Föstudagur, 23. september 2016
Velferðarkerfið og innflytjendur
Þeir sem vilja ekki fleiri innflytjendur til Íslands heldur vilja að velferðarkerfið sé notað til að styðja við þá sem þurfa á aðstoð að halda og eru nú þegar búsettir á Íslandi eru sjálfir sér samkvæmir.
Þeir sem vilja fleiri innflytendur - í raun alla sem vilja flytja til Íslands og taka upp löglega hætti - en eru á móti því að ríkisvaldið sjái um að borga uppihald undir þá og aðra með fé skattgreiðenda eru sjálfir sér samkvæmir.
Þeir sem vilja bæði fleiri innflytendur og vilja að velferðarkerfið taki þá að sér - þeir þurfa að hugsa sinn gang. Þeir halda að til að baka köku sé nóg að borða köku. Það gengur ekki upp.
Það er fullkomlega óboðlegt að skattgreiðendur séu látnir standa undir uppihaldi stórra hópa af fólki sem getur ekki séð fyrir sér sjálft og er jafnvel meinað að sjá um sig sjálft. Norðurlöndin kljást við stóra hópa fólks sem er jafnvel af 3. kynslóð innflytjenda eða meira og virðist ekki geta sér neina björg veitt. Forfeður þeirra fengu leyfi til að setjast að og fara á spena velferðar og var markvisst haldið utan við atvinnumarkaðinn til að varðveita há laun innfæddra. Ekki flykktust börn þeirra í skóla og á atvinnumarkaðinn né barnabörn.
Ég tilheyri þeim hópi sem vill ekki siga lögreglunni á þá sem flytjast á milli landa til að hefja nýtt líf en um leið er ég andstæðingur ríkisrekins velferðarkerfis sem tekur fé úr vösum skattgreiðenda og deilir út eftir pólitískum vindum. Sjálfur er ég innflytjandi í Danmörku og mér var á sínum tíma sagt að gjöra svo vel að halda mér sjálfum uppi ella flytja aftur til Íslands (og á þeim tíma talaði ég ekki dönsku vel á minnst, og fyrsta starf mitt í Danmörku var ósköp venjuleg hreingerningarvinna sem krafðist ekki verkfræðigráðu minnar né þekkingar minnar á dönskum bjór).
Mér fannst það ekki ósanngjörn krafa, hvorki á mig né aðra.
![]() |
Skammastu þín! |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 22. september 2016
Hugleiðingar um skilvirkni
Í dag birtist grein eftir mig í Viðskiptablaðinu og er fyrsta greinin af vonandi mörgum um nokkuð sem er mér mjög hugleikið - skilvirkni.
Þetta er fyrsta blaðagrein mín sem snýst ekki að neinu leyti um pólitík eða samfélagsmálefni Vonandi verður hún einhverjum til gagns og jafnvel gamans.
Bókin mín um skilvirkni er til sölu á heimasíðu Amazon.
Fimmtudagur, 22. september 2016
Heimanám, já eða nei?
Einhver umræða á sér nú stað á Íslandi um ágæti heimanáms. Menn virðast strax vera komnir í tvær skotgrafir sem er miður.
Sjálfur ólst ég upp við heimanám og stundum svolítið mikið af því, bæði í grunnskóla og menntaskóla (háskólinn er eiginlega bara eitt stórt heimanám).
Það gerði mér gott að þurfa fylgjast með því sem var sett fyrir og taka vinnu heim sem var unnin á mína ábyrgð og ég þurfti að standa skil á í skólanum. Þessa æfingu fékk ég í grunnskóla og hún nýttist mér mjög vel í áframhaldandi námi.
Stundum þurfti ég að biðja um aðstoð heima og þannig ómeðvitað upplýsti ég foreldra mína (aðallega mömmu) um stöðu mála og hvað ég væri að eiga við í skólanum.
Á þessum tíma var hins vegar engin geymsla sem tók við mér eftir frekar stutta skóladaga. Ég fékk mikið svigrúm en ábyrgðin var líka meiri. Ég var lengi vel í tvísetnum grunnskóla svo ég þurfti stundum að vakna snemma og stundum ekki en það kenndi mér líka bara að taka ábyrgð á því sjálfur - fylgjast með stundatöflunni og haga aðstæðum eftir því.
Þetta eru kostir heimanáms.
Í dag er krökkum haldið í skóla í 7-8 klst á dag. Minn 12 ára skólastrákur hérna í Danmörku er í skólanum frá kl. 8 til 15 flesta daga. Þetta eru langir dagar. Hann þarf lítið að spá í því hvenær hann eigi að vakna - við förum öll á fætur á sama tíma hér og komum okkur út. Hann tekur sjaldan svo mikið sem eitt blað með heim því ekkert er heimanámið. Komi það hins vegar upp að hann þurfi að gera eitthvað heima þá er það hið mesta áfall fyrir hann. Heimatími er frítími í hans höfði og undantekningar eru varla leyfðar í hans höfði.
Ég veit voðalega lítið hvað hann er að eiga við í skólanum. Seinasta haust kom upp úr dúrnum að honum hefði hrakað mjög mikið í stærðfræði eftir heimanámslausan veturinn á undan. Þá varð ég að gera átak hérna heima og kynna heimatilbúið heimanám til leiks. Staðan er ekkert sérstök í mörgum fögum en ég fæ ekki kennarana til að hjálpa mér. Þeir eru bundnir við verkefni og stundatöflu frá morgni til síðdegis og hafa engan tíma til að gera eitthvað auka.
Strákurinn veit sjaldnast hvenær hann er með heimanám. Hann fylgist ekkert með því. Komi heimanám fáum við hérna heima skilaboð um það. Ég veit ekki hvort næsti vetur verði öðruvísi (þegar hann fer í elstu deildina) en mig grunar að svo verði ekki. Danir vilja klára alla vinnu á skrifstofutíma og allt nám í skólatíma, gjarnan með aðstoð kennara sem gefur upp svörin ef maður réttir um hendi.
Þetta eru ókostir við fjarveru heimanáms eins og ég sé það.
Lengri skóladagar gera skólana í raun að einum stórum leikskóla þar sem er skipulögð dagskrá fyrir krakkana og eftir að skóla lýkur er ekkert á könnu þeirra sem tengist náminu. Það er ekki hægt að verja börn svona endalaust fyrir ábyrgð. Ef ekkert er frelsið er ekki hægt að ætlast til þess að fólk taki ábyrgð.
Persónulega finnst mér því að allir skólakrakkar eigi að fá heimanám en að það þurfi um leið að vera mátulega erfitt og mátulega tímafrekt og ekki endilega daglegt brauð. Það er mikið uppeldisgildi í heimanámi en mér finnst líka að krakkar eigi sem fyrst að læra að stundum þarf bara að leggja svolítið á sig til að öðlast skilning, án aðstoðar kennara. Sé þeirri lexíu frestað verður áfallið bara mun meira seinna þegar út í lífið er komið og enginn sér að maður rétti upp hendi.
Þriðjudagur, 20. september 2016
Stuðningur eða söluræða?
Össur Skarphéðinsson bendir á að íslenska ríkið hafi framselt töluvert af fullveldi Íslands til yfirþjóðlegra stofnana og telur jafnvel að allt þetta framsal jaðri nú við brot á stjórnarskránni.
Maður spyr sig: Er hann að verja stjórnarskránna og fullveldi Íslands eða að tala fyrir breytingum á stjórnarskránni sem auðvelda frekara framsal af fullveldi Íslands?
Ég ætla að leyfa mér að vona að hið fyrrnefnda eigi við og að hann sé að tala fyrir því að Íslendingar hætti frekara framsali.
Evrópusambandið fylgir uppskrift hans hvað þetta varðar og fleira.
Íslendingar geta alveg verið fullgildir meðlimir í því stjórnleysi sem heimur án yfirheimsvalds er. Ég vona að Össur sé að tala fyrir því en ekki hinu að Íslendingar eigi að henda fullveldi sínu í hendur andlitslausra stofnana.
![]() |
Stenst ekki stjórnarskrána |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 19. september 2016
Hvað gerist næst?
Á Íslandi og víðar eru sterk hagsmunaöfl að reyna að koma í veg fyrir að fólk deili svokölluðu höfundarvörðu efni gjaldfrjálst á netinu og að aðrir sæki sér það.
Þessu má líkja við að menn reyni að koma í veg fyrir að vatn renni í gegnum sigti með því að stoppa í götin, eitt í einu. Á meðan eitthvað gat er opið mun vatnið komast í gegn.
Þetta er varhugaverð þróun. Það er eitt að til séu lög sem verja höfundarrétt og að menn brjóti þau lög. Ég get alveg sýnt því skilning að menn reyni hér að framfylgja lögunum. Sumir telja að slík lögbrot dragi úr tekjum listamanna og höfunda að höfundarvörðu efni og skal ég jafnvel samþykkja það hér, röksemdarfærslunnar vegna, þótt ég sé ekki sannfærður.
Hættan er hins vegar sú að þegar yfirvöld eru fyrst byrjuð að leggja hindranir á netumferð, sía út ákveðnar síður og þvinga fyrirtæki til að loka ákveðnum síðum þá sé engin leið að segja til um það hvar slík ritskoðun staðnæmist.
Til að vita hverju á að loka eða hvað á að sía út eða hverja á að sækja til saka fyrir lögbrot þarf að vita hvaða síður fólk er að heimsækja. Þetta er eftirlit sem yfirvöld hafa með höndum. Sá sem vill fylgjast með hvort maður borði epli eða banana fylgist um leið með því við hverja hann talar, hvað hann er lengi á klósettinu og hvaða bílum hann keyrir, svo dæmi séu tekin. Yfirvöld eru hér að troða sér inn á netið til að fylgjast með borgurunum.
Í dag berjast yfirvöld gegn barnaklámi, ólöglegu niðurhali og hryðjuverkasamtökum á netinu. Stundum þarf að loka síðum og það er þá rækilega rökstutt með tilvísun í lögin og almennt siðferði í samfélaginu. Á morgun getur tíðarandinn hins vegar breyst og hvað verður þá talið óæskilegt? Heimasíður eins og sú sem þessi orð eru skrifuð á? Málefnaleg barátta gegn hinu sívaxandi ríkisvaldi? Stuðningsyfirlýsingar við ákveðna stjórnmálamenn? Þeir sem vilja giska á það hvert opinbert eftirlit færir út anga sína geta ekki staðnæmst við neitt í raun.
Síður eins og Deildu.net munu alltaf finna farveg á meðan einhver netumferð er leyfð. Í stað þess að beita afli væri e.t.v. ráð að auðvelda löglegum veituaðilum lífið, t.d. með því að afnema skyldu á textun efnis og afnema alla skatta af rekstri fyrirtækja. Ég held að Netflix, Apple og Spotify hafi gert meira fyrir baráttuna gegn ólöglegri deilingu efnis en öll stjórnvöld lögð til samans.
![]() |
Engar aðrar leiðir en DNS-fölsun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 18. september 2016
Hverjir eiga að ráða landamærum Bretlands?
Bretar ætla að segja sig úr Evrópusambandinu og standa vonandi við þann ásetning.
Ýmis öfl innan sambandsins vilja samt gera það ferli sem sársaukafyllst og erfiðast fyrir Breta.
Sumir telja að viðskiptahindranir eigi að rísa við Bretland, sennilega áþekkar þeim og sambandið beitir á önnur ríki utan sambandsins (ef EES-ríkin eru undanskilin, að hluta).
Sumir telja að landamæri Bretlands eigi áfram að vera opin öllum íbúum Evrópusambandsins. Það má teljast ólíklegt að Bretar loki á útlendinga. Þeir munu áfram vilja vinnandi hendur og erlenda fjárfestingu en e.t.v. loka á þá sem eru bara á eftir bótum og húsnæði. Þetta dugir ekki þeim sem vilja losna við ónytjunga sína úr eigin landi og moka yfir í velferðarkerfi annarra sambandsríkja.
Úrsögn Bretlands verður prófraun á það hversu mikið "samband" Evrópusambandið er og hvort það líkist ekki miklu frekar sambandsríki þar sem úrsögn er mætt með valdi (svipað því og Suðurríki Bandaríkjanna urðu fyrir þegar þau vildu segja sig frá Washington).
Styrkleiki Evrópu var um langa hríð (fleiri aldir) pólitísk samkeppni. Evrópa samanstóð af gríðarlegum fjölda ríkja, furstadæma, borgríkja og þess háttar. Þessi pólitíska sundrung var mikill suðupottur tilraunastarfsemi í auðsköpun (meðal annars). Að vísu fylgdi þessari pólitísku sundrungu líka stríðsbrölt, a.m.k. fram á 19. öld. Þökk sé hinni pólitísku sundrungu var auðveldara en ella fyrir Martin Luther að finna skjól fyrir ofsóknum kaþólsku kirkjunnar. Hollendingar sérhæfðu sig í bankastarfsemi og stóðu sig betur en aðrir og uppskáru ríkulega. Fleiri dæmi má týna til en boðskapurinn ætti að blasa við.
Nú er hætt við að stöðlun Evrópuríkja leiði til stöðnunar þeirra - efnahagslegrar sem og á öðrum sviðum mannlífsins. Og enginn fær að hætta sársaukalaust.
![]() |
Gætu beitt neitunarvaldi gegn Bretum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 16. september 2016
Hugsið um börnin!
Föstudagur, 16. september 2016
Killary Clinton
Vinnufélagi minn talar aldrei um Hillary Clinton. Hann talar um Killary Clinton. Af hverju? Jú, af því hennar háværustu gagnrýnendur hafa verið að hrynja niður eins og flugur undanfarin misseri. Af einhverjum ástæðum veldur gagnrýni á hana eða trúnaðarstaða sem tengist henni því að fólk verður líklegra til að fremja sjálfsvíg eða lenda í dauðaslysum.
Hefðbundnir fjölmiðlar segja lítið um þetta og kannski skiljanlega. Í Evrópu mælist frambjóðandi Demókrata alltaf með 80-100% fylgi, sama hvað. Hillary hefur verið kölluð "teflon-kandídatinn" - öll gagnrýni virðist einfaldlega renna af henni eins og fita af teflon-pönnu.
Bandaríkjamenn standa frammi fyrir erfiðu vali í forsetakosningum sínum. Hillary Clinton er valdagráðugur stríðssjúklingur sem vill innleiða sósíalisma og fasisma í Bandaríkjunum á sama tíma. Donald Trump er óútreiknanlegur gasprari sem stígur á allar tær, vill reisa múra í kringum landið og koma á viðskiptahindrunum. Meira að segja þriðji frambjóðandinn sem mælist með eitthvað fylgi - Gary Johnson - hefur á sér orðspor íhaldsmanns í dulargervi frjálshyggjumanns.
Killary Clinton óttast ég samt langmest af öllum.
![]() |
Hillary Clinton snýr aftur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. september 2016
Svo lögin séu uppfyllt, já?
Það vantar hundruð leikskólakennara til starfa svo lög um leikskóla séu uppfyllt segir formaður Félags stjórnenda leikskóla.
Þetta eru athyglisverð ummæli.
Formaðurinn segir ekki að það vanti hundruð leikskólakennara til að reka leikskólana, sjá um börnin eða tala við foreldrana. Það vantar hundruð til að uppfylla lögin. Og þetta tvennt er ekki endilega það sama.
Tæknilega þýðir þetta að það vantar hundruð manns með þá menntun og þau réttindi sem lögin krefjast svo fólk geti starfað á leikskóla, a.m.k. til lengri tíma.
Eflaust væri hægt að moka allskonar fólki inn í leikskólana svo ekki þurfi að senda börn heim. Þá gæti Gunna, 18 ára menntaskólanemi, e.t.v. tekið síðdegisvakt eftir að skóla lýkur, en Siggi, 25 ára háskólanemi, tekið morgunvaktina á þeim dögum þar sem hann er ekki í fyrirlestrum. Heimavinnandi mæður gætu tekið miðjan daginn á meðan þeirra eigin börn eru á öðrum leikskóla eða í skóla. Öll vinna yrði vitaskuld unnin undir handleiðslu þrautþjálfaðra leikskólakennara sem væru alltaf til staðar fyrir börnin og þekkja þau út og inn, en sjálf vinnan - að leika við börnin, fóðra þau, skeina þeim og sinna þeim, færi fram af her fólks með allskonar bakgrunn.
En nei, þetta eru ekki fyrirmæli laganna. Lögin segja að leikskólakennari í dag skuli vera öðruvísi menntaður og þjálfaður en sá fyrir 20 árum. Hann þarf að hafa háskólapróf og kunna á króka og kima skrifræðisins hjá hinu opinbera.
Auðvitað var það alla tíð markmið leikskólakennara að skapa skort á starfsfólki á leikskólum með því að bæta rækilega í lagaskyldur á menntun, þjálfun og réttindi. Það er eina leið opinberra starfsmanna til að bæta kjör sín. Fórnarlömbin hlaðast hins vegar upp - börn sem fá ekki vist og foreldrar sem komast ekki í vinnuna.
Væri kannski ráð að endurskoða lögin svo leikskóla megi manna?
![]() |
Vantar hundruð leikskólakennara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 14. september 2016
Þegar heyrnaskertir þurftu að bíða
Árið 2006 birtist lítil frétt í Fréttablaðinu þar sem lesendum var tjáð að biðlistar hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands heyrðu nú sögunni til, hvorki meira né minna, og eitthvað sem er varla hægt að segja um mörg önnur svið heilbrigðiskerfisins.
Hvernig stóð á því að biðlistar eftir heyrnartækjum hurfu? Fréttin veitir örlitla innsýn í það: Kostnaðarþáttur einstaklingsins hafði aukist og fjármagn hafi myndast eftir reglugerðarbreytingu tæpum þremur árum áður.
Á mannamáli þýddi reglugerðarbreytingin einfaldlega að ríkið afnám einokun sína af viðskiptum með heyrnartæki. Einkaaðilar urðu til sem náðu til sín vel borgandi viðskiptavinum, þ.e. þeim sem gátu keypt sig út úr biðröð hins opinbera, og flöskuhálsar, biðlistar og önnur óþægindi hurfu á örfáum misserum.
Talsmenn ríkiseinokunar á heilbrigðisþjónustu segja gjarnan að aukin aðkoma einkaaðila muni leiða til þess að þeir ríku kaupi sig fram fyrir í röðinni. Hvað ef þeir ríku mynda einfaldlega aðra röð og stytta þannig hina sem hinir efnaminni þurfa að standa í, eða hreinlega útrýma henni? Eru þá ekki allir betur staddir?
Reynsla heyrnaskertra bendir a.m.k. til þess og aldrei hafa sjónskertir þurft að standa í röð svo hví ekki að leyfa einstaklingum með athyglisbrest að njóta sömu þjónustu?
![]() |
636 fullorðnir bíða greiningar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |