Skiljanlega!

Evrópusambandið er knúið áfram af samrunaþörf þess. Markmiðið er evrópskt stórríki að hætti Bandaríkjanna þar sem völdum er komið að sem mestu leyti í hendur miðstjórnarvaldsins sem deilir síðan afmörkuðum hlutum þess út til einstaka svæða innan þess.

Bretar eru tortryggnir gagnvart þessu og finnst mér það skiljanlegt. Sem hérað í evrópsku stórríki verður Bretland líka að útnára, stjórnað af Frökkum og Þjóðverjum. Það finnst þeim vera slæm hugmynd.

Nú minnir þróun ESB um margt á sögu Rómarveldis, a.m.k. að eftirfarandi leyti:

  • Stöðug útrás og útþensla til að ná undir sig fleiri þegnum
  • Vaxandi styrkur miðstjórnarvaldsins
  • Aukin fjárþörf hins opinbera sem leiddi til peningaframleiðslu
  • Mikilli orku eytt í að sannfæra þegnana um ágætið, t.d. með niðurgreiðslum í allskonar
  • Siðferðisleg afstæðishyggja allsráðandi
  • Að lokum hrun að innan sem einhver að utan nýtir sér til að gera árás

Megi Bretar segja sig úr ESB hið fyrsta og aðrir fylgja í kjölfarið!


mbl.is Meirihlut Breta vill yfirgefa ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ISIS orðið að sameiningartákni?

Nú er hægt að segja margt um loftárásir á búðir og borgir ISIS: Að það sé kominn tími til, að það geri bara illt verra, að það fresti bara vandamálinu, að það sé hrokafullt af Vesturlöndum, að þetta sé ill nauðsyn og svona má áfram telja.

Mér sýnist hins vegar ISIS vera að leiða til þess að stórveldin Frakkland, USA og Rússlandi séu hérna búin að finna sameiginlegan snertiflöt sem er að koma á viðræðum á milli þeirra. Rússar láta nú Bandaríkjamenn vita af skotmörkum sínum og einbeita sér að ISIS í stað þess að skjóta á alla óvini Sýrlandsforseta. Frakkar og Rússar eru að tala saman. Þíða í samskiptum stórveldanna er að eiga sér stað, a.m.k. tímabundið. 

ISIS eru auðvitað að reyna afla sér samúðar og nýliða með því að hegða sér á sem hrottalegastan hátt. Kannski mun sú aðferðafræði virka en kannski kemur hún í bakið á þeim og leiðir til tortímingar þeirra.

Hvað tekur þá við? Friður? Nei, varla. Í heimshluta þar sem landamæri haggast ekki og trúin er svo samofin hinu opinbera er líklega engin von til friðar. En aðrir geta engu að síður sameinast um það hver er vondi kallinn og byrjað að tala saman á ný. 


mbl.is Hefja árásir frá Charles de Gaulle
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir skattar eru eitraðir

Núna kvarta einhverjar konur yfir því að hreinlætisvörur fyrir kvenfólk séu skattlagðar og það kallað skattur á leggöng. Hvað ætli komi næst? Að rakvélablöð og raksápa fyrir karlmenn sé skattur á skeggvöxt? Að skattur á mat sé skattur á hungur? Að skattur á föt sé skattur á kulda?

Allir skattar eru slæmir. Hérna velja stjórnmálamenn bara að skattleggja það sem felur í sér sem minnstar mótbárur. 

Auðvitað á að fella niður virðisaukaskatt á dömubindi og túrtappa, og um leið á mat, fatnað, verkfæri, hjól, steinull, vinnu iðnaðarmanna og raksápu svo eitthvað sé nefnt.

Ríkisvaldið á svo að fækka verkefnum sínum, stofnunum og starfsmönnum sem nemur hinum lækkuðu skatttekjum. 

Því ekki viljum við samfélag þar sem ríkisvaldið skattleggur leggöng, skeggvöxt, hungur og kulda, er það?


mbl.is Legið skattlagt um allan heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afæturnar skammta sér fé

Hið opinbera hefur nú ákveðið að ráðamenn hins opinbera fái ágætis búbót, eins og það er orðað í fréttinni.

Nú má vel vera að laun þurfi að hækka til að halda í við langtíma meðaltalsrýrnun á kaupmætti krónunnar svo að launakjör haldist a.m.k. óbreytt. Mér sýnist hins vegar vera eitthvað allt annað í gangi hérna.

Nú má vel vera að hátt launaðir opinberir starfsmenn þurfi að fá enn hærri laun því annars á hið opinbera á hættu á að þeir stingi af til betur borgaðra starfa hjá einkageiranum og skilji eftir sig mikið holrými í stjórnsýslunni. Mér sýnist hins vegar vera eitthvað allt annað í gangi hérna.

Nú má vel vera að til að tryggja starfsfrið opinberra ráðamanna þá þurfi að borga þeim vel - betur í dag en í gær - svo þeir geti sinnt starfi sínu af yfirvegun. Ég efast samt um að það sé það sem er í gangi hérna.

Nú má vel vera að upphæðirnar sem um er að ræða spili ekki stórt hlutverk í hinum opinbera rekstri - að það sé mikilvægara að hinir lægri settu og fjölmennari séu á lágmarkstöxtum svo ríkisreksturinn fari ekki á hliðina. En má þá ekki segja það hreint út?

Er ekki einfaldlega um það að ræða að hátt settir ráðamenn eru hérna að skammta sér meira af fé skattgreiðenda en nauðsyn krefur?

Til er fjölmennur hópur sem finnst að ríkisvaldið eigi að vera með puttana í öllu - í allskyns rekstri, eftirliti og umsýslu. Þeir þurfa að svara fyrir þetta. Hið opinbera mun alltaf sópa til sín eins miklu og það kemst upp með og skammta síðan ránsfengnum til lykilhópa. Þeir sem umbera stórt ríkisvald og ljá því jafnvel stuðning sinn þurfa að svara fyrir það.

Það er fyrir löngu kominn tími til að minnka ríkisvaldið um a.m.k. 90% og koma á einhvers konar samræmi milli kostnaðar og þjónustu í þeim verkefnum sem ríkisvaldið einokar í dag, ýmist beint (með lögbanni á rekstur einkaaðila) eða óbeint (með hindrunum eins og sköttum og háum leyfamúrum). Það er best gert með sölu ríkiseigna og -fyrirtækja og afnámi allskyns íþyngjandi stjórnsýslu og opinbers eftirlits. 


mbl.is Laun forseta hækka um tæp 200 þús.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálamenn í Matador

Stjórnmálamenn elska að spila Matador með raunverulegar eignir, fyrirtæki og peninga annarra. Þeir fá hreinlega aldrei nóg af því. Ríkisvaldið er með puttana í svo mörgu að þeir hafa úr nægu að moða.

mtNú tala þeir um að bankar eigi að vera svona en ekki hinsegin. Sumir mega lána og aðrir ekki. Þeir sem gera eitt mega ekki gera hitt. 

Vandamálið er oftar en ekki það að ef bankarekstur fer illa þá lendir kostnaðurinn á ríkissjóði og þar með skattgreiðendum. Það vill enginn. En í stað þess að draga ríkisvaldið út úr málinu alveg er sífellt verið að breyta lögum og reglur, ábyrgðum og eftirliti.

Ef sjoppa fer á hausinn af því hún stækkaði við sig og fór úr hreinni nammisölu yfir í sölu á bæði nammi og pulsum og hamborgurum þá finnur enginn fyrir því nema eigandi sjoppunnar og þeir sem lánuðu til rekstursins. Sama lögmál á að gilda um allt, hvort sem það eru fatahreinsanir sem taka við "innistæðum" í formi skítugs klæðnaðar eða bankar sem taka við fé og lána út á vöxtum.  


mbl.is „Tækifæri til aðskilnaðar er núna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar fjandanum er boðið í heimsókn

Hryðjuverk voru framan í París í gær og hátt í tvö hundruð manns liggja í valnum. Þetta eru voðaverk sem munu draga langan dilk á eftir sér og setja allan hinn vestræna heim í viðbragðsstöðu í ófyrirséðan tíma.

Ég vona að menn fari nú að íhuga aftur hvaða ástand hefur myndast og hefur verið að myndast lengi.

Hernaðarbrölt vestrænna ríkja í Miðausturlöndum er óvinsælt víða. Þar eru vestrænar þjóðar að reyna hafa áhrif á það hver ræður yfir hvaða skika. Þetta gerir hryðjuverkasamtökum auðvelt fyrir að afla sér stuðningsmanna. Viðvarandi fátækt svæðisins stuðlar að því sama. Fátæktinni er auðvitað ráðamönnum í Miðausturlöndum sjálfum að kenna en með því að geta alltaf bent á vestræna hermenn a svæðinu er hægt að búa til blóraböggul úr vestrænum ríkjum.

Flóttamenn streyma frá Miðausturlöndum og inn í frjálslyndari ríki Evrópu. Sumir eru að flýja stríð en flestir eru bara að flýja fátæktina. Þeim er hleypt inn og oftar en ekki settir á opinbera framfærslu. Múslímar eru ekki mjög hrifnir af því að umgangast hina ótrúuðu (þótt það sé ekkert vandamál að taka við peningum þeirra) og hrúga sér saman á sömu hverfin. Þar er auðvelt fyrir málpípur íslamista að ná til þeirra og halda áfram predikunum um hin hræðilegu Vesturlönd ótrúaðra. Hryðjuverkamenn eru framleiddir í stórum stíl. Þeir nýta sér umburðarlyndi vestrænna ríkja og frelsið til að ferðast um og tjá sig til að sá hatri og undirbúa voðaverk gegn saklausu fólki. Þeir telja sig jafnvel vera að hefna fyrir hernaðarbröltið um leið og þeir kaupa sér aðgöngumiða að Paradís íslam með því að slátra ótrúuðum.

Frakkland virðist ætla að verða sérstaklega mikið fyrir barðinu á heimaöldum hryðjuverkamönnum, enda ekki langt síðan árásirnar voru gerðar á skrifstofu Charlie Hebdo.

Þetta er samt ekki búið og fjarri því. Í allri Evrópu eru reiðir múslímar að undirbúa aftökur á saklausum borgurum - körlum, konum og börnum. Það verður erfitt að eiga við þetta því milljónir múslíma hafa komið sér vel fyrir í hverfum sem þeir telja vera sitt sjálfstæða umráðasvæði og lögreglan þorir varla inn í lengur. Frönsk yfirvöld hafa raunar kortlagt þau svæði þar sem þau telja sig ekki lengur vera með full yfirráð og hvetja almenna borgara til að halda sig fjarri. Þar geta útsendarar íslam safnað liði í næstu voðaverk sín í sama ríki og umber ferða- og málfrelsi þeirra sjálfra!

En hvað er til ráða?

Mín stærsta von er að einhver vísindamaðurinn finni bráðum upp óendanlega orkuuppsprettu, svo sem kaldan samruna, sem gerir olíu óþarfa. Þar með þarf ekki lengur að treysta á Miðausturlönd fyrir hagstæða orku. 

Vestræn ríki ættu að draga hermenn sína út úr Miðausturlöndum hið fyrsta og einbeita sér að því að verja eigin landamæri. Þannig missa herskáir múslímar blóraböggul og um leið verður erfiðara fyrir þá að safna liði í hersveitir sínar. 

Vestræn yfirvöld eiga svo að reyna ná aftur yfirráðum yfir svæðum sem múslímar stjórna í evrópskum borgum og þefa uppi hryðjaverkamenn í þeirra röðum og senda þá til síns upprunaríkis.

Velferðarkerfið ætti svo að leggja niður eins hratt og hægt er svo fólk sem flýr fátækt dragist ekki á spena þess. Flóttamenn frá fátækt munu áfram finnast en þeir verða þá hluti af vinnuafli viðtökuríkisins en ekki hluti af bótaþegum þess.

Síðan mætti benda Miðausturlöndum á að fátækt þeirra er heimatilbúin og afleiðing hagstefnu en ekki einhver bölvun sem kom af himnum ofan. Arabar kunnu að framleiða verðmæti og verða ríkir einu sinni. Þeirra fátækt er sköpunarverk þeirra sjálfra.

Hryðjuverkin í París verða vonandi til þess að menn byrji að hugsa um þessi mál upp á nýtt. Þau eru hræðilegur vitnisburður um ofstæki og hatur sem blómstrar sem aldrei fyrr.


mbl.is Hryðjuverkin á sex stöðum í París
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukum frekar umsvif ÁTVR

Aðdáendur ÁTVR bera á borð tvenns konar rök fyrir tilvist þess:

- Að það takmarki aðgengi að áfengi (svo Íslendingar fari sér ekki að voða).

- Að það bjóði upp á gott úrval og mikla þjónustu (svo Íslendingar kvarti ekki of mikið og heimti að ÁTVR verði lagt niður og að stórmarkaðir fái að spreyta sig).

Þetta eru mótsagnarkennd rök en heyrast oft og jafnvel samhliða.

En gott og vel, nú er ÁTVR til. Engu að síður dylst engum að áfengi er keypt af mun fleirum. Hægt er að flytja það inn frá útlöndum og fá sent heim að dyrum án aðkomu ÁTVR. Landabruggarar þrífast víða ágætlega. Fríhafnaráfengið streymir til landsins. 

Svipaða sögu má svo segja um fíkniefni. Hægt er að flytja það inn frá útlöndum og fá heimsent. Fíkniefni eru ræktuð og búin til víða í bílskúrum landsins. Ferðalangar bera það til landsins í töskum sínum. 

Er ekki nærtækt að ÁTVR taki þá einnig að sér innflutning, framleiðslu og sölu á fíkniefnum? Öll sömu rök mætti nota:

- Að það takmarki aðgengi að fíkniefnum (svo Íslendingar fari sér ekki að voða). 

- Að það bjóði upp á svo gott úrval og mikla þjónustu (svo Íslendingar kvarti ekki of mikið og heimti að götusalan fái einnig að spreyta sig). 

Leggjum ekki ÁTVR niður. Víkkum frekar starfssvið þess í ÁTFVR - Áfengis-, tóbaks- og fíkniefnaverslun Ríkisins. 


mbl.is Vilja ekki áfengi í matvöruverslanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

15+12+ ...?

Íslenska ríkið ætlar að senda 15 manns á loftslagsráðstefnuna í París. Reykjavík sendir 12 manns. Eflaust er ekki allt upptalið. Kannski eru einhverjar opinberar stofnanir sem ætla að senda fólk, og einhver hálfopinber fyrirtæki. Hvað eiga skattgreiðendur að standa undir mörgum ferðalöngum sem ætla að brenna þotueldsneyti til að komast í kjaftaklúbb sem kvartar yfir notkun á jarðefnaeldsneyti?

Þessi ráðstefna er ein stór og dýr afsökun til að opinberir starfsmenn komist í skemmtiferð á kostnað skattgreiðenda. 

Það væri í mesta lagi hægt að rökstyðja að senda einn ráðherra og aðstoðarmann af stað fyrir hönd Íslendinga allra og hans eina hlutverk væri að segja að Íslendingar geti ekkert gert fyrir málstaðinn nema fylla upp í skurði í sveitum landsins þar sem land hefur verið framræst - eitthvað sem er ekki alveg sársaukalaust fyrir bændur landsins. 

Þessi loftslagsbreytingasöngur er orðinn þreyttur fyrir löngu. Þeir einu sem hafa ekki sætt sig við það eru þeir sem lifa af því að syngja hann - opinberir starfsmenn að safna flugpunktum, stjórnmálamenn og vinstrisinnaðir forstöðumenn opinberra stofnana. 


mbl.is Ráðuneytin senda 15 utan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frétt í röngum dálki?

Frétt segir:

Hlýnun jarðarinnar gæti aukið tíðni sjúkdóma, tortímt ræktarlandi og valdið fátækt hjá 100 milljónum manna til viðbótar að fimmtán árum liðnum, sé ekkert gert til að hindra framgang hennar. Þetta kemur fram í skýrslu sem Alþjóðabankinn gaf út í dag. 

Fréttin er sett í dálkinn "Erlent". Á hún ekki miklu frekar heima í völvuspá Vikunnar eða undir stjörnuspánni eða einhvers staðar annars staðar þar sem menn spá fyrir um framtíðina með notkun galdratækja og miðilshæfileika frekar en rannsókna og vísinda?


mbl.is Milljónir fátækra vegna hlýnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kröfur þegar fyr­ir­tæki noti efsta stig lýs­ing­ar­orðs

Á Íslandi gera yfirvöld "þegar fyr­ir­tæki noti efsta stig lýs­ing­ar­orðs". Jæja þá, íslenskir neytendur þurfa kannski á slíku að halda því annars hlaupa þeir glórulausir inn í verslanir sem nota efstastig og segjast t.d. ódýrastur eða með mesta úrvalið.

Íslensk yfirvöld geta samt ekki varið íslenska neytendur með sama hætti erlendis, t.d. í Danmörku. Í Danmörku er önnur hver verslun "ódýrust" eða "með mest úrval" eða "með bestu tækin". Ég sé að vísu ekki neytendur hlaupa eins og höfuðlausar hænur á eftir slíkum auglýsingum. Mig grunar að þeir geri verðsamanburð og fleira slíkt og taki sjálfstæðar ákvarðanir.

Íslenskir neytendur í útlöndum þurfa sennilega að vera í reglulegu símasambandi við íslensk yfirvöld til að skera úr um rétta notkun á lýsingarorðum í efstastigi. 

Það er gott að ríkið passar upp á okkur og bara sanngjarnt að það sjúgi til sín vænar summur á hverju ári úr vösum skattgreiðenda til að fara yfir auglýsingar og sannreyna að málfar þeirra standist ítrustu sönnunarkröfur dómstólanna. 


mbl.is Auglýsing Skeljungs bönnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband