Verðlaun fyrir langa vinnudaga, slítandi starf og félagslegar fórnir

Nú gráta blaðamenn þá staðreynd að konur hljóta lítið af Nóbelsverðlaunum. 

En er einhver ástæða til að gráta það?

Nóbelsverðlaunin eru veitt fyrir afrek á heimsmælikvarða. Til að fá þau þarf að leggja á sig mikla vinnu, jafnvel svo áratugum skiptir. Oft liggja að baki rannsóknum langir vinnudagar í slítandi umhverfi. Einstaklingarnir sem hljóta þau hafa jafnvel þurft að fórna fjölskyldulífi sínu eða vinasamböndum. Oft stjórna þeir teymi einstaklinga sem þarf sífellt að stilla saman. Ábyrgðin er mikil og pressan eftir því. 

Vinnan að baki Nóbelsverðlaunum er með öðrum orðum slítandi, krefst fórna og tekur sinn toll af þeim sem leggja á sig þá miklu vinnu sem þarf til að vera í fremstu röð í heiminum.

Eru þetta örlög sem á að óska einhverjum?

Eigum við að óska eftir því að fleiri konur fórni fjölskyldulífi, vinasamböndum og jafnvel áhugamálum sínum?

Af hverju? Fyrir einhverja peningalega umbun og klapp á axlirnar?

Er ekkert annað í heiminum mikilvægt en verðlaunapeningur og stundarfrægð?

Mér finnst að baráttan fyrir jafnrétti kynjanna sé oft að hamra á vitlausum áherslum. Í stað þess að þröngva konum inn í langa og slítandi vinnudaga, fjarri fjölskyldu og vinum, eigum við að hvetja fleiri karlmenn til að slaka á pressunni á sjálfa sig. Karlar mæla sig miklu frekar en konur í peningum og titlum. Vissulega njótum við öll góðs af drifkraftinum sem hlýst af því en það eru skuggahliðar á svona gildismati. Karlar deyja fyrr, eru líklegri til að fremja sjálfsmorð og finna sig jafnvel knúna til að beita brögðum eða fremja lögbrot til að auðgast og fá völd.

Nei, segi ég. Að fáar konur hafi hlotið Nóbelsverðlaunin er til marks um heilbrigt gildismat kvenna og uppbyggilega forgangsröðun í lífinu. 

Marie Curie vann mikið þrekvirki með rannsóknum sínum og uppskar frægð og frama. Hún dó hins vegar úr afleiðingum geislavirkni. Börn hennar urðu móðurlaus. Var það fórnarinnar virði? 


mbl.is Hvar eru konurnar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Kannski fá fleiri konur nóbelinn í framtíðinni, en staðreyndum fortíðar verður ekki breytt. Mér finnst þessi jafnréttisumræða soldið hrokkin af hjörum. Að hljóta nóbelsverðlaun er ekki spurning um rétt eða jöfnuð. Þau eru aukaafurð snilldar og elju en ekki markmið þeirra sem þau hljóta.

Ég las nú að fyrir austan sé kynbundinn launamunur sem byggir á því að karlmenn vinni lengur og meira en konur. Hver er fórnarlambið þar? Það er enginn launamunur heldur tekjumunur og nú er það lagt að jöfnu. Leiðtogar kvenna eru augljóslega á þrotum með baráttumál, sem er gott því kvennréttindahreyfingin á samkvæmt eðli og markmiðum að gera sig óþarfa með jöfnum rétti. Það er þó sýnilega engin hætta á því og áfram verður borað eftir minnstu ólíkindum kynjanna og karlar látnir líta út sem einhvert forréttindakyn að ósekju.

Mér finnst að konur ættu aðeins að staldra við og hugsa málið. Þetta er komið út í öfgar og engum til gagns.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.12.2017 kl. 16:29

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Janteloven krefjast þess að allir fái bikar óháð getu eða framlagi. Ef ekki þá eru hinir fórnarlömb og það er samfélaginu að kenna. Allir eiga rétt á öllu án þess að hafa fyrir því og ríkið á að sjá um að svo sé. Allir skulu hafa það jafnskítt, því það er augljóst að ekki geta allir haft það jafn gott. Það er inntakið í þessari eitruðu hugmyndafræði sósíaldemókrasíunnar.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.12.2017 kl. 16:41

3 Smámynd: Ómar Geirsson

 Vel mælt Geir.

"Eigum við að óska eftir því að fleiri konur fórni fjölskyldulífi, vinasamböndum og jafnvel áhugamálum sínum?

Af hverju? Fyrir einhverja peningalega umbun og klapp á axlirnar?

Er ekkert annað í heiminum mikilvægt en verðlaunapeningur og stundarfrægð?

Mér finnst að baráttan fyrir jafnrétti kynjanna sé oft að hamra á vitlausum áherslum. Í stað þess að þröngva konum inn í langa og slítandi vinnudaga, fjarri fjölskyldu og vinum, eigum við að hvetja fleiri karlmenn til að slaka á pressunni á sjálfa sig. Karlar mæla sig miklu frekar en konur í peningum og titlum. Vissulega njótum við öll góðs af drifkraftinum sem hlýst af því en það eru skuggahliðar á svona gildismati. Karlar deyja fyrr, eru líklegri til að fremja sjálfsmorð og finna sig jafnvel knúna til að beita brögðum eða fremja lögbrot til að auðgast og fá völd."

É held að karlar ættu frekar að læra af konum en öfugt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.12.2017 kl. 17:34

4 identicon

Ja hérna, Geir minn. Allir nóbelsverðlaunahafar og ekki nóbelsverðlaunahafar hafa lifað sálarinnar fyrstu jarðartilveru í móðurkviði. Og eggin eru endalaust að kenna hænunum? Hvort kom á undan, eggið eða hænan? Og hvaðan kom hænan?

Framhald allra eftir þessa fyrstu níu mánaða tilveru (óháð kyni) er svo margslungin, að ekki er nokkur leið að réttindaflokka "kjúklinga" móður jarðar.

Mörgum tárum hef ég grátið vegna allra minna vanþroskaða-mistaka, galla og sársauka, en aldrei hefur mér dottið í hug að tárum væri eyðandi á tapaðar Nóbelsgráður. Ég hef líklega ekki fattað tilganginn í að eyða tárum yfir tómum gráðunum? Svona er það víst að vera svona "vitlaus" kona?

Þetta með karla og konur er komið út í algjöra fjölmiðlafjaðrafoks vitleysu, að mínu mati.

Ef maður er ekki nógu merkilegur sem manneskja, þá verður maður ekki heldur nógu merkileg manneskja á kynjamisréttis-("jafnréttis")-grundvelli gráðuveitinganna.

Það er ó-jafnréttlæti að mismuna fólki efir kyni, uppruna, stöðu, þjóðerni og svo framvegis...

Það eyðileggur raunverulegu réttlætisbaráttuna fyrir jöfnum kjörum allra, að afbaka réttlætið með svona kynjamismunun, sem fjölmiðlaumræðu áróðurinn raunverulega er að stuðla að þessa dagana!

Þetta er nú bara mitt sálarlífsreynslu-sjónarhorn. Sjónarhornin eru jafn misjafnleg og mörg, eins og fólkið. Öll sjónarhorn eiga að vera til umræðu, en ekki bara sum fjölmiðlasorteruð sjónarmið.

Nóbelsviðurkenningar, skólagráður og "fálka"-orður, svona einar og sér, eru eins og innantómt hismi, og virðast þær skrautfjaðrir stundum vera notaðar til að næra hégómagirnd framagjarnra, sem þjást af minnimáttarkennd og sjálfstrausts skorti. Ástæðurnar geta verið svo margar fyrir sjálfstrausts skortinum, að það dygði líklega ekki öll sálnanna tímanna eilífðin til að skilja slíkt sjálfs-vanmat til hlítar.

Enginn veit allt, en allir vita eitthvað. Allar sálir eru jafn mikilvægar og vermætar. Hver á sinn hátt.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 9.12.2017 kl. 19:52

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Anna.

Ekki að mér komi þetta við, en ég held að Geir hafi verið að upphefja reynsluheim kvenna, og benda á að þær hefðu eitthvað sem við hefðum ekki.

Þó hinar meintu fórnir okkar væru mældar í Nóbel verðlaunum.

Við Geir erum ekki kannski alveg samstíga í viðhorfum okkar gagnvart frjálshyggjunni, þó við séum báðir að ættmeiði hins frjálsa manns, Bjarts frá Sumarhúsum.

En hann er heill, gegnheill í sínum lífsskoðunum, og þær eru meðal annars ekki vanvirðing gegn reynsluheimi kvenna eins og þú lýsir svo vel hér að ofan.  Sem snertir þig og ekki bara þig.  Margur kannast við þessa lýsingu, í einni og annarri mynd.

Og hann er heill gagnvart órétti og ójafnræði, trúðu mér, ég les þennan dreng.

Og hann var ekki að gera lítið úr tilveru kvenfólks, þvert á móti.

Og trúðu mér aftur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.12.2017 kl. 23:36

6 identicon

Ómar. Ég skildi mjög vel að Geir var að verja þögul og verðmæt verk kvenna, og það þótti mér vænt um að sjá hjá Geir:)

Ég fer oft of langt út fyrir efnið og tjái mig kannski ekki rétt, þegar ég byrja að skrifa. Það er einn af mörgum göllum mínum. Og þegar ég tjái mig, þá er það í raun ekki ætlað neinum einum frekar en öðrum sem lesa athugasemdirnar.

Ég vil hér þakka Geir og fleiri síðuhöfum fyrir að hafa ekki enn lokað á tuðið mitt, og að gefa mínum sjónarhornum birtingarleyfi. Ef einhver getur notað einhverja mola af mínum sjónarhól til einhvers góðs, þá hef ég tjáð mig til gagns og góðs fyrir einhverja. Það er tilgangurinn í mínum huga, að koma sem flestum sjónarhornum á framfæri, til að einhverjir þarna úti geti kannski notað þá mola í heildarsýn sem flestra í framtíðarpúslið.

Ekki illa meint af mér. Heldur þvert á móti meint til að sýna sjónarmið frá þeirri hlið sem ég sé.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 10.12.2017 kl. 11:55

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að ég dragi úr vanmetinni vinnu kvenna þótt sú vinna sé oft illa launuð, óverðlaunuð og ekki flaggað á ráðstefnum femínista.

Ég er svo heppinn að hafa alist upp með sterkt kvenfólk í kringum mig - ömmur sem lögðu mikið á sig fyrir börn sín og fjölskyldu, mömmu sem hefur aldrei látið mótlæti buga sig, og annað kvenfólk sem hefur bara bitið á jaxlinn og gert það sem gera þurfti án þess að hafa frama og frægð að leiðarljósi.

Þetta kvenfólk hefur hvatt mig áfram í starfi, námi og lífinu almennt, kennt mér bjarga mér jafnt í eldhúsinu sem og vinnustað, boðað heiðarleika í samskiptum, og gefið lítið fyrir kvart og kvein og uppgjöf en um leið hlustað á mig þegar ég hef þurft að pústa eða hef vantað ráð eða aðstoð. 

Þetta kvenfólk er langt utan við sjóndeilarhring blaðamanna, ævisöguritara og sjónvarpsþátta. Þess vegna finnst mér oft lítið til slíkra vettvanga koma. Þar er framapoturum, vælukjóum og athyglissjúklingum hyglað. Við eigum að taka mark á þessu sjálfumglaða fólki. Það geri ég ekki nema með mörgum fyrirvörum. Ég veit hvar raunverulegu femínistana er að finna - kvenfólkið sem lætur verkin tala án þess að heimta hljóðnema til að segja frá afrekum sínum. 

Geir Ágústsson, 10.12.2017 kl. 12:10

8 identicon

Flottur ertu Geir :)

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 10.12.2017 kl. 12:34

9 Smámynd: Mofi

Vel orðað Geir!

Mofi, 10.12.2017 kl. 22:52

10 identicon

Það er rétt, að fyrr á öldum, jafnvel fram á síðustu öld, var kvenlegum vísindamönnum ekki einu sinni leyft að sæækja ráðstefnur né leggja fram niðurstöður rannsókna sinna vegna fordóma. En nú hefur þetta breytzt mikið sem betur fer. Það er ekki hægt að breyta fortíðinni, en bezt að horfa fram á við.

En ég hef eina athugasemd varðandi næstefstu myndina með þessari frétt. Myndskýringin segir: "Aðeins karlar". Mér þætti vænt um að fá að vita hvaða fjórir karlar þarna sem eru klæddir kjólum. Eru þessir verðlaunahafar klæðskiptingar?

Pétur D. (IP-tala skráð) 14.12.2017 kl. 11:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband