Miðvikudagur, 8. nóvember 2023
Ríkisstyrkir sem vopn
Íslenska ríkið dælir hundruðum milljóna á ári af fé skattgreiðenda í einkarekna fjölmiðla og milljörðum í þann ríkisrekna.
Hvað fær ríkið í staðinn?
Þægilega fjölmiðla sem tipla á tánum þegar hið opinbera vill tæta í sig einhverja starfsgreinina?
Blaðamenn sem víkja í engum aðalatriðum frá efnistökum fréttatilkynninga hins opinbera?
Mátulega gott aðgengi þeirra sem hafa óþægilegar skoðanir að hljóðnemunum?
Vonandi ekki!
En styrkir hið opinbera málefnalega andstæðinga sína? Þá sem hamast og hjakkast í bákninu?
Núna hefur borgarfulltrúi tekið til máls og kallar eftir opinberri ritskoðun og beitingu fjölmiðlastyrkja til að þagga niður í óþægindunum.
Væntanlega er borgarfulltrúinn ekki einn um þá skoðun. Mögulega fór hann í ræðustól eftir að hafa rætt við vini og kunningja og samflokksfólk og fengið hvatningu um að benda á þetta mikla vandamál.
Hið opinbera notar víða styrki til að móta, múta og meiða. Þeir óþægu fá ekkert, þeir þægu fá mikið. Þetta getur hið opinbera auðveldlega gert þegar það er búið að gera rekstrarumhverfið óbærilegt og ráðstöfunarfé fólks að engu og styrkina og skattféð að einu líflínunni. Landbúnaður, nýsköpun, fjölmiðlastarfsemi, listir og menning, íþróttastarf, rekstur skóla og svona mætti lengi telja. Mjög lengi!
Í gamla daga sáu prestar um að þagga niður í gagnrýni og óþægilegum skoðunum með allskyns hótunum og jafnvel handtökum. Í dag þykir meira við hæfi að gera einhvern gjaldþrota. En markmiðið er það sama.
![]() |
Geti beinlínis grafið undan fjölmiðlafrelsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.11.2023 kl. 08:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 7. nóvember 2023
Eina ráðið gegn ofríki stjórnvalda
Ásmundur Einar Daðason, mennta-og barnamálaráðherra, hefur lagt áform um sameiningu átta framhaldsskóla til hliðar. Þetta gerir hann auðvitað vegna mótmæla, andmæla og gagnrýni. Alveg svakalegrar gagnrýni sem fékk mikla athygli.
Nú er þetta kannski lítið og ómerkilegt mál í stærra samhenginu (tilfinningaveran ég myndi samt öskra af reiði ef séreinkenni MR yrðu sett í tætarann umfram það sem nú er) en sýnir samt fram á nokkuð mikilvægt: Við borgararnir getum spyrnt við fótum þegar yfirvöld senda jarðýturnar af stað. Með svolitlum samtakamætti getum við hrint aftur af áætlunum yfirvalda. Við getum það ef við nennum og viljum.
Á veirutímum nenntum við ekki né vildum. Við leyfðum yfirvöldum að rústa hagkerfinu, lífum fólks, heilsu fólks, kaupmætti gjaldmiðilsins, andlegri heilsu barna og svona mætti lengi telja. Við mótmæltum lítið sem ekkert og fjölmiðlar klöppuðu í takt við trommuslátt yfirvalda.
Ég verð að viðurkenna að þetta fyllir mig af svolítilli bjartsýni. Ekki mikilli en svolítilli. Þegar yfirvöld lýsa næst yfir þvælu og nota til að rústa lífi þínu þá getur þú rifjað upp þegar menntamálaráðherra hætti við að þurrka út nokkra framhaldsskóla til að fegra Excel-skjöl.
Er það ekki alveg frábært?
![]() |
Hættur við sameiningu framhaldsskóla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 6. nóvember 2023
Líffræðin og árásin á pósthólfið
Um daginn vaknaði ég upp við að mín biðu mörg hundruð tölvupóstar á netfang sem allir geta auðveldlega rakið til mín. Mér fannst þetta athyglisvert og skrifaði um það litla færslu. Í kjölfarið fékk ég nokkur skilaboð frá aðilum sem höfðu lent í því sama eða gátu sagt frá einhverju svipuðu hjá öðrum. Allar frásagnir höfðu það sameiginlegt að fjalla um einstaklinga sem hafa gagnrýnt fullyrðingar um að með yfirlýsingunni einni geti einstaklingar skipt um kyn og einnig gagnrýnt að börn, sem mega hvorki drekka né reykja né stofna til skulda né horfa á bíómyndir með Sylvester Stallone, megi velja að fara á óafturkræfa lyfjakúra til að handtaka kynþroska sinn.
Það myndaðist með öðrum orðum ákveðið munstur: Þeir sem gagnrýna þessi nýju trúarbrögð mega eiga von á árásum á tölvupóstfang sitt.
Núna hefur flóð tölvupósta fjarað út í mínu tilviki. Öflug og nútímaleg póstkerfi gera slíkt auðvelt. Það er því upplagt að telja upp nokkur atriði, sem blasa við en er samt afneitað af sumum:
- Kona er einstaklingur með leg og önnur líffæri sem karlmenn eru ekki með. Frjór kvenmaður getur fætt börn, en ekki aðrir.
- Börn og unglingar upplifa oft óöryggi og óvissu um hvað er í gangi með hneigðir þeirra og líkama en eiga að fá að klára sinn kynþroska áður en lyfjasalar og skurðlæknar eru boðaðir á vettvang.
- Trans kona er einstaklingur sem er líffræðilega karlmaður en kallar sig eitthvað annað, og trans maður er einstaklingur sem er líffræðilega kvenmaður en kallar sig eitthvað annað.
- Búningsklefar viðkomandi eiga að miðast við líffræðina, ekki hugsanir. Til vara eru sérklefar víða til staðar sem eiga að forða litlum börnum frá því að þurfa að góna á kynfæri hins kynsins á ókunnugu fólki.
- Það hafa fáir einhverja sérstaka fordóma gegn fólki sem kallar sig hitt og þetta (mögulega reynir á þolinmæði vinahópsins, en það er önnur saga), og ég held að öllum sé alveg nákvæmlega sama hvaða bólfélaga fólk velur sér, á meðan þeir eru ekki börn. En þegar lyfjasölunum og skurðlæknunum er otað að börnum og unglingum þá spyrna sífellt fleiri við fótum, verðskuldað.
Nú er að sjá hvort mér bjóðist fleiri tilboð vegna svarts föstudags eða hvað það nú er sem á að fá mig til að yfirgefa líffræðina og gangast kynjafræðinni á hönd.
Það er að segja ef upptalning úr líffræðinni er ástæða þess að mér buðust svona margir ágætir tölvupóstar á sínum tíma. Við sjáum hvað setur.
Mánudagur, 6. nóvember 2023
Norrænir jafnaðarmenn
Í Danmörku hefur hægri-miðju-vinstristjórnin nú tilkynnt að hún ætli að lækka launaskatta um að meðaltali um 40 þús. íslenskar krónur á ári á hvern einasta íbúa. Samkvæmt einni reiknivélinni sýnist mér þetta ætla að verða alveg ágæt lækkun fyrir sjálfan mig.
Um leið ætlar ríkisstjórnin að auka ýmis útgjöld, að þannig er pólitíkin auðvitað.
Hvernig stendur á þessari skattalækkun? Vissulega var hún á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar en er ekki verðbólga og verið að senda peninga og vopn inn í átakasvæði til að viðhalda þeim? Þarf ekki að fjármagna rándýr orkuskipti? Sveitarfélögin gráta sig hás af peningaskorti - þurfa þau ekki meira?
Það er ástæða: Tilraun til að fjölga fólki á vinnumarkaði. 5000 störf eiga að fæðast við að lækka skattana. Launafólk greiðir þá meira í skatta og ríkið verður mögulega ekki af neinu.
Á Íslandi kallast svona lagað Allir vinna, en ólíkt danska fyrirkomulagi þá lækka skattar á Íslandi bara tímabundið og ná yfirleitt einvörðungu til virðisaukaskattsins. Hugmyndin er sú sama - allir vinna - en Danir virðast að þessu sinni vilja að allir vinni varanlega, frekar en bara tímabundið.
Norrænir jafnaðarmenn muna gjarnan að til að fóðra ríkisvélina þarf framleiðslu verðmæta sem má síðar hirða að því marki að þau halda áfram að vera framleidd. Þeir breyta kerfinu hægt og rólega og hafa ákveðið óþol gagnvart skuldasöfnun. Skattarnir eru háir, vissulega, en þeir greiða líka fyrir það sem þarf að greiða fyrir (frekar en að vera bara fyrsta lag skattheimtu, og síðan bætast þjónustugjöldin við), og víða hægt að krækja í skattafrádrætti (svo sem vegna vaxtagreiðslna, aksturs til og frá vinnu og með kaupum á ákveðinni þjónustu).
Og þetta með innflytjendur? Norrænir jafnaðarmenn hafa núna lært að tilvist velferðakerfis og mikið innstreymi innflytjenda eru mótsagnir.
Margt er svipað í Íslandi og Danmörku: Biðlistar eru langir (tekur um 4-6 vikur að fá tíma hjá heimilislækni), velferðarkerfið aðlaðandi valkostur við vinnu og enginn skortur á fjáraustri í gæluverkefni.
En maður má þakka fyrir það góða. Og það er hér með gert.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 6. nóvember 2023
Vinstrisinnaðir blaðamenn að blása í segl Trump
Við heyrum og lesum mikið um pólitískar ákærur gegn Donald Trump, frávarandi Bandaríkjaforseta, enda telja hér ýmsir að nú sé aldeilis verið að þjóna réttlætinu. En ég sé ekki mikið fjallað um afleiðingar þessara ákæra.
Nú er ég enginn stuðningsmaður Trump, hvorki sem persónu né forseta. Hann gerði sumt rétt, eins og fleygja hinu svokallaða Parísarsamkomulagi í ruslið og koma á samskiptum milli Ísrael og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Hann kann að taka upp símann og forðast loðið tungutak atvinnustjórnmálamannanna, og í fyrsta skipti í áratugi hófu Bandaríkin ekki nýtt stríð. En hann gerði margt rangt, er alveg gjörsamlega ósamkvæmur sjálfum sér og er auðvitað alveg gríðarlega óvinsæll víða um heim, sérstaklega í Evrópu (en það eru svo sem allir Bandaríkjaforsetar úr Repúblikanaflokknum, sama hvað).
Það kemur mér því á óvart hvað fjölmiðlar eru duglegir að blása í segl Trump. Ný könnun New York Times í ríkjum þar sem er oft mjótt á munum sýnir vaxandi bil á milli hins hruma Biden og hins kjaftfora Trump, Trump í hag. Pólitísku ofsóknirnar virðast ætla að hafa öfug tilætluð áhrif, og auðvitað hjálpar galin innflytjendastefna og versnandi fjárhagur hins vinnandi manns ekki til.
Um þetta er sem sagt lítið fjallað í evrópskum fjölmiðlum en mun víðar í Bandaríkjunum. Kannski neita Evrópumenn að trúa þessum áhrifum endalausra auglýsinga sinna á því hvað Trump er að gera hverju sinni, og ítrekuðum fréttum um hvaða upplogna þvæla er núna í gangi.
Það væri óskandi að bandarísku stjórnmálaflokkarnir gætu bryddað upp á einhverju betra en Biden og Trump og öðrum slíkum númerum. En svo virðist ekki vera, og stefnir í endurkomu Trump, í boði vinstrisinnaðra blaðamanna.
![]() |
Trump ber vitni í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 5. nóvember 2023
Athugasemd um Almannavarnir
Rakst á þessa litlu athugasemd í lengri færslu eftir mikinn meistara (lítillega lagfærð):
Almannavarnir loka allri auðveldri aðkomu að saklausu túristagosi og þvinga fólk í 20 km göngu bara til að sjá það. En þegar möguleg stórskaðagos verða undir byggð og raunveruleg hætta stafar að lífi fólks vegna goss, þá er bara gengið út frá því að allt reddist.
Magnað, ef rétt er. Kæmi raunar heldur ekkert á óvart. Það er eins og hin og þessi yfirvöld gleymi sér alltaf í aukaatriðum. Á veirutímum sáum við þetta óteljandi sinnum. Í dag eru þau ennþá að boða sprautur og hunsa umframdauðsföll.
Annars má kannski sýna sérfræðingunum svolitla samúð í þetta skipti. Það ríkir alltaf mikil óvissa í aðdraganda eldgosa og kannski óþarfi að steypa hinu opinbera í enn meiri skuldir til að borga skaðabætur til ríkra einkafyrirtækja. En það er alveg sjálfsagt að vara gesti baðvatnsins í eldfjallasprungunni við ástandinu.
![]() |
Landris heldur áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 4. nóvember 2023
Glópahlýnun
Ég rakst á alveg hreint stórskemmtilegt línurit sem segir miklu meira en bara þróun einhverra talna.
Það lítur svona út:
Þetta línurit sýnir losun á koltvísýringi vegna orkuframleiðslu. Græna línan eru OECD-ríki, eins og Ísland, og bláa línan eru ríki utan OECD, eins og Kína. Rauða línan er summan af grænu og bláu línunni.
Græna línan er á leið niður enda erum við að skattleggja okkur í rjáfur til að minnka losun okkar á koltvísýringi. Við skiptum út öruggu og hagkvæmu jarðefnaeldsneyti fyrir vind og sól. Við lokum kolaorkuverum og opnum ekkert í staðinn. Við gerum bílana alveg ómögulega dýra í rekstri.
Bláa línan er á uppleið. Framleiðslan og fyrirtækin sem fóru út úr grænu línunni færðu sig yfir á bláu línuna.
Jafnvel þótt græna línan sé á leið niður þá er summa grænu og bláu línunnar á leið upp. Ríki utan OECD eru að bæta upp fyrir okkar minnkun á losun koltvísýrings og vel það.
Plaströrin í útlegð, orku- og umhverfisskattarnir, eldsneytisgjöldin, kolefnisgjöldin, regluverkið, skattaafslættir á bílum ríka fólksins - allt þetta sem við leggjum á okkur til að færa útblástur frá grænni línu til blárrar línu - hvetjandi ekki satt?
Nú kynni einhver að stinga upp á því að við ættum að reyna ná bláu línunni niður, eða að minnsta kosti að reyna fletja hana út. En það er ekki að fara gerast. Indversk, kínversk, brasilísk, indónesísk, víetnömsk og pakistönsk yfirvöld eru ekki að fara hægja á viðleitni sinni til að koma fólki úr engri orku í einhverja orku.
Kannski seinna, eftir áratug eða svo, þegar allir eru með einhverja orku, er hægt að hugleiða orkuskipti, en ekki fyrr en það.
Mundu þetta næst þegar þú reynir að soga í þig mjólkurhristing með pappírsröri áður en það fellur saman. Í nafni loftslagsins, auðvitað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 3. nóvember 2023
Viðurkenning á því að skattar á fyrirtæki eru of háir
Íslenska ríkið er víða á ferð þegar hagkerfið er að framleiða verðmæti.
Það klípur af fyrirtækjum í formi svokallaðs tryggingagjalds og segist vera að safna í sjóði vegna atvinnuleysistryggingar og fæðingarorlofs. Þetta gjald er auðvitað bara skattur sem rennur í hítina.
Það hirðir auðvitað af launþeganum áður en þeir fá launin sín greidd.
Það hirðir hluta af hagnaði fyrirtækisins ef því tekst að skila slíkum.
Sveitarfélögin sækja sér fasteignagjöld af fyrirtækinu og útsvar af launþeganum.
Öll aðföng enda á einn eða annan hátt á að bera virðisaukaskatt.
Sumir atvinnuvegir búa svo jafnvel við sérstaka aukalega skattheimtu ofan á allt hitt.
Hvernig á að skapa svigrúm til að taka áhættu og prófa einhverja nýsköpun í þessu umhverfi?
Íslenska svarið: Veita skattaafslætti og greiða styrki!
Ekki fyrir alla samt. Nei, bara fyrir þá sem sækja um og uppfylla einhver skilyrði.
Nú eru Íslendingar alveg svakalega leitandi að lausnum. Það sést í því að örþjóð hefur tekist að búa til stór, alþjóðleg fyrirtæki sem bjóða upp á hagkvæmar lausnir.
Þrátt fyrir íslensk yfirvöld, en ekki vegna þeirra.
En smátt og smátt seilist hið opinbera dýpra í alla vasa og það dregur skiljanlega og fyrirsjáanlega úr þróttinum. Í staðinn þurfa að koma sérstakir afslættir eða átaksverkefni eins og Allir vinna, styrkir fyrir suma og niðurfellingar á sköttum fyrir suma.
Ríkið gæti auðvitað bara komið sér úr veginum og minnkað fjárþörf sína til að lífga við það sem það situr svo þungt á núna að það nær ekki andanum. En slík öfgahægrimennska er auðvitað alveg óhugsandi í opinberu kerfi sem þarf að halda uppi stórum hópum af fólki sem mætir í vinnuna, hengir jakkann sinn á stólbakið og fer svo á kaffistofuna til að kvarta yfir álaginu vegna allra umsóknanna.
Hvað er þá til ráða? Að kjósa öðruvísi næst? Að mótmæla? Skrifa greinar? Nei, þetta dugir skammt. Eina ráðið er mögulega að finna leiðir til að starfa utan kerfisins, án þess þó að brjóta lög. Er mér þá minnisstæð saga sem vinur minn sagði mér. Hann reiddi fram reiðufé í ákveðnum viðskiptum og um leið og það gerðist var slökkt á kassanum.
Ég segi svona.
![]() |
Fær hálfan milljarð í skattafrádrátt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 2. nóvember 2023
Pilla til að passa í peysuna
Lyf eru æðisleg. Þau eru afurð vísindamanna og vísindanna. Þau eru örugg og æðisleg. Þeir sem framleiða þau eru dýrlingar sem berjast fyrir velferð mannkyns.
Núna er hægt að fá lyf við öllu, meira að segja kvefpest. Yfirvöld passa auðvitað upp á að þessi lyf séu í lagi - valdi ekki hjartavöðvabólgu, ófrjósemi, lömun, fötlun, andláti. Vissulega er ekkert lyf alveg 100% öruggt fyrir alla en frávikin eru gripin af öflugu eftirliti og varúðarleiðbeiningar útbúnar. Læknar fylgjast með rannsóknum og passa að nýjasta þekking sé alltaf nýtt við ráðleggingar.
Þetta er alveg frábært kerfi. Við göngum um stórmarkaði lyfjasalanna og veljum lyf sem létta líf okkar. Pilla til að passa í peysuna eða buxurnar, pilla til að lækka blóðþrýsting, pilla til að lækna kvef. Ekkert getur farið úrskeiðis í þessu kerfi.
Nú tek ég engin lyf sjálfur, nema daglega vítamínpillan og lýsisskeiðin og einstaka engiferskot falli undir þann flokk. Ég er kannski bara kjáni. Af hverju tek ég ekki bara pilluna sem fær mig til að passa í minni buxnastærð og aðra sem hjálpar mér að sofna og enn aðra til að hjálpa mér að vakna? Á gráum dögum væri fínt að geta hent í sig pillu til að lýsa upp daginn. Þegar er mikið að gera og skrokkurinn þreyttur er eflaust upplagt að kyngja svolitlum kokkteil og hressast. Að drekka vatnsglas gegn hausverk er örugglega eitthvað úrelt og gamaldags.
Mögulega þarf ég á endurmenntun að halda. Hvar er best að sækja í slíkt? Ábendingar óskast.
![]() |
Megrunarlyf skilar feitum hagnaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 31. október 2023
Fjórða vaktin
Eitthvað hefur verið rætt um hina svokölluðu þriðju vakt. Hún er skilgreind sem svo á einum stað:
Í dag eru konur löngu komnar út á vinnumarkaðinn og karlmenn taka í auknum mæli þátt í heimilisstörfum og umönnun barna. Þetta er fyrsta og önnur vaktin. Það sem situr hins vegar eftir er hin svokallaða þriðja vakt eða hugræn byrði (e. mental load) sem snýr að öllu utanumhaldi og verkstjórn heimilisins. Þriðja vaktin er ólaunuð og oft ósýnileg ábyrgð, yfirumsjón og verkstýring á þeim störfum sem tilheyra annarri vaktinni. Þriðja vaktin felur í sér hugrænt skipulag, áætlanir, að leggja á minnið hverju þarf að sinna, hvenær og hvernig, muna eftir að muna. Verkefni sem eru að megninu til huglæg og ósýnileg öðrum en krefjast orku og tíma þess sem þeim sinnir.
Síðan er haldið áfram:
Erlendar rannsóknir sýna að þessi þriðja vakt er að mestu í höndum kvenna og hefur áhrif á atvinnuþátttöku þeirra og framgang í starfi, veldur streitu og álagi og stuðlar að kulnun. Er þetta verulegt áhyggjuefni, ekki síst fyrir vinnumarkaðinn og ber að taka alvarlega.
Þá höfum við það.
Þetta stórkostlega vandamál má auðvitað nýta til að selja bækur, eða eins og segir á einum stað í viðtali við höfund bókar (feitletrun mín):
Rannsóknir sýna að það er oft erfitt að greina á milli mæðrunar og að vera maki einhvers þegar kemur að þessu, segir Hulda [Jónsdóttir Tölgyes sálfræðingur]. Rannsóknir sýna líka að konur eru miklu meira í því að minna maka sinn og börnin á eitthvað heldur en að karlar eru að minna heimilisfólk á hluti, segir hún jafnframt.
Áfram er haldið:
Af frásögnum margra íslenskra kvenna að dæma upplifa þær eiginmenn sína sem eina af börnunum vegna þeirrar auknu hugrænu byrði sem fellur gjarnan á herðar þeirra, einna helst í gagnkynhneigðum samböndum.
Hulda telur mikilvægt að karlar opni augun fyrir þeirri skaðsemi sem þriðja vaktin veldur konum og þeir fari að beina sjónum sínum að þeirri duldu misskiptingu sem á sér stað á milli kynja. Hún segir fræðsluna til staðar en stór hluti vandamálsins séu rótgróin samfélagsleg viðhorf sem þurfi að breytast.
Karlar þurfa að stíga inn af fullum þunga, taka ábyrgð og gera það að eigin frumkvæði.
Jæja, gott og vel.
Ég hjó eftir einu - þessu með að konur þurfi í sífellu að vera minna á hitt og þetta.
Væntanlega að minna á að það vanti epli í ísskápinn, að ruslið sé fullt, að börnin þurfi nesti.
Er þetta ekki bara annað orð yfir tuð og lélega verkaskiptingu og skort á ábyrgðartilfinningu í umhverfi áminninga?
Nú má að mörgu leyti bera saman rekstur á heimili og rekstur á fyrirtæki, eða vinnu að verkefni innan fyrirtækis. Ef verksviðin eru skýr þá þarf ekki mikið meira en stöku stöðufundi til að allir viti hvar reksturinn stendur og hvaða upplýsingar þurfi að fara á milli. Ekki að verkefnastjóri sé að handstýra öllu heldur að samtalið eigi sér stað. Flestir reyna að tryggja að þeirra framlag sé tilbúið á réttum tíma, hlaupa undir bagga þegar það er hægt og huga að forgangsröðun.
Hendum inn í þessa blöndu konu sem finnst hún stanslaust þurfa að minna á hitt og þetta. Það sem gerist sjálfkrafa er að frumkvæði fólks er tekið úr sambandi. Til hvers að sýna frumkvæði þegar áminningin er handan við hornið? Fyrirmælin um hvað sé mikilvægast núna? Þetta er mögulega ein öflugasta leiðin til að slökkva á heilum fólks og frumkvæði.
Ég ætla að leyfa mér að búa til nýtt hugtak: Fjórðu vaktina.
Það felst í því að þurfa í sífellu að vera í stappi við manneskju á þriðju vaktinni um hvað er mikilvægast hverju sinni. Taka eilífa slagi. Hafa eigin skoðanir á því sem þarf að gera. Rífast og gera það duglega.
Þessi fjórða vakt tekur á og er mögulega ein af stærri ástæðum fyrir hárri skilnaðartíðni þar sem þriðja vaktin getur ekki hætt að minna á á eigin hugmyndir og gera lítið úr hugmyndum annarra um hvað þarf að gera og hvað þarf hreinlega ekki að vera í fyrsta forgangi. Þetta gerir fólk á fjórðu vaktinni andlega og líkamlega örmagna.
Ég ætti kannski að skrifa bók?
Hún gæti heitið: Fjórða vaktin - hvernig fólk þróar með sér ábyrgðartilfinningu í fjarveru strengjabrúðumeistara, en ekki með hjálp slíkra.
Forpantanir má senda á netfang mitt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)