Bloggfærslur mánaðarins, október 2016

Íslenskir háskólar og norrænir

Háskóli Íslands kvartar reglulega yfir fjárskorti. Um leið vill hann kenna öll möguleg fög sem skila litlum sem engum ávinningi til nemenda umfram það að lesa góða bók heima hjá sér. Hann vill vera í fremstu röð. Í raun setur hann sér óraunhæf og rándýr markmið og eyðir hverri krónu og kvartar svo yfir fjárskorti.

En gott og vel, svona flest ríkisfyrirtæki sér líka.

Það er ákveðinn grundvallarmunur á íslensku háskólanámi og því sem ég kynntist í Danmörku á sínum tíma. Í verkfræðinámi mínu á Íslandi var áherslan mikil á sjálfsnám. Nemendur fengu kynningu á námsefninu í fyrirlestrum og fengu svo skilaverkefni. Lítil aðstoð var í boði til að leysa þau skilaverkefni önnur en að spurja samnemendur. Oft voru þetta strembin verkefni sem kröfðust þess að maður lærði á ný forrit, t.d. með notkun netsins og með því að spurja nemendur á svæðinu. Þetta var erfitt en lærdómsríkt ferli.

Í Danmörku er reynt að verja nemendur fyrir sjálfsnámi. Kennsla og verkefnavinna fer fram á skrifstofutíma undir handleiðslu kennara eða með aðstoð aðstoðarkennara. Þegar vafamál kom upp var hægt að rétta upp hendi og hjálpin kom svífandi að. Að skóladegi loknum var allri vinnu lokið og hægt að fara í frí til næsta dags.

Vissulega er ég að einfalda aðeins fyrirkomulagið í báðum tilvikum en yfir það heila var þetta mín upplifun.

En hvort ætli sé nú betra? Um það er erfitt að dæma. Báðar leiðir hafa kosti og galla. Sú íslenska hvetur til sjálfsbjargarviðleitni og sjálfshjálpar en um leið takmarkar hún magnið af námsefni sem er hægt að hlaða á nemendur. Sú danska styður við hópavinnu undir leiðsögn og gerir sennilega mögulegt að kenna meira efni en sjálfsbjargarviðleitnin af ekki styrkt. 

Svo má vel hugsa sér að íslenska leiðin sé ódýrari fyrir skattgreiðendur því minni mannafla þarf til að standa að náminu. 

Eitt er samt víst: Íslensk verkfræðimenntun hefur dugað mér ágætlega í Danmörku og dönsk verkfræðimenntun er eflaust ljómandi góð fyrir íslenskan atvinnumarkað. 

Og nei, Háskóli Íslands þarf ekki tvöföld núverandi fjárframlög til að sinna háskólanámi sem stenst norrænar kröfur. 


mbl.is „Hálfdrættingar á við Norðurlöndin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sænska leiðin

Í frétt segir:

Að sögn Björg­vins eru borg­ara­leg rétt­indi grunn­ur­inn að siðmenntuðum sam­fé­lög­um. Það skipti máli að þau séu virt, ekki bara hjá sum­um held­ur hjá þeim sem þurfa mest á því að halda. Hann seg­ir þar að lög­regla hafi beint spjót­um sín­um að ungu fólki á tón­list­ar­hátíðum á und­an­förn­um árum sem hafi í för með sér þær af­leiðing­ar að hátíðargest­ir taki frek­ar sterk­ari efni í meira magni áður en þeir fari inn á svæðið, til að koma í veg fyr­ir að verða tekn­ir með efn­in.

Þetta minnir mig á sögu um nokkuð sem væri e.t.v. hægt að kalla sænsku leiðina og snýst um að geta orðið ölvaður í áhorfendastúku á íþróttaleikjum.

Í Svíþjóð er sennilega ekki leyfilegt að selja áfengi til áhorfenda frekar en á Íslandi. Ráð við þessu er að drekka fyrst vænan skammt af feitri mjólk eða rjóma. Fitan klæðir magann að innan. Þar næst er vodka eða öðru sterku áfengi sturtað í sig. Þegar á leikvöllinn er kominn er svo keypt gosdós og hún drukkin. Þá rofnar fitufilman í maganum og áfengið streymir í líkamann. Ölvun næst - tilganginum er náð!

Verði ykkur að góðu!


mbl.is „Varpar ljósi á vinnubrögð lögreglu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér er áætlunin: Kosningar 2017

Stjórnarandstaðan er eitthvað ringluð. Hún man eftir einhverjum loforðum úr fjölmiðlaviðtölum frá því fyrr í sumar. Það mætti kalla þau kosningaloforð - loforð um kosningar. Um leið gerir hún sér grein fyrir því að það eru ekki einstaka þingmenn - jafnvel ekki einstaka ráðherrar - sem geta blásið þingið af. Ef ganga á gegn fyrirmælum stjórnarskrár þarf þingið í heild sinni að kjósa um það og samþykkja slíkt mál. Slíkt hefur ekki verið gert.

Skiljanlega er stjórnarandstaðan ringluð. Hún á við togstreitu að stríða. Nú sýna skoðanakannanir að hún gæti jafnvel náð meirihluta (þ.e. ef hún stendur saman). Það er samt að molna undan þeim meirihluta. Þetta veit stjórnarandstaðan. Hún rígheldur því í loforð einstaka þingmanna eins og þeir geti talað fyrir hönd alls Alþingis.

En gott og vel, segjum að loforð einstaka þingmanna eða ráðherra væru bindandi. Væri þá ekki ráðherraræði á Íslandi? Væri þá framkvæmdavaldið ekki búið að taka yfirhöndina af löggjafarvaldinu? Ekki minnist ég þess að neinn hafi beðið um það. Eða hvað? Eru menn að biðja um það?

Hún er ekki einföld, pólitíkin á Íslandi.

Í millitíðinni er áætlunin þessi: Kosningar í vor 2017.


mbl.is Ekkert samtal átt sér stað um þinglok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimenn sem segja eitt en gera annað

Nú er sagt frá því í fréttum að stjórnmálaflokkurinn Vinstri hreyfingin - grænt framboð hafi skilað rekstrarafgangi á seinasta ári. Athyglisvert er að lesa hvernig það tókst: Með lækkun kostnaðar, sölu eigna og aukinni ráðdeild í rekstri. Kemur fram að flokkurinn hafi skuldað mikið fé og hafi þess vegna ráðist í ýmsar aðgerðir.

Þetta er sami flokkur og boðar að til að fjármagna ýmis útgjöld ríkissjóðs þurfi bara að hækka skatta (eða komast í skattaskjólin sem er auðvitað bara draumsýn).

Ekki veit ég hvernig formaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir, rekur heimili sitt. Kannski kaupir hún allt sem hana langar í strax og raðar útgjöldunum á kreditkortin þar til þau segja stopp. Þá bregst hún hin versta við og heimtar auknar heimildir. Hún skal fá sinn sólskála, kavíar í hádeginu og nýjasta skófatnaðinn!

Eða sýnir hún ráðdeild, lætur tekjur duga fyrir útgjöldum og leggur jafnvel fyrir?

Það verður spennandi að sjá hvor Katrínin kemur upp úr kjörkössunum.


Lofað fyrir annarra manna fé

Vinstrimenn eru sjálfum sér líkir í aðdraganda kosninga. Þeir vilja byggja, veita og styrkja fyrir annarra manna fé. Þegar þeir eru spurðir hver eigi að borga byrjar sami gamli og þreytti söngurinn um að skatta megi hækka á hina tekjuháu. Raunin verður öll önnur.

Óli Björn Kárason segir á einum stað

"Loforð vinstri manna er að innleiða stjórnsýslu og hugmyndafræði meirihluta borgarstjórnar yfir á landið allt. Reykvíkingar þekkja af eigin raun hvernig útgjöldum er forgangsraðað. Þjónusta við eldri borgara er skorin niður og leik- og grunnskólar sitja á hakanum. Borgarfulltrúar ferðast um heiminn til að kynna sér lestarsamgöngur og innheimtur bílastæðagjalda í stórborgum. Í Reykjavík grotna götur niður en hundruðum milljóna er varið í að þrengja meginæðar gatnakerfisins. Reykjavík hefur verið gerð að höfuðborg holunnar. Kvörtunum um lélegan kost í skólum er mætt með því að hækka álögur á barnafjölskyldur. Borgarsjóður er ekki lengur sjálfbær þrátt fyrir að álögur og gjöld á íbúana séu í hæstu hæðum.

Kjósendur geta gert sér sæmilega grein fyrir því hvað bíður handan við hornið, taki vinstri stjórn við völdum að loknum kosningum. Verkin tala og fyrirmyndin liggur fyrir."

Þessu mótmælir varla nokkur nema sá allraóheiðarlegasti. Eða hvers vegna ættu vinstrimenn á Alþingi að stunda önnur stjórnmál en vinstrimenn í Reykjavík?

Raunar hefur vinstristjórn í Reykjavík reynst ágætlega áreiðanleg vísbending um afleiðingar vinstristjórnar á landsvísu eins og menn sjá væntanlega við lestur á þessari grein minni frá 2007. Það sem ég sá ekki árið 2007 var að peningaprentun hafði gengið af göflunum í aðdraganda ársins 2008. Nú eru hættumerkin önnur en vinstrimenn eru ekki að fara bregðast við þeim.

Það er ekki hægt að fjármagna stóraukin ríkisútgjöld með því að skattleggja tekjuháa einstaklinga enn frekar. Tekjuháir eru ekki þeir sem standa undir skattkerfinu. Það gerir meirihluti launafólks - fólk með miðtekjur, þeir sem kaupa sér pulsu, þeir sem kaupa sér bíl, þeir sem standa upp á morgnana til að mæta í vinnuna. Aukin ríkisútgjöld bitna fyrst og fremst á þessum hópi.

Eru menn tilbúnir í slíkt? 


mbl.is Tekjuháir leggi meira til samfélagsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fóstruríkið hugsar fyrir okkur

Á Íslandi er allt sem ekki er sérstaklega leyft bannað. Undantekningar frá þessari reglu er helst að finna á hinum svarta markaði en þangað leitar öll þjónusta og allur varningur sem þykir of erfitt að selja löglega eða er ólöglegt. 

Samkvæmt íslenskum lögum er t.d. leyfisskylt að selja matvæli beint frá býlinu sem framleiðir þau. Lögin mætti túlka sem svo að um leið og lambið er rekið niður af fjallinu byrjar það að verða eitrað. Bóndinn tekur við lambinu og þarf að drífa sig með það í sláturhús. Þar er lambinu slátrað, kjötið skorið, það sett í umbúðir og keyrt í búðir þar sem það bíður í hillum eftir kaupanda.

Ef bóndinn tekur við eitruðu lambinu og slátrar því sjálfur, sker kjötið og selur það beint frá býli er hætta á að sá sem neytir kjötsins fái eitrunina beint í æð. Eitrunin er ekki talin fara fyrr en lambið er búið að ferðast í bíl í sláturhús og bíða þar í langri röð eftir aftöku vottaðra starfsmanna með starfsleyfi. Eitrunin rýrnar svo eftir því sem kjötið ferðast meira innan sláturhússins, að pökkunarvélinni, í kæligeymsluna, í vöruflutninga, í vörumóttökur verslana og endar í hillunum þar sem það stendur í nokkra daga í kæli.

Því fleiri sem handtökin eru í kringum lambakjötið, því minni líkur eru á að það sé ennþá eitrað þegar neytandi fær það loksins í hendurnar.

Nema auðvitað að bóndinn sé með starfsleyfi. 

Fóstruríkið hugsar fyrir okkur. Mörgum finnst það ágætt. 


mbl.is Þurfa leyfi fyrir sölu beint frá býli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband