Næsta umferð

Ég horfði á áramótaskaup Ríkisútvarpsins í dag og fannst margt af því mjög fyndið. Dóttir mín skammaði mig raunar fyrir að hlægja of hátt yfir atriði um samgöngur í Reykjavík. En eitt atriði vakti mig svolítið til umhugsunar: Maður mætir með grímu á vinnustaðinn, í varúðarskyni, og var hæddur og olli mikilli geðshræringu fyrir vikið. Kóvít er jú búið! Gríma? Hræðilegt! 

Hvað gerðist á þessum 10-11 mánuðum frá því að allir voru þannig séð tilbúnir í allsherjarlokun samfélagsins og þar til gríma ratar sem grínatriði inn í skaupið? 

Jú, að við lesum reglugerðir og minnisblöð og innréttum líf okkar í kjölfarið.

Veiran í janúar og febrúar árið 2022 er í meginatriðum sú sama og í janúar og febrúar árið 2020. Erfið fyrir aldrað fólk og ónæmisbælt (þetta vissum við um vorið 2020), á pari við hina árlegu flensu eða vægari fyrir aðra. 

Á flensu og kóvít eru auðvitað einstaklingsbundnar undantekningar en engar sem í tilviki flensu hafa réttlætt að fólk kemst ekki í ræktina eða börn ekki í skóla.

Þannig að í raun breyttist ekkert í ár nema það að heilbrigðisráðherra hætti að biðja um fleiri af hinum frægu minnisblöðum.

Ef það er svona auðvelt að breyta veiru úr heimsfaraldri í skaups-atriði þá tel ég líklegt að það sé jafnauðvelt að breyta veiru úr skaups-atriði í heimsfaraldur.

Teiknin eru á lofti. Nýlega ákváðu kínversk stjórnvöld, í kjölfar mótmæla og andspyrnu við sóttvarnaraðgerðir þar í landi, að létta á takmörkunum. Veiran fór vitaskuld á flug, enda kínverskur almenningur óplægður akur fyrir veiru, og núna mæta kínverskir ferðalangar takmörkunum því heimsfaraldurinn er núna orðinn Kína-faraldur. Í Ástralíu, Ítalíu og víðar er núna gerð krafa um að vera með neikvætt veirupróf í vasanum til að fá inngöngu frá Kína. Ekki sprautupappír, vel á minnst og að mér skilst. 

Þetta er mögulega fyrirboði. Fyrirboði um að það eigi að búa til nýja veirutíma, sem þýðir: Grímur, lokanir, einangrun og lyfjagjöf sem skilyrði fyrir þátttöku í samfélagi manna.

Nema auðvitað að menn hafi áttað sig á skelfilegum afleiðingum fyrstu umferðar sóttvarnaraðgerða: Hungur, fátækt, veikluð ónæmiskerfi, skertur félagslegur og andlegur þroski barna og ungmenna, vímuefnavandi, skuldasöfnun, verðbólga, vaxandi fátækt launafólks og auður ákveðinna fjárfesta, versnandi geðheilsa og niðurtroðningur á þeim sem stóðu hvað höllustum fæti fyrir.

Þá kemur næsta umferð aldrei. En það er svolítið undir þér komið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband