Olíudraumur Íslendinga er enn stormasamari

Marga Íslendinga dreymir um olíufund innan íslensku landhelginnar. Af hverju? Jú til að geta selt olíuna fyrirhafnarlítið og byrjað að eyða í allskyns lúxus og vellystingar án þess að þurfa hafa mikið fyrir því. Draumurinn um olíuna er draumurinn um að geta eytt auðveldum pening í allar áttir. Olíudraumurinn er að þessu leyti svipaður hugsuninni á bak við ríkiseinokun á peningaútgáfu í gegnum ríkisrekinn seðlabanka. 

Mörg ríki hafa farið illa út úr olíuauðævum. Ríkir furstar hafa mokað fé í þegna sína til að halda þeim góðum, jafnvel keypt rándýra lúxusbíla handa nánast hverjum sem vill, og byggt glæsihallir og lúxushúsnæði. Þegnar þessara ríkja hafa ekki séð mikla ástæðu til að tileinka sér verðmætaskapandi hæfni eða þekkingu. Þessi ríki verða þau fátækustu í heimi um leið og seinasti seldi olíudropinn yfirgefur þau og eftir standa steypukassar og fólk án þekkingar og þjálfunar.

Myndbandið í frétt mbl.is sýnir storm á Norðursjó og eitthvað sem mbl.is kallar olíuborpall en er sennilega olíuvinnslupallur. Eru veður eitthvað skárri norðan við Ísland? Kannski. En olíudraumurinn er dýr. Menn þurfa að leggja í miklar og dýrar fjárfestingar til að ná olíunni upp og sigla henni í næstu olíuhreinsunarstöð. Íslendingar ætla ekki einu sinni að gefa eftir í skattheimtunni á hinu áhættusama leitar- og prufuborunarstigi olíuvinnslunnar. Olíuauðurinn á að koma strax, já helst svo fljótt að hann kemur alls ekki.

Ég óska þess að Íslendingar finni ekki olíu. Hún getur verið bölvun fyrir þá sem halda að auknar tekjur ríkissjóðs verði að leiða til aukinna ríkisútgjalda (frekar en skattalækkana og afnáms heilu afkima ríkisvaldsins), og þannig hugsa Íslendingar svo sannarlega.


mbl.is Öldugangur á norskum olíusvæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll og gleðileg jól, vonandi hafðir þú það gott.

Ég held að það sé ekki rétt hjá þér að segja að mörg ríki hafi farið illa út úr olíuauðæfum. Mörg ríki hafa farið illa út úr því að hafa lélega valdhafa. Það sjáum við hér líka. Er það ekki í Abu Dhabi sem verið er að fjárfesta skynsamlega með olíuauðnum til að byggja upp ferðamannaiðnaði?

Annars er það sennilega rétt hjá þér að tekjur af olíu myndu leiða til enn meiri yfirbyggingar hér og er hún næg fyrir. Annars þarf að hamra á því hvað stjórnsýslan er orðin kostnaðarsöm hér. Þingmenn hér eru um 5x fleiri per íbúa hérlendis en á Norðurlöndunum. Samt þykjast þeir þurfa 77 aðstoðarmenn. Hvernig stendur á því fyrst svona fáir íbúar eru á bak við hvern þingmann? Segja þarf fólki þetta svo það átti sig á því hvers kyns sóun viðgengst hér.

Hérlendis er enginn hægri flokkur í boði, Sjallarnir eru orðnir að óttalegum sósíalistum og það sjáum við t.d. á því að þingmaður þar vill heimila yfirvöldum að rannsaka þegna sem ekkert hafa gert ef ske kynni að þeir gerðu eitthvað seinna (forvirkar rannsóknarheimildir) og enginn sér neitt athugavert við að ríkisreka stjórnmálaflokka. Ég borga því nauðugur viljugur fyrir starfsemi flokka sem ég fyrirlít.

Ég held að frjálshyggjufélagið ætti að fara að beita sér meira. Varla kostar mikið að dreifa einu A4 blaði á nokkurra mánaða fresti inn á heimil landsins með fróðleik um kosti frjálshyggjunnar og benda á villur annarra? Þetta er stefna sem selur sig sjálf og sú eina sem getur mótsagnalaust útskýrt hrunið. Þar mætti t.d. greina frá gleymdu kreppunni frá 1920 enda er afar mikilvægt að halda þessu að almenningi.

http://www.dv.is/leidari/2011/12/21/hophugsun-islendinga/

Ég nennti t.d. bara að lesa fyrstu línuna í þessari grein og hún sýnir glögglega hve höfundurinn hefur lítinn skilning orsökum hrunsins. Þær upplýsingar liggja því miður ekki á lausu og full þörf á að útskýra það fyrir fólki svo óábyrgir aðilar ljúgi ekki beinlínis að fólki. Steingrímur fjármálaráðherra hefur t.d. sagt að óheft nýfrjálshyggja hafi valdið hruninu en hérlendis ríkti engin frjálshyggja eins og þú veist sennilega betur en ég, það er ekki frjálshyggja að bjarga 3 illa reknum fyrirtækjum frá hruni og það er ekki frjálshyggja að þenja ríkið út um þriðjung á föstu verðlagi frá 1999-2007. Þetta þarf að segja fólki.

Þú hefur staðið þig afar vel í að halda á lofti þessari stefnu en fleiri skoðanabræður þínir og -systur þurfa að leggjast á árarnar með þér. Hér heldur ríkið niðri lífskjörum með stefnu sinni og þetta þarf að útskýra fyrir fólki. Hve margir ætli viti t.d. að hvert einasta starf á vegum hins opinbera er á kostnað starfs í einkageiranum? Ef kjósendur eru sæmilega vel að sér verður erfiðara fyrir loddara sem ekkert vita að komast á þing.

Fá allir sem sækja um inngöngu í Frjálshyggjufélagið aðild?

Helgi (IP-tala skráð) 26.12.2011 kl. 11:20

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Helgi og takk fyrir hugleiðingar þínar.

Þú varst sennilega ánægður með boðskap forsetans í nýársávarpi hans - boðskapur, sem kom mörgum á óvart að heyra frá honum! Ef kommúnistinn á Bessastöðum er búinn að sjá hvað er að gerast í útþenslu hins opinbera á Íslandi, hafa þá ekki allir séð?

Mæli líka með lestri á áramótaávarpi Frjálshyggjufélagsins. Það er góð og holl lesning, og auðvitað hvetjandi líka.

Ég skal reyna að láta mitt ekki eftir liggja í baráttunni við vinstrið og helsið. Hvatning þín og hrós hjálpar!

Og varðandi inngöngu í Frjálshyggjufélagið, þá eru engin sérstök inntökuskilyrði önnur en það traust á fólki að það sé ekki að skrá sig í félög og hópa sem það getur svo ekki starfað með eða stutt.

Geir Ágústsson, 2.1.2012 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband