Börn vilja ekki ritskoðun, en það vilja fullorðnir

„Það er ekki að vera að skafa utan af neinu í þess­um æv­in­týr­um. Krakk­ar eru klár­ir, þau fatta það um leið og það er verið að reyna að rit­skoða,“ seg­ir Lilja Magnús­dótt­ir sem gefur út ævintýrabókmenntir fyrir börn. Hennar mat er að börn vilji ekki ritskoðun. Þau fá því hlutina matreidda eins og þeir eru.

Annað gildir um fullorðna. Hvað höfum við ekki heyrt oft að við eigum að „treysta vísindunum“ og vera ekki að reyna meta hluti á sjálfstæðan hátt? „Þú ert enginn sóttvarnalæknir“ er sagt við þá sem tjá sig um veirur á annan hátt en opinberir embættismenn og strengjabrúður þeirra á fréttastofunum. Er þeim rökræðum þar með lokið að mati þeirra sem telja titla vera skilyrði þess að geta tjáð sig um eitthvað málefni. 

„Ég er enginn loftslagsvísindamaður“ segja menn sem heyra að hamfarahlýnun gangi nú yfir á meðan þeir skafa snjó af bíl sínum og leggja ekki í að sætta þetta tvennt. Mikil snjókoma er vegna hamfarahlýnunar, sjáðu til. Umræðu lokið.

Við fullorðna fólkið viljum, andstætt börnunum, að það sé skafað vel utan af ævintýrunum. Við viljum einfaldar fyrirsagnir og engin gögn eða línurit. Við viljum ekki innihald rannsókna heldur umræðuhluta þeirra þar sem rannsakendur á ríkisstyrkjum tjá sínar persónulegu skoðanir (þær sem falla að fjárhagslegum hagsmunum þeirra) um viðfangsefnið. Við viljum ekki bera saman mismunandi líkön og vega og meta hvert þeirra er líklegast heldur bara sjá verstu mögulega spánna og hvað hún gæti þýtt. Flest möguleg smit í smitlíkani. Hæsta mögulega hitastigið í loftslagslíkani. 

Helst á að skafa þar til ekkert er eftir og læra setningar eins og „97% vísindamanna eru sammála“ og „sá sem gagnrýnir sóttvarnalækni er að gagnrýna öll sóttvarnavísindi eins og þau leggja sig“, hvorki meira né minna. 

Og loks væri heppilegast að banna eða takmarka birtingu á mismunandi sjónarhornum til að gera lífið auðvelt og koma öllu sem skiptir máli fyrir í einn fréttatíma sjónvarps á kvöldin þar sem sömu viðmælendur eru valdir trekk í trekk enda skoðanir þeirra rækilega fyrirsjáanlegar og falla vel að hinni réttu frásögn.

En það er gott að börnin eru ekki með sömu væntingar til þeirra fullorðnu og þeir fullorðnu eru með til fjölmiðla og ríkisvalds. Kannski er ný kynslóð að komast á legg - kynslóð sem sættir sig ekki við einfaldanir og takmarkanir og ýmist mótmælir eða kemst framhjá þeim. Nema skólakerfið eigi bara eftir að vinna aðeins betur á henni eins og öðrum þar til sjónvarpsfréttatíminn kemur í stað umræðunnar. Við útskrift er krafan þá orðin sú sama og hjá fullorðnum: Að skafa þar til ekkert innihald er eftir.


mbl.is Börn vilja ekki ritskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband