Þriðjudagur, 18. ágúst 2015
Frábær hugmynd!
Yngvi Pétursson, rektor Menntaskólans í Reykjavík, hefur farið þess á leit við borgaryfirvöld að skólinn fái að taka inn nemendur ári fyrr, þ.e. eftir að þeir hafa lokið 9. bekk, og síðan taki við þriggja ára framhaldsskólanám.
Þetta er frábær hugmynd!
Það hefur vonandi runnið upp fyrir flestum foreldrum grunnskólabarna nú og fyrr að grunnskólinn er fyrst og fremst geymslupláss fyrir eirðarlaus ungmenni. Þar er þeim kennd allskonar þvæla sem nýtist engum þegar út í lífið er komið og er aðallega gert til að halda krökkum uppteknum. Ýmis konar kjaftafög spila hér stórt hlutverk - fög þar sem krakkar geta bara setið og blaðrað út frá einhverju léttmeti svo tíminn líði. Á meðan eru þau ekki heima að plaga foreldra sína eða úti að gera eitthvað af sér.
Vissulega lærist margt í grunnskóla með því einu að vera þar. Krakkar læra að fóta sig í hinum ýmsa félagsskap, komast að því hvernig á að velja vini og oftar en ekki læra að tækla stríðni og útskúfun. Þau læra að vakna á morgnana og halda líkama sínum gangandi á fábreyttu fæði - oft sykurmettuðu sjoppufæði. Sum læra að reykja og drekka en önnur að iðka íþróttir og stunda félagslífið. Margt lærist óháð því hvað er matreitt ofan í þau í kennslustofunum.
Síðan eru til þeir krakkar sem þurfa ekki geymslupláss og vilja fara læra eitthvað. Að komast fyrr í framhaldsskóla gæti hér hjálpað mikið. Að velja sinn eigin skóla og stunda hann er stórt stökk fyrir grunnskólakrakka í skyldunámi og veitir ábyrgðartilfinningu og stuðlar að andlegum þroska.
Hugmynd rektors MR er góð og henni ætti að taka án frekari málalenginga.
![]() |
MR vill fá 10. bekkingana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 17. ágúst 2015
Um áhrif viðskiptaþvingana
NATO, Rússland, Evrópusambandið og bandamenn og meðlimir allra þessara fyrirbæra eru núna í vel þekktum leik sem heitir að reyna berja hvern annan til hlýðni með viðskiptaþvingunum.
Óháð því hver er að haga sér illa eða ólöglega eða ósiðlega þá langar mig að benda á nokkrar afleiðingar viðskiptaþvingana, hvar svo sem þeim er beitt.
Í fyrsta lagi valda þær öllum sem að þeim koma skorti eða óhagkvæmni. Þeir sem neita að kaupa með hagkvæmum hætti þurfa að afla sér með óhagkvæmari leiðum eða hreinlega að neita sér um ákveðnar vörur og þjónustu.
Í öðru lagi valda þær öllum sem að þeim koma fjárhagslegu tapi. Það sem áður mátti kaupa að utan ódýrt og selja aðeins dýrar en engu að síður ódýrt þarf nú að afla sér með dýrari leiðum og selja enn dýrar.
Í þriðja lagi leiða þær til þjáninga fyrir þá sem annaðhvort geta ekki keypt á hinu dýra verði eða missa hreinlega möguleikann á kaupum alveg. Fátækir hafa ekki efni á mat, ríkir þurfa að eyða meiru í mat og minna í fjárfestingar. Hungur og vannæring eru algengir fylgifiskar viðskiptaþvingana, og þeir sem minnst mega sín finna fyrst fyrir því.
Í fjórða lagi leiða viðskiptaþvinganir til ógna eða árása, beint eða óbeint. Þegar Bandaríkjamenn lokuðu á olíusölu til Japana í aðdraganda annarrar heimstyrjaldar (en áður en þessi ríki voru í stríði) fannst Japönum ekki annað í stöðunni en að afla sér olíu með árásarstríðum á olíurík svæði í suðri. Það kæmi mér ekkert á óvart ef Rússar reyndu að bæta sér upp skort á einhverju með svipuðum aðferðum, og verður þá bara að hluta til sakast við þá sjálfa.
Í fimmta lagi styrkja viðskiptaþvinganir stjórnmálamenn í valdabrölti. Þessir stjórnmálamenn geta bent þegnum sínum á að þeir þurfi nú að standa saman og á eigin fótum gegn hinum ósanngjörnu útlendingum. Völd þeirra styrkjast. Ekki líða þeir valdamestu heldur mikið fyrir viðskiptaþvinganir. Stjórnmálamenn ná alltaf að fá sitt.
Jón Sigurðsson "forseti" hvatti Íslendinga á sínum tíma til að skipta sér ekki af málefnum erlendra ríkja en stunda þess í stað frjáls viðskipti við alla sem vildu. Eiga orð hans ekki bara ágætlega við ennþá?
![]() |
Bjarni: Efasemdir um þvinganirnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 14. ágúst 2015
Þarf afreksfólk alltaf að fá klapp á bakið?
Hún er mikil sú þörf margra að þurfa sífellt að láta hrósa sér fyrir vel unnin störf. Gildir þetta bæði um konur og karla. Frænka mín, sem er yfirmaður fólks á mjög breiðu aldursbili, segir að þeir yngri þurfi helst að fá hrós á hverjum degi því annars byrja þeir að leita að annarri vinnu. Hinir eldri láta sér nægja að leggja á sig og vinna vel og vita með sjálfum sér að verk voru vel unnin.
Þessi hrós-þörf er kannski skiljanleg í okkar Facebook/Instagram/Snapchat-samfélagi þar sem hverri einustu máltíð eru gerð góð skil fyrir alla vini og kunningja, hver einasti hlaupatúr auglýstur og hverri einustu ferð í ræktina fylgt eftir með rækilegri lýsingu á öllum æfingunum. Þetta er hugarástand athyglissýki, sem virðist vera orðin hið viðtekna hugarfar. Þeir sem stunda ekki svona auglýsingaherferðir á öllum dagsverkum sínum eru nánast sakaðir um að vera fela eitthvað.
En gott og vel - ég skal alveg taka undir að hversdagshetjurnar hafi ekki hlotið mikla athygli. Sjálfur er ég umkringdur slíkum hetjum, frá níræðri ömmu minni til mömmu minnar. Þetta eru konur sem fórnuðu miklu til að koma börnum sínum á legg. Þeim tókst það nokkuð vel get ég svo bætt við. Það er líklega eina hrósið sem þær þurfa á að halda. Skal þeim samt hrósað hér og nú. Án ykkar væri ég annar og sennilega síðri maður en ég er!
![]() |
Afrekskonur leynast víða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 21. júlí 2015
EKKI heimsækja Danmörku!
Ég vil vara marga Íslendinga við því hér og nú að heimsækja Danmörku, þessa barbaraþjóð sem leyfir áfengiskaup 15 ára ungmenna (upp að 18% styrkleika til 18 ára aldurs).
Hér er áfengi til sölu nánast hvar sem er, allan sólarhringinn, og gjarnan er það meira að segja auglýst í blöðum og sjónvarpi og í strætóskýlum og í verslunum með stórum verðmiðum. Að hugsa sér - tælandi vodkaauglýsing á tíma dags þar sem börn eru vakandi!
Í þeirri verslun sem er næst heimili mínu er sterka áfengið í opnum og aðgengilegum hillum við kassana og gjarnan eru tilboð í gangi svona til að tæla eina flösku niður í körfuna rétt áður en kemur að greiðslu (álíka og gildir um sælgæti á Íslandi). Ég verð samt að játa að ég hef aldrei kippt flösku með þar. Kannski ég láti samt freistast næst og segi svo frá því hér á þessari síðu til að stuða hinn siðprúða Íslending.
Að einhverjir setji sig upp á móti áfengissölu á bensínstöðvum á Íslandi segir mér eitt: Íslendingar eiga ekki að heimsækja Danmörku, aldrei nokkurn tímann! Áfallið yfir öllu úrvalinu, verðinu og aðgenginu gerir sennilega út af við þá af hneykslan. Vissara er að byrgja brunninn áður en íslenska barnið fellur ofan í hann og banna bein flug frá Íslandi til Danmerkur.
Já, gerum það.
![]() |
Gagnrýna bjór á bensínstöðvum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 21. júlí 2015
Einfalt er gott
Margir kunna að meta einfalt fyrirkomulag á hlutum, og að vera ekki að flækja þá að óþörfu. Þannig má oft spara bæði tíma og fé og í leiðinni óvissu og óþægindi.
Óvissa og óþægindi eru samt lifibrauð hins opinbera. Ef viðskipti við hið opinbera væru of einföld er hætt við að fjöldi opinberra starfsmanna yrði atvinnulaus. Þess vegna er tilhneiging hins opinbera yfirleitt sjaldnast sú að einfalda hlutina. Þess í stað eru þeir flæktir. Mismunandi skattprósentur leggjast á hitt og þetta og hinir og þessir geta dregið hitt og þetta frá eða fengið endurgreiðslur eða undanþágur. Ef aðili A kaupir viðgerðarþjónustu gildir skattprósenta X vegna þjónustu og Y vegna varahluta, og af henni er hluti Z frádráttarbær frá skatti Y upp að ákveðnu hámarki. Fallegt, ekki satt?
Hugmynd: Hvernig væri að endurskipuleggja allt skattkerfið þannig að ein, lág skattprósenta leggst á allt sem nú er skattlagt og síðan geta menn fyrir opnum tjöldum byrjað að ræða hver eigi að sleppa betur en annar og hvers vegna?
Ætli niðurstaðan yrði sú að ferðaþjónusta á Íslandi fengi ríkisstyrki í formi hærri endurgreiðslu frá skatti X en hún greiðir í skatt Y?
![]() |
Hagnast á ólíkum skattþrepum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 14. júlí 2015
Sama innihald í mismunandi umbúðum
Skuldavandi er sami vandinn, sama hver glímir við hann. Hann verður til þegar einhver eyðir um efni fram - tekur lán í stað þess að framleiða verðmæti.
Í Danmörku eru framleiddir þættir sem heita Luksusfælden - eða lúxusgildran (og væri e.t.v. stórsniðug hugmynd að sjónvarpsefni á Íslandi). Þar kunna menn að taka á hinum svokallaða skuldavanda, sem í þeirra tilviki snýr að skuldavanda heimila en gæti alveg eins átt við um heilu ríkin. Fyrsta skrefið er alltaf að gera sér grein fyrir tekjunum, föstu útgjöldunum og skuldunum. Oftar en ekki er fólki sagt að selja bílinn og aðrar eignir sem mega missa sín, hætta framkvæmdum, losa sig við kettina og segja upp sjónvarpsáskriftum. Síðan er rætt við lánadrottna um lengingu lána og jafnvel lægri vexti gegn því að afborganir fari að berast hratt og örugglega. Neyslan er skorin niður og neyslufé skammtað. Áætlun er gerð um greiðslu afborgana nokkur ár fram í tímann. Á meðan þarf að herða ólina. Það er einfaldlega ekkert annað í stöðunni.
Á þetta horfir fólk og kinkar kolli og vonast til að fólk finni leið úr vandanum um leið og það lítur í eigin barm.
Hvað gerist svo þegar þátturinn er búinn og fréttirnar taka við? Þá breytist allt hugarástand okkar. Þá teljum við að nýtt lán muni leysa vandamál sem sköpuðust vegna fyrri lántöku. Þá skal sótt um nýtt kreditkort til að borga af því gamla. Þá er allt í einu gerð krafa um að skuldir séu felldar niður án þess að einhver raunveruleg geta til að greiða afganginn upp sé til staðar eða sé í bígerð.
Skuldavandi er vandi vegna of mikilla skulda. Okkur væri hollt að hafa það í huga.
![]() |
Grískt ástand í Púertó Ríkó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 8. júlí 2015
Hvað gerist þegar dópið er tekið af fíklinum?
Nú stefnir kannski í að straumur ókeypis peninga til Grikklands sé að þorna upp. Þetta veldur auðvitað miklu uppnámi í Grikklandi.
Hvað gerist þegar dópið er tekið af fíklinum? Hann verður vitaskuld vitstola af fíkn og líkami hans fer í allskonar ástand afvötnunar og afeitrunar. Hið sama þarf að gerast fyrir hinn gríska líkama. Hann þarf að læra að bjarga sér án innspýtingar. En hvernig?
Við blasir að evran hrynji, annaðhvort með brotthvarfi Grikklands eða með einhverjum öðrum hætti. Menn ættu að byrja að undirbúa það.
Við blasir að Grikkland verði lýst formlega gjaldþrota. Menn ættu líka að byrja undirbúa sig undir það.
Við Grikkjum blasir að stokka algjörlega upp hjá sér: Smækka ríkisvaldið, einkavæða allt, selja allar ríkiseigur, borga skuldir og byggja upp hagkerfi sem þrífst á verðmætasköpun en ekki lánum. Lífeyriskerfinu þarf að henda. Gamalt fólk þarf að byrja leita sér að lífsviðurværi. Ungt fólk þarf að taka á sig kjaraskerðingar. Sé þessu leyft að gerast hratt og vel mun sársaukinn líka ganga hratt yfir - jafnvel á örfáum misserum. Sé ferlið dregið á langinn mun bara bætast við sársaukann síðar meir.
En hvað með greyið Þjóðverjana og allar skuldirnar sem þeir tapa ef Grikkland fer á hausinn? Ég segi bara: Greyið þeir að hafa lánað Grikkjum út á að telja stjórnmálamenn ætla að bjarga þeim þegar fjárfesting þeirra tapaðist.
Íslendingar gætu lært margt af Grikklandi. Á Íslandi var þar til fyrir 2 árum ríkisstjórn sem ætlaði sér að lifa á skuldasöfnun og vaxandi ríkisvaldi. Henni var sem betur fer komið frá, og þótt brotthvarf frá stefnu hennar á ýmsum sviðum gangi hægt þá mjakast samt víða í rétta átt.
Ég vona að Grikkjum beri gæfa til að koma sér hratt og örugglega út úr slæmu ástandi. Það er líf eftir gjaldþrot, eins og einhver komst að orði.
![]() |
Óttast upplausn í Grikklandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 6. júlí 2015
Spilaborgin hrynur fyrr eða síðar
Höfum þetta stutt í dag:
- Evrópusambandið er spilaborg sem verður óstöðugri eftir því sem hún stækkar og verður meira og meira miðstýrð af ókjörnum embættismönnum sem sólunda fé skattgreiðenda, sem þeir að auki fjöldaframleiða í peningaprentvélum sambandsins og rýra þannig kjör allra enn meira
- Evran var hugsanatilraun og pólitískt tæki. Sem gjaldmiðill dugir hún ekki
Spilaborgin hristist nú sem aldrei fyrr og sá skjálfti hættir ekki fyrr en hún hrynur, annaðhvort óvænt og með hvelli eða skipulega og þannig að menn séu undirbúnir.
![]() |
Hvað gera Grikkir? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 3. júlí 2015
Hvernig á að selja stjórnmálamönnum gamalt drasl?
Ég sá einhvern deila þessu myndskeiði um hvernig á að selja stjórnmálamönnum gamalt drasl (eða úrelta tækni):
https://www.youtube.com/watch?t=10&v=VpUQ_EMV23c
Íslendingar vilja oft miklu frekar gera sín eigin mistök til að læra af í stað þess að læra af mistökum annarra. Verður það tilfellið hér líka?
![]() |
Er raunhæft að leggja léttlestir? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 2. júlí 2015
Sektað til að hækka verð á óverðmerktum vörum
Neytendastofa er dæmigerð ríkisstofnun sem þarf reglulega að láta sjá sig í fjölmiðlum til að hún gleymist ekki og verði tekin af fjárlögum og þar með spena skattgreiðenda.
Við skulum orða þetta svona: Enginn var verr settur áður en Neytendastofa eða fyrirrennarar hennar urðu til í hinum opinbera rekstri.
Allt sem Neytendastofa gerir má flokka í tvo flokka (eins og raunar verkefni allra ríkisstofnana):
- Það sem einhver eftirspurn er eftir, og yrði þá framkvæmt af einkaaðilum (betur og ódýrar) af ekki væri fyrir tilvist hins opinbera hér.
- Það sem engin eftirspurn er eftir og heyrði sögunni til án fjármögnunar skattgreiðenda.
Neytendastofa játar í frétt að fyrri herferð hennar bar engan árangur og að ástandið hefur versnað síðan þá. Einkafyrirtæki í sömu aðstöðu þyrfti að leggja meira á sig og sennilega fyrir minna fé og minni mannsskap til að vinna sig upp úr slíkum aðstæðum. Ríkisrekin stofnun fær sennilega meira fé og meiri mannskap.
Ríkisrekstur verðlaunar vanhæfni og mistök - vanhæfni og mistök eru þannig séð niðurgreiddar afurðir í hinum opinbera rekstri. Niðurstaðan er meiri vanhæfni og fleiri mistök.
Neytendastofa - takk fyrir viðleitnina en hér með tilkynnist að þjónustu þinnar er ekki lengur óskað.
![]() |
Verðmerkingar urðu verri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)