Verðtryggingin er val

Þeir eru margir til sem bölva verðtryggingunni. Það gleymist samt oft að hún er val. Menn þurfa ekki að taka verðtryggð lán. Yfirleitt virðist fólk samt velja það gegn fastri vaxtaprósentu umfram verðatyggingar.

Verðtryggingin er afleiðing vandamáls en ekki uppspretta þess. Hún er vörn lánveitenda gegn rýrnandi kaupmætti gjaldmiðils. Sú rýrnun er eingöngu á ábyrgð útgefanda peninganna.

Auðvitað bætast við flækjustig. Ágætur maður benti mér á að verðtryggingin ein og sér er hugsanlega uppspretta aukningar á magni peninga í umferð. Verðtryggingin byggir líka á mjög gölluðum útreikningum á kaupmætti krónunnar, t.d. þegar verð hækkar á einhverjum mörkuðum vegna heimatilbúinnar takmörkunum á framboði í umhverfi vaxandi eftirspurnar (t.d. á húsnæði í Reykjavík). 

Hinn valkosturinn, að banna verðtryggingu, er sá að vaxtastig á hinum og þessum lánum sé á fleygiferð af mörgum ástæðum: Breytinga á magni peninga í umferð, ótta við fjögurra flokka vinstristjórn, eldgoss sem hindrar ferðamannastrauminn og þess háttar.

En af hverju að banna fólki að fá sér pulsu með öllu af því sumum finnst sinnep vont? Má þá ekki frekar taka chili-piparinn úr sinnepinu ef komið hefur í ljós að hann hefur ranglega verið blandaður við uppskriftina?


mbl.is Vaxtaokrið áþján íslenskra heimila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Góður. Þetta með pulsuna er ansi góð samlíking. Það skiptir nefnilega engu máli hvað þú færð þér á hana. Hún kostar alltaf það sama.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 23.10.2016 kl. 02:30

2 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Það er ekkert til sem heitir óverðtryggt lán í þessu umhverfi sem ríkir hér. Lánveitendur tryggja sig einfaldlega fyrir verðtryggingunni með því að vera með auka vexti 2-3 % ofan á sem eiga að dekka verðtrygginguna. Í dag eru þessi lán óhagkvæmari vegna þess að verðbólga er engin.

Jósef Smári Ásmundsson, 23.10.2016 kl. 06:49

3 identicon

loksins er kominn formaður Neytendasamtakanna sem vill vinna að því að neytendur fái húsnæðislán með sanngjörnum vöxtum. Þetta er stærsta hagsmunamál íslenskra neytenda.Vaxtaokrið á óverðtryggðum lánum er svakalegt og verðtryggingin gerir lánin mjög áhættusöm fyrir lántakendur. Að höfuðstóll láns skuli hækka þegar meiri skattur er lagður á brennivín og tóbak er með ólíkindum.

Margret S (IP-tala skráð) 23.10.2016 kl. 08:16

4 identicon

Verðtrygging er val segir síðuhafi. Já menn geta valið um verðtryggingu eða breytilega vexti sem er verðtrygging í annari mynd. Þvílíkt val.

Enda hvernig eiga Elítan og afæturnar að lifa ef við afnemum verðtrygginguna og vaxtaokrið? Þá má reikna með að menn fari að snúa sér að iðnmenntun aftur.

Steindór Sigurðsson (IP-tala skráð) 23.10.2016 kl. 13:09

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Er verðtrygging val? Tæknilega er það auðvitað val hvers og eins hvort þeir taki verðtryggð lán eða ekki. Hins vegar á meðan einhverjir gera það og sérstaklega þegar margir gera það, þá hefur það skaðleg áhrif á hagkerfið í formi aukinnar verðbólgu og óstöðugleika. Þessi skaðlegu áhrif lenda á öllum sem lifa í hagkerfinu, líka þeim sem völdu ekki að taka verðtryggð og þeim sem hafa jafnvel engin lán tekið. Þessir hópar hafa aldrei fengið val um það hvort þeir fái að búa í hagkerfi sem er laust við skaðleg áhrif verðtryggingar eða ekki.

Það má líkja þessu við hverja aðra mengun sem hefur skaðleg áhrif á umhverfið og skerðir þannig lífsgæði allra. Það má svo sem alveg segja að það sé frjálst val hvort maður mengar umhverfið eða ekki. Fyrir aðra sem verða fyrir skaðlegum áhrifum af þeirri mengun er það ekki frjálst val. Mörk frelsisins enda þar sem það er farið að skerða frelsi annarra. Þess vegna höfum við ákveðið að banna ýmis form mengunar, til dæmis er almennt ekki heimilt að sleppa eitruðu lofttegundum út í andrúmsloftið. Flestir eru sammála um að það sé skynsamlegt. Með samskonar rökum er nauðsynlegt að stemma stigu við verðtryggingu, því hún skaðar umhverfið.

Verðtrygging er ekki afleiðing vandamáls, heldur ákvörðun, og ekki léttvæg heldur mjög slæm ákvörðun. Sú ákvörðun hefur haft í för með sér skelfilegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf. Þannig er verðtrygging ekki nein óhjákvæmilega afleiðing heldur orsakavaldur og sjálfstætt vandamál.

Verðtrygging er vörn lánveitenda gegn rýrnandi kaupmætti gjaldmiðils, en sú rýrnun er eingöngu á ábyrgð útgefanda peninganna þ.e. lánveitendanna sjálfra. Þannig má líkja stöðu þeirra við aðila sem hefur aflað sér brunatryggingar á hús nágranna síns, og hefur þannig beinan ávinning af því að hús nágrannans brenni. Þegar tryggingafélög voru fyrst stofnuð í London á 17. öld var það ekki fyrr en eftir íkveikjufaraldur sem tryggingafélög gerðu sér grein fyrir því hversu afleit hugmynd það væri að leyfa mönnum að kaupa brunatryggingu á hús nágranna síns. Á Íslandi er hinsvegar enn til fólk sem skilur ekki hversu galið slíkt fyrirkomulag er. Þess vegna sitjum við uppi með lánakerfi sem er yfir 80% mengað af skaðlegri verðtryggingu.

Afnemum verðtryggingu og komum böndum á þá peningaprentun sem hún hefur í för með sér og hefur valdið hagkerfinu ómældu tjóni frá upptöku hennar. Setjum svo lög um fast peningamagn í umferð (verðtryggjum krónuna sjálfa) og þá yrði óþarfi, hrein markleysa, að verðtryggja fjárskuldbindingar í þeim gjaldmiðli sérstaklega. Slíkur gjaldmiðill yrði sá stöðugasti í heimi og þá myndu skapast forsendur fyrir lágum og stöðugum vöxtum. Nauðsynleg forsenda fyrir því er að einhliða verðtryggingu í lánakerfinu verði útrýmt.

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.10.2016 kl. 13:14

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Guðmundur,

Ég er sammála því að hreinlegasta lausnin er frysting á peningamagni í umferð (en til vara vöxtur sem er miklu nær 0% en 5%). Það mun hins vegar aldrei gerast á meðan hefðbundið fyrirkomulag seðlabanka ræður ríkjum í heiminum).

Hinn valkosturinn við verðbólgu er flöktandi vaxtastig sem byggist á þeirri forsendu að það komist aldrei vinstristjórn til valda. En kannski er það bara allt í lagi enda "normið" víðast hvar (í ríkjum sem  hafa löngu gleymt verðbólgubálum). 

Ég þarf að hugleiða þessa samlíkingu þína við brunatryggingu aðeins. 

Geir Ágústsson, 23.10.2016 kl. 17:31

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Já ég mæli með því að þú veltir þeirri samlíkingu fyrir þér. Hér eru nokkrir punktar í viðbót til að hjálpa þér í þeim vangaveltum:

Þeir sem eru í stöðu til þess að prenta peninga (meðal annars með því að veita verðtryggð lán) og valda þannig óstöðugleika (ekki síst í formi verðbólgu) eru lánveitendurnir sjálfir. Með því að veita verðtryggð lán verja þeir sig hins vegar fyrir þessum skaðlegu áhrifum af sinni eigin hegðun, en velta um leið öllum afleiðingum hennar yfir á lántakendur.

Þannig er það lántakandinn sem ber alla áhættuna og tjónið sem hlýst af háttsemi lánveitandans, á meðan lánveitandinn hagnast á því að vera tryggður fyrir afleiðingum eigin hegðunar. Með öðrum orðum þá er það lántakandinn sem veitir trygginguna, en lánveitandinn er tryggingartaki.

Þegar tryggingafélög selja tryggingar eru það án undantekninga tryggingartakarnir sjálfir sem borga í raun fyrir tjónið sem tryggt er fyrir, með því að greiða iðgjöld sem mynda bótasjóði tryggingafélaganna. Þá vaknar óhjákvæmilega sú spurning, hvort að þeir sem eru tryggingartakar gagnvart verðbólgu (þ.e. lánveitendur með því að áskilja sér verðtryggingu á eignir sínar) ættu ekki að borga þeim sem veita tryggingarnar (lántakendum) sanngjörn iðgjöld fyrir að njóta slíkrar tryggingaverndar?

Með núverandi fyrirkomulagi verðtryggingar er þessum einföldu lögmálum markaðarins hins vegar snúið algjörlega á haus með því bankar skuli lögum samkvæmt geta áskilið sér endurgjaldslausa tryggingu fyrir tjóni sem engir aðrir en þeir sjálfir geta valdið, á kostnað lántakenda sem bera enga ábyrgð á því tjóni. Ef tryggingafélag væri rekið með þessu fyrirkomulagi þá færi það lóðbeint á hausinn strax á fyrsta rekstrarári sínu. Þess vegna er ekki hægt að réttlæta einhliða verðtryggingu útlána öðru vísi en að svara því fyrst hvernig í ósköpunum það geti verið réttlætanlegt að láta almenning stunda góðgerðastarfsemi með því að skaffa bönkunum ókeypis tryggingu fyrir þeirri áhættu og tjóni sem hlýst af þeirra eigin háttsemi?

Eins og fyrr segir þá eru fjórar aldir síðan fyrstu tryggingafélögin áttuðu sig á undraskömmum tíma á því að það væri ekki skynsamlegt að gefa aðilum færi á því að hagnast án persónulegrar áhættu af því að valda öðrum tjóni, þar með töldum tryggingafélögunum sjálfum. Aldrei hefur verið gerð fyrir því með neinum haldbærum rökum, af hverju íslenski heimili eigi eitthvað frekar að vera þess umkomin að veita bönkum slíkt færi á áhættulausri högnun, og að bera jafnframt allt það tjón sem af þeirri háttsemi hlýst.

Þvert á móti er þetta fyrirkomulag ekki aðeins ávísun á gjaldþrot (eins og bresku tryggingafélögin lærðu fljótt af biturri reynslu á sínum tíma) heldur líka á fjármálahrun, því þegar skuldararnir verða gjaldþrota verða bankarnir það líka. Þetta var einmitt það sem olli hruninu 2008, því fyrst voru það skuldararnir sem fóru á hausinn og þegar þeir gátu ekki borgað skuldirnar þá urðu þær verðlausar og bankarnir fóru á hausinn í kjölfarið. Þar af leiðandi er áframhaldandi einhliða verðtrygging, ávísun á áframhaldandi hrun.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.10.2016 kl. 18:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband