Hagvöxtur er uppspretta annarra lífsgæða

Ef við tökum peningaprentun ríkisseðlabanka út fyrir sviga (peningafölsun með það að markmiði að framleiða hagvöxt í Excel) þá er hagvöxtur uppspretta allra annarra lífsgæða.

Forsenda raunverulegs hagvaxtar er verðmætasköpun. 

Verðmætasköpun okkar allra hefur aukist mikið undanfarna áratugi. Fleiri geta unnið verðmætaskapandi störf sem skila sér í betri launum.

Þegar hesturinn veik fyrir traktornum jókst verðmætasköpun bóndans.

Þegar bókhaldskerfi urðu aðgengileg fleirum gátu fleiri sinnt bókhaldi. Það er hægt að sinna afgreiðslu, móttöku og bókhaldi með sömu manneskju, í stað þriggja áður. 

Að fórna hagvexti í markaðshagkerfi er glapræði. Það er eins og segja upp vinnunni sinni til að eyða meiri tíma í garðinum. Þegar peningarnir eru búnir fer garðurinn í órækt, óumflýjanlega.


mbl.is Þurfi að líta á aðra þætti en hagvöxt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Maður fær vissulega svolítinn hroll þegar maður heyrir stjórnmálamenn tala um að fyrst góð tengsl milli fólks séu flestum mikilvæg verði nú ríkið að huga að því hvernig það geti bætt tengsl milli fólks.

En með hagvöxt: Það er munur á hagsæld og hagvexti. Hagvöxtur á sér tvær rætur. Önnur eru tækniframfarir, hin er fólksfjölgun. En hvað þá þegar fólki hættir að fjölga, fer jafnvel að fækka, og hægir á tækniframförum? Þá minnkar hagvöxtur og getur jafnvel stöðvast. Er það slæmt? Ekki endilega. Hagvöxtur er gjarna mikill meðan land er að komast úr frumstæðu og einhæfu efnahagskerfi upp í nútímalegt efnahagskerfi. En hann er minni og jafnvel enginn þegar þessu marki er náð. Er betra að búa í landi með mikinn hagvöxt en lítinn? Það er álitaefni. Ég myndi til dæmis fremur vilja búa í Japan en í Kína. Japan er háþróað samfélag sem á lítinn hagvöxt inni, en það er vel skipulagt réttarríki þar sem fólk getur notið góðra lífsgæða. Kína vex hratt, en hagsæld Kínverja er þó miklu minni en hagsæld Japana. Fyrir nú utan að í Japan er raunverulegt markaðshagkerfi og réttarríki, en ekki í Kína.

Ég myndi því endurorða fyrirsögnina og segja fremur að hagsæld sé uppspretta annarra lífsgæða en að það sé hagvöxtur.

Þorsteinn Siglaugsson, 16.9.2019 kl. 12:55

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Hvar væri "sjokk gildið" í slíkri fyrirsögn? :-)

En jú auðvitað er hægt að hafa hagvöxt í alræðisríki og stöðnun í réttarríki og málin fara að flækjast. Meira seinna.

Geir Ágústsson, 16.9.2019 kl. 12:59

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hagvöxtur eins og hann er mældur samkvæmt hagfræðikenningum, á sér hvorki rætur í tækniframförum né fólksfjölgun.

Tökum sem dæmi Bandaríkin. Stærsta útflutningsvara þeirra er vopnabúnaður. Aukning á framleiðslu hans mælist sem hagvöxtur. (Sem segir allt sem segja þarf um hversu galið hagvaxtamarkmiðið er.) Öll þessi vopnaframleiðsla veldur hins vegar fólksfækkun og dregur úr tækniframförum þegar þau eru notuð auk þess að soga til sín fjármagn, þekkingu og vinnuafl, sem annars gæti nýst til raunverulega tækniframfara í framleiðslulandinu. Vissulega verður tæknin í vopnunum sífellt þróaðri, en það eru engar framfarir fólgnar í því að þróa tækni til að drepa og eyðileggja.

Fyrsta málsgreinin í pistlinum hér að ofan er þversögn:

"Ef við tökum peningaprentun ríkisseðlabanka út fyrir sviga (peningafölsun með það að markmiði að framleiða hagvöxt í Excel) þá er hagvöxtur uppspretta allra annarra lífsgæða."

Þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á að hagvöxtur (mældur sem hlutfallsleg aukning þjóðarútgjalda) mælir í raun ekkert nema peningaprentun, þýðir að ef sú peningaprentun er "tekin út fyrir sviga" þá er enginn hagvöxtur og hann getur því ekki verið uppspretta neins.

Enn fremur leiðréttist (sennilega í hátt í hundraðasta sinn) að seðlabankinn framkvæmir ekki nema um 5% af allri peningaprentun þ.e. þann hluta sem er gefinn út í formi seðla og myntar. Bróðurparturinn eða 95% er búin til af venjulegum bönkunum í formi rafrænna innstæðna sem verða til úr lausu lofti við lánveitingar til viðskiptavina. Lánveiting banka virkar nákvæmlega svona: bankinn hækkar töluna sem táknar innstæðu á bankareikningi lántakandans, punktur. Engir peningar skipta um neinar hendur, ólíkt því þegar venjulegt fólk lánar hvoru öðru raunveruleg verðmæti.

Það er mikilvægt að fjallað sé um svona lagað á grundvelli staðreynda en ekki falskenninga og ranghugmynda.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.9.2019 kl. 13:43

4 identicon

ég fæ nú hroll þegar ffólk úr háskólanum vill bara að eitthvað annað sé notað sem viðmið í lifskjaramælingum. Ef það er þannig að ríkið eigi að skaffa þér gæðin ókeypis vitum við að það endr bara á einn veg. ef hvatar eru aftengdir gerir fólk lítið meira en það þarf. höfum nóg af sliku fyrir. það er óhugnalegt að undir svona þvælu sé tekið. þessi prúða kona úr háskólanum fer brátt á eftirlaun. held að hún sé prófessor í einhverju sem er gersamlega óþarft. 

STEINTHOR JONSSON (IP-tala skráð) 16.9.2019 kl. 13:53

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Steinþór.

Hver er hin "prúða kona úr háskólanum" sem þú vísar til?

"Ef það er þannig að ríkið eigi að skaffa þér gæðin ókeypis..." - Hvernig tengist slíkt þessari umræðu?

Ein spurning: Hefurðu einhverntíma borðað hagvöxt, klætt þig í hann eða átt í honum húsaskjól?

Guðmundur Ásgeirsson, 16.9.2019 kl. 14:15

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta er nú einhver misskilningur Guðmundur. Hagvöxtur er mældur sem aukning landsframleiðslu, eða aukning umsvifa í hagkerfinu. Til að landsframleiðsla geti aukist þarf annað hvort fleiri til að auka umsvifin eða þeir sem til staðar eru eigi meiri viðskipti sín á milli. Fyrri forsendan krefst fleira fólks. Sú síðari krefst meiri framleiðslu með sama fjölda og það næst ekki fram nema með tækniframförum. Ég skal hins vegar viðurkenna að það fórst fyrir að nefna þriðja þáttinn sem eru mögulegar breytingar í neyslumynstri. Ef allir hættu til dæmis að elda mat heima hjá sér en færu þess í stað á veitingastaði myndu umsvif í hagkerfinu aukast og hagvöxtur þar með, á meðan breytingin gengi yfir.

Þorsteinn Siglaugsson, 16.9.2019 kl. 15:34

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Hér er gagnlegt lesefni:

https://wiki.mises.org/wiki/Economic_growth

Geir Ágústsson, 16.9.2019 kl. 16:29

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Guðmundur,

Þú þarft ekki að leiðrétta mig með peningaprentunina. Ég veit alveg að það eru bankarnir sem framleiða hina nýju peninga. Það gera þeir hins vegar ekki án aðstoðar ríkisseðlabanka með einokun á útgáfu peninga. Ef Seðlabankinn hækkar bindiskylduna í 100% þá stöðvar hann peningaprentun annarra. Þar með er hún á hans ábyrgð, því bindiskyldan er ekki 100%.

Geir Ágústsson, 17.9.2019 kl. 07:26

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég ætti kannski að nota hugtakið "raunverulegur hagvöxtur" framvegis, til að forðast rugling á raunverulegum hagvexti (stækkandi hagkerfi aukinnar verðmætasköpunar) og þeim í Excel.

Hjá Mises Institute tala menn til dæmis um "True Money Supply", til aðgreiningar frá hinum opinberu tölum um peningamagn. 

Geir Ágústsson, 17.9.2019 kl. 07:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband