Bloggfærslur mánaðarins, desember 2017
Föstudagur, 15. desember 2017
Setjum 114 milljarða í háskólana
Þingmaður nokkur hefur komist að því að hver króna sem stjórnvöld greiða til náms á háskólastigi skili sér áttfalt til baka.
Það blasir því við að ef stjórnvöld eyða 114 milljörðum í háskólanám má greiða upp 911 milljarða skuldir ríkisins á einu bretti. Slíkt sparar skattgreiðendum vaxtagreiðslur. Allir fá háskólagráðu. Er eftir einhverju að bíða?
Jú, bíðum aðeins. Svona reiknikúnstir eru ekki lýsingar á raunveruleikanum. Þær eru talnaleikfimi.
Auðvitað borgar háskólanám sig, en ekki hvaða háskólanám sem er. Þannig er það bara. Danskir fjölmiðlar birta stundum lista yfir háskólanám sem leiðir til lágra launa og atvinnuleysis, eða bæði.
Dæmi: Disse uddannelser fører til ledighed og lav løn
Hið opinbera reynir líka að upplýsa nemendur um væntanlegt atvinnuleysi og væntanleg laun að námi loknu: Uddannelseszoon
Von hins opinbera er auðvitað sú að nemendur sæki í nám sem leiðir ekki til atvinnuleysis og lágra launa, þ.e. þar sem er ekki offramboð af fólki.
Á Íslandi er það nánast talið til helgispjalla að efast um nytsemi háskólanáms. Allir virðast himinlifandi yfir því að fólk sé að eyða tíma sínum og fé, og auðvitað fé skattgreiðenda, í tilgangslaus kjaftafög.
Nei, hver króna sem stjórnvöld greiða til náms á háskólastigi skilar sér ekki áttfalt til baka. Sumt nám er arðbært, annað ekki.
Hver króna skilar sér áttfalt til baka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 14. desember 2017
Hvernig lítur Jörðin út án sólarinnar?
Það er örugglega gaman að búa til tölvulíkön. Þau geta stutt við ímyndunaraflið jafnvel þótt það sé mjög fjörugt.
Menn geta séð fyrir sér Grænland án jökulsins eða Jörðina án sólarinnar eða Pétur Pan án grænu húfunnar.
Það má líka nota líkön til að sjá fyrir sér eitthvað aðeins raunhæfari aðstæður, t.d. Grænland með stærri og þykkari íshettu, hafís við strendur Vestfjarða og ísi lagða Thames-á í London.
Heimurinn er að kólna, þvert á spár ákveðins hóps ómarktækra vísindamanna. Kannski fáum við bráðum fréttir af líkönum sem lýsa afleiðingum þess.
Grænland án ísbreiðunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 14. desember 2017
Ónei! Einhver gæti orðið ríkur!
Frumkvöðlar eru gríðarlega mikilvægir hverju hagkerfi og samfélagi sem vill bæta lífskjör almennings. Þeir koma auga á tækifæri sem leynast öðrum, leggja á sig mikla vinnu við að safna fjármagni, hæfileikum og nauðsynlegum tækjum og tólum, taka áhættu, þefa uppi markaði og kynna hugmyndir sínar fyrir umheiminum.
Oft fórna þessir frumkvöðlar öðrum möguleikum til að afla lífsviðurværis til að koma hugmyndum sínum á koppinn.
Oft hætta þeir á að gera sig að athlægi.
Oft tekst ekki að koma hugmynd í framkvæmd. Slíku fylgir tap á fé og tíma og jafnvel gjaldþrot.
En hvað gerist ef vel tekst upp?
Þá er hætta á að einhver efnist! Verði jafnvel sterkefnaður! Kaupi sér rándýrt einbýlishús og jeppa!
Hvað verður þá um hann? Jú, hann verður öfundaður. Menn tala um að hann þurfi að fara borga hærri skatta en aðrir - miklu hærri! Innistæða hans í bankanum lendir í nýjum sköttum. Arðgreiðslur hans sömuleiðis.
Skamm, frumkvöðull, fyrir að hafa tekist vel upp!
Nei, frumkvöðlar eiga ekki að njóta velgengni. Þeir eiga að lepja dauðann úr skel með styrki úr nýsköpunarsjóðum ríkisvaldsins. Þeim á helst að mistakast. Þeir eiga svo sannarlega ekki að græða, sem er mikið skammaryrði.
Lifi frumkvöðullinn!
... en bara á meðan hugmyndir hans ganga ekki upp.
Milljarðar lagðir í Rafnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 13. desember 2017
En!
Allir hagvísar á Íslandi benda upp á við. Það sést ekkert nema góðæri og uppsveifla í greiningartólunum. Ríkisvaldið blæs til gríðarlegra ríkisútgjalda. Fólk kaupir og kaupir, jafnvel fyrir lánað fé. Venjulegur launamaður á gólfi kaupir sér nýjan jeppa á lánum. Miðstéttarfjölskyldan ferðast yfir hálfan hnöttinn í frí. Forstjórinn reisir sér nýjan sumarbústað um leið og hann endurnýjar eldhúsið heima og bílana í bílskúrnum.
Hljómar kunnuglega, ekki satt?
En gott og vel, vissulega stendur íslenska hagkerfið vel, í bili. Hið sama er samt ekki hægt að segja um umheiminn sem við treystum á fyrir kaupendur að útflutningi og ferðamenn með gjaldeyri.
Í ESB búa menn sig undir næsta skell með risavöxnum björgunarsjóðum. Þar dettur mönnum ekki í hug að lækka skatta, fækka reglum, stöðva peningaprentvélarnar og leyfa hagkerfinu að ná andanum. Nei, menn ríghalda í verðbólguframleiðslu og stöðnun og búa sig einfaldlega undir hrun. Í stað þess að hætta að drekka áfengi gera menn ráðstafanir til að eiga við skorpulifrina og timburmennina.
Í Bandaríkjunum eyða menn lánsfé eins og enginn sé morgundagurinn. Þar stefnir í gríska krísu. Hagstjórnin er í molum. Ríkisvaldið þenst út. Þar framleiða menn opinber störf eða hlutastörf því það hefur enginn efni á að hafa fólk í fullri vinnu við að gera eitthvað verðmætaskapandi.
Í Japan halda menn að peningaprentvélarnar geti bjargað hagkerfinu. Það fer alltaf illa fyrir þeim sem standa í þeirri trú.
Í Kína búa menn sig undir að bandaríski dollarinn verði verðlaus. Ríkið gefur út skuldabréf þótt því vanti ekkert lánsfé til að koma gjaldmiðli sínum út í heiminn. Kínverjar kaupa skuldir Evrópuríkja og auðlindir Afríku og búa sig undir að verða lánadrottinn heimsins sem ætlar að fá borgað.
Á Íslandi býr Katla sig undir að kjósa og loka á ferðamannastrauminn.
Það er svo margt sem getur farið úrskeiðis og gert Excel-skjölin í Seðlabankanum að engu. Um leið er ekki verið að gera neitt til að búa sig undir niðursveiflu af einhverju tagi. Skattar eru í hámarki. Skuldir hins opinbera eru nálægt þúsund milljörðum. Fyrirtæki eru skattlögð að sársaukamörkum. Stjórnmálamennirnir ferðast um heiminn og lofa hertu kverkataki á íslensku samfélagi, án tilefnis.
Seinast þegar Sjálfstæðisflokkur og vinstriflokkur tóku höndum saman í ríkisstjórn skall á alþjóðleg fjármálakrísa og í kjölfarið tóku sósíalistar við öllum völdum. Íslendingar súpa enn seyðið af því.
Á virkilega að hætta á eitthvað svipað, aftur?
Mikil hagvöxtur og lítil verðbólga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 12. desember 2017
Nóg að gera í starfsmannadeildunum
Það er ekki nóg að hafa jafnlaunastefnu. Það er ekki nóg að boða kurteisi í samskiptum. Það er ekki nóg að kenna fólki að halda höndum sínum af kynfærum annars fólks. Það er ekki nóg að hafa lög og reglur. Það er ekki nóg að halda úti starfsmannahandbókum. Það er ekki nóg að hafa kæruferli. Það er ekki nóg að reka starfsmenn sem áreita samstarfsfólk sitt.
Og kannski er allt þetta bara hið besta mál. Áreitið leynist jú víða og hefur áhrif á þá sem verða fyrir því.
Pössum okkur samt á einu. Það er ekki hægt að setja allt mannlegt atferli í reglur. Dónar halda áfram að vera dónar. Þeir finna leiðir framhjá regluverkinu.
Það sem virkar best er að fólk segi frá. Slæmt mannorð dónanna er öflugasta verkfæri okkar hinna til að losna við áreiti þeirra.
Vissulega vilja starfsmannadeildirnar hafa sem mest að gera. Það er best fyrir þær og eykur vægi þeirra mest. Opinberir starfsmann kvarta heldur ekki. Látum hins vegar ekki glepjast af öllum faglegu ferlunum, kærunefndunum og umræðu samfélagsmiðlanna.
Á mínum vinnustað eru karlmenn í yfirgnæfandi meirihluta. Samt mætir kvenfólk þar á allar skemmtanir. Það blæs af sér fyllerístal leynilegu aðdáenda sína sem birtast þegar áfengi er drukkið. Hins vegar er áreiti ekki umborið, og bara núna nýlega var einn rekinn fyrir kynferðislega áreitni og látinn yfirgefa svæðið samdægurs.
Við erum öll mannleg, segjum allskonar hluti í allskyns aðstæðum og heyrum ýmislegt sem er ekki alltaf velkomið. Reynum samt að skilja eftir svolítið pláss til að vera mannleg, gera mistök og læra af þeim.
Meira en mælanlegu hlutirnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 12. desember 2017
Bitcoin-bólan og framtíð rafmynta
Svo virðist sem Bitcoin rafmyntin sé á einhverju flugi þessar vikurnar. Hún hækkar og hækkar. Hvernig stendur á því?
Hluti ástæðunnar eru væntingar. Kaupendur eru að vænta frekari hækkana. Þegar þær eru orðnar nógu miklar ætla þessir kaupendur að selja. Svona menn finnast á öllum mörkuðum og því vitaskuld á þessum líka.
Hluti ástæðunnar er skortur á ávöxtunarmöguleikum. Ríkisskuldabréf borga litla sem enga vexti og jafnvel neikvæða vexti. Þótt hlutabréf séu í himinhæðum þá er tekjustreymi og hagnaður margra fyrirtækja ekki í jafngóðu ástandi. Hlutabréf eru í bóluástandi og mun hærra verðlögð en arðgreiðslur geta staðið undir. Menn leita því í eitthvað annað eins og listaverk og rafmyntir.
Hluti ástæðunnar er spennan í kringum hina nýju tegund peninga. Mörg fyrirtæki eru byrjuð að taka við greiðslum í Bitcoin. Það eykur enn á spennuna og auðvitað trúverðugleikann líka. Rafmyntir eru sennilega komnar til að vera þótt það eigi enn eftir að koma í ljós hvort Bitcoin verði einráð eða hluti af mörgum rafmyntum eða detti jafnvel úr leik.
Margir tala um að rafmyntir séu framtíð greiðslumiðlunar. Seðlabankapeningarnir eru of pólitískir, óstöðugir og ótrúverðugir. Bandaríski dollarinn mun syngja sitt síðasta í náinni framtíð. Evran stendur á brauðfótum. Japanska jenið er í fjöldaframleiðslu í viðleitni þarlendra stjórnavalda til að búa til verðbólgu. Rafmyntir eru hins vegar í takmörkuðu upplagi (eins og gullið góða), rafrænar og alþjóðlegar. Þær þarf ekki að flytja með dýrum flutningaleiðum eins og gull og silfur. Þegar menn hafa komið í veg fyrir öryggisbresti standi ekkert í vegi fyrir framtíð rafmyntanna.
Núna virðist vera Bitcoin-bóla en það verður spennandi að sjá hvernig rafmyntir þróast í framtíðinni.
Hækkun bitcoin smitar út frá sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 11. desember 2017
Notað og nýtt
Góði hirðirinn er sprunginn. Fólk þarf að henda nothæfum hlutum. Árið er 2007 á nýjan leik.
Þeim hjá Góða hirðinum hefur ekki dottið í hug að lækka hjá sér verðið?
Neytendur ættu að geta gert góð kaup núna. Það ætti að vera ódýrt að innrétta heilt hús með fullkomlega nothæfum hlutum.
Er enginn sem liggur á tómlegu vöruhúsi sem gæti hugsað sér að stofna til reksturs svipuðum þeim hjá Góða hirðinum? Það hljóta að vera viðskiptatækifæri fólgin í því að fá ókeypis varning inn á lagerinn, skella á hann verðmiða og selja aftur.
Íslendingar verða sennilega seint þekktir fyrir að nýta hluti til hins ítrasta. Miklu frekar kaupa þeir allt nýtt og taka jafnvel lán fyrir því í stað þess að eiga fyrir eyðslunni. Ekki veit ég hvernig stendur á því. Sjálfur ólst ég upp í raðhúsi sem var ekki orðið íbúðarhæft að fullu fyrr en ég var orðinn unglingur. Eftir því sem peningastaðan leyfði voru fleiri og fleiri herbergi opnuð, en ekki fyrr.
Kannski vita Íslendingar að efnahagsstaðan er brothætt og því um að gera að kaupa það sem manni langar til á meðan bankarnir vilja lána og atvinnurekandinn getur borgað vel. Þegar allt hrynur til grunna á maður þá þrátt fyrir allt fínu hlutina sína enn.
Ég vona að íslenskur almenningur sé að finna jafnvægi á milli þess að njóta á meðan vel gengur og búa í haginn fyrir erfiðari tíma. Þeir ættu að forðast neysluskuldir eins og yfirdrátt og raðgreiðslur. Þeir ættu að eyða í hluti sem hafa notagildi og endast.
Kæru Íslendingar, ekki treysta á björgunaraðgerðir, opinberar bætur og inngrip stjórnmálamanna ef og þegar illa fer.
Góði hirðirinn sprunginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 10. desember 2017
Skoðanir miðaldra karlmanna vekja hörð viðbrögð
Netið er svo frábært. Hér getur allt mannkyn mæst, tjáð sig, stundað viðskipti og látið gott af sér leiða. Menn geta rökrætt skoðanir, heimspeki, stjórnmál, innahúshönnun, uppskriftir og uppeldisaðgerðir. Gagnkvæm virðing ríkir. Hlutir eru krufðir til mergjar. Almenningur fær aðgang að kenningum þeirra vitrustu og upplýstustu. Þeim sem boða ofbeldi og hatur er mætt með yfirveguðum rökum. Fordómar eru dregnir upp á yfirborðið og þeir ræddir þar á upplýstan og yfirvegaðan hátt.
Eða hvað?
Nei. Svona er þetta ekki.
Margir hafa skoðanir sem má kalla umdeildar, fordómafullar, byggðar á þekkingarleysi eða eru einfaldlega hrein gremja og reiði.
Þegar þessar skoðanir láta á sér kræla utan við lokaða vinahópa er eins og það fari kapphlaup af stað að fleygja þeim út. Sumt má einfaldlega ekki segja án þess að óttast bannfæringu, útilokun eða fúkyrðaflaum.
Hverjum er það til gagns? Halda menn að með því að loka á IP-tölur þá hverfi hinar óvinsælu skoðanir? Munu þeir sem hafa umdeildar skoðanir túlka bannfæringu sem hin endanlegu rök og skipta um skoðun? Þegar hurðinni er skellt framan í einhvern mun hann þá taka upp skoðanir þeirra sem skelltu hurðinni?
Eða verður viðkomandi kannski bara enn staðfastari í trúnni?
Margir sem tala um gegnsæi og opna og upplýsta umræðu vaða í hræsni. Það sem þeir meina í raun og veru er að það eigi ekki að leyfa ákveðnar skoðanir. Þær ber að banna. Þær ber að útiloka.
Netið er að þessu leyti engu skárra en flokkspólitískt dagblað.
Sá sem þolir ekki svertingja eða Gyðinga eða börn eða innflytjendur eða kommúnista eða frjálshyggjumenn eða rauðar rósir eða konur eða Alþingismenn á að fá að segja frá þeirri skoðun sinni. Um leið á að mæta slíkum skoðunum með mótrökum, upplýsingum og raunverulegri umræðu. Það á að krefja viðkomandi um rök og reyna svo að mæta þeim með mótrökum.
Hin nálgunin - að loka, banna og skella í lás - gerir nákvæmlega ekkert til að draga úr hinum óvinsælu skoðunum. Áhrifin eru raunar þveröfug. Sá sem fær aldrei málefnalegt aðhald, og neyðist til að halda sig við lokaða kjaftaklúbba, fær nákvæmlega enga ástæðu til að skipta um skoðun. Alveg nákvæmlega enga.
Síðan eru það nettröllin. Þau á auðvitað að setja til hliðar. Það er bara allt annar hlutur.
Auðvitað eiga og mega fjölmiðlar ritskoða, loka, opna eða bannfæra á umræðusíðum sínum eins og þeir vilja. Þeir eru jú ritstjórar. Þeir þurfa að verja rekstur sinn gegn málsóknum sem byggjast á lögum sem takmarka því miður málfrelsið.
Upplýst umræða getur hins vegar ekki verið lokuð líka. Hún er annaðhvort opin og upplýst eða lokuð og þröngsýn.
Fréttir um konur og innflytjendur vekja hörð viðbrögð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 9. desember 2017
Verðlaun fyrir langa vinnudaga, slítandi starf og félagslegar fórnir
Nú gráta blaðamenn þá staðreynd að konur hljóta lítið af Nóbelsverðlaunum.
En er einhver ástæða til að gráta það?
Nóbelsverðlaunin eru veitt fyrir afrek á heimsmælikvarða. Til að fá þau þarf að leggja á sig mikla vinnu, jafnvel svo áratugum skiptir. Oft liggja að baki rannsóknum langir vinnudagar í slítandi umhverfi. Einstaklingarnir sem hljóta þau hafa jafnvel þurft að fórna fjölskyldulífi sínu eða vinasamböndum. Oft stjórna þeir teymi einstaklinga sem þarf sífellt að stilla saman. Ábyrgðin er mikil og pressan eftir því.
Vinnan að baki Nóbelsverðlaunum er með öðrum orðum slítandi, krefst fórna og tekur sinn toll af þeim sem leggja á sig þá miklu vinnu sem þarf til að vera í fremstu röð í heiminum.
Eru þetta örlög sem á að óska einhverjum?
Eigum við að óska eftir því að fleiri konur fórni fjölskyldulífi, vinasamböndum og jafnvel áhugamálum sínum?
Af hverju? Fyrir einhverja peningalega umbun og klapp á axlirnar?
Er ekkert annað í heiminum mikilvægt en verðlaunapeningur og stundarfrægð?
Mér finnst að baráttan fyrir jafnrétti kynjanna sé oft að hamra á vitlausum áherslum. Í stað þess að þröngva konum inn í langa og slítandi vinnudaga, fjarri fjölskyldu og vinum, eigum við að hvetja fleiri karlmenn til að slaka á pressunni á sjálfa sig. Karlar mæla sig miklu frekar en konur í peningum og titlum. Vissulega njótum við öll góðs af drifkraftinum sem hlýst af því en það eru skuggahliðar á svona gildismati. Karlar deyja fyrr, eru líklegri til að fremja sjálfsmorð og finna sig jafnvel knúna til að beita brögðum eða fremja lögbrot til að auðgast og fá völd.
Nei, segi ég. Að fáar konur hafi hlotið Nóbelsverðlaunin er til marks um heilbrigt gildismat kvenna og uppbyggilega forgangsröðun í lífinu.
Marie Curie vann mikið þrekvirki með rannsóknum sínum og uppskar frægð og frama. Hún dó hins vegar úr afleiðingum geislavirkni. Börn hennar urðu móðurlaus. Var það fórnarinnar virði?
Hvar eru konurnar? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 8. desember 2017
Tilgangslausar aðgerðir vegna ímyndaðs vandamáls
Öll þessi loftslagsumræða er í besta falli til þess fallin að afvegaleiða almenning og í versta falli er hún mannfjandsamleg.
Einu sinni var mikilvægt að berjast gegn mengun. Mengun er losun á skaðlegum eiturefnum í loft, land og vatn - efni sem drepa, sýkja eða hamla.
Mengun getur stafað af ýmsum aðgerðum mannanna. Mannskæðasta mengunin stafar af bruna á tré og kolum innandyra í fátækustu ríkjum veraldar. Til að losna við þá mengun þarf fólk að auðgast og hafa efni á rafmagni eða loftræstingu eða bæði. Baráttan gegn losun á koltvísýringi er til þess fallin að hægja á nauðsynlegri auðsköpun.
Mengun getur stafað af vísvitandi traðki á eignarétti annarra. Sá sem fær að menga grunnvatn annarra landeigenda gerir það eðlilega enda er það ódýr lausn. Sá sem fær skaðabótakröfu í hausinn eða á það á hættu fer sér varlega. Baráttan gegn losun á koltvísýringi er til þess fallin að afvegaleiða áhersluna á baráttuna gegn raunverulegri mengun.
Koltvísýringur er plöntufæða. Hann er snefilefni í andrúmsloftinu. Hann nær ekki að blandast sjónum að því marki að hann breyti sýrustigi hans. Hann er ekki blóraböggullinn þegar ræða á breytingar á hitastigi í lofthjúpnum. Hann er notaður sem tylliástæða til að herða að frjálsu hagkerfi og samfélagi.
Stjórnvöld gera þetta ekki ein | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |