Laugardagur, 18. nóvember 2023
Frétt: Ekkert eldgos í Grindavík
Það er helst í fréttum þessa dagana að það er ekkert eldgos í Grindavík. Atvinnumenn á stórum flutningabílum geta því auðveldlega keyrt skipulega í gegnum bæinn og tæmt hvert einasta hús og hverja einustu íbúð af öllum munum og verðmætum og komið í geymslu þar sem eigendur geta sótt þá (verk sem ætti að taka um viku ef þrír menn tæma eitt húsnæði á 6 klst og ein búslóð tekur einn flutningabíl og alls 10 teymi eru að störfum 12 klst á dag á hressilegum álagsgreiðslum). Á meðan bíða íbúar rólegir í hótelherbergjum sem áður voru keypt undir fólk í sóttkví eða eru í dag keypt fyrir hælisleitendur og þurfa ekki að vera á flakki með ruslapoka fulla af munum.
Á sama tíma fer fram verðmat á öllu húsnæði í Grindavík sem verður nýtt til að tryggja íbúana að fullu, enda er bærinn ónýtur og þarf að afskrifa. Rétt eins og megnið af Súðavík á sínum tíma.
Góðar fréttir ekki satt?
Þetta er að vísu alls ekki lýsing á stöðunni í dag. Það er að vísu rétt að það er ekkert eldgos í Grindavík en allt annað er einhvern veginn öðruvísi. Íbúar eru á flakki með nokkra ruslapoka af munum sínum og fá hvorki að sækja afganginn af eigum sínum né er verið að gera það fyrir þá af atvinnumönnum. Þess í stað er mannskapurinn upptekinn við að reisa vegg í kringum eitt orkuver, sem er engu síður á hættusvæði en Grindavík sjálf.
Engar áætlanir eru um að greiða fólki út tryggingar vegna yfirvofandi altjóns á Grindavík sem situr ofan á sprungusvæði sem er vaknað til lífs eftir langan dvala. Þess í stað er rifist í bönkunum fyrir að vilja ekki frysta lán á ónýtum húsum sem enginn mun nokkurn tímann vilja kaupa og hvað þá flytja í.
Kannski mun eldgos koma einhverju í réttan farveg. Í millitíðinni er það helst í fréttum að það er ekkert eldgos í Grindavík en þeim mun meiri órói í hjörtum Grindvíkinga sem hafa verið gerðir að flækingum - af yfirvöldum.
![]() |
Lilja ósátt við viðbrögð fjármálastofnana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 17. nóvember 2023
Afleiðingar vanrækslu: Uppsögn eða launahækkun
Ný skýrsla Ríkisendurskoðunar segir að Matvælaeftirlitsstofnun (MAST) sé í raun að mistakast í hlutverki sínu. Vegna tíma- og fjárfrekra tafa og pappírsvinnu sitji eftir dýr sem þjást í langan tíma, sem er í raun lögbrot í boði MAST.
MAST bregst við með fyrirsjáanlegum hætti: Vantar peninga.
Von MAST er væntanlega sú að fá verðlaun í formi peninga fyrir vanrækslu sína. Sennilega mun sú aðferðafræði virka, en engu breyta.
Þegar fyrirtækjum á frjálsum markaði mistekst þá hlaupa viðskiptavinirnir frá þeim. Fyrirtækin minnka eða hverfa. Samkeppnisaðilar bólgna út.
Í tilviki opinberra stofnana þá eru í skiptum fyrir mistök og vanrækslu verðlaun. Fleiri starfsmenn. Meiri peningar.
Ósvífinn aðili gæti jafnvel sagt að opinberar stofnanir hafi af því fjárhagslegan hvata að valda sem mestum skaða, sem lengstum töfum og sem mestum kvölum. Stjórnmálamenn verðlauna slíkt með peningum og heimildum til að kvelja fólk og fyrirtæki enn meira en áður.
Ég viðurkenni auðvitað að MAST hefur margt á sinni könnu. MAST þarf allt í einu að fylgjast með iðnaðarframleiðslu á laxalús í sjókvíum og virðist hvorki hafa til þess mannafla né þekkingu. Lausnin er auðvitað ekki sú að fjarlægja ræktunarstaði laxalúsar, en það er önnur saga.
MAST ataðist lengi í kunningja mínum um hvar hann ætti að setja ræsi í fiskbúð, og lagði vitaskuld til aðrar staðsetningar en önnur eftirlitsbákn sem ekki var haft samráð við. MAST er mest, þannig er það.
Mögulega mætti leggja niður MAST í stað þess að þenja það út. Í staðinn mætti koma á fyrirkomulagi svokallaðs þriðja aðila, þ.e. óháðra eftirlitsstofnana í samkeppni hver við aðra sem sjá um að fylgjast með bæði lögum og stöðlum. Slíkt gefst víða vel.
Sjáum hvað setur.
Eftir stendur að stofnun sem virkar ekki segir við stjórnmálamenn að skattgreiðendur þurfi að borga meira fyrir minna. Líklega verður brugðist við því með auknu fé, enda er núna búið að kalla eftir stöðu upplýsingafulltrúa sem sér um af afvegaleiða okkur, og slíkt þarf að fjármagna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 16. nóvember 2023
Gerviheimur loftslagstrúarkirkjunnar
Í gegnum hækkandi skatta og fjölgun þeirra erum við á Vesturlöndum að finna á eigin skinni fyrir tilraunum stjórnmálamanna til að breyta veðrinu. Það stefnir hratt í að venjulegt launafólk hafi ekki lengur efni á að kaupa og reka bíl og þarf að vaða slabbið í strætó, með krakkana í eftirdragi, til að komast inn og út úr hverfinu. Meira að segja það að vilja komast út úr hverfinu er talið vera eitthvað ósjálfbært og skaðlegt veðrinu.
Ein af stærri ráðgjafastofum heims gaf nýlega út skýrslu um hvernig heimurinn geti náð markmiðum loftslagstrúarkirkjunnar um minnkun á losun koltvísýrings í andrúmsloftið. Þar leynist setning sem ég er farinn að sjá oftar og oftar (bls. 8):
Önnur sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna eru í mótsögn við aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, t.d. náttúruvernd í því að heimila ekki notkun á landi fyrir framleiðslu á sjálfbærri orku.
**********
Other [SDG] goals are in conflict with climate action, e.g. ... protecting nature ... by not allowing acreage for new renewable energy build-out.
Valið stendur nefnilega á milli tveggja valkosta: Að verja náttúruna eða verja loftslagið.
Viltu skóg eða sólarrafhlöðu?
Á Íslandi stendur valið kannski frekar á milli þess að þekja svæði (oft auðar sandsléttur) með vatni og svolitlum mannvirkjum eða risavöxnum stálturnum (að ógleymdum aðgangsvegunum og rafmagnsleiðslunum neðanjarðar). Kannski ætti að leyfa þjóðinni að kjósa um slíkt samhliða næstu þingkosningum.
Viltu vatn eða stálturn?
Ég tók mig til og útbjó hugmynd að atkvæðaseðli (smellið á mynd) og bíð spenntur eftir niðurstöðum!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 15. nóvember 2023
Ekkert til vara á eldfjallaeyju
Á Íslandi gjósa eldstöðvar, snjóflóð falla og snjóskaflar stífla innviði, fjallshlíðar losna og renna yfir hús og bæi, sterkir vindar feykja af húsþökum og háspennulínum, miklar rigningar fylla holræsin, nístandi kuldinn gerir götur hálar, öldur hamast á bátum við bryggju og svona mætti lengi telja.
Það má alltaf eiga von á einhverju og vissara að búa sig undir að þurfa taka á því, hvað það sem nú er.
Auðvitað er ekki hægt að tryggja sig gegn öllu en það er hægt að minnka höggið þegar þörfin er sem mest.
Þess vegna hafa íslensk yfirvöld auðvitað safnað í digra sjóði sem nema tugum milljarða. Sé þörf á að reisa vegg fyrir tvo milljarða þá er það lítill vandi, ekki satt?
Nei, það kemur í ljós að milljarðatugirnir eru ekki til staðar. Þeir eru bara tölur á pappír. Lítill miði á botni tóms peningakassa þar sem stendur:
Skulda þér 30 milljarða.
Ríkissjóður.
Ríkið er búið að eyða neyðarsjóðunum í veislur fyrir fína fólkið, hælisleitendur og allskonar annað en viðbrögð vegna náttúruhamfara.
Og er þá komin ástæðan fyrir því að nú eigi að skella enn einum skattinum á Íslendinga til að fjármagna vegg.
Menn eru sem sagt algjörlega búnir að gleyma eldgosinu í Vestmannaeyjum, mannskæðum snjóflóðum á minni lífstíð og skriðunum við Seyðisfjörð fyrir örfáum misserum, svo eitthvað sé nefnt. Gleymt og grafið. Fjarlæg fortíð. Ekkert að læra af slíkum viðburðum!
Er farið að vera við hæfi að efast í vaxandi mæli um getu yfirvalda til að leiða land og þjóð? Búa í haginn fyrir framtíðina? Lágmarka eignatjón og týnd mannslíf vegna hins vel þekkta óútreiknanleika náttúruaflanna á Íslandi?
Það var góð hugmynd að stofna neyðarsjóð. Það var vond hugmynd að eyða honum í kampavín fyrir útlenska stjórnmálamenn og ókeypis tannviðgerðir fyrir efnahagslega flóttamenn.
Og það er góð hugmynd að blása til kosninga vegna þessa hneykslis.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Þriðjudagur, 14. nóvember 2023
Þetta er bara túlkun. Og túlkun getur verið röng
Vísindin eru leitin að þekkingunni. Þau eru skoðanaskipti. Þau eru átök. Það er þetta ferli sem skilar okkur því besta sem vísindalegar rannsóknir hafa upp á að bjóða.
En svona eru vísindin ekki kynnt í dag. Þau eru miklu frekar kynnt sem eins konar sannleikur. Níutíu og eitthvað prósent vísindamanna eru sammála um eitthvað, og það er þá sannleikurinn. Allskyns embætti og stofnanir eru sammála um eitthvað, og það er þá sannleikurinn. Þeir sem eru ósammála eða gagnrýna eru álhattar og vitleysingar.
Það var því hressandi að lesa eftirfarandi ummæli eftir íslenskan vísindamann, og að því er virðist raunverulegan vísindamann:
Þetta er bara túlkun. Og túlkun getur verið röng,
Þetta segir hann við blaðamann sem slengir engu að síður í fyrirsögn einni mögulegri túlkun af mörgum. Blaðamaður hafði þó vit á að birta fyrirvara vísindamannsins.
Það er ákveðið vandamál við að hin nýju vísindi og þau raunverulegu beri sama titil því þá er hætta á að fólk missi trú á hvoru tveggja. Ein sniðug leið sem ég hef séð til að forðast þennan rugling er að kalla hin raunverulegu vísindi vísindi, og hin nýju Vísindin® (með litla tákninu fyrir skráð vörumerki, og stórum upphafsstaf).
Ég ætla að samþykkja þessa aðgreiningu. Þannig má segja að Vísindin® séu að selja okkur hamfarahlýnun af mannavöldum, að karlmenn geti fætt börn og allt um ágæti mRNA-lyfjatækninnar til að forðast kvefpest og allt þetta með nálægt því 100% nákvæmni án fyrirvara, og að vísindin séu að segja okkur frá jarðhræringum neðanjarðar en þar sem túlkun er bara túlkun, og gæti verið röng, en líka (og vonandi) rétt.
![]() |
Kvikan gæti verið komin á 400 metra dýpi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 13. nóvember 2023
Allt er tímabundið en sumt dugar í daga og annað í áratugi
Tómur ríkissjóður, sem forgangsraðar erlendum fátæklingum í leit að velferðarfé og vopnaskaki spilltra erlendra stjórnmálamanna, hefur ekki efni á því að sinna eigin þegnum.
En þegar neyðin bankar á dyrnar, með sleggju, þá þarf að gera eitthvað.
Sem þarf auðvitað að fjármagna með skattahækkunum, enda rekur hið opinbera sig á lántökum og á ekki krónu afgangs.
Eldfjallaeyja í miðri lægðahraðlest Norður-Atlantshafsins á ekki krónu afgangs til að mæta minnstu frávikum þrátt fyrir svimandi skattheimtu.
Engar af tryggingum yfirvalda hennar duga til. Engir sjóðir eru nógu stórir, þótt þeir hafi safnast upp í mörg ár. Kannski fóru þeir í að niðurgreiða rafmagnsbíla til að fjarlægja koldíoxíðfótspor bensínbíla, en sem eldfjall fyllir upp í á augabragði.
Auðævi Íslendinga liggja að mörgu leyti í nálægð við náttúruna og náttúruöflin: Jarðhitinn, vatnsöflin, fiskimiðin. Allir eru ánægðir þegar þessar auðlindir moka inn fé. Þessu fé er sólundað í hallir og gæluverkefni. Þegar náttúran ræskir sig aðeins er ekkert afgangs til að bregðast við því.
Ég fer kannski að verða hlynntari því að Ísland gangi í Evrópusambandið því þá er hægt að senda veruleikafirrtu stjórnmálamennina á útlendar skrifstofur og þeir sem eftir eru skilja raunveruleikann. Fórnarkostnaðurinn er samt sennilega of stór. Þorskinum verður sagt að koma upp með vottorð í farteskinu og gúrkunni sagt að hún sé ekki nógu bein.
Eftir stendur að reyna kjósa betur næst, ef það tæki dugi þá til nokkurs lengur.
Eftir stendur líka að tímabundinn skattur verður lagður á og endist að eilífu. Ekkert er eins varanlegt og tímabundin skattheimta, sagði vitur maður.
Vonum að þeir sem halda um buddu ríkisvaldsins reki ekki eigin heimili og hagræði eigin heimilistryggingum á sama hátt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 12. nóvember 2023
Þegar Íslendingar hrökkva í gírinn
Náttúruhamfarir eru skelfilegar og geta haft mjög neikvæð áhrif á líf fjölda fólks. En það er kannski þegar þær skella á að Íslendingar hrökkva í gírinn. Vandamál eru leyst. Fólki er komið í skjól. Frjáls framlög eru sótt. Yfirvöld skera á alla hnútana sem þau leggja að öllu jöfnu á þá sem vilja svo mikið sem grafa holu í jörðina og gera það kleift að hleypa verktökum af stað.
Engin kynjuð fjárlagagerð á meðan menn eru að finna fé til að framkvæma lausnir enda enginn tími fyrir svoleiðis kjaftæði þegar eldfjall er að fæðast.
Ekkert umhverfismat á svartri eyðimörk við orkuver. Nei, það þarf að reisa vegg og þá verður veggur reistur.
Enginn kynjafræðingur að telja hvað margar konur og kvár eru að vinna á gröfum eða við smíði eða aðstoða við rýmingu og koma fólki í skjól. Kynjahlutföll skipta ekki máli þegar er verk að vinna.
Ég legg til að þegar rykið er sest og orðið nokkuð ljóst hvaða hamfarir eru nákvæmlega í gangi að menn setjist niður og reyni að draga einhvern lærdóm af viðbrögðunum. Hvaða reglum var fleygt í ruslið þegar á reyndi? Hvaða óþarfa stöðugildi voru ekki höfð með í ráðum þegar mikið lá á? Hvaða pappírsvinnu var fórnað þegar líf og verðmæti voru í húfi?
Í kjölfarið er svo hægt að fara með eldspýtustokk að regluverkinu og grynnka aðeins á því, og auðvitað minnka fjölda opinberra starfsmanna til að endurspegla fækkun opinberra hindrana í ýmsum umsóknarferlum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 11. nóvember 2023
Vindorkuplágan
Mikið hefur verið sagt og skrifað um uppbyggingu á vindorkuverum á Íslandi. Sem betur fer hefur samt ekki borið mikið á framkvæmdum sem sjúga fé úr arðbærum aðferðum til orkuöflunar. En Íslendingar eru oft duglegir að lepja upp vitleysuna í útlöndum og það er því ekki útilokað að þeir hefji stórfellda endurtekningu á mistökum annarra ríkja (eins og er að eiga sér stað í innflytjendamálum þessi misserin, meðal annars).
Í Evrópu og Bandaríkjunum er vindorkan núna á fallandi fæti. Ókeypis peningar hanga ekki lengur á trjánum. Neytendur muna vel eftir því hvernig orkureikningarnir fóru eins og sinueldur í gegnum heimilisbókhaldið í fyrra. Mikil áhersla hefur verið að fylla allar olíu- og gasgeymslur. Milt haust hefur líka minnkað álagið á orkuinnviðina.
En hvað ætla yfirvöld að gera nú þegar enginn hefur lengur efni á að byggja nýja vindorkugarða og framleiðendur þeirra sjá hlutabréf sín hrynja?
Jú, auðvitað að moka undir vitleysuna með neytendum (áhersla upphafleg):
Þó að hærri niðurgreiðslur í næstu uppboðslotu ... kunni að endurvekja þróun vinds á hafi úti, mun það líklega skila sér í auknum raforkukostnaði fyrir neytendur sem enn eru hlaðnir himinháum reikningum í kjölfar orkukreppunnar í fyrra.
**********
While higher subsidies in the next auction round ... may well reinvigorate offshore wind development, it will likely feed through to increased electricity costs for consumers still burdened with sky-high bills in the wake of last years energy crisis.
Það er sem sagt ekki nóg að sjá spilaborgina hrynja til að gefa hana upp á bátinn. Nei, almenningur skal áfram mjólkaður í hítina svo stór fyrirtæki, full af heitu lofti, geti haldið áfram að greiða arð og troða stálturnum í hafsbotninn.
Nú hef ég ekkert á móti vindorku í sjálfu sér. Hún hentar sennilega ágætlega fyrir sum svæði þegar aðrir valkostir eru verri, svo sem í Danmörku sem hefur hvorki fallvötn né jarðhita, engar kolanámur og frekar takmarkaðar olíu- og gaslindir. Danmörk er rík og lætur neytendur svo sannarlega gjalda fyrir það með háu rafmagnsverði sem bera marga og mikla skatta til að halda uppi vindmyllunum. En fyrir Íslendinga er vindorkan í besta falli táknrænn gjörningur sem mun engu skila nema kostnaði og umhverfisspjöllum. Er þá ótalinn kostnaðurinn sem felst í að binda stóra hópa fólks í viðhaldsverkefnum tengdum vindmyllum og við að hreinsa upp fuglahræin í kringum þær.
Hættum þessu áður en örlög íslenskra neytenda verða þau sömu og evrópskra: Að vera mjólkaðir í vitleysuna þar til hún verður orðin of stór til að menn geti leyft henni að hrynja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 10. nóvember 2023
Eitt egg í einni körfu
Stundum er sagt þar sem unnið er með áhættu, svo sem í fjárfestingum, að leggja ekki öll eggin í eina körfu. Ef karfan dettur þá brotna þau öll.
En hvað er til ráða þegar menn eiga eitt egg í einni körfu og sú karfa er við það að detta?
Eins og í tilviki hitaveitu á Suðurnesjum og að einhverju leyti rafmagnsframleiðslu?
Jú, reyna að bólstra þessa körfu svo hún þoli höggið þegar hún dettur, úr 10 kílómetra hæð.
Hugmyndir eins og þær að byggja vegg á nokkrum dögum til að stöðva hraunflóð byrja allt í einu að hljóma raunhæfar.
Í mörg ár hefur verið kallað á eftir því að framleiða meira rafmagn og efla dreifikerfi þess, sérstaklega á svæðum eins og Suðurnesjum.
Það hefur ekki verið auðsótt. Einhver mosi gæti jú farið undir vatn. Einhver öfgafull túlkun á fyrirmælum erlendra embættismanna gæti verið svikin. Einhver þrýstihópur gæti farið í fýlu.
Eftir stendur eitt egg í einni körfu og tilraunir til að verja þetta egg frá fallinu óumflýjanlega.
Ég hef auðvitað samúð fyrir því að hitaveita geti ekki þjónað mjög stóru svæði. En rafmagnsdreifing á ekki að vera bundin við eina litla línu sem ítrekað hefur svikið og stefnir í að slitni.
Hamfarir hrista stundum upp í hlutunum. Fá menn til að hugsa í áætlun A, B, C og svo framvegis. Kannski það verði raunin ef hraun í rólegheitum brýtur niður mannanna verk og gerir að engu á meðan varaaflstöðvar enn og aftur, á landi eða fljótandi, bjarga málunum.
![]() |
Gríðarlega mikilvægt að verja virkjunina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Fimmtudagur, 9. nóvember 2023
Vel soðnir danskir froskar
Ein besta álitsgrein veirutímanna var án efa Hvernig skal sjóða íslenskan frosk. Hér er lítil tilvitnun í hana til að leggja áherslu á snilldina:
Til að sjóða frosk lifandi þarf að hita vatnið hægt. Annars hoppar hann uppúr. Það verður smátt og smátt eðlilegt að mega ekki mæta í vinnu, fara í sund, fara í ferðalög eða bjóða fólki heim til sín í mat. Hægt og hægt verður hugmyndin um eðlilegt líf fjarlægari. Það gleymist að fortíðin er ekki eðlileg. Það er nútíminn sem er eðlilegur. Þetta er nú líf okkar.
Ég er búinn að lesa þessa grein oft og mæli með því að þú gerir það sama því hún er í raun tímalaus. Það eru nefnilega til fleiri leiðir til að sjóða froska.
Ég les núna í dönskum fréttum að til stendur að leggja á enn einn skattinn á flugmiða. Blaðamaður gekk á nokkra farþega og spurði þá um álit þeirra á þessum nýja skatti sem að nafninu til á að renna til grænna orkuskipta og hærri ellilífeyris (já þú last rétt) en rennur auðvitað bara í hítina og verður notaður í hvað það nú er sem aflar atkvæða.
Farþegarnir höfðu ekkert á móti hinum nýja skatti. Sumir furðuðu sig að vísu á þessu með hærri ellilífeyri í skiptum fyrir hærra flugmiðaverð en ef nú bara skattarnir fara í að minnka losun á koltvísýringi og framleiða umhverfisvænt eldsneyti að þá eru þeir ásættanlegir.
Sem sagt, vel soðnir froskar hérna, tilbúnir að blæða enn meira í hítina í gegnum hærra flugmiðaverð af því annars stiknar jörðin - vegna flugvéla.
Ég á satt að segja svolítið erfitt með að skilja fólk sem trúir bæði á hamfarahlýnun vegna losunar manna á koltvísýringi í andrúmsloftið og velur að kaupa sér flugmiða. Auðvitað geta verið góðar ástæður til að fljúga engu að síður, svo sem til að sinna vinnu eða rækta fjölskyldu- og vinatengsl, en margir þessara flugmiða fara einfaldlega í að sækja í hita og sól. Svo þér finnst hamfarahlýnun slæm og kennir mannkyninu um, en velur samt að fljúgja í meiri hita og sól? Aðstoð óskast til að ég skilji þessa hrópandi mótsögn.
En þannig er það nú. Flugmiðar fá á sig enn einn skattinn. Fátækt fólk situr heima. Efnað fólk borgar meira í hítina, ríkissjóður bólgnar og loftslagið finnur ekki fyrir neinu.
Allt eins og það á að vera.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)