Bloggfærslur mánaðarins, október 2014

Að fá leyfi eða uppfylla kröfur

Á Íslandi þarf að fá leyfi fyrir svo mörgu. Engum er treyst. Menn þurfa að sanna að þeir uppfylli lögin áður en þeir gera eitthvað sem reynir á lögin. 

Þetta var orðað á skemmtilegan hátt í litlu viðtali við einn af athafnarmönnum Íslendinga fyrir nokkrum misserum:

 Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekk­ert gera fyrr en öll leyfi eru komin.

Þá vitum við það!

Að menn þurfi að þvælast á milli stofnana sem vita varla af hver annarri kemur ekkert á óvart þegar viðhorf yfirvalda er svona.

Hérna gætu Íslendingar lært mikið af Dönum (að því gefnu að Íslendingar vilji einhvern tímann apa eitthvað uppbyggilegt eftir hinum Norðurlöndunum en ekki bara verstu boðin og bönnin og skattana). Í Danmörku er unnið að því að einfalda kerfið sem er nú þegar mjög einfalt. Viðhorfið hérna er: Óli uppfinningamaður á ekki að drukkna í skriffinnsku, heldur geta einbeitt sér að vinnunni. Hann á ekki að þurfa eyða fúlgum í allskyns leyfi og binda mikið fé til að komast af stað. 

Hann á bara að geta sótt um kennitölu og á fljótlegan hátt lært að gera upp gagnvart yfirvöldum og þá er hann kominn í gang.

En kæru Íslendingar, ástæðan fyrir því að ríkisvaldið traðkar á ykkur með leyfisumsóknum, himinhárri skattlagningu og þrúgandi regluverki er einföld. Hún er ykkar eigið viðstöðuleysi. Ríkisvaldið mun alltaf reyna að stækka sig og gera fleiri háða sér. Það er einfaldlega í eðli fyrirbæris sem hefur einokunarvald yfir lífum og sálum borgara sinna. Það sem vantar er viðspyrna og hún er lítil og veik.

Svo kæru Íslendingar, hættið að kvarta eða takið þátt í baráttunni gegn ríkisvaldinu! 


mbl.is Þvælast á milli stofnana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Læknar og laun

Læknar eru nú í verkfalli. Þeir krefjast hærri launa. Miklu hærri launa. Þeim finnst nóg komið.

Ég hef ákveðna samúð með málstað þeirra. Hver vill leggja á sig mikið og krefjandi nám til þess eins að þurfa vinna myrkranna á milli við ömurlegar aðstæður og með laun sem verðlauna engan veginn menntun þeirra eða getu?

Samúð mín dofnar samt þegar ég rifja það upp, fyrir hönd lækna, að þeir menntuðu sig til að verða ríkisstarfsmenn (ef þeir vilja á annað borð vera á Íslandi). Hvergi hef ég séð lækna berjast af neinni alvöru fyrir neinu öðru fyrirkomulagi en ríkisrekstri heilbrigðiskerfisins og því að ríkisvaldið sé nánast þeirri eini mögulegi atvinnuveitandi. Þeir vita kannski eins og aðrir að það hefur ákveðin forréttindi í för með sér að vera ríkisstarfsmaður: Meira starfsöryggi en gengur og gerist, tryggari lífeyrisréttindi og fleira slíkt. En samt. Hvers vegna að mennta sig til að verða ríkisstarfsmaður?

Ríkisvaldið er ekkert að flýta sér að skera heilbrigðiskerfið úr snöru sinni. Það er svo gott sem eini aðilinn á Íslandi sem getur veitt læknum og hjúkrunarfræðingum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum vinnu (undanþágur eins og augnlæknar, heyrnalæknar og lýtalæknar fara ekki í verkföll. Hvenær ætlar ríkisvaldið að sópa þeim í kæfandi faðm sinn?).

Þetta er sama saga og með kennara. Laun þeirra eru lág miðað við árafjölda í námi og hvað þeim sjálfum finnst þeir eiga skilið, en þeim líður samt svo vel í faðmi ríkisvaldsins, með sín góðu lífeyrisréttindi, mýgrút veikindadaga og starfsöryggi sem leit er að utan hins opinbera.

Við lækna og kennara og aðrar ríkisstéttir segi ég: Ef þið viljið raunverulegar breytingar og betri möguleika til að vinna ykkur upp í kjörum og sveigjanleika og út fyrir þrönga ramma kjarasamninga verkalýðsfélaga og ríkisvalds - berjist fyrir því að losna úr snöru ríkisvaldsins!  


Kerfið heldur sjálfu sér uppteknu

Vinnufélagi minn sagði einu sinni að gamni að nú væri pappírsvinnan orðin svo umfangsmikil í fyrirtækinu sem við störfum hjá að við þurfum ekki lengur utanaðkomandi viðskiptavini til að halda okkur uppteknum. Pappírsvinnan innanhúss væri nóg.

Mér sýnist sami brandari eiga fullkomlega við um svo margt án þess að vera sagður í gríni.

Hið íslenska ríkisvald styður og regluvæðir landbúnað með ýmsu móti. Afmarkaðir skikar kerfisins starfa þó í nokkurs konar samkeppnisumhverfi. Þeir eru samt umvafðir slíkum reglugerðafrumskógi að enginn veit hver er hvað og hvað má og hvað ekki. Kærur ganga því á víxl, sektir eru gefnar út, áfrýjanir stinga upp kollinum jafnóðum, og svona gengur þetta í einni, langri endaleysu.

Neytendur eru vitaskuld aukaatriði. Þeir borga skattana sína og enda á að éta sektargreiðslurnar líka. Þeir þurfa að standa undir niðurgreiðslum og framfylgni við kvótakerfi af ýmsu tagi, auk eftirlitsins með þessu öllu saman.

Kerfið heldur sjálfu sér uppteknu. 


mbl.is Kú kærir MS og Kaupfélag Skagfirðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn og aftur

Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna hafa náð sögulegu samkomulagi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030. 

Þetta eru slæmar fréttir af mörgum ástæðum. 

  • Embættismenn ESB fá enn fleiri tækifæri til að stunda sjóðasukk - eyðslu á fé annarra.
  • Loforðið mun þýða aukinn kostnað fyrir mjög marga og hamla fjárfestingum þar sem þær skipta meira máli.
  • Á sama tíma mun meint losun ekki minnka neitt að ráði. Undanþágur fæðast alltaf þegar stjórnmálamenn þurfa endurkosningu og allt er að staðna í kringum þá.
  • Menn flytja áherslur frá mikilvægum vandamálum og að lítilvægum eða ímynduðum vandamálum.
  • Stjórnmálamenn dagsins í dag eru hérna að gefa loforð sem stjórnmálamenn á næstu áratugum verða gerðir ábyrgir fyrir. Slíkt veit aldrei á gott. Nógu lítið er traust á stjórnmálamönnum nú þegar! Eða er það kannski gott? 
  • Ýmis hagsmunasamtök sem telja sig vera að berjast fyrir betra umhverfi fá hérna á tilfinninguna að það sé tekið mark á þeim. Þau munu því ganga lengra og lengra og á endanum leggja til að við hættum að kynda hús okkar og bíla og flytjum í holur í jörðinni.

Fleira mætti telja til en þetta er kannski það helsta.

Svona fréttir fá mig til að verða enn ákveðnari í baráttu minni gegn ríkisvaldi og yfirráðum veruleikafirrtra möppudýra yfir fólki með alvöru vinnu sem býr í alvöru-heiminum. 


mbl.is Samþykkja að draga úr losun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Íslendingar hálfvitar? Já, segir löggjafinn

Sumt í íslenskri löggjöf virkar þannig á mig að löggjafinn telji Íslendinga vera hálfvita.

Eitt dæmið er hið nánast algjöra bann við efstastigi lýsingarorða í auglýsingum. Enginn má kalla sig "stærstan" eða "bestan" eða vera með "mesta úrvalið" eða "lægsta verðið" nema geta sannað slíkt með óyggjandi hætti.

Hver vegna? Telur löggjafinn að auglýsingar eigi að standast sömu kröfur og vitnisburður í dómssölum? Eru ýkjur hið sama og lygi? Er sú skoðun einhvers að hann sé ódýrastur dæmd sem lygi nema vera fyrirfram sönnuð?

Ég bý í Danmörku. Hérna eru óteljandi aðilar sem auglýsa sig sem "ódýrastan" eða með "mesta" úrvalið eða "bestu" vöruna. Danskir neytendur taka slíkum fullyrðingum af yfirvegun. Þeir nota þennan gráa massa sem finnst inn í höfuðkúpu flestra ef ekki allra manneskja til að greina á milli upplýsinga og hugsa sjálfsstætt.

Á Íslandi er í raun bannað að nota lýsingarorð í efstastigi í auglýsingum. Fyrirtæki nýta þetta til að kæra hvert annað á víxl og sjúga sektir úr samkeppnisaðilunum. Þetta gagnast neytendum ekki neitt, og er raunar líklegra að allar þessar sektargreiðslur komi á endanum beint úr vösum þeirra sjálfra.

Er ekki kominn tími til að virkja umræddan gráa massa í höfuðkúpum Íslendinga? 


mbl.is A4 sektað um 200 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjálmaskylda fækkar hjólreiðarmönnum

Þeir sem hjóla eru skynsamir ef þeir hjóla með hjálm. Enn betra er að þeir hjóli í heilgalla sem ver líkamann ef hann dettur á malbik eða í möl. Olnboga- og hnéhlífar eru líka góðar sem vörn gegn falli. Best er svo auðvitað að sleppa því að hjóla því það er hættulegt. 

Ekki nei?

Hjálmaskylda fækkar hjólareiðarmönnum eða svo segja ýmsar kannanir (og þess vegna fækkar slysum tengdum hjólreiðum). Í Svíþjóð hefur verið lagt til að afnema hjálmaskyldu til að sporna við fækkun barna sem nenna að hjóla.

Þeir sem vilja fjölga hjólandi Íslendingum ættu því ekki að taka þátt í baráttunni við að koma á hjálmaskyldu.

Þeir sem vilja að fleiri hjóli, t.d. af því það er heilsusamlegt, ættu ekki að snerta hjálmaskylduna með löngu priki.  

Þeir sem vilja fækka hjólareiðarmönnum og stuðla þannig að fækkun alvarlega slysa tengdum hjólareiðum ættu að róa öllum árum að hjálmaskyldu! Þeir gætu e.t.v. stuðst við örlítið Seinfeld-grín í baráttu sinni. 

Hjálmar hafa svipuð áhrif á ökumenn og bílbelti: Veita ökumanninum mikla en oft falska öryggistilfinningu og fá hann til að aka hraðar eða óvarlegar. Gleymum því ekki. Á einum stað er þetta kallað "The Bike Helmet Paradox": Hjálmar fjölga slysum!

Þingmenn finna oft upp á einhverjum málefni til að geta troðið nefinu á sér í fjölmiðla og fréttatíma. Oft eru þetta vel meinandi einstaklingar sem vilja banna einhverja hættulega eða jafnvel heimskulega iðju. Ég vona samt að þessir þingmenn finni sér eitthvað annað að gera. 


mbl.is Hjálmaskyldu til 18 ára aldurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Börn á vergangi

Íslensk yfirvöld sjúga eins mikið til sín af launum landsmanna og þau mögulega geta. Í staðinn "veita" þau ákveðna þjónustu, t.d. vegi og heilsugæslu. Þökk sé hinum himinháu sköttum þurfa nær allir fullorðnir að vinna úti. Af því leiðir að nær öll börn þurfa að vera í stofnunum á daginn (leikskóla, grunnskóla og þess háttar).

Yfirvöld geta svo, ef þeim sýnist, skellt í lás á barnastofnunum sínum án þess að hafa samráð við foreldra.

Svona lagað getur bara átt sér stað í opinberum rekstri sem er áskrifandi að peningum skjólstæðinga sinna.

Þetta er ekki bara forræðishyggja heldur fyrst og fremst argasti dónaskapur og óvirðing við foreldra. Margir geta ekki tekið sér frí. Þeir leita því uppi ömmur og afa, frændur og frænkur og eldri börn til að geyma börnin á daginn. Fólk skiptist á börnunum og skiptist á að taka frí.

Það er lítil huggun í að komast í pulsupartý á kostnað skattgreiðenda í haustfríinu ef starfsöryggi fyrirkvinnanna er sett í uppnám.

Hérna í Danmörku dytti engri sveitarstjórn að skella í lás. Á sumrin renna leikskólar saman fyrir þá sem þurfa á því að halda yfir hásumarið. Haustfrí eru vissulega vinsæl hér í landi en stofnanir eru samt alltaf opnar fyrir þá sem geta ekki tekið sér frí.

Er auðveldara fyrir hið opinbera að valta yfir Íslendinga en aðra í þessum heimshluta? 


mbl.is Í vandræðum í vetrarfríi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fé sogað í svarthol ríkisrekstursins

Allir skattar eru tilflutningur á verðmætum úr vösum þeirra sem þau skapa og í vasa stjórnmálamanna eða embættismanna ríkisvaldsins.

Ríkisvaldið hefur sterka hvata til að eyða hverri einustu krónu sem það aflar með skattheimtu og helst aðeins meira. Skuldsetning ríkisins bitnar fyrst og fremst á stjórnmálamönnum framtíðar. Stjórnmálamenn dagsins í dag geta eytt peningunum og skilið skuldirnar eftir handa öðrum.

Veiðigjöld áttu að vera mikil búbót fyrir ríkissjóð. Þau áttu að krækja í fé sem að öðrum kosti hefði runnið í vasa hluthafa sjávarútvegsfyrirtækja eða í nýfjárfestingar og viðhald á fiskiskipaflotanum.

Hvað hefur svo gerst síðan veiðigjöldin voru lögð á? Ríkisvaldið hefur bara fitnað. Rekstur þess er ennþá í molum. Skuldir ríkisvaldsins eru ennþá í himinhæðum. Hin aukna skattheimta hefur bara fitað offitusjúklinginn.

Ríkisvaldið getur auðvitað gert hvað sem það vill á meðan því er ekki veitt nein mótspyrna. En að halda að nýir skattar eða hærri skattar geti leyst rekstrarvandræði ríkissjóðs - það er viðhorf sem styðst hvorki við rök né reynslu.  


mbl.is Greiða 4,1 milljarð í veiðigjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirlæti stjórnmálamannsins: Úthlutun

Fátt gleður stjórnmálamenn meira en að fá að "úthluta" einhverju. Þeir hreinlega iða af kæti þegar þeir fá að úthluta einhverju, og af mjög góðum og gildum ástæðum.

Völd: Stjórnmálamaður sem fær að úthluta einhverju hefur völd. Hann stendur fyrir framan hóp einstaklinga sem vilja eitthvað, og hann er með það. Hann ræður hver fær hvað. Hann ræður hver fær eitthvað, og hver fær ekkert. Þetta eru völd sem gefa stjórnmálamanninum gæsahúð af gleði þegar tími úthlutunar stendur yfir. Stjórnmálamaðurinn vill alltaf fá meira til að úthluta í dag en hann hafði í gær. Fyrirbæri eins og byggðakvóti er því eitthvað sem vex og vex þegar andspyrnan við það er veik eða engin.

Sýnileiki: Stjórnmálamaður sem úthlutar einhverju er mjög sýnilegur. Hann fær athygli. Fólk fylgist með ákvörðun hans og spyr hann út í ástæður. Stjórnmálamaðurinn er oftar en ekki athyglissjúk manngerð og finnst gaman að vera í sviðsljósinu. Úthlutun tryggir mikinn sýnileika og mikla athygli. Stjórnmálamaðurinn vill fá að úthluta sem oftast til að fá sem mesta athygli. Hann reynir því að fá meira og meira til úthlutunar.

Vinir: Sá sem hefur eitthvað eftirsótt til úthlutunar getur búist við því að margir reyni að vingast við hann. Í sumum löndum er slíkur vinskapur gjarnan veittur í formi gjafa, jafnvel peningagjafa, en stundum (t.d. þar sem peningagjafir eru ólöglegar) í formi lofræða og hrósyrða. Stjórnmálamanninum er yfirleitt sama hvort vinskapurinn er keyptur með hrósi eða fé. Hann vill bara þekkja sem flesta og vera vinur sem flestra því það eykur líkurnar á endurkjöri. 

Af ofangreindu má sjá að úthlutun er einn besti vinur stjórnmálamannsins og að stjórnmálamaðurinn vill fá sem mest til úthlutunar sem oftast. 


mbl.is 6.141 tonni úthlutað til 31 sveitarfélags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekjulind fyrir ríkisvaldið

Vegabréf eru orðin að fínni tekjulind fyrir ríkisvaldið. Án vegabréfs er ferðafrelsi voðalega takmarkað. Til að öðlast ferðafrelsi þarf að kaupa vegabréf hjá ríkinu. Þetta veit ríkisvaldið. Verðmiðinn á vegabréfinu mun halda áfram að hækka og hækka. 

Hið íslenska ríkisvald er ekki eitt um að gera ferðafrelsi fólks að tekjulind. Í Bandaríkjunum hafa menn uppgötvað aðra tekjulind: Afsölun ríkisborgararéttarsins. Fleiri og fleiri Bandaríkjamenn reyna nú að flytjast frá Bandaríkjunum. Auðugir Bandaríkjamenn gera það til að forða auði sínum frá sívaxandi skattheimtu (fyrirtækjaskattur þar í landi er með því hæsta sem gerist í heiminum, svo dæmi sé tekið). Ungt fólk gerir það til að freista gæfunnar annars staðar. Þetta hafa yfirvöld uppgötvað og hafa í kjölfarið margfaldað verðmiðann á umsóknareyðublaðinu sem þarf að fylla út til að losna við ríkisborgararéttinn. Eflaust mun verðmiðinn hækka enn meira þar til venjulegt fólk hefur ekki efni á þjónustunni og er í raun fast. Þessu má líkja við hin gömlu vistarbönd.

Íslendingar eru yfir það heila ófúsir að afsala sér ríkisborgararétti sínum. Muni það breytast er eitt víst: Ríkisvaldið mun gera það að tekjulind!


mbl.is Tölvan segir nei!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband