Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011
Mánudagur, 26. desember 2011
Olíudraumur Íslendinga er enn stormasamari
Marga Íslendinga dreymir um olíufund innan íslensku landhelginnar. Af hverju? Jú til að geta selt olíuna fyrirhafnarlítið og byrjað að eyða í allskyns lúxus og vellystingar án þess að þurfa hafa mikið fyrir því. Draumurinn um olíuna er draumurinn um að geta eytt auðveldum pening í allar áttir. Olíudraumurinn er að þessu leyti svipaður hugsuninni á bak við ríkiseinokun á peningaútgáfu í gegnum ríkisrekinn seðlabanka.
Mörg ríki hafa farið illa út úr olíuauðævum. Ríkir furstar hafa mokað fé í þegna sína til að halda þeim góðum, jafnvel keypt rándýra lúxusbíla handa nánast hverjum sem vill, og byggt glæsihallir og lúxushúsnæði. Þegnar þessara ríkja hafa ekki séð mikla ástæðu til að tileinka sér verðmætaskapandi hæfni eða þekkingu. Þessi ríki verða þau fátækustu í heimi um leið og seinasti seldi olíudropinn yfirgefur þau og eftir standa steypukassar og fólk án þekkingar og þjálfunar.
Myndbandið í frétt mbl.is sýnir storm á Norðursjó og eitthvað sem mbl.is kallar olíuborpall en er sennilega olíuvinnslupallur. Eru veður eitthvað skárri norðan við Ísland? Kannski. En olíudraumurinn er dýr. Menn þurfa að leggja í miklar og dýrar fjárfestingar til að ná olíunni upp og sigla henni í næstu olíuhreinsunarstöð. Íslendingar ætla ekki einu sinni að gefa eftir í skattheimtunni á hinu áhættusama leitar- og prufuborunarstigi olíuvinnslunnar. Olíuauðurinn á að koma strax, já helst svo fljótt að hann kemur alls ekki.
Ég óska þess að Íslendingar finni ekki olíu. Hún getur verið bölvun fyrir þá sem halda að auknar tekjur ríkissjóðs verði að leiða til aukinna ríkisútgjalda (frekar en skattalækkana og afnáms heilu afkima ríkisvaldsins), og þannig hugsa Íslendingar svo sannarlega.
Öldugangur á norskum olíusvæðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 17. desember 2011
Lengri frí á Alþingi
Hver dagur sem Alþingi er starfandi er dagur nýrra ríkisafskipta. Frídögum Alþingismanna mætti gjarnan fjölga margfalt. Það er ódýrara fyrir íslenskan almenning að borga 63 einstaklingum fyrir að gera ekkert allt árið, en að hafa þá við vinnu fram á nótt að samþykkja nýjar reglur eða nýja eða hærri skatta.
Jólagjöf þingmanna til landsmanna í ár ætti að vera fjölgun frídaga Alþingismanna í 360 daga á ári. Þeir dagar sem eftir eru ættu að fara í að afnema reglur og skatta og leggja niður heilu afkima ríkisvaldsins.
Þingfundur fram á nótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 13. desember 2011
Sértæk aðgerð sem flækir skattkerfið
Stjórnmálamenn Alþingis virðast ekki skilja nokkurn skapaðan hlut í hagfræði og virðist vera alveg sama þótt flækjustigið í lífi hins venjulega Íslendings sé skrúfað upp í rjáfur.
Gott dæmi er mjög svo einkennileg hugmynd þess efnis að lækka virðisaukaskatt á eina tiltekna vörutegund. Fyrir þessu eru auðvitað einhver einkennileg "rök", að þessi og hinn verði þá síður óléttur og varnir gegn einni tiltekinni tegund smitleiðar verði ódýrari. En hvað með allt annað sem getur komið fyrir fólk eða það lent í? Og hvað með smitleiðir sem fela ekki í sér nekt og kynlíf?
Og hvað er að "almennum aðgerðum"?
Skattur á smokkum lækki í 7% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 12. desember 2011
Markaðsaðhaldið hræðilega
Fyrir daga hinna reglubundnu öfgasveifla á fjármálamörkuðum (lesist: fyrir daga ríkiseinokunar á peningaútgáfu í gegnum ríkisrekna seðlabanka) voru svokölluð "bank run" hin hefðbundna leið markaðarins til að afhjúpa illa rekna og illa stæða banka. Bankar sem þoldu ekki áhlaup hlutu að vera gjaldþrota í raun - hafa meira af peningum á efnahagsreikningum sínum en í bankahirslum.
Ríkisvaldið hefur gert sitt besta til að lækka hina svokölluðu "bindiskyldu" bankanna úr hinni gömlu góðu 1:1 niður í t.d. 1:10. Þetta hefur haft augljósa kosti í för með sér fyrir ríkisvaldið sjálft, og auðvitað bankakerfið sem getur ávaxtað fé sem er ekki til nema á efnahagsreikningum þeirra.
Smátt og smátt er það að renna upp fyrir almenningi víða að bankakerfið er tæknilega og í raun gjaldþrota, og haldið á lífi af skattgreiðendum. Stjórnmálamenn tala gjarnan um að bankakerfið þurfi að njóta "trausts", en tala sjaldnar um að t.d. fatahreinsanir þurfi líka að njóta þess. En fatahreinsanir njóta trausts: Í 99% tilvika getur fólk komið og "tekið út" fötin sín hvenær sem það vill, hvort sem fötin eru hrúga af slitnum nærbrókum eða dýrustu jakkafötin í Armani-línunni. Í tilviki bankanna er það ekki alltaf staðan.
Bankaáhlaup verða algengari og algengari er mín spá. Og það er gott.
Hraðbankar tæmdir í Lettlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 12. desember 2011
Hvaða skattar eru 'tímabundnir'?
Ríkisstjórninni virðist ekki ætla að takast að gera nokkurn skapaðan hlut rétt. Ein af aðalástæðum þess er algjört getuleysi hennar til að stöðva stjórnlausa skuldasöfnun ríkisins. Sú stjórnlausa skuldasöfnun er innbyggð í þeim einbeitta ásetningi ríkisstjórnarinnar að gera ríkisvaldið sem stærst, hvað sem það nú kostar fyrir einkaframtakið.
Skattar sem eru kallaðir "tímabundnir" eru það í langfæstum tilvikum. Um það eru til fjöldamörg dæmi. Dæmi 1: Hátekjuskatturinn. Dæmi 2: Söluskattur/virðisaukaskattur. Dæmi 3: Bókhlöðuskatturinn. Til að afnema "tímabundna" skatta þarf yfirleitt að leggja mikið á sig og þeir sem gera það fá oftar en ekki á sig mikla gagnrýni fyrir að svipta ríkið mikilvægum "skattstofnum".
Lífeyrissjóðirnir, sem margir treysta (enn sem komið er) á til að sjá fyrir sér í ellinni, eru nýjasta mjólkurbelja ríkisstjórnarinnar. Þessa belju á að mjólka til að fjármagna allskyns gagnslaus gæluverkefni stjórnlyndra stjórnmálamanna.
502 dagar í næstu kosningar, í alvöru?
Álögur á sjóðina úr fimm áttum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 8. desember 2011
Hlýnun jarðar skiptir um skoðun
Hefur hin svokallaða "hlýnun jarðar" skipt um skoðun? Svo ég tali nú ekki um hina svokölluðu hlýnun "af mannavöldum"?
Sprenglærðir sérfræðingar í heimsendi af mannavöldum eru eflaust með mjög góðar útskýringar á kuldakastinu á Íslandi. Þeir munu jafnvel leyfa sér að fullyrða stærra og meira en flestir veðurfræðingar, sem þurfa "bara" að spá tvo sólarhringa fram í tíma um veðrið.
Sem betur fer sló fjármála-peningaprentunar-ríkiseinokun-á-peningaútgáfu-krísan mest af umræðunni um "hlýnun jarðar af mannavöldum" út af borðinu. Umræða, sem skipti að vísu um nafn þegar hitaferlarnir fóru að fletjast út um árið 2000, og fór þá að heita "loftslagsbreytingar af mannavöldum". Snjallt orð, ekki satt? Jú, því er loftslagið ekki alltaf að breyta um hegðun?
CO2 er gott fyrir plöntur. Viltu meira grænmeti? Losaðu þá meira af CO2 í andrúmsloftið.
Spá 11 stiga frosti í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 4. desember 2011
Og reikningurinn verður?
Skattgreiðendur bíða spenntir eftir því að fá að heyra hvað ríkisstjórnin og Alþingi ætlar að skuldsetja þá mikið. Upphæðirnar hafa hlaupið á tugum og hundruðum milljarða hingað til síðan bankaskattarnir hættu að fjármagna sukkið hjá hinu opinbera. Er einhver ástæða til að ætla að eitthvað annað verði uppi á teningnum að þessu sinni?
Á sama tíma og ríkið skuldsetur skattgreiðendur á bólakaf og sker niður til alls þess sem hvað mest sátt er um að það sinni (heilbrigðiskerfi, menntun), þá þenur það útgjöld til allskyns annarra "verkefna" út. Skuldsetningu skattgreiðenda er því ekki einu sinni hægt að "réttlæta" með því að segjast vera brúa bilið með lántökum til að verja velferðarkerfið svokallaða, helferðarkerfið réttnefnda.
Nei, skuldsetningin er vegna allskyns gæluverkefna ríkisstjórnarflokkanna. Hún kemur hvorki verðmætasköpun né velferð við.
Reikningurinn, sem skattgreiðendur fá núna stungið ofan í kokið sitt, verður sennilega í hundrað-milljarða-kalla stærðargráðunni.
Hver kaus þessa ríkisstjórnarflokka eiginlega?
Fjárlögin afgreidd úr nefnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 3. desember 2011
Út með óþekku kettina
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon eru ekki hrifin af óþekkum köttum. Þau fela óþol sitt á ráðherrum sem þeim finnst óþolandi með því að tala um þörf á "ráðherraskiptum" og frekari sameiningu ráðuneyta.
En er ekki nýbúið að sameina fullt af ráðuneytum? Var um hálfkák að ræða þá? Voru menn að spara frekari sameiningu þá til að eiga hana inni ef einhverjir ráðherrar færu af fyrirskipaðri flokkslínunni?
Auðvitað sjá allir í gegnum leikritið sem forsætis- og fjármálaráðherra hafa sett upp.
Hvernig knýr maður eiginlega fram kosningar á Íslandi? Er það bara alveg ómögulegt? Sitjum við virkilega uppi með Jóhönnu og Steingrím í yfir 500 daga í viðbót?
Ólga vegna ráðherraskipta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |