina á Íslandi?

Varðandi bannár Bandaríkjanna (gullöld svokallaðra "Progressives" í Bandaríkjunum) þá er hér boðið upp á hreina og klára sögufölsun. Áfengisbannið var einfaldlega orðið að svo miklu þjóðarböli að það var ekki við neitt ráðið nema spóla til baka.

Það er kominn tími til að bergmál manna eins og Ronald Reagan og Richard Nixon hætti að fá að hljóma án andmæla. 

Geir Ágústsson, 24.9.2019 kl. 10:05

8 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Áfengisbannið í Bandaríkjunum var rótin að uppgangi mafíunnar. Held ég fari rétt með það.

Þorsteinn Siglaugsson, 24.9.2019 kl. 11:05

9 identicon

Fólk lifði alveg af fjarveru Matvælastofnunar, ekki eins lengi en lifði samt og sumt fram yfir fimmtugt. Rétt eins og við kæmum flest til með að lifa þó umferðareftirliti væri hætt. Og frjáls sala eiturlyfja mundi ekki útrýma okkur. En það eru léleg rök gegn eftirliti að afnám þess dræpi ekki alla.

Flest opinbert eftirlit miðar að því að verja þig gegn skaða sem aðrir geta valdið þér. Að vörur sem þú kaupir í góðri trú séu ekki hættulegar. Að þú getir með verið tiltölulega öruggur á kvöldgöngunni. Og að sjónvarpið og sófinn séu enn í stofunni þegar þú kemur heim úr vinnu.  Það getur kostað það að þjóðfélagið ákveði að þeir sem telja réttast að taka sjónvarpið þitt, aka fullir uppi á gangstéttum og setja frostlög í vínið þitt skuli loka inni svo þeir komist seint eða aldrei upp á yfirborðið í samfélaginu aftur. 

Það er erfitt að sjá hvert þjóðarbölið var sem gerði afnám áfengisbannsins nauðsynlegt. Áfengisbannið hafði fækkað dauðsföllum og innlögnum á sjúkrahús og geðdeildir. Og glæpum hafði ekki fjölgað þó mafíustarfsemi hafi orðið meira áberandi. Sjúkra og lögregluskýrslur sýna það. En þjóðsögur sem byggja á Hollywood myndum frá miðri síðustu öld eru ekki áreiðanlegar heimildir þó Cagney hafi verið sannfærandi.

https://www.nytimes.com/1989/10/16/opinion/actually-prohibition-was-a-success.html

Vagn (IP-tala skráð) 24.9.2019 kl. 12:21

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Tiltrú þín á fóstruríkinu er beinlínis aðdáunarverð.

Geir Ágústsson, 24.9.2019 kl. 19:47

11 identicon

Þetta er ekki tiltrú á fóstruríkinu heldur það að gera sér grein fyrir því að siðuð samfélög byggjast á reglum og eftirliti með því að farið sé eftir þeim. Að meira þarf en blint traust og von til að tryggja líf okkar og heilsu. Þó villta vestrið þitt sé vinsælt bíómyndaefni þá er það stjórnleysi ekki eftirsóknarvert þjóðfélagsástand eðlilegu fólki.

Vagn (IP-tala skráð) 24.9.2019 kl. 21:11

12 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Ég er hættur að skilja þig. Þú stekkur á milli "villta vestursins", lofgjörð um áfengisbannið í Bandaríkjunum og stuðningsyfirlýsingar við öll boð og bönn sem mönnum hefur dottið í hug, en vilt samt ekki skrifa undir sem stuðningsmaður fóstruríkisins.

Hvað er fóstruríkið þá?

Geir Ágústsson, 25.9.2019 kl. 06:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband