Þriðjudagur, 15. desember 2015
Stjórnarflokkarnir geta lært af stjórnarandstöðunni
Stjórnarandstaðan heldur nú ræðustól Alþingis í gíslingu til að knýja á um enn meiri ríkisútgjöld til helstu kjósendahópa sinna. Það er í sjálfu sér skiljanlegt. Stjórnarandstöðuliðar halda, ranglega, að nú sé runnin upp ný gósentíð og að gjafaregnið geti nú hafist að nýju eftir langt hlé.
Stjórnarflokkarnir gætu lært margt af stjórnarandstöðunni. Þegar stjórnarflokkarnir voru í stjórnarandstöðu létu þér ríkisstjórnina komast upp með að kollvarpa skattkerfinu og innleiða óteljandi lög sem enn þann dag í dag valda miklu skaða í íslensku samfélagi. Þetta létu þeir viðgangast nánast án andspyrnu.
Það man enginn eftir stjórnarandstöðu sem máli skiptir frá seinasta kjörtímabili. Hins vegar muna allir eftir gæluverkefnum Jóhönnu og Steingríms: ESB, hærri skattar, meira eftirlit (t.d. með fjölmiðlum), aðförin að stjórnarskránni, Vaðlaheiðargöng, útþensla hins opinbera, eyðilegging heilbrigðiskerfisins, einkavæðingar bankanna bak við lokaðar dyr, björgun gjaldþrota banka, Icesave-málin, spunagreinarnar, tíð ráðherraskipti, sundrung á stjórnarheimilinu og sitthvað fleira.
Þeim í þáverandi stjórnarandstöðu hefði verið nær að spýta í lófana og berjast eins og villidýr en gerðu það ekki.
Nú segi ég ekki að það eigi að taka tillit til allra kröfugerða stjórnarandstöðu sem sættir sig ekki við að vera það - stjórnarandstaða. Það á að taka slaginn við hana. Ef ríkisstjórnin er með hugsjónir og trúir á þær þá á hún að berjast. Í raun ætti hún að gera gott betur en það og túlka óskir stjórnarandstöðunnar sem góðar hugmyndir um hvað á ekki að gera.
En ríkisstjórnarflokkarnir geta engu að síður lært mikið af stjórnarandstöðunni hér. Þannig er það.
![]() |
Ekki samkomulag um afgreiðslu mála |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 11. desember 2015
Ríkisrekstur er bjarnargreiði
Að byggja mikinn ríkisrekstur ofan á samfélag til þess að hjálpa fólki og stuðla að einhverju jákvæðu er eins og að veita einhverjum bjarnargreiða. Ríkisreksturinn hleður fljótlega svo miklum álögum og þyngslum ofan á samfélagið að það hrynur undan þunganum.
Tökum dæmi: Ríkisvaldið ákveður að það muni nú sjá öllum sjóndöprum fyrir viðeigandi sjóntækjum og þjóðnýtir á einu bretti allar gleraugnabúðir, augnlæknastofur og aðra aðila sem stunda sjónleiðréttingar. Í staðinn er öllum sjóndöprum lofað viðeigandi sjóntækjum - linsur fyrir íþróttafólk, gleraugu fyrir skrifstofufólk og svo framvegis. Enginn muni lengur þurfa að greiða fyrir slíkt úr eigin vasa - allt verði nú fjármagnað með skattfé.
Frábært, ekki satt? Nú sitja sjóndaprir við sama borð og hjartveikir, slasaðir og pestarsjúkir! Nú verða ekki sumir vel settir með bestu fáanlegu gleraugun á meðan aðrir þurfa að láta sér nægja þykka flöskubotna úr Kolaportinu.
En hvað gerist í leiðinni?
Í stað ötulla starfsmanna einkafyrirtækja í leit að mestum fáanlegum viðskiptum í viðleitni til að skila hagnaði eru nú komnir daufir opinberir starfsmenn sem fá sín laun sama hvað, og geta jafnvel búist við að fá meiri laun ef þeir standa sig illa eða sóa miklu fé (bera þá við fjárskorti og fara í verkfall).
Í stað einkaaðila í eilífri samkeppni í að útvega bestu lausnir á sem hagstæðustu kjörum tekur við þunglamalegt kerfi sem þarf að raða fólki í biðraðir, rýra gæði varnings og þjónustu til að fara ekki fram úr fyrirframaákveðnum fjárframlögum og innleiðir flókið kerfi af beiðnum og biðlistum.
Í stað þess að efnaðir einstaklinga geti sett mikið fé í nýjustu tækni og þannig stuðlað að þróun hennar sem síðar leiðir til þess að hún lækkar í verði eru allir settir undir sama hatt. Þannig er stuðlað að því að úrelt tækni verði sú eina í boði. Að vísu munu þá hinir öfundsjúku sofa betur, vitandi að allir hafi það jafnskítt, en til lengri tíma bitnar þetta illa á öllum, en þó verst á þeim sem þurfa nýrri tækni til að hafa bærilega sjón.
Ríkisvaldið er eins og krabbameinsfruma sem á að ráðast á aðrar illkynja frumur á líkamanum en endar á því að breiða sig út til heilbrigðu líkamshlutanna og drepa þá líka.
Að óska sér meiri ríkisreksturs í nafni háfleygra hugsjóna er bjarnargreiði. Ég segi nei takk.
![]() |
Vantalið um tugi milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 8. desember 2015
Fréttamenn hafa líka skoðanir
Bandaríski fjölmiðillinn Huffington Post hefur ákveðið að Donald Trump sé ekkert skemmtiefni. Héðan í frá verður ekki fjallað um forsetaframboð hans á síðum dægurmála hjá HuffPost. Kornið sem fyllti mælinn voru nýleg ummæli Trumps um múslima.
Þetta er áhugaverð áminning. Við erum hérna minnt á að fréttamenn hafa líka skoðanir og jafnvel sterkari skoðanir á ýmsum málefnum en annað fólk enda einstaklingar sem lifa og hrærast í dægurmálaumræðunni og þurfa oft að kynna sér mál vel. Þeir velja hverjir koma í viðtöl, ákveða hvað telst fréttnæmt og draga það fram sem þeim finnst sjálfum athyglisverðast.
Þeir velja líka að fjalla ekki um ákveðna hluti, ræða ekki við ákveðna menn og ákveða hvaða punktar koma ekki fram í fréttaflutningi þeirra.
Óháð því hvað Donald Trump segir eða segir ekki eru fréttamenn Huffington Post búnir að ákveða að fjalla ekki um kosningabaráttu hans. Það er alveg sjálfsagt mál enda eiga einkareknir fjölmiðlar bara að fá að fjalla um það sem þeim sýnist. Lesendur Huffington Post vita sennilega að þeir þurfa bara að leita annað til að fá fyllri frásögn af kosningabaráttunni og allt í lagi með það.
Við erum hérna minnt á að fréttamenn hafa skoðanir eins og aðrir og að oftar en ekki litar það fréttamat þeirra og stundum alveg heilmikið (sérstaklega ef þeir búa ekki við neitt aðhald frá fréttaneytendum heldur geta bara þegið sín laun óháð frammistöðu í starfi). Hinn hlutlausi fréttamaður er ekki til. Hins vegar eru sumir fréttamenn sanngjarnari en aðrir og þar má gera upp á milli.
![]() |
Huffington Post rekur Trump |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 7. desember 2015
Þegar óvopnað fólk er brytjað niður
"Sala á byssum eykst í Bandaríkjunum í hvert skipti sem skotárás sem vekur athygli á sér stað."
Það er ekkert skrýtið.
Það sem er skrýtið er að viðbrögðin við því að óvopnað, saklaust fólk er skotið niður eru þau að: Afvopna fólk enn frekar!
Lögreglan getur ekki verið viðstödd allt, alltaf. Úti um allan heim eru á ferli menn sem útvega sér skotvopn með einum eða öðrum hætti og nota til að drepa saklausa borgara. Hvernig á að verjast þeim? Með því að afvopna fórnarlömb þeirra? Með því að stinga þeim borgurum í steininn sem vilja geta varið sig? Með því að herða löggjöfina þannig að eingöngu siðlausir glæpamenn geti útvegað sér byssu?
Þetta er allt svo öfugsnúið. Glæpamenn virða ekki lög um skotvopn. Þeir krækja sér í byssur og nota þær. Þeir sem líða fyrir skotvopnalögin eru hinir saklausu og löghlýðnu.
![]() |
Byssusala snareykst eftir árásir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 3. desember 2015
Bati þrátt fyrir ríkisstjórnina, ekki vegna hennar
Það sem kom fyrir Ísland eftir seinustu kosningar var ríkisstjórn sem einfaldlega einbeitti sér að fáum verkefnum frekar en mörgum. Það er mín tilfinning að ríkisstjórnin reyni að vinna það vel sem hún tekur sér fyrir hendur frekar en að æða áfram og gerir helst ekki neitt í varfærni sinni. Sem dæmi má nefna áætlunina um afnám gjaldeyrishaftanna sem vonandi sér bráðum fyrir endann á.
Andstæðan er fráfarandi ríkisstjórn. Hún var eins og hvirfilbylur sem sópaði að sér öllu og skildi það eftir í rjúkandi rústum.
Enn betra væri auðvitað að hafa ríkisstjórn sem æddi hiklaust áfram í að skera ríkisvaldið niður í brot af því sem það er í dag. Því miður virðist það samt ekki vera raunin.
Það má því segja að sá efnahagsbati sem á sér stað á Íslandi í dag sé að eiga sér stað þrátt fyrir ríkisstjórnina en ekki vegna hennar. Menn eiga því að fara varlega í að tjá sig úr ræðupúlti Alþingis þegar þeir hrósa sjálfum sér. Hérna væri örlítil hógværð við hæfi.
Ég vil í leiðinni hvetja ríkisstjórnina til að afnema sem flesta skatta og einkavæða eða leggja niður í ríkisrekstrinum sem svarar til sparnaði við slíkar aðgerðir.
![]() |
Hraðasta kjarabót um áratugaskeið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 3. desember 2015
Útblástur á annarra manna fé
Hann er frekar reiður þessi verkfræðingur sem fær í dag birta grein eftir sig á bls. 34 í Fréttablaðinu.
Þriðjudagur, 1. desember 2015
Holl lesning: Hverju megum við ráða?
Myndin stækkar í fulla stærð við að smella á hana og opna, og smella síðan á það sem opnast. Gæðin eru kannski ekki frábær á myndinni en innihaldið er gott.
(Grein úr Morgunblaðinu í dag)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 30. nóvember 2015
Heimild til verktöku - hvað er það?
Oft má gera úlfalda úr mýflugu:
Að sögn Gylfa greinir deiluaðila aðeins á um eitt atriði, en veigamikið; hvort Rio Tinto fái að nýta sér nýjar heimildir til verktöku.
Með öðrum orðum: Ef einhver getur gert eitthvað betur og ódýrar en sá sem sinnir tilteknu starfi í dag þá má ekki nýta sér starfskrafta þess aðila nema sá sem nú þegar situr að starfinu gefi til þess sérstakt leyfi.
Heitir þetta ekki brot á samkeppnislögum?
Segjum að Bónus hefji samstarf við aðila sem getur framleitt brauð fyrir eina krónu og Bónus getur selt á tvær krónur. Í umhverfi verkalýðsfélaga þyrfti Bónus að fá sérstakt leyfi bakara sem framleiða brauð á hundrað krónur til að geta selt hið nýja brauð á tvær krónur. Einnig þyrfti Bónus að viðra málið við samkeppnisaðila sína, Krónuna og aðra.
Þætti engum þetta vera skrýtið?
Nú ala verkalýðsfélög mikið á ótta við að verktakar - sérstaklega erlendir - grafi undan atvinnulífinu og undirbjóði þar til allir sitji eftir með sultarlaun. Svona töluðu verkalýðsfélögin þegar spunavélar leystu rokkinn af hólmi. Svona tala verkalýðsfélög í Noregi þegar íslenskir hjúkrunarfræðingar sækja um störf þar í landi. Svona tala útgerðir í Evrópu þegar þær íslensku mæta á svæðið. Svona tala talsmenn atvinnulífsins í Evrópusambandinu þegar álframleiðendur setja upp verksmiðju í ódýru raforkuumhverfi Íslands.
(Nú er ég reyndar ekki viss um að Norðmenn bölvi íslensku vinnuafli eða að iðnaður meginlands Evrópu kvarti yfir íslensku raforkuverði en kannski þurfa þessir aðilar bara að læra af útlendingafælni hinna íslensku verkalýðsfélaga.)
Á endanum græða samt allir. Sérhæfing er til dæmis eitthvað sem blómstrar þegar menn þurfa að keppa í bæði verði og gæðum og geta ekki lokað verksmiðjum sem fara ekki að fyrirmælum dómsdagsspámanna úr röðum verkalýðsfélaga.
Síðan má það ekki gleymast að hérna eru verkalýðsfélög að beita löggjöfinni til að svína á eignarrétti eigenda álversins í Straumsvík. Verkalýðsfélögin eru að segja: Með ykkar pening megið þið ekki semja við hvern sem er um hvað sem er - ólíkt okkur sjálfum sem látum erlenda verktaka hiklaust byggja sumarbústaði okkar og skúra gólfin á skrifstofum okkar - nema fá til þess sérstaka heimild frá okkur.
Megi verkfallið enda á löggjöf sem sviptir verkalýðsfélög verkfallsréttinum svokallaða og geri hvern og einn starfsmann ábyrgan fyrir kjarabaráttu sinni og mætingu í vinnuna.
![]() |
Stál í stál í deilu álversmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 29. nóvember 2015
Lausnin er einföld
Lausnin á öllum heimsins mengunar- og útblástursvandamálum blasir við. Menn þurfa bara að finna einhverja óendanlega orkuusprettu og gera hana hagkvæma í framleiðslu.
Einfalt, ekki satt?
Í leiðinni getum við hætt að kaupa olíu af Miðausturlöndum og leyft vandamálum þeirra að vera þar.
Menn eru að tala fyrir vindorku, sólarorku og jafnvel kjarnorku en það er ekki lausnin. Allt er þetta dýr tækni og annað vandamál, hagkvæm og örugg varðveisla á raforku, stendur eftir óleyst. Olíu og kol er jú hægt að koma á milli heimshluta og varðveita þar til orkuþörfin verður til. Það er ekkert mál að framleiða raforku - vandamálið er geymsla hennar.
En á meðan þurfum við að halda áfram að treysta á olíu, kol og gas. Þannig er það bara, sama hvað líður mótmælum þeirra sem nýta sér sömu orku til að knýja sig á mótmælastaði.
![]() |
570 þúsund tóku þátt í mótmælum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 26. nóvember 2015
Hið umdeilda á bannlista?
Þeir sem tala fyrir skertu tjáningarfrelsi gera það yfirleitt með loðnu orðalagi. Talað er um að ýta undir tillitssemi, nærgætni og gagnkvæma virðingu. Þeir sem lýsa yfir fordómum eða hatri eru beðnir um að halda kjafti.
Þetta er slæmt. Öllum á að vera frjálst að segja hvað sem er á meðan ekki er verið að hóta ofbeldi. Meira að segja lygar eiga að vera leyfðar enda stendur öllum til boða að fara með slíkt fyrir dómstóla ef þannig liggur á þeim.
Þegar rasistanum er bannað að tjá sig opinberlega þá gerir hann það bara í lokuðum hópum þar sem enginn utanaðkomandi getur hlustað. Er líklegt að fordómar hans verði upprættir af þeim fordómalausu þegar ástandið er þannig?
Þegar karlrembunni er sagt að fara með skoðanir sínar annað þá gerir hann það gjarnan og predikar þær í heitum pottum, í lokuðum vinahópum eða í börn sín ef þannig liggur á honum. Fordómar hans fá hins vegar aldrei málefnaleg mótrök og verða því ólíklega upprættir.
Ég segi því við þessa einföldu bjána sem vilja banna rasistanum að hata þessa helvítis svertingja eða forljótu grjónapunga, eða prestinum að fordæma þessa bölvuðu, múslímsku hryðjuverkamenn: Bannið styrkir fordóma og hatur og óvarlegar fullyrðingar halda áfram að vera til þótt talið berist ekki lengur í ykkar eyru.
Tjáningarfrelsið er, ásamt eignarréttinum, ein besta vörn einstaklinga gegn ofríki og kúgun. Tjáningarfrelsið tryggir opin skoðanaskipti sem ættu að leiða til upplýstari umræðu og einstaklinga. Bann á hvers konar tjáningu hefur þann eina kost að þessir einföldu blábjánar sem telja sig vera bestu mögulegu tegund fólks sofa betur á nóttunni í fávisku sinni og þekkingarleysi á raunveruleikanum.
![]() |
Ræða þarf takmörkun tjáningarfrelsis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)