Bloggfærslur mánaðarins, október 2016
Fimmtudagur, 27. október 2016
Lágtekjuskattar lækka til tilbreytingar
Það heyrir til undantekninga að lágtekjuskattar séu lækkaðir. Nú er stefnt á að það gerist um áramótin þegar tollar á allt nema ákveðnar tegundir matvæla verða hreinlega afnumdir (eins og ég skil fréttirnar).
Lágtekjufólk er sá þjóðfélagshópur sem reykir mest og eyðir hlutfallslega mestum hluta tekna sinna í neysluvarning. Þegar skattar eru hækkaðir á tóbak, áfengi, fatnað, eldsneyti og sykur bitnar það því hlutfallslega mest á lágtekjufólki. Nú á að lækka skatta á þennan þjóðfélagshóp sem er ánægjuleg tilbreyting.
Hátekjufólk nýtur auðvitað líka góðs af lækkun lágtekjuskatta en hlutfallslega miklu minna. Almennar skattalækkanir raunveruleg kjarabót fyrir alla.
Ég vona að Íslendingar styðji þessa viðleitni stjórnvalda og láti eiga sig að styðja málstað þeirra sem vilja auka skattbyrðina og munu gera.
Álögur lækka um 13 milljarða króna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 26. október 2016
Óákveðnum fækkar
Kosningar eru núna á laugardaginn. Það virðist vera að óákveðnum sé að fækka og að fylgi Sjálfstæðisflokksins sé að aukast og að þetta tvennt haldist í hendur.
Þetta eru góðar fréttir fyrir þá sem vilja ekki vinstristjórn. Á hinn bóginn eru þetta engar sérstakar fréttir fyrir þá sem fyrirlíta Sjálfstæðisflokkinn og heldur ekki þá sem vilja halda Framsóknarflokknum frá völdum. Sá flokkur er enn sem komið er sá hentugasti fyrir Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórnarsamstarfi. Kostnaðurinn er að vísu hár - landbúnaðarkerfið helst óbreytt og eitthvað eitt, dýrt kosningaloforð þarf að uppfylla fyrir Framsóknarflokkinn - en hinn kosturinn - vinstristjórn - er miklu verri.
Persónulega hafði ég lengi vonað að Viðreisn tækist að verða að 15-20% flokki, að Sjálfstæðisflokkurinn fengi um 30-35% fylgi og að þessir tveir flokkar gætu farið í ríkisstjórn saman, e.t.v. með Bjarta framtíð sem varahjól ef eitthvað vantaði upp á. Því miður telur Viðreisn sig samt eiga meiri samleið með vinstriflokkunum en þeim eina til hægri (eða þeim eina aðallega skipaðan hægrimönnum) - líklega vegna ESB-áhuga vinstriflokkanna. Annaðhvort hefur Viðreisn afhjúpað sig sem vinstriflokk í raun (og getur þá séð fram á að margir hægrimenn yfirgefi herbúðir hennar fljótlega) eða er svo upptekin af einu máli - aðild að ESB eða upptöku evrunnar - að hún lætur öll önnur málefni raðast miklu neðar á forgangslistann.
Vonandi ber Íslendingum gæfa til að forðast vinstristjórn. Sjáum hvað setur.
Sjálfstæðisflokkur með 25,1% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 25. október 2016
Konur fá hærri laun en karlmenn, ekki lægri
Það kemur eflaust mörgum á óvart en rannsóknir hafa sýnt að konur fá hærri laun en karlmenn fyrir sambærilega vinnu.
Menn þurfa bara að bera saman epli og epli en ekki epli og appelsínur og þá blasir þetta við rannsakendum.
Flestar rannsóknir taka einhverja hópa af mönnum og konum, leiðrétta fyrir hinu og þessu, og komast svo að einhverri niðurstöðu - að laun allra karla séu svo og svo há og laun allra kvenna svo og svo há.
Þetta er misvísandi. Það sem þarf að bera saman er einstaklinga með sambærilegan fjölda ára á vinnumarkaði í sambærilegi stöðu í lífinu. Og hérna rústa konurnar karlmönnunum:
And among unmarried college-educated men and women between forty and sixty-four, men earn an average of $40,000 a year and women earn an average of $47,000 a year!
Örstutta útgáfan er sú að barneignir bitna á launakjörum mæðra frekar en feðra. Barneignir þýða fjarvera frá atvinnumarkaði og þar með styttri starfsaldur í raun. En af hverju er það svona hræðilegt? Er engin ánægja fólgin í barneignunum sem slíkum? Af hverju að afneita því að barneignir krefjast nærveru og viðveru heima sem bitnar á tímunum sem hægt er að eyða á vinnustaðnum og þar með þeirri þjálfun og reynslu sem leiðir til launahækkana?
Þeir sem tala niður til kvenna með börn og einblína á launakjörin gleyma því óefnislega sem barneignir gefa af sér.
Á systir mín að fá minni vasapening? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 23. október 2016
Verðtryggingin er val
Þeir eru margir til sem bölva verðtryggingunni. Það gleymist samt oft að hún er val. Menn þurfa ekki að taka verðtryggð lán. Yfirleitt virðist fólk samt velja það gegn fastri vaxtaprósentu umfram verðatyggingar.
Verðtryggingin er afleiðing vandamáls en ekki uppspretta þess. Hún er vörn lánveitenda gegn rýrnandi kaupmætti gjaldmiðils. Sú rýrnun er eingöngu á ábyrgð útgefanda peninganna.
Auðvitað bætast við flækjustig. Ágætur maður benti mér á að verðtryggingin ein og sér er hugsanlega uppspretta aukningar á magni peninga í umferð. Verðtryggingin byggir líka á mjög gölluðum útreikningum á kaupmætti krónunnar, t.d. þegar verð hækkar á einhverjum mörkuðum vegna heimatilbúinnar takmörkunum á framboði í umhverfi vaxandi eftirspurnar (t.d. á húsnæði í Reykjavík).
Hinn valkosturinn, að banna verðtryggingu, er sá að vaxtastig á hinum og þessum lánum sé á fleygiferð af mörgum ástæðum: Breytinga á magni peninga í umferð, ótta við fjögurra flokka vinstristjórn, eldgoss sem hindrar ferðamannastrauminn og þess háttar.
En af hverju að banna fólki að fá sér pulsu með öllu af því sumum finnst sinnep vont? Má þá ekki frekar taka chili-piparinn úr sinnepinu ef komið hefur í ljós að hann hefur ranglega verið blandaður við uppskriftina?
Vaxtaokrið áþján íslenskra heimila | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 22. október 2016
Þessi maður sem kaupir glænýja íbúð og endurnýjar allt
Til er sú tegund af manneskju sem þarf að endurnýja allt reglulega af ýmsum ástæðum. Stundum verður hann bara að breyta til því hann fær fljótt leið á hlutum, fólki og aðstæðum. Hann fær sér nýja eldhúsinnréttingu þótt ekki sjái á þeirri gömlu, sem um leið er frekar ný. Hann flakkar á milli vinahópa í leit að meira fjöri eða meiri athygli. Hann skiptir um vinnu við minnsta mótlæti. Hann getur ekki unað sér þótt allt sé í raun í góðu lagi og þótt breytingar væru jafnvel til hins verra.
Þessi tegund manneskju er stór hluti íslenskra kjósenda. Íslenskir kjósendur segjast ætla að kjósa flokka sem vilja "endurræsa" kerfið eða breyta því í grundvallaratriðum, henda stjórnarskránni og gera Ísland að lítilli skrifstofu í Evrópusambandinu. Þó blasir við að á Íslandi eru aðstæður með því besta sem gerist í heiminum á næstum því öllum hugsanlegum mælikvörðum.
70 mælikvarðar sem segja allir það sama
Hver getur rennt yfir þennan lista og sagt að það sé eitthvað mikið að á Íslandi? Og að stjórnlyndir vinstrimenn geti gert betur í fjögurra flokka ríkisstjórn? Hver getur sagt að eitthvað annað ríki sé í betri málum heilt á litið? Sennilega fáir. Það helsta sem menn geta borið á borð er að kvarta yfir einhverjum afkima í eigin lífi sem mætti gera betur við. Fæstir stinga samt upp á skattalækkunum og afnámi einhverrar ríkiseinokunarinnar sem lausn. Unglingurinn vill fá að vaka lengur og drekka áfengi en treystir sér samt ekki til að flytja að heiman og standa á eigin fótum.
Ég er enginn sérstakur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins en ég veit að ef hann kemur ekki að næstu ríkisstjórn og fær að halda fjármálaráðuneytinu þá finnast 70 mælikvarðar sem flestir munu taka stefnuna í ranga átt fyrir Íslendinga.
Miðvikudagur, 19. október 2016
Kjörtímabilið verður styttra af öðrum ástæðum
Í frétt segir:
Píratar telja mikilvægt að komist þeir í ríkisstjórn verði lögð áhersla á að afgreiða nýja stjórnarskrá eins fljótt og auðið er. Fyrir vikið telji þeir æskilegt að næsta kjörtímabil verði styttra en fjögur ár svo hægt verði að afgreiða nýja stjórnarskrá.
Eitt er víst: Komist fjögurra flokka vinstristjórn til valda verður kjörtímabilið stutt en ekki af því hraða þarf úthreinsun á allri stjórnskipun Íslands heldur af því þessir flokkar munu aldrei verða sammála um neitt annað en að hækka skatta.
Til valda kemst svo líklega aftur ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins sem þarf aftur að byrja hið langdregna ferli að vinda ofan af skattahækkununum, rétta af ríkisreksturinn og afnema boð og bönn.
Píratar fá kannski ósk sína uppfyllta en með þeim afleiðingum að þeir þurrkast út af yfirborði jarðar eða verða gleyptir af Vinstri-grænum.
Stutt kjörtímabil og utanþingsráðherrar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 15. október 2016
Háskóli Íslands og umræðan
Vísindamenn stæra sig oft af því að vera leiðandi afl í opinni umræðu þar sem skipst er á skoðunum á opinskáinn hátt og vandamál krufin til mergjar.
Þetta virðist samt vera liðin tíð.
Í staðinn er Háskóli Íslands og systurháskólar hans víða orðnir að boðberum pólitísks rétttrúnaðar. Óvinsælar skoðanir eru ekki ræddar og rökræddar heldur er allt gert til að kæfa þær.
Ein afleiðingin er t.d. sú að menn eru byrjaðir að lýsa því yfir að "algild sátt" eða "consensus" sé orðin raunin í mörgum fræðigreinum, t.d. loftslagsvísindum. Aldrei hefur það áður gerst í sögunni að algild sátt hafi náðst um flókin vísindaleg viðfangsefni fyrr en í dag. Þeir sem andmæla eru kallaðir afneitarar.
Vonandi verður Háskóla Íslands hér veitt nauðsynlegt aðhald svo honum takist ekki að stinga neinu viðfangsefni ofan í læsta skúffu.
Var aðeins að kynna önnur sjónarmið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 12. október 2016
Í nafnleysinu fær fólk útrás
Á Íslandi er málfrelsi. Hver sem er má segja hvað sem er við hvern sem er án þess að óttast annað en að einhver segi eitthvað á móti. Enginn er beittur ofbeldi fyrir skoðanir sínar eða orðanotkun. Enginn er fordæmdur af því að hann eða hún sagði eitthvað en fólk hefur auðvitað rétt á að taka ekki mark á órökstuddum skoðunum sem lýsa frekar tilfinningaástandi þess sem talar en staðreyndum lífsins.
Nei, svona er það ekki.
Raunin er sú að margir eru feimnir við að segja skoðanir sínar af ótta við fordæmingar, upphrópanir, útilokanir og jafnvel hótanir um ofbeldi. Sumir verða jafnvel fyrir ofbeldi fyrir það eitt að segja skoðanir sínar. Nei, ég er ekki að tala um Saudi-Arabíu.
Hvað gerist þá? Hverfa hinar óvinsælu skoðanir? Nei. Þær fara í felur í litla kjaftaklúbba eða á vefsíður þar sem hægt er að tjá sig nafnlaust. Þar blómstra þessar skoðanir óáreittar og magnast jafnvel upp.
Þetta angrar samt ekki siðapostulana sem þykjast vera að reyna útrýma kynþáttafordómum, karlrembu eða efasemdum um lífsstílsval annarra. Það sem siðapostularnir heyra ekki angrar þá ekki og þeim af alveg nákvæmlega sama um afleiðingarnar af því að bæla niður óvinsælar skoðanir.
Ég segi: Leyfið rasistanum að tjá sig í löngu máli og rökstyðja mál sitt bæði út frá staðreyndum og tilfinningum. Eigum við hann opinskáar samræður með það markmið að hafa áhrif á skoðanir hans og sveigja í átt að okkar eigin.
Leyfið nýnasistanum að afneita Helförinni, biðja til Hitler og lofsama samþjöppun ríkisvaldins í bæði Evrópu og Bandaríkjunum í nafni skilvirkni og áætlanagerðar. Mætum máli hans með rökum og yfirveguðum hugleiðingum.
Leyfið þeim sem telja homma vera syndara að tjá sig opinskátt án upphrópana og hótana um þöggun.
Leyfið allt þetta og annað óvinsælt og tökum slaginn með pennanum.
Því hver veit, kannski læra þá helvítis femínistabeyglurnar og sjálfsupphafnir menntasnobbararnir í fílabeinsturninum að meta opinskáa rökræðu og gefast upp á útskúfunaraðferðinni og vandlætingunni.
Von'að þú fjölgir þér ekki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 10. október 2016
Já en ...
Lögreglan er alltaf fjársvelt. Það liggur í augum uppi. Lagasafnið er alltaf að stækka og eftir því sem meira er bannað, því meiri löggæslu þarf til. Löggjafarvaldið er alltaf tilbúið að banna eitthvað nýtt en hikar við að fjármagna nauðsynlega löggæslu.
En sem betur fer, segi ég nú bara. Að hugsa sér ef næg lögregla væri til staðar til að fylgja eftir öllum lögum! Það væri hræðilegt. Lögreglumann þyrfti þá til að vakta umræður í heitum pottum landsins enda kæmu þar fram ærumeiðandi fullyrðingar um kynferði, trú, kynhneigð og annað sem þyrfti að taka á. Lögreglan þyrfti að heimsækja hvert einasta unglingapartý til að hella niður landa, skoða skilríki og keyra krakka heim. Öll viðskipti þyrfti að vakta til að tryggja að réttur virðisaukaskattur væri reiknaður af kassalausa reiðufénu sem skiptir um hendur.
En sem betur fer er löggæslan minni en sem svarar magni löggjafar.
Hvað er þá til ráða? Á að halda löggæslunni fjársveltri eins og það er svo snyrtilega orðað?
Hér getur lögreglan sjálf sýnt frumkvæði. Hún hefur ákveðið svigrúm til að forgangsraða verkefnum sínum. Í stað þess að ofsækja ungmenni á tónlistarhátíðum, elta uppi ökumenn á fáförnum þjóðvegum og heimsækja afskekkta sveitabæi til að skoða plöntusafn þeirra gæti hún gert annað: Staðið vaktina og verið til þjónustu reiðubúin þegar raunveruleg afbrot eru framin - ofbeldisglæpir, þjófnaðir og skemmdarverk.
Lögreglan þarf að átta sig á því að hún er einokunarfyrirtæki sem verðleggur óhjákvæmilega þjónustu sína rangt. Það skásta í stöðunni er því að forgangsraða í þágu raunverulegra glæpa.
Menn eru stundum einir á vakt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 10. október 2016
Ríkisstjórnarmunstur og frjálshyggja
Það er ekki einfalt að greina ástandið í hinu pólitíska landslagi á Íslandi í dag. Enn eru margir kjósendur óákveðnir og margt gæti gerst á næstu vikum.
Persónulega er ég að vona að til samstarfs komi á milli Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar. Þriðja hjólið gæti þá verið Björt framtíð (ef þeir ná mönnum inn). Þá yrði jafnvel mögulegt að taka landbúnaðarkerfið til gagngerrar endurskoðunar og takast á við viðskiptahöftin við útlönd og klára afnám gjaldeyrishaftanna.
Ég hef engar áhyggjur af ESB-áhuga Viðreisnar og Bjartrar framtíðar né löngun þeirra til að gera róttækar breytingar á stjórnarskránni eða fiskveiðikerfinu. Allt eru þetta háfleygar hugmyndir með litla jarðtengingu.
Ef Framsóknarflokkurinn yrði þriðja hjólið væri líklega ekki hægt að hrófla við landbúnaðarkerfinu. Þó mætti halda áfram að lækka skatta og auka við einkarekstur á ýmsum sviðum. Framsóknarflokkurinn þarf svo að fá leyfi til að uppfylla eitthvað eitt brjálæðislegt kosningaloforð.
Svo virðist sem Viðreisn sé samt byrjuð að daðra við Pírata og vilji almennt teygja sig til vinstri. Verði þeim að góðu. Vinstriflokkarnir brenna allar brýr að baki sér og Píratar geta ekki einu sinni verið sammála sjálfum sér, hvað þá öðrum.
Sjáum hvað setur.