Bloggfærslur mánaðarins, október 2016
Mánudagur, 31. október 2016
Svona geta fyrirtæki ekki hagað sér
Landspítalinn segir að honum vanti marga tugi milljarða á næstu árum. Gott og vel, það má vel vera. Ekki ætla ég að efast um Excel-hæfileika starfsmanna Landspítalans. Það má benda á hitt og þetta og segja að með meira fé væri hægt að gera meira og betur.
Það er hins vegar hollt að hafa í huga að svona geta einkafyrirtæki ekki hagað sér. Þau geta ekki gefið út að þeim vanti einhverja milljarða og ætlast til að viðskiptavinirnir hlaupi inn um dyrnar og afhenti þá. Einkafyrirtæki þurfa að afla milljarðanna með viðskiptum. Þau þurfa að bjóða upp á aðlaðandi húsnæði, hæfa starfsmenn, gott verðlag, góða þjónustu og kynna þetta allt saman með auglýsingum. Þá fyrst geta þau vonast til að milljarðarnir skili sér.
En þetta er jú einmitt vandamál ríkisrekstursins. Í honum er ekki hægt að vega kostnað á móti ávinningi. Honum vantar þau skilaboð sem frjálst verðlag gefur.
Gleraugnabúðir og einkaaðilar í heyrnatækjaþjónustu geta rekið ábatasaman heilbrigðisþjónustu fyrir sjóndapra og heyrnaskerta en um leið boðið upp á nýjustu tækni á hagkvæmum kjörum. Þeir bjóða upp á aðlaðandi umhverfi, hæft starfsfólk og gott verðlag og keppa sín á milli um viðskiptavinina. Stundum gengur það upp, stundum ekki. Verðlagsskilaboðin tryggja hins vegar að fjármunum er varið þar sem þeirra er mest þörf.
En gott og vel - Íslendingar vilja ekki hagkvæman rekstur heilbrigðisþjónustu almennt. Þeir vilja blindan og heyrnalausan ríkisrekstur, vafinn inn í íþyngjandi kjarasamninga opinberra starfsmanna, og telja að það sé það besta sem í boði er. Íslendingar neita að líta til hins blandaða kerfis hinna Norðurlandanna þar sem hið opinbera og einkaaðilar starfa saman á tryggingamarkaði þar sem pláss fyrir bæði skattfé og iðgjöld í tryggingar. Hið sovéska fyrirkomulag heillar Íslendingar meira. Fjárþörf Landspítalans er kannski rétt, kannski ekki. Engin leið er að segja til um það.
Þó má teljast líklegt að stjórnmálamenn vilji borga brúsann enda ekki verið að byggja Hörpu, þýða regluverk ESB og tilskipanir þess að fullu, semja nýja stjórnarskrá og fjármagna Landsdóm í blússandi niðursveiflu í hagkerfinu.
Vantar 66 milljarða næstu fimm ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 31. október 2016
Forseti taki sér hlé fram yfir áramót til að hugsa málið
Ég er með málamiðlunartillögu vegna komandi stjórnarmyndunarviðræðna. Hún er sú að forseti taki sér hlé fram yfir áramót til að hugsa málið því eitthvað er að reynast honum erfitt að sjá það sem blasir við. Núverandi fjárlagafrumvarp verður að lögum, skattar lækka lítillega, tollar heyra sögunni til, fjármálahöftin losna enn frekar og fyrirtæki og heimili njóta þess stöðugleika sem óstarfhæft þing leiðir af sér.
Eftir áramót er svo hægt að mynda einhverja stjórn sem annaðhvort heldur áfram á núverandi braut hægfara en jákvæðra breytinga eða tekur upp þráðinn þar sem fráfarandi ríkisstjórni skildi hann eftir og hækkar skatta á að meðaltali tveggja vikna fresti. En almenningur fær a.m.k. frí fram yfir áramót.
Fimm flokka stjórn enn í forgangi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 31. október 2016
Skattar verða aldrei lækkaðir í Reykjavík á meðan vinstrimenn ráða þar ríkjum
Við fyrirsögnina hef ég engu að bæta núna.
Leggja til áframhaldandi hámarksútsvar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 31. október 2016
Píratar hafa toppað flugið
Píratar hafa sennilega náð hápunkti sínum í kosningum. Fylgið mun nú smátt og smátt leka af þeim. Þeir voru ferskir og óþekktir í upphafi og það var sennilega vinsælt. Þegar kom að kosningabaráttu neyddust þeir hins vegar til að mynda sér afstöðu og gátu ekki lengur setið hjá í umræðum. Þá kom í ljós að þarna var á ferð hefðbundinn vinstriflokkur. Af þeim er alveg nóg framboð og miklu meira en eftirspurn þannig að verðið hlýtur að lækka.
Þetta er að mörgu leyti synd því Píratar hafa vakið áhuga stórs hóps fólks á stjórnmálum - sérstaklega meðal yngri kjósenda. Ekki nenna þeir að vísu að mæta á kjörstað en það er önnur saga. Stjórnmálaumræðan hefur verið líflegri en ella vegna Pírata. Þeir hafa laðað að sér fólk sem hefði að öðrum kosti ekki spreytt sig í stjórnmálabaráttunni, frá hörðustu kommúnistum til hörðustu frjálshyggjumanna. Kannski var viðbúið að kommúnista-armurinn næði yfirhöndinni en frjálshyggjumenn innan Pírata hafa þó reynt að hafa áhrif. En reyna líklega ekki mikið lengur.
En núna hafa Píratar náð hápunktinum á flugi sínu. Hvort einhver annar flokkur eða önnur samtök koma í staðinn inn sem ferska, óþekkta aflið skal ósagt látið.
Hefði átt að þvo vinstristimpilinn af | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 30. október 2016
Nýtt blóð en engin reynsla
Ákveðin endurnýjun er nauðsynleg í öllu starfi, hvort sem það er í húsfélagi, knattspyrnuliði eða á Alþingi. Þó þarf að passa að ákveðin reynsla sé líka alltaf með í spilunum. Engum heilvita íþróttaþjálfara dytti í hug að henda út öllum gömlu kempunum þótt æstur hópur yngri leikmanna vilji spila fyrir aðalliðið og hefði til þess líkamlega getu. Þeir sem vilja "endurræsa" er að rugla saman tölvuviðgerðum og heilbrigðri hópavinnu.
Hin mikla endurnýjun sem átti sér stað á Alþingi árið 2009 og aftur árið 2013 hefur ekki endilega bætt störf Alþingis. Menn hafa þar reynt að láta á sér bera með óhefðbundnum klæðnaði, orðalagi og verklagi frekar en að stuðla að markvissri starfsemi þingsins.
Hin mikla endurnýjun að þessu sinni verður vonandi til þess að bæta störf þingsins frekar en hitt. Menn reyna vonandi að nýta sér reynslu þeirra reynslumeiri frekar en að nota ræðupúlt þingsins til að vekja á sér persónulega athygli.
Að lokum vil ég óska Sjálfstæðisflokknum góðs gengis í komandi stjórnarmyndunarviðræðum (því það blasir við að hann hljóti það umboð). Ég vona að hann nái saman við Viðreisn og Bjarta framtíð en til vara Framsóknarflokkinn og haldi áfram að berjast fyrir skuldalækkun ríkisins og skattalækkunum á almenning og fyrirtæki í landinu.
Hverjir eru nýju þingmennirnir? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 30. október 2016
Möguleikar
Tveir augljóslega skárstu kostirnir fyrir ríkisstjórn blasa við:
D+B+C = 21+8+7 = 36
D+C+A = 21+7+4 = 32
Báðir hafa kosti og galla. Sjáum hvað setur.
Laugardagur, 29. október 2016
Er Ísland tilbúið í ríkissjóðahrunið?
Haustið 2008 var hrun hins alþjóðlega fjármálakerfis. Stórir bankar fóru á hausinn. Aðrir voru gleyptir af hinu opinbera eða fengu lán úr vösum skattgreiðenda. Yfirskuldsett fyrirtæki fóru á hausinn. Margir töpuðu miklu fé. Sársaukinn var mikill fyrir marga. Þetta voru samt bara bankar. Verksmiðjur stóðu ennþá. Ríkissjóðirnir gátu ennþá fjármagnað hinn opinbera rekstur.
Næsta hrun verður af öðru tagi - eins konar bankahrun á sterum. Hér hrynja ekki bara bankar heldur líka ríkissjóðir. Ítalía, Grikkland, Spánn og jafnvel Frakkland, Portúgal og fleiri ríki munu ramba á barmi gjaldþrots. Það er ekkert gÅ•ín að búa í gjaldþrota ríki. Hver á að bjarga öllum þessum ríkissjóðum? Einhverjir sjóðir? Kínverjar byrja sjálfsagt að kaupa sig inn í evrópsk ríkisskuldabréf í auknum mæli til að eignast hlutdeild í verðmætasköpun álfunnar. Ýmislegt ófyrirsjáanlegt mun eiga sér stað.
Er Ísland tilbúið í þennan veruleika?
Já og nei.
Það hefur verið gæfa Íslands að undanfarin fjögur ár hefur tekist að greiða niður megnið af skuldum hins opinbera. Samkeppnishæfni landsins er einnig að vaxa svolítið. En hvað á Ísland að gera ef ferðamenn hafa ekki lengur efni á því að heimsækja landið? Fellur þá allt hagkerfið? Getur sjávarútvegurinn haldið áfram að standa fyrir sínu? Á kannski að mjólka hann til dauða áður en þörfin fyrir verðmætasköpun hans verður meiri en nokkru sinni fyrr?
Nú hef ég svo sem engin svör við komandi hörmungum önnur en þau að skuldir eru slæmar og að ekki dugi að veðja öllum sparnaðinum á eitthvað eitt.
Það er gott að eiginfjárstaða Íslendinga hefur náð sér á strik undanfarin misseri og að skuldir þeirra hafi lækkað.
Það er gott að viðskiptahindranir við útlönd hafi hörfað, t.d. með afnámi vörugjalda og komandi afnámi næstum því allra tolla.
Er þetta nóg til að verja sig fyrir ríkissjóðahruninu? Um það er erfitt að spá.
Ég vona að Íslendingar geri sig tilbúna. Þeir munu ekki sleppa óskaddaðir þótt þeir séu að mörgu leyti betur undirbúnir en margir aðrir.
Föstudagur, 28. október 2016
15 tíma vinnuviku!
Ég ætla að bjóða betur en nokkur stjórnmálaflokkur og lofa öllum 15 tíma vinnuviku! Hvernig? Jú, sjáið til. Ein möguleg útfærsla er sú að vinna 7,5 tíma á mánudegi og 7,5 tíma á þriðjudegi og vinna ekki meira þá vikuna. Voila!
Önnur útfærsla er sú að vinna 3 tíma á dag 5 daga vikunnar.
Sjá ekki allir hvað þetta er einfalt?
En alltaf þurfa einhverjir afturhaldssinnar að mótmæla og segja: Fólk fær varla borgað nóg af það vinnur bara 15 tíma á viku. Þarf ekki að skylda fyrirtækin til að halda laununum óbreyttum?
Við því er ekki hægt að segja annað en jú - fyrirtæki verða að halda áfram að borga sömu laun þótt vinnuvikan sé stytt úr 40 tímum í 15 tíma. Þau geta það auðvitað ekki og slík kvöð dregur úr þeim þrótt en þetta er svo mikið réttlætismál að slíkt á ekki að ræða.
En þá segir einhver: Getur fólk ekki bara tekið á sig smá skerðingu í staðinn fyrir 5 tíma meiri frítíma? Hafa ekki margir það svo gott á 40 tímum að þeir geta leyft sér að vinna minna og fá minna í laun?
Við því er ekki hægt að segja annað en nei - þetta á ekki að vera eitthvað einkamál hvers og eins.
Enn er spurt: Eru ekki til þeir sem vilja vinna mikið eina vikuna til að geta unnið lítið aðra vikuna? Hvað á að gera við slíkt fólk?
Slíkt á auðvitað að banna. Vinnuvikan er ákveðinn tímafjöldi sem þingmenn koma sér saman um. Hann er ekki eitthvað samkomulag launþega og atvinnuveitenda.
Ég segi: Gleymið þessu ömurlega tilboði um 35 tíma vinnuviku og takið þátt í minni byltingu fyrir 15 tíma vinnuviku! Því ef launþegar komast ólaskaðir frá 35 tíma vinnuviku með valdboði þá komast þeir ólaskaðir frá 15 tíma vinnuvikunni. Það gefur augaleið.
Styttri vinnuvika innan seilingar? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 28. október 2016
Bankahólfin fyllast ef vinstristjórn nær völdum
Í tíð seinustu ríkisstjórnar flúði margt fólk með verðmæti eins og reiðufé og dýra hluti í bankahólf. Eftirspurnin var slík að það var orðið erfitt að fá bankahólf og bankarnir gengu vitaskuld á lagið og hækkuðu verð á slíkri leigu.
Komi í ljós á sunnudaginn að vinstriflokkarnir (auk Viðreisnar) nái meirihluta legg ég til að það fyrsta sem fólk geri á mánudaginn er að koma sparnaði sínum í reiðufé og þefi uppi bankahólf fyrir það og aðrar verðmætar eigur sem skatturinn veit af.
Þeir sem eiga hlutabréf ættu að selja þau. Þeir sem hafa lánað hinu opinbera fé ættu að innkalla þau lán.
Þeir sem hafa möguleika á því ættu að sækja um starf hjá hinu opinbera og þá helst í stjórnsýslunni. Þar verður seinast skorið niður, sama hvað bjátar á. Raunar mun komandi aðlögun að ESB krefjast mikils fjölda þýðenda og annarra í stjórnsýslunni. Þar eru því atvinnutækifæri þótt þau séu vissulega ólystug enda á kostnað skattgreiðenda sem sjá fram á myrkari tíð.
Þeir sem eru að byggja hús ættu að hætta því strax. Hið opinbera er á leið inn á fasteignamarkaðinn og mun þar nota lánsfé úr vösum skattgreiðenda til að flæma einkaaðila þar út.
Þeir sem eru í viðræðum við erlend fyrirtæki um uppbyggingu á Íslandi ættu að setja þær viðræður á ís og athuga hvort ekki sé hægt að fá einhverja skattaívilnun frá komandi stjórnvöldum. Ber þá að fylgjast vel með því úr hvaða kjördæmum komandi ráðherrar koma upp á staðsetningu á hinni erlendu starfsemi.
Þeir sem hafa tök á því að greiða skuldir sínar ættu að gera það hið fyrsta. Framundan er verðbólga.
Ég segi ekki að Sjálfstæðisflokkurinn sé gallalaus. Hann er að mörgu leyti vinstriflokkur. Sem slíkur er hann samt skástur allra slíka á Íslandi. Verði honum haldið utan stjórnar ber að fylgja leiðbeiningum mínum vel eftir.
Sjálfstæðisflokkur fram úr Pírötum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 27. október 2016
Ég skil ekki alveg ...
Í fréttum er nú sagt frá því [1|2] að erlendir eigendur svokallaðra aflandskróna veðja á að ný stjórnvöld í kjölfar kosninganna verði þeim hagstæðari en þau sem nú sitja. Þetta skilur stjórnarandstaðan í dag ekki. Hún segir að menn hafi staðið saman.
Fyrir þá sem skilja ekki er e.t.v. rétt að útskýra afstöðu hinna erlendu krónueigenda. Þeir telja greinilega að það hafi verið auðveldara að fást við Steingrím J. Sigfússon, ráðherra hinna týndu fundargerða, en Bjarna Benediktsson. Þeir telja sig greinilega hafa hagnast meira á hinni íslensku vinstristjórn en núverandi ríkisstjórn. Þeir telja greinilega að hné íslenskra vinstrimanna séu veikari en þeirra sem nú skipa ríkisstjórnina.
Þetta viðhorf er byggt á reynslu og því að menn eru hér að reyna varðveita eignir sínar og taka því ekki ákvarðanir að gamni sínu. Þeir eru ekki að giska út í loftið. Þeir taka alla sína reynslu og þekkingu og hagsmuni og komast að þessari niðurstöðu.
Auðvitað er erfitt að spá fyrir um framtíðina og segja til um hver gerir hvað. Íslenskir vinstrimenn eru samt alræmdir fyrir allskyns baktjaldaákvarðanir sem skilja ekki eftir sig neina pappírsslóð. Á það veðja erlendir krónueigendur.
Menn hafa staðið saman | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |