Skoðanir miðaldra karlmanna vekja hörð viðbrögð

Netið er svo frábært. Hér getur allt mannkyn mæst, tjáð sig, stundað viðskipti og látið gott af sér leiða. Menn geta rökrætt skoðanir, heimspeki, stjórnmál, innahúshönnun, uppskriftir og uppeldisaðgerðir. Gagnkvæm virðing ríkir. Hlutir eru krufðir til mergjar. Almenningur fær aðgang að kenningum þeirra vitrustu og upplýstustu. Þeim sem boða ofbeldi og hatur er mætt með yfirveguðum rökum. Fordómar eru dregnir upp á yfirborðið og þeir ræddir þar á upplýstan og yfirvegaðan hátt. 

Eða hvað?

Nei. Svona er þetta ekki.

Margir hafa skoðanir sem má kalla umdeildar, fordómafullar, byggðar á þekkingarleysi eða eru einfaldlega hrein gremja og reiði. 

Þegar þessar skoðanir láta á sér kræla utan við lokaða vinahópa er eins og það fari kapphlaup af stað að fleygja þeim út. Sumt má einfaldlega ekki segja án þess að óttast bannfæringu, útilokun eða fúkyrðaflaum.

Hverjum er það til gagns? Halda menn að með því að loka á IP-tölur þá hverfi hinar óvinsælu skoðanir? Munu þeir sem hafa umdeildar skoðanir túlka bannfæringu sem hin endanlegu rök og skipta um skoðun? Þegar hurðinni er skellt framan í einhvern mun hann þá taka upp skoðanir þeirra sem skelltu hurðinni? 

Eða verður viðkomandi kannski bara enn staðfastari í trúnni?

Margir sem tala um gegnsæi og opna og upplýsta umræðu vaða í hræsni. Það sem þeir meina í raun og veru er að það eigi ekki að leyfa ákveðnar skoðanir. Þær ber að banna. Þær ber að útiloka.

Netið er að þessu leyti engu skárra en flokkspólitískt dagblað.

Sá sem þolir ekki svertingja eða Gyðinga eða börn eða innflytjendur eða kommúnista eða frjálshyggjumenn eða rauðar rósir eða konur eða Alþingismenn á að fá að segja frá þeirri skoðun sinni. Um leið á að mæta slíkum skoðunum með mótrökum, upplýsingum og raunverulegri umræðu. Það á að krefja viðkomandi um rök og reyna svo að mæta þeim með mótrökum. 

Hin nálgunin - að loka, banna og skella í lás - gerir nákvæmlega ekkert til að draga úr hinum óvinsælu skoðunum. Áhrifin eru raunar þveröfug. Sá sem fær aldrei málefnalegt aðhald, og neyðist til að halda sig við lokaða kjaftaklúbba, fær nákvæmlega enga ástæðu til að skipta um skoðun. Alveg nákvæmlega enga. 

Síðan eru það nettröllin. Þau á auðvitað að setja til hliðar. Það er bara allt annar hlutur.

Auðvitað eiga og mega fjölmiðlar ritskoða, loka, opna eða bannfæra á umræðusíðum sínum eins og þeir vilja. Þeir eru jú ritstjórar. Þeir þurfa að verja rekstur sinn gegn málsóknum sem byggjast á lögum sem takmarka því miður málfrelsið. 

Upplýst umræða getur hins vegar ekki verið lokuð líka. Hún er annaðhvort opin og upplýst eða lokuð og þröngsýn. 


mbl.is Fréttir um konur og innflytjendur vekja hörð viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Geir. Þú segir svo sannarlega satt í þessum pistli, og ekki vanþörf á að einhver bendi á þessa vanþróandi og jafnréttisniðurbrjótandi fjölmiðlaþöggun sumra fjölmiðla.

Ekki er möguleiki að rökræða og bæta það sem enginn fær að segja frá. 

,,Upplýst umræða getur hins vegar ekki verið lokuð líka. Hún er annaðhvort opin og upplýst eða lokuð og þröngsýn". Satt og rétt.

Merkilegt að þessi mikilvæga tjáningarfrelsis nauðsynlega staðreynd sé ekki höfð að fjölmiðla-leiðarljósi? Með öllum þeim mannlegu brestum, göllum og kostum, sem óhjákvæmilega fylgja hverjum og einum?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 10.12.2017 kl. 14:35

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Fjölmiðlar eru ekki mjög hrifnir af "útlögunum" í umræðunni. Kannski er stærsta undantekningin Harmdageddon á X-inu en þar eru menn tilbúnir að ræða nánast hvað sem er að mér finnst. Það hlýtur að koma einhverjum á óvart að ljósberi íslenskrar þjóðmálaumræðu sé síðdegisþáttur á rokkstöð sem upphaflega átti að höfða til unglinga. 

Geir Ágústsson, 11.12.2017 kl. 08:36

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það felst ákveðin þöggun í svona útburði á einum þjóðfélagshóp. Það er líka vinsælt að birta nöfn manna sem fara með óvarlegar athugasemdir í hita leiksins. Ég ætla ekki að bera í bætifláka fyrir suma virka í athugasemdum en ég skal verja það með kjafti og klóm að þeir fái að segja það sem þeir vilja.

Miðaldra karlmenn eru nánast hnjóðsyrði í dag og þeir presenteraðir sem það versta í samfélaginu. Sósíal Marxisminn og pólitískur rétttrúnaður hafa gert þennan þjóðfélagshóp að einhverskonar holdsveikisjúklingum í samfélaginu.

Það er margt sagt óyfirvegað og jafnvel illt af öllum hópum hér í umræðunni og það sem sagt er aldrei annað en vitnisburður um þá sem mæla. Sumir eru sammála, aðrir ekki en þöggun með háði og lítillækkun er óafsakanleg. Hvað þá þöggun, sem leggur þriðjung þjóðarinnar undir einn hatt fyrir ummæli eins.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.12.2017 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband