Bloggfærslur mánaðarins, desember 2017

Kerfið hannað til að hrynja, ekki dafna

Evrópusambandið treysir á aukna miðstýringu til að tryggja framtíð sína. Völd aðildarríkja minnka og miðstjórnin eflist. Um leið verður sambandið í heild sinni veikbyggðara. Þá hættir miðstjórnin að huga að því sem gæti styrkt sambandið aftur og fer að hugleiða hvernig á að bjarga því sem óumflýjanlega er að brotna í sundur. Til að fjármagna björgunarpakkana þarf svo að prenta peninga. Kaupmáttur þeirra rýrnar. Sparnaður almennings þurrkast út. Bótaþegum fjölgar. 

Svona var saga Rómarríkis líka. 

Eru Rússar hinir nýju barbarar sem stökkva á sært dýrið?

Eða er það flóttamannastraumurinn að sunnan? Eða sá sem skýtur nú rótum niður um allt sambandið og fyrirlítur samfélagið sem þar er að finna?

Verða það kannski jakkafataklæddir spákaupmenn sem svipta evruna af seinasta trúverðugleika sínum og láta kerfið hrynja til grunna?

Hver stingur á blöðruna?


mbl.is Mun auka miðstýringu á evrusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Melónan græna með rauða kjarnann

Svokallaðir umhverfisverndarsinnar eru melónur. Þeir eru grænir að utan en rauðir að innan. Innvolsið er bara gamli sósíalisminn sem berst fyrir stækkandi ríkisvaldi, hærri sköttum og sterkari tökum hins opinbera á samfélaginu öllu.

Melónurnar tala ekki lengur um að ríkisvaldið eigi að þjóðnýta framleiðslutækin og setja alla á opinbera framfærslu. Í staðinn tala þeir um að við þurfum að borga skatta af hverjum andadrætti og hverjum bíltúr - svokallað kolefnisgjald (sem betur fer undanskilja þeir eldfjöll frá kolefnisgjaldinu en það gæti breyst). Þeir boða þéttan reglugerðafrumskóg sem segir hver megi henda hvaða rusli og hvert, en alltaf gegn ríflegu gjaldi. 

Melónurnar eru nánast mannfjandsamlegar. Margar þeirra hafa beinlínis talað um að vilja fækka mannfólkinu (t.d. með því að vonast eftir heppilegum og mannskæðum vírus). Margar þeirra játa að ofurtrú þeirra á veðurspám og tölvulíkönum sé bara yfirskyn til að koma á ákveðinni stjórnmálastefnu. 

En þarf valið að standa á milli frjáls markaðar annars vegar og melónuvísinda hins vegar? Nei, alls ekki. Það er margt í frjálsu markaðshagkerfi sem styður miklu frekar við græna náttúru en yfirstjórn sósíalista. Hér vegur vel skilgreindur og verndaður eignaréttur mest. Sá sem má verja eigur sínar fyrir sóti, rusli, eitri og yfirgangi gerir það.

Þegar iðnbyltingin var að rúlla yfir Evrópu og Bandaríkin reyndu einmitt margir landeigendur að verja lönd sín fyrir sóti og ryki og jafnvel lestarteinum með tilheyrandi hávaða frá eimreiðum. Það fengu þeir hins vegar ekki að gera, og sótframleiðendur þurftu því ekki að grípa til neinna ráðstafanna. Hið opinbera í gegnum dómstóla sína taldi að iðnaður væri mikilvægari en grænt gras. Núna hefur taflið snúist við en í stað þess að ganga á rétt landeigenda er nú gengið á rétt framleiðenda. Framleiðendur geta sett allar þær síur sem þeir vilja á reykháfa sína en sleppa ekki við skatt á því að draga andann sem framleiðir ósýnilegt og lyktarlaust snefilefni (koltvísýring). 

Á okkur hafa dunið spádómar í marga áratugi um að nú sé næsta ísöld handan við hornið, eða gríðarlegt hlýindaskeið. Alltaf hefur náttúran valdið líkanasmiðum vonbrigðum. Stjórnmálamenn halda hins vegar ótrauðir áfram og skattleggja okkur fyrir að draga andann. 

Til að fullkomna fáránleikann legg ég til að ríkið setji á svokallaðan dauðaskatt sem greiðist úr dánarbúum fólks og er ætlað að skattleggja losun á kolefni sem á sér stað þegar lík rotnar. Þar með fellur úr gildi sú forna viska að skattar og dauðinn séu aðskilin örlög okkar mannanna, og að við þurfum bara að greiða skatt þar til við drepumst. Nei, skattlagninguna má hæglega víkka út til hinna dauðu líka. 


mbl.is Hitametið fellur ekki á þessu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til fyrirmyndar

Það eru til margar leiðir til að ná markmiði sem kostar fé eða fyrirhöfn eða bæði.

Ein er sú að betla og vona að stjórnmálamenn þröngvi skattgreiðendur til að borga.

Önnur er sú að safna fé með frjálsum framlögum.

Enn ein er sú að borga sjálfur. 

Vonandi lýst flestum best á seinni tvær aðferðirnar.


mbl.is Netverjar kaupa kastala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðið mig sem aðstoðarmann ráðherra!

Nýir ráðherrar raða nú í kringum sig vinum og félögum til að aðstoða sig. 

Ekki veitir af. Magnið af pappír sem rennur í gegnum Alþingi er gríðarlegt. Það hefur enginn maður komist yfir það síðan Hjörleifur Guttormsson sat á þingi. Ríkið skiptir sér af nánast öllu í samfélaginu, því miður. Hvað á t.d. að gera við allar þessar óhreyfðu innistæður bankanna? Þingmenn þurfa að hafa afstöðu hér. 

Síðan eru það fjölmiðlarnir. Þeir eru í sífellu að spyrja um hitt og þetta. Einhver þarf að svara þeim spurningum.

Svo má ekki gleyma að fylgjast með skoðanakönnunum. 

Félagslífið er líka krefjandi. Ráðherrar eru sífellt á ferðinni að ávarpa fólk.

Svo já, ráðherrar þurfa aðstoðarmenn.

Ég væri alveg til í að gerast aðstoðarmaður ráðherra. Það má vera hvaða ráðherra sem er en ekki væri verra að ég væri sammála honum í a.m.k. einhverjum málum. Ég get séð um að skrifa svör til blaðamanna og benda á hagfræðilegar rökvillur, en af þeim er nóg í umræðunni.

Tímakaupið er eflaust ágætt og ég þarf sennilega ekki að undirbúa vinnu mína mikið. Ég gæti verið aðstoðarmaður ráðherra samhliða mínu fulla starfi og fjölskyldulífi.

Já, ég held að þetta myndi henta mér ágætlega. 

Kæri ráðherra (bara einhver ráðherra), gerðu mig að aðstoðarmanni þínum!


mbl.is Lísa og Bergþóra aðstoða Katrínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með skuldirnar og skattana?

Í fyrra var samþykkt 5 ára áætlun í ríkisfjármálum. Síðan var kosið. Nú skal ný 5 ára áætlun lögð fram. Þau líða hratt þessi 5 ár!

Stóra - risastóra - spurningin er: Hvað á að gera við skuldir hins opinbera?

Jú vissulega skuldar íslenska ríkið lítið miðað við mörg önnur vestræn ríki. Mörg önnur vestræn ríki eru samt tæknilega gjaldþrota. Þau munu aldrei greiða upp skuldir sínar. Á að miða rekstur sinn við rekstur þess sem er gjaldþrota og haldið á lífi af bönkum og skattgreiðendum?

Það þarf að hreinsa upp skuldirnar og setja upp varnir sem koma í veg fyrir að ríkisvaldið geti skuldsett sig upp í rjáfur.

En er það hægt? Nei, ætli það. Það má hins vegar reyna. Ein leið að markmiðinu er að lækka skatta umtalsvert og færa rekstur úr hinni svokölluðu samneyslu og út á hinn frjálsa markað. Þar með myndast ákveðin náttúruleg vörn gegn skattahækkunum. Minna ríkisvald getur ekki veðsett sig eins mikið og stórt ríkisvald. 

Skattar eru ennþá í himinhæðum eftir meingallaðar björgunaraðgerðir stjórnvalda á árunum eftir hrun. Skattar á fyrirtæki eru t.d. í himinhæðum

Ísland stendur frammi fyrir því sem snjöll manneskja kallaði 1000 milljarða áskorunina. Undir henni verður ekki staðið með nýrri 5 ára áætlun á hverju ári. Hér þarf sterk bein sem þola mótlæti þegar róttækum aðgerðum er hrundið af stað.

Ný ríkisstjórn Íslands þykist ætla að gera allt fyrir alla. Það er ekki hægt. Seinasta hrun í hinum alþjóðlega fjármálageira skall á þegar íslensk yfirvöld óðu í peningum og spáðu óendanlegu góðæri. Er sagan af fara endurtaka sig?

Kæra ríkisstjórn, varaðu þig! 


mbl.is Álag á eldsneyti lækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin skapandi eyðilegging

Verslunin Kostur lokar og eigandinn segir í hreinskilni að ástæðan sé opnun Costco. Báðar verslanir byggja á svipaðri hugmyndafræði og önnur er einfaldlega hagkvæmari í rekstri en hin. Þá þarf eitthvað að gefa eftir.

Við þetta losnar um fjármagn og mannafla sem getur snúið sér að einhverju öðru. Kannski opnar í staðinn fjöldi lítilla verslana sem leggja áherslu á litlar pakkningar með vörur frá Austurlöndum. Kannski leitar fjármagn í kaffihús, bakarí eða kertaverkstæði. Það veit enginn. Þúsundir einstaklinga eru stanslaust að skoða ný tækifæri á öllum tegundum markaða og munu prófa sig áfram þar til þeir hitta á einhverja óuppfyllta þörf meðal neytenda.

Þegar banki fer á hausinn á hið sama að fá að gerast: Gjaldþrot og flutningur á fjármagni í aðrar tegundir rekstrar. Það gerist hins vegar sjaldan. Bankar eru svo verndaðir fyrir áföllum og samkeppni að þeir lifa að því er virðist að eilífu og þéna fúlgur á hverju ári, nánast sama hvernig árar. 

Þegar sjúkrahús er rekið með halla ár eftir ár á það að fá að fara á hausinn. Það gerist hins vegar ekki. Sjúkrahúsin eru í eigu aðila sem getur sótt nánast óendanlegt fé í vasa skjólstæðinga sinna, sem geta sér enga vörn veitt. Þeir eru ríkiseinokunarfyrirtæki sem fá að tapa fé, safna í biðraðir og útskrifa fársjúkt fólk, og gera allt þetta án nokkurs markaðsaðhalds.

Hin skapandi eyðilegging hins frjálsa markaðar er hreinsandi, skapandi, ýtir undir frumkvöðlastarfsemi, flytur fólk og fé í arðbærari greinar og stuðlar að sem mest fáist fyrir sem minnst. 

Þar sem hún fær ekki að eiga sér stað blasir við stöðnun, okur og rýrnandi gæði á sífellt dýrari þjónustu.

Einkavæðum allt. 


mbl.is Fjölmenni samankomið í Kosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagfræðileg uppgötvun! Skattur hækkar verð og minnkar eftirspurn!

Það virðist hafa runnið upp fyrir einhverjum að með því að setja skatt á eitthvað þá hækkar það í verði, eftirspurn minnkar, velta dregst saman og allir sem hafa lífsviðurværi af sölu verða fyrir skerðingu á tekjum. Meira að segja þar sem aukning á veltu á sér stað er um að ræða minni aukningu en hefði annars verið.

Þetta gildir um tannbursta, bækur, klippingu, gistinætur og hjólbarðaskipti.

Það er samt ekki öll vinna og þjónusta sem vekur athygli stjórnmálamanna.

Stjórnmálamenn hika t.d. ekki við að fara rosalega illa með lífsviðurværi hárgreiðslufólks, pípara, smiða, bifvélavirkja, málara og forritara. Þeirra vinna er skattlögð upp í rjáfur. 

Hins vegar geta rithöfunar, skáld, bókaútgefendur og leikarar oftar en ekki bara rétt út hendurnar og peningarnir rigna niður á þær, beint úr vösum skattgreiðenda.

Þetta er andstyggileg mismunun á lífsviðurværi fólks en mjög í tísku engu að síður.

Nú skal skattur á bækur lækkaður. Það hefur nýlega runnið upp fyrir stjórnmálamönnum að skattahækkanir valda samdrætti. Bækur á pappírsformi eru að seljast minna. Þær skal því gera ódýrari. Bækur ná þar með samkeppnisforskoti á aðra afþreyingu. Þetta er lögleg mismunun en siðlaus. 

Í stað þess að halda úti flóknu, siðlausu og fjárfreku skattkerfi væri kannski einn daginn hægt að ræða flata og lága skatta sem mismuna ekki einum á kostnað annars og gera allt fólk og öll fyrirtæki jöfn gagnvart löggjafanum?


mbl.is Ríkisstjórnin boðar afnám bókaskatts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband