Velferðarnetið

Ég ætla að reyna venja mig af því að tala um velferðar"kerfið" og tala þess í stað um velferðar"netið". 

Velferðarnetið er kerfi sem flækir fólk í því.

Dæmi: Maður ætlar að fara í háskólanám. Ríkisvaldið niðurgreiðir það fyrir hann með sköttum á vinnandi fólk. Skattar eru háir til að fjármagna námið. Maðurinn veit að þegar námi lýkur þarf hann að finna sér vinnu og borga háa skatta til að niðurgreiða nám fyrir aðra. Hann veit að ef hann þarf bæði að borga niður lán vegna skólagjalda og hina háu skatta í framtíðinni þá gengur reikningsdæmið ekki upp. Ætli hann sér að vinna jafnóðum og samhliða skóla fyrir skólagjöldunum þarf hann að borga svo háa skatta að hann nær ekki að safna fyrir skólagjöldunum. Hann er því fastur. Hann fer í niðurgreidda námið og huggar sig við að hann muni borga fyrir það á endanum, í gegnum háa skatta, alla ævi. (Sem aukaafleiðing mun svo skólinn hans halda síður að sér höndum í útgjöldum því nemandinn hefur takmarkað möguleika til að krefja skólann um aðhald í rekstrinum, enda ekki með neina gíróseðla sem hann þarf að greiða beint úr eigin vasa.)

Dæmi: Maður stofnar til skulda og kaupir sér fasteign. Gjaldmiðillinn sem hann skuldsetur sig í er síðan fjöldaframleiddur af hinu opinbera, rýrnar í kaupmætti og leiðir til hækkandi verðlags. Lánið hans er reglulega "leiðrétt" með tilliti til hins fallandi kaupmáttar svo lánadrottnar hans tapi ekki fé sínu. Manninum er boðið að borga hærri skatta í skiptum fyrir niðurfellingu á hluta skuldanna. Hann hefur ekki efni á að borga bæði skuldirnar og hina eldri skattprósentu og tekur því við niðurfellingunni í skiptum fyrir hærri skattprósentu, í von um að hans reikningsdæmi komi aðeins betur út. Hann er fastur í umhverfi skulda og skatta sem hann kemst ekki út úr.

Dæmi: Maður eignast barn. Hann fær barnabætur. Hann þarf að borga háa skatta. Taki hann ekki við barnabótunum þarf hann samt að borga hina háu skatta. Hann þarf að nota barnabæturnar til að greiða ýmis útgjöld í tengslum við barnið. Hann borgar háa skatta því barnabætur allra eru stórar fjárhæðir. Hann er fastur í kerfi bóta og skatta.  

Fleiri dæmi mætti týna til. Ímynduð dæmi mætti einnig hugsa sér:

Ímyndað dæmi: Ríkisvaldið gefur það út að brauð, mjólk og kjöt verði núna niðurgreitt til að "tryggja aðgengi" að þessum mikilvægu fæðuflokkum. Skattar verða í staðinn hækkaðir um 10% á launatekjur. Allir munu þurfa borga hina hærri skatta. Allir leita í hinn niðurgreidda mat. Seljendur matvæla sjá fram á tryggða eftirspurn eftir hinum niðurgreiddu matvælum, enda er sambland skattheimtu og niðurgreiðslu jafngildi áskriftar að þeim (fólk telur sig hafa borgað fyrir þau með hinum hærri sköttum og vill því skiljanlega "fá sitt").

Síðan kemur einhver stjórnmálamaðurinn á vettvang og segir: Lækkun nú skatta um 10% og hættum niðurgreiðslum á matvælum. Uppþot verða í samfélaginu. Á að taka brauð, mjólk og kjöt af diskum hinna efnaminni? Sjáðu bara verðlagið á þessum fæðuflokkum, sem snarhækkaði eftir að niðurgreiðslum var komið á! Bara hinir efnameiri munu hafa efni á kjöti núna!

Velferðar"kerfið" er net. Ég ætla að venja mig á að tala um velferðarnetið núna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þetta er miklu verra. Það er nefnilega eins og "orkutap" í kerfinu, svona eins og í hverri annarri vél, og því flóknara sem kerfið/vélin er, því meira sóast.

Þetta er fyrir löngu hætt að vera beinskift díesel.

Ásgrímur Hartmannsson, 8.5.2014 kl. 17:56

2 Smámynd: Sigurður Antonsson

Skemmtileg nálgun. Stjórnmálamenn búa til "velferðaneti" til að viðhalda eigin kerfi. Þeir ákveða hvað hópar séu gjaldgengir til þátttöku og hverjir eigi að greiða herlegheitin. Einskonar býflugnabú þar sem þeir eru í drottningahlutverkinu.

Nýjasta útgáfan er útdeiling á búseturétti á íbúðum sem skulu byggðar í nágreni við flugvöllinn. Borgin niðurgreiðir og útvegar byggingarstæðin. Angi af kerfinu eru notendur námsíbúða sem njóta niðurgreiðslna eða ívilnana. Þarna verða til kjósendur sem muna góðgerðarmenn sína við kosningar. Alþýðuflokkurinn barðist fyrir verkamannaíbúðum á sínum tíma, en þar eignuðust verkamenn eigin íbúðir ólíkt hinum nýja kerfi með búseturétti.

Í dag, vegna hárra vaxta hefur skapast ný aðkoma stjórnmálamanna sem eiga viss atkvæði leiguliða. Gogol lýsir vel þessu kerfi í bókinni Dauðar sálir.

Sigurður Antonsson, 9.5.2014 kl. 22:11

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásgrímur,

Gaman að þú skulir nefna orkutap í flóknu kerfi. Ég er einmitt að lesa bækur þessar vikurnar eftir mann að nafni Butler Schaffer og hann notar oft slíka nálgun, sjá t.d. kafla 1 hér:

http://mises.org/document/6961/The-Wizards-of-Ozymandias

Geir Ágústsson, 12.5.2014 kl. 09:29

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Sigurður,

Ríkisvaldinu vegna aldrei betur en þegar almenningur er í vandræðum. Það er hin aldagamla saga. "War is the health of the State", sagði maður að nafni Randolph Bourne árið 1918.

Geir Ágústsson, 12.5.2014 kl. 09:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband