Næstu skref

Þá er ný ríkisstjórn senn tekin við og ætlar að starfa fram á haust. Pólitískri óvissu er því frestað í bili. Því hljóta allir að fagna.

Tíminn er naumur og ríkisstjórnin ætlar því að forgangsraða og setja mikilvæg mál í meðferð þingsins sem fyrst. Það er líka gott. Með heppni verður búið að afnema fjármagnshöftin fyrir haustið.

Stjórnarliðar hafa vonandi lært svolítið á þessu. Það þýðir til dæmis ekki að vinna hægt og bítandi að einhverju markmiði. Skattar hafa t.d. lækkað alltof hægt og útgjöld ríkisins eru ennþá í hæstu hæðum. Ríkisbáknið er alltof stórt og fóðrar alltof stóran her fólks sem gerir ekkert nema kjósa vinstriflokka sem vilja stækka það ennþá meira.

Það er ekki nóg að hagræða aðeins hér og gera þjónustusamning þar. Ríkisvaldið þarf einfaldlega að fækka verkefnum sínum. Á sínum tíma framleiddi ríkið sement og rak mjólkurbúðir. Í dag á það banka og selur ilmvötn á flugvöllum. Ríkið menntar (þá sem detta ekki úr skóla), læknar (þá sem ekki eru á biðlistum), leggur vegi og á hluti í sprotafyrirtækjum. Ríkið niðurgreiðir framleiðslu afþreyingarefnis og lambakjöts. Til hvers?

Hugsanlega er of seint að minnka ríkisbáknið svo einhverju máli skiptir úr þessu og að við taki ný fjögurra ára lota skattahækkana og nýrra viðskiptahindrana. Það er viðbúið að kjósendur sjái engan mun á byrðum hins opinbera nú og þegar vinstristjórnin sat við völd og að þeir verðlauni vinstriflokkana - auk Pírata - fyrir vikið. Þetta mætti kalla fyrirsjáanlega röð atburða og má algjörlega skrifast á hægagang ríkisstjórnarinnar.

En það verða kosningar í haust. Það er spurning hvort maður leggi það á sig að kjósa í þetta skipti. 


mbl.is „Stjórnarandstaðan er í rusli líka“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinar mörgu ástæður fyrir fylgi Pírata

Píratar sópa til sín fylgi. Þeir hafa lengi haft yfir 30% fylgi og núna stefnir það í 50%. Þetta er bæði fréttnæmt og athyglisvert.

En hvernig stendur á þessu fylgi? Ég er með nokkrar kenningar.

Í fyrsta lagi eru atkvæði til Pírata atkvæði til "einhvers annars" en stjórnarflokkanna sem nú sitja og stjórnarflokka fráfarandi ríkisstjórnar. Raunar er staða fráfarandi stjórnarflokka svo slæm að það liggur við að þeir séu að þurrkast út. Farið hefur fé betra segi ég en arfleifð fráfarandi ríkisstjórnar skýrir e.t.v. ágætlega fylgi fráfarandi stjórnarflokka.

Í öðru lagi er ákveðinn stöðugleiki kominn á sem margir taka sem sjálfsögðum hlut og telja að hafi fallið af himnum ofan: Mikinn ferðamannastraum, hægt lækkandi álögur hins opinbera, horfur á afnámi gjaldeyrishafta, góða verðmætasköpun sjávarútvegs og þess háttar. Ríkisstjórnin fær engar þakkir fyrir þetta frekar en sólardagana á sumrin.

downloadÍ þriðja lagi hafa Píratar vissulegt lagt margt gott til málanna. Sérstaklega má þar nefna Helga Hrafn Gunnarsson og fráfarandi þingmann, Jón Þór Ólafsson. Þetta eru hófstilltir og yfirvegaðir menn sem koma til dyranna eins og þeir eru klæddir, lausir við dramb og yfirlæti.

Í fjórða lagi má e.t.v. skrifa fylgi Pírata á að þeir standa í raun ekki fyrir neitt. Frjálshyggjumenn geta fallist á margt í boðskap þeirra en einnig sósíalistar. Þeir eru eins og konfektmoli í konfektkassa Forrest Gump: Enginn veit hvað hann fær fyrr en hann smakkar. 

Að auki er ferill Pírata ekki nægilega langur til að menn get gert sér grein fyrir efndum þeirra á óskýrum fyrirheitum. Það er þá helst að í borgarstjórn Reykjavíkur að smjörþefinn megi finna (og finnst mér persónulega að hann lofi ekki góðu - þar eru þeir einfaldlega hækja Samfylkingarinnar).

Í fimmta lagi er ákveðinn uppreisnarandi í Pírötum sem höfðar sennilega til margra. Fyrir utan nafnið er þarna Birgitta Jónsdóttir að skammast í öllu og öllum til skiptis við að vorkenna sjálfri sér. Þetta höfðar sennilega til ungs fólks sem hreinlega nennir ekki að kafa dýpra í stjórnmálin. 

Fylgið á sér sem sagt margar skýringar. Nú er að sjá hvort það standist tímans tönn eða hvort það renni af þeim á meðan þeir reyna að koma sér upp framboðslistum með netkosningum á Facebook. 


mbl.is Píratar með 43% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar og hvað svo?

Segjum sem svo að æstustu mótmælendur fái sínu framgengt og framkvæmdavaldið boðar til nýrra kosninga. Hvað þá?

Líklega vinna Píratar stórsigur og geta í sameiningu við vinstri örflokkana myndað ríkisstjórn. 

Þingmenn Pírata verða sundurleit hjörð. Sumir gætu nálgast það að kallast frjálshyggjumenn á meðan aðrir eru nálægt því að vera hreinir kommúnistar. Svona hópur er eflaust gott hráefni í líflegar umræður á kaffihúsum en fyrir hverju ætlar hann að berjast á þingi?

Vinstri örflokkarnir munu bjóða upp á sama tevatnið og fráfarandi ríkisstjórn: Skattahækkanir, viðskiptahindranir og sértækar ríkisaðgerðir sem fá landbúnaðarkerfi Framsóknarflokksins til að fölna í samanburðinum.

Skuldasöfnun ríkisins mun hefjast á ný á fljúgandi ferð. Gæluverkefni verða sett í forgang. 

Hljómar þetta eins og hræðsluáróður? Það er ekki ætlunin. Ætlunin er eingöngu að höfða til skammtímaminnis kjósenda og vona að þar sitji eitthvað eftir frá tíð fráfarandi ríkisstjórnar. 

Þeir eru til sem lifa eingöngu fyrir næstu byltingu. Á að gefa þeim orðið núna?


mbl.is Boðað til mótmæla í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsögn já, en kosningar varla

Forsætisráðherra myndi gera ríkisstjórn sinni mikinn greiða með því að segja af sér og biðjast á þann hátt afsökunar á ýmsu í háttarlagi sínu og eiginkonu sinnar. Hér skiptir orðið minna máli að öllum lögum hafi verið fylgt og að engar sannanir séu fyrir því að persónulagir hagsmunir hafi haft áhrif á stjórnsýsluaðgerðir. Hann situr ekki áfram nema beina öllu kastljósinu að sér og frá verkum ríkisstjórnarinnar.

Að boða til kosninga væri hins vegar glapræði. Nú stefnir í að vinstrimenn, undir handleiðslu Pírata, vinni sigur ef kosið yrði í dag. Ríkisstjórninni ber skylda til að sitja sem lengst til að bægja þeim örlögum frá (og er með fullt umboð til þess frá seinustu kosningum). Best væri að ríkisstjórnin tæki rækilega til hendinni seinasta starfsár sitt og afnæmi heilu lagabálkana, kæmi stórum afkimum ríkisvaldins út á hinn frjálsa markað og legði niður allar viðskiptahindranir við Ísland.

Því minna sem ríkisvaldið er við næstu kosningar, því minni hætta er á að vinstrimenn fari hér aftur um með ránshendi eins og eftir kosningarnar 2009. 

Kjósendur gætu þá e.t.v. byrjað að greina mun á íslenskum hægrimönnum og íslenskum vinstrimönnum en sá munur er að mörgu leyti frekar ógreinilegur í dag (fyrir utan þá staðreynd að skuldir ríkisins eru að lækka og skattahækkunarhrinurnar hætta að dynja á í sífellu). 

Sigmundur segir vonandi af sér og ríkistjórnin tekur vonandi til hendinni í kjölfarið. 


Stormur í vatnsglasi

Þeir sem hafa ekki lesið grein Pawel Bartoszek, Svig Sigmundar, ættu að gera það. Hún er stutt. Tilvitnun:

Mín vegna mega menn vera ríkir og geyma peninga í útlöndum. En Sigmundur hafði talsverðra hagsmuna að gæta í samningum við kröfuhafa. Hann bað um umboð til að leiða þá samninga en þagði um hagsmunaáreksturinn. Væntanlega til að fólk myndi frekar kjósa hann. Hvað heitir það?

Þetta er kannski kjarni málsins. Hvorki Sigmundur né kona hans brutu lög en þau létu ýmislegt ósagt. Það er enginn glæpur fyrir hinn almenna borgara en staða Sigmundar var og er sérstök.

Nú vantar að vísu að sanna að vegna stöðu forsætisráðherra þá hafi eitthvað verið gert eða ákveðið á annan hátt en þann sem kom best út fyrir íslenskan almenning. Hefði einhver önnur leið en sú sem varð fyrir valinu orðið fyrir valinu? Var einhver að borga of lítið? Of mikið? Væri hætta á málaferlum frá erlendum kröfuhöfum orðið stærri eða minni? 

Ég er viss um að menn eyði næstu mánuðum í að grafa í því.

RÚV er hér að reyna blása til storms í vatnsglasi. 

Síðan er hollt að hafa eitt í huga: Menn væru ekki að leggja á sig mikinn kostnað og fyrirhöfn til að forða fé sínu frá verðbólgu og sköttum ef engin væri verðbólgan og engir væru skattarnir. Fé yrði því nýtt til fjárfestinga og geymt í vörslu þar sem það varð til en ekki annars staðar. 


mbl.is Mesti gagnaleki „sem um getur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður að verja eignir fyrir sköttum og verðbólgu - hvað með það?

Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir, hefur frá aldamótum byggt upp kerfi félaga til að verja auð sinn gegn sköttum og verðbólgu og sennilega fleiri ástæðum. Hvað með það?

Vissulega talar hann um að vilja borga skatta og leggja ríflega af mörkum til ríkisrekstursins án þess að sýna það svo mjög í verki (borgar bara það sem lögin kveða á um en ekki meira en það). Látum það samt liggja á milli hluta.

Það er engin ástæða til að atast í Vilhjálmi fyrir að vilja varðveita og ávaxta fé sitt. Engin! Meira að segja þótt hann tali í kross þá er engin ástæða til þess. Ég er viss um að í viðskiptum þá segi Vilhjálmur satt og rétt frá ásetningi sínum og áætlunum og varðveitir þannig gott orðspor sem maður sem hægt er að stunda viðskipti við. Þótt svolítið annað sé uppi á teningnum í pólitík er ekkert aðalatriði fyrir mér.

Látið þennan mann í friði. Hann hefur gert meira gagn en flestir stjórnmálamenn með fjárfestingum með sínu eigin fé sem hann passar vel upp á. 

 


mbl.is Á þremur aflandseyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stokkið af sökkvandi skipi

Gjaldkeri Samfylkingarinnar, sem meðal annars hefur séð um umsýslu með leynisjóði íslenskra vinstrimanna, segir nú af sér. Ástæðan sem gefin er upp er að "fókusera umræðuna". Hann hefur engin lög brotið og borgar alla sína skatta og hefur ekki gert neitt rangt. Ég tek undir það - það er ekkert að því að vilja varðveita auð sinn. En hann segir engu að síður af sér. 

Þetta má nú alveg sjá í gegnum. Samfylkingin er að hverfa af landakorti stjórnmálanna á Íslandi og því skiljanlegt að menn vilji stökkva þar af borði hins sökkvandi skips. Það má gera á marga vegu og ein er sú að segja af sér og bera við einhverri allt annarri ástæðu. Þannig kemst viðkomandi hjá því að segja hreint út að ástæðan sé sú að það sé engum hollt að sitja fast á sökkvandi skipi.

Annars má alveg velta upp ýmsum möguleikum í þeirri umræðu sem nú geysar um lögleg félög og að fullu skattlögð og jafnvel félög sem er löngu búið að leggja niður eftir að þau höfðu ekki stundað neina starfsemi.

Ein er sú að allir ráðherrar segi af sér og að ríkisstjórnin verði þess í stað skipuð af ungliðahreyfingum stjórnarflokkanna. Ungliðarnir yrðu vonandi síður hræddir við að taka umdeildar en nauðsynlegar ákvarðanir, enda ekki atvinnustjórnmálamenn að hugsa um næsta endurkjör. 

Önnur er sú að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins segi af sér og skipi þess í stað trausta frjálshyggjumenn, hvar sem þá má finna. Fjármálaráðherra gæti þá orðið Gunnlaugur Jónsson og faðir hans Jón Steinar Gunnlaugsson gæti orðið innanríkisráðherra. Óli Björn Kárason gæti orðið atvinnuvegaráðherra á meðan Sigríður Andersen tæki við menntamálaráðuneytinu, svo dæmi séu tekin. 

Já, hví ekki?


mbl.is Hættir sem gjaldkeri Samfylkingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilhjálmur á ekki að segja af sér og heldur ekki Sigmundur

Nú eru eignafélög trúnaðarmanna í íslenskum stjórnmálum óðum að skjóta upp kollinum. Skoðun mín í fyrri pistli var sú að forsætisráðherra ætti að segja af sér því hann sagði ekki af fyrra bragði frá öllu er tengdist félagi konu hans og að það væri umfram allt klaufalegt. Nú hefur mér snúist hugur. Hann á ekki að segja af sér vegna þess máls. Gjaldkeri Samfylkingarinnar, sem ólíkt konu forsætisráðherra greiðir skatta af sínu félagi erlendis, á heldur ekki að segja af sér.

Menn eiga einfaldlega að fá að eiga sín félög í friði og á meðan öllum lögum er framfylgt á enginn að þurfa að skammast sín fyrir að flýja háa skatta eða veika gjaldmiðla eða pólitíska óvissu. Stjórnmálamenn ættu raunar að taka skrefið lengra og koma íslensku ríkisvaldi út úr peningaframleiðslu og að sem mestu leyti úr skattheimtu. Þá þyrfti enginn að flýja neitt til að forða fé sínu frá verðbólgubáli eða eignaupptöku. 

Stjórnmálamenn eiga samt að segja frá slíkum hagsmunum sínum og ráðstöfunum ef þeir vilja ekki lenda í sviðsljósinu vegna þeirra. 

Nú er að halda í sér andanum og vona að þessi aflandsfélagaumræða gangi yfir sem fyrst svo menn geti haldið áfram að vinna vinnuna sína.


mbl.is Aflandsfélagið ekkert leyndarmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefum Afríku kapítalisma

Fátækt ríkja er heimatilbúið vandamál þeirra.

Þetta hljómar e.t.v. kalt en hvernig getur það verið öðruvísi?

Mannkynssagan er full af dæmum um auðlindalaus sker með ómenntuðum íbúum sem tóku upp kapítalisma og urðu moldrík. 

Munurinn á Suður- og Norður-Kóreu er ekki munur á fólki, náttúruauðlindum, fjarlægð frá mörkuðum eða neinu slíku. Munurinn er viðhorfið gagnvart frjálsum markaði, virðingu fyrir eignarétti og afskiptum hins opinbera af daglegu lífi fólks.

Munurinn á bláfátækri en auðlindaríkri Kambódíu og auðlindalausa en moldríka steinklumpinum sem kallast Singapore aðeins sunnar er ekki í aðalatriðum fjarlægð frá helstu skipaleiðum. Singapore er eitt frjálsasta hagkerfi heims og þannig varð landið ríkt. 

Fyrir örfáum áratugum var Asía helsta vandamál heimsins. Þar geisuðu skæðustu hungursneyðirnar og farsóttirnar. Síðan fóru ríki Asíu að opnast fyrir heimsversluninni og finna hlutverk sitt í því flókna gagnverki sem heimsverslunin er. Afríka sat eftir í sósíalisma og Afríka er því orðið stærsta vandamálið.

Í stað þess að senda peninga og óskir um gott gengi til Afríku ættu ríkari íbúar heimsins að senda þangað beiðnir um frjálsa verslun og e.t.v. gott lesefni um ágæti hennar í leiðinni. 


mbl.is Skiptir öllu hvar fólk fæðist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott en hugsanlega of seint

Ítarleg yfirlýsing og nákvæm svör við spurningum vegna eigna og umsýslu eigna eiginkonu forsætisráðherra er gott innlegg í umræðu sem einkennist sennilega fyrst og fremst af upphrópunum. 

Það er hæpið að forsætisráðherra hafi í starfi sínu barist gegn hagsmunum almennings til hagsbóta fyrir eiginkonu sína. Það er sennilega rétt að eiginkonan hefur tapað miklu fé og síður en svo grætt á starfi eiginmanns síns. 

Hins vegar er óheppilegt að hjónin hafi ekki verið búin að sjá þetta mál fyrir með því að lýsa aðstæðum sínum áður en einhver blaðamaður fór að grafast fyrir um hagsmuni þeirra og eignir.

Sennilega þarf forsætisráðherra að segja af sér til að tryggja vinnufrið fyrir ríkisstjórnina. Hann gæti komið vel út þannig og mætt tvíefldur til leiks í næstu kosningum. Það væri enginn ósigur fyrir hann sem stjórnmálamanns. 

Það er að vísu engin hefð fyrir því að ráðherrar segi af sér á Íslandi. Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon eru hér bestu dæmin. Þau mega telja sig heppin að hafa ekki verið dregin fyrir einhvern rannsóknarréttinn til að svara fyrir verk sín.

Ég vona að forsætisráðherra segi af sér svo málefni hans flækist ekki fyrir ríkisstjórninni. Hann getur svo bara boðið sig fram aftur. 


mbl.is Hvað snýr upp og niður?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband