Sænska leiðin

Í frétt segir:

Að sögn Björg­vins eru borg­ara­leg rétt­indi grunn­ur­inn að siðmenntuðum sam­fé­lög­um. Það skipti máli að þau séu virt, ekki bara hjá sum­um held­ur hjá þeim sem þurfa mest á því að halda. Hann seg­ir þar að lög­regla hafi beint spjót­um sín­um að ungu fólki á tón­list­ar­hátíðum á und­an­förn­um árum sem hafi í för með sér þær af­leiðing­ar að hátíðargest­ir taki frek­ar sterk­ari efni í meira magni áður en þeir fari inn á svæðið, til að koma í veg fyr­ir að verða tekn­ir með efn­in.

Þetta minnir mig á sögu um nokkuð sem væri e.t.v. hægt að kalla sænsku leiðina og snýst um að geta orðið ölvaður í áhorfendastúku á íþróttaleikjum.

Í Svíþjóð er sennilega ekki leyfilegt að selja áfengi til áhorfenda frekar en á Íslandi. Ráð við þessu er að drekka fyrst vænan skammt af feitri mjólk eða rjóma. Fitan klæðir magann að innan. Þar næst er vodka eða öðru sterku áfengi sturtað í sig. Þegar á leikvöllinn er kominn er svo keypt gosdós og hún drukkin. Þá rofnar fitufilman í maganum og áfengið streymir í líkamann. Ölvun næst - tilganginum er náð!

Verði ykkur að góðu!


mbl.is „Varpar ljósi á vinnubrögð lögreglu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér er áætlunin: Kosningar 2017

Stjórnarandstaðan er eitthvað ringluð. Hún man eftir einhverjum loforðum úr fjölmiðlaviðtölum frá því fyrr í sumar. Það mætti kalla þau kosningaloforð - loforð um kosningar. Um leið gerir hún sér grein fyrir því að það eru ekki einstaka þingmenn - jafnvel ekki einstaka ráðherrar - sem geta blásið þingið af. Ef ganga á gegn fyrirmælum stjórnarskrár þarf þingið í heild sinni að kjósa um það og samþykkja slíkt mál. Slíkt hefur ekki verið gert.

Skiljanlega er stjórnarandstaðan ringluð. Hún á við togstreitu að stríða. Nú sýna skoðanakannanir að hún gæti jafnvel náð meirihluta (þ.e. ef hún stendur saman). Það er samt að molna undan þeim meirihluta. Þetta veit stjórnarandstaðan. Hún rígheldur því í loforð einstaka þingmanna eins og þeir geti talað fyrir hönd alls Alþingis.

En gott og vel, segjum að loforð einstaka þingmanna eða ráðherra væru bindandi. Væri þá ekki ráðherraræði á Íslandi? Væri þá framkvæmdavaldið ekki búið að taka yfirhöndina af löggjafarvaldinu? Ekki minnist ég þess að neinn hafi beðið um það. Eða hvað? Eru menn að biðja um það?

Hún er ekki einföld, pólitíkin á Íslandi.

Í millitíðinni er áætlunin þessi: Kosningar í vor 2017.


mbl.is Ekkert samtal átt sér stað um þinglok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimenn sem segja eitt en gera annað

Nú er sagt frá því í fréttum að stjórnmálaflokkurinn Vinstri hreyfingin - grænt framboð hafi skilað rekstrarafgangi á seinasta ári. Athyglisvert er að lesa hvernig það tókst: Með lækkun kostnaðar, sölu eigna og aukinni ráðdeild í rekstri. Kemur fram að flokkurinn hafi skuldað mikið fé og hafi þess vegna ráðist í ýmsar aðgerðir.

Þetta er sami flokkur og boðar að til að fjármagna ýmis útgjöld ríkissjóðs þurfi bara að hækka skatta (eða komast í skattaskjólin sem er auðvitað bara draumsýn).

Ekki veit ég hvernig formaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir, rekur heimili sitt. Kannski kaupir hún allt sem hana langar í strax og raðar útgjöldunum á kreditkortin þar til þau segja stopp. Þá bregst hún hin versta við og heimtar auknar heimildir. Hún skal fá sinn sólskála, kavíar í hádeginu og nýjasta skófatnaðinn!

Eða sýnir hún ráðdeild, lætur tekjur duga fyrir útgjöldum og leggur jafnvel fyrir?

Það verður spennandi að sjá hvor Katrínin kemur upp úr kjörkössunum.


Lofað fyrir annarra manna fé

Vinstrimenn eru sjálfum sér líkir í aðdraganda kosninga. Þeir vilja byggja, veita og styrkja fyrir annarra manna fé. Þegar þeir eru spurðir hver eigi að borga byrjar sami gamli og þreytti söngurinn um að skatta megi hækka á hina tekjuháu. Raunin verður öll önnur.

Óli Björn Kárason segir á einum stað

"Loforð vinstri manna er að innleiða stjórnsýslu og hugmyndafræði meirihluta borgarstjórnar yfir á landið allt. Reykvíkingar þekkja af eigin raun hvernig útgjöldum er forgangsraðað. Þjónusta við eldri borgara er skorin niður og leik- og grunnskólar sitja á hakanum. Borgarfulltrúar ferðast um heiminn til að kynna sér lestarsamgöngur og innheimtur bílastæðagjalda í stórborgum. Í Reykjavík grotna götur niður en hundruðum milljóna er varið í að þrengja meginæðar gatnakerfisins. Reykjavík hefur verið gerð að höfuðborg holunnar. Kvörtunum um lélegan kost í skólum er mætt með því að hækka álögur á barnafjölskyldur. Borgarsjóður er ekki lengur sjálfbær þrátt fyrir að álögur og gjöld á íbúana séu í hæstu hæðum.

Kjósendur geta gert sér sæmilega grein fyrir því hvað bíður handan við hornið, taki vinstri stjórn við völdum að loknum kosningum. Verkin tala og fyrirmyndin liggur fyrir."

Þessu mótmælir varla nokkur nema sá allraóheiðarlegasti. Eða hvers vegna ættu vinstrimenn á Alþingi að stunda önnur stjórnmál en vinstrimenn í Reykjavík?

Raunar hefur vinstristjórn í Reykjavík reynst ágætlega áreiðanleg vísbending um afleiðingar vinstristjórnar á landsvísu eins og menn sjá væntanlega við lestur á þessari grein minni frá 2007. Það sem ég sá ekki árið 2007 var að peningaprentun hafði gengið af göflunum í aðdraganda ársins 2008. Nú eru hættumerkin önnur en vinstrimenn eru ekki að fara bregðast við þeim.

Það er ekki hægt að fjármagna stóraukin ríkisútgjöld með því að skattleggja tekjuháa einstaklinga enn frekar. Tekjuháir eru ekki þeir sem standa undir skattkerfinu. Það gerir meirihluti launafólks - fólk með miðtekjur, þeir sem kaupa sér pulsu, þeir sem kaupa sér bíl, þeir sem standa upp á morgnana til að mæta í vinnuna. Aukin ríkisútgjöld bitna fyrst og fremst á þessum hópi.

Eru menn tilbúnir í slíkt? 


mbl.is Tekjuháir leggi meira til samfélagsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fóstruríkið hugsar fyrir okkur

Á Íslandi er allt sem ekki er sérstaklega leyft bannað. Undantekningar frá þessari reglu er helst að finna á hinum svarta markaði en þangað leitar öll þjónusta og allur varningur sem þykir of erfitt að selja löglega eða er ólöglegt. 

Samkvæmt íslenskum lögum er t.d. leyfisskylt að selja matvæli beint frá býlinu sem framleiðir þau. Lögin mætti túlka sem svo að um leið og lambið er rekið niður af fjallinu byrjar það að verða eitrað. Bóndinn tekur við lambinu og þarf að drífa sig með það í sláturhús. Þar er lambinu slátrað, kjötið skorið, það sett í umbúðir og keyrt í búðir þar sem það bíður í hillum eftir kaupanda.

Ef bóndinn tekur við eitruðu lambinu og slátrar því sjálfur, sker kjötið og selur það beint frá býli er hætta á að sá sem neytir kjötsins fái eitrunina beint í æð. Eitrunin er ekki talin fara fyrr en lambið er búið að ferðast í bíl í sláturhús og bíða þar í langri röð eftir aftöku vottaðra starfsmanna með starfsleyfi. Eitrunin rýrnar svo eftir því sem kjötið ferðast meira innan sláturhússins, að pökkunarvélinni, í kæligeymsluna, í vöruflutninga, í vörumóttökur verslana og endar í hillunum þar sem það stendur í nokkra daga í kæli.

Því fleiri sem handtökin eru í kringum lambakjötið, því minni líkur eru á að það sé ennþá eitrað þegar neytandi fær það loksins í hendurnar.

Nema auðvitað að bóndinn sé með starfsleyfi. 

Fóstruríkið hugsar fyrir okkur. Mörgum finnst það ágætt. 


mbl.is Þurfa leyfi fyrir sölu beint frá býli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bananaverð reiknað rangt

Svo virðist sem ótakmörkuð geta til að safna að sér gögnum sé ekki nóg til að hægt sé að reikna út bananaverð á Íslandi. Sérstakir fulltrúar yfirvalda hafa vissulega og samviskusamlega þrætt allar verslanir og skráð hjá sér bananaverðið en gögnin hafi engu að síður ekki dugað til. Ýmsar reiknikúnstir hafi ekki tekið á öllum þáttum.

Sömu fulltrúar hafa vissulega ætlað sér að reikna út áhrif peningaprentunar á áhrif alls annars en hafi ekki átt erindi sem erfiði.

En gott og vel, höldum áfram að treysta einum aðila, Seðlabanka Íslands, og skjólstæðingum hans, viðskiptabönkunum, til að stilla af kaupmátt heils gjaldmiðils með notkun tölfræði. Og leyfum sama seðlabanka að vera í einokunarstöðu í framleiðslu peninga. 

Þetta getur bara endað illa. 


mbl.is Mistökin „óheppileg“ að mati SÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta skref: Leigumatvæli

"Reist verða allt að 2.300 svokölluð Leiguheimili á næstu fjórum árum í nýju almennu íbúðakerfi sem nú er verið að taka upp hér á landi og byggir á danskri fyrirmynd."

Þeir mega eiga það Íslendingar að þeir eru duglegir að apa upp vitleysuna á öðrum Norðurlöndum en láta það sem vel er gert á þeim alveg eiga sig. Eða sér einhver fyrir sér að lögum um sölu áfengis verði breytt "að danskri fyrirmynd" á Íslandi? Eða að hámarkshraði á þjóðvegum verði hækkaður upp í 110 km/klst "að danskri fyrirmynd"? Nei, ætli það.

Ríkisvaldið ætlar í stuttu máli að ausa fé skattgreiðenda í fasteignamarkaðinn. Sveitarfélögin, sem væri nær að úthluta lóðum, og ríkinu, sem ætti að sjá sóma sinn í að rýmka byggingarreglugerðir svo það borgi sig að byggja ódýrt húsnæði, vinna hér saman. Hið opinbera flækist fyrir einkafyrirtækjum sem vilja byggja og einstaklingum sem vilja kaupa. Gott og vel, það er ekkert nýtt. En nú á að endurvekja gamlan draug í íslensku samfélagi: Félagslegt húsnæði, þar sem eina skilyrðið fyrir búsetu er að passa að tekjurnar hækki ekki of mikið. Því annars skerðast húsaleigubæturnar og leigusamningnum er sagt upp, sjáið til.

Það er hættulegt að hafa eyðsluklær í ríkisstjórn þegar vel árar hjá ríkissjóði því þá er auðveldara að greiða - með fé skattgreiðenda - leiðina að svolitlum sósíalisma hér og þar sem breiðir úr sér eins og krabbamein. 


mbl.is Bylting fyrir fólk undir meðaltekjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fiskeldi sem byggðastefna

Svo virðist sem fiskeldi sé aftur komið í tísku. Nú vilja öll þorp með aðgang að sjó sjá risastór fiskeldisker fyrir utan hafnir sínar og trúa því að þeim muni fylgja mikill auður.

Stjórnmálamenn og hið opinbera taka þátt í kapphlaupinu og veita eldisleyfi á veikum grundvelli. Á meðan Landsvirkjun þarf að eyða mörgum árum í að fá leyfi fyrir hverju einasta mastri virðist vera auðvelt að fá að fleygja þúsundum tonna af lifandi fiskum út í sjó - fiskum sem framleiða úrgang og sleppa út í náttúruna. 

Þeir sem eiga hagsmuna að gæta af stangveiði eru varla virtir viðlits. Þeirra aðvörunarorð eru að engu höfð. Nú skal fiskeldi komið á!

Svona viðhorf hins opinbera er ekki nýtt á nálinni. Þegar iðnbyltingin var að hefjast á Bretlandi á sínum tíma risu strompar sem spúðu kolaryki yfir nærliggjandi svæði, hús og dýr. Bændur reyndu að mótmæla og draga þá sem menguðu fyrir dómstóla og krefja þá um miskabætur fyrir skemmdarverk á eignum sínum. Þetta þótti stjórnmálamönnunum vera ómögulegt ástand. Iðnaður var jú það sem koma skal og of strangar kröfur á mengun yrðu hamlandi fyrir hann. Í stað þess að finna gott jafnvægi á milli mengunar og skaðabóta var ákveðið að mengandi iðnaður væri samfélagsleg nauðsyn. Mengunin varð því gríðarleg og fór algjörlega úr böndunum á sumum svæðum.

(Stjórnmálamenn sáu svo að sér seinna og komu á lögum sem áttu að takmarka mengun. Þeim datt ekki í hug að gefa bara landeigendum aftur lagatæki til að sækja til saka þá sem eyðilögðu eignir þeirra.)

Sagan endurtekur sig þótt hún taki vissulega á sig mismunandi myndir. Nú skal mengandi fiskeldi leyft. Þeir sem reyna að gæta eigna sinna og hagsmuna eru hunsaðir. Þegar allt er komið í klessu verða sett lög sem eiga að lágmarka skaðann af fiskeldinu. Þá verður það of seint. 


mbl.is Nýjar frekar en rótgrónar stofnanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækkun í staðinn fyrir ekkert

Þeir sem vilja að hið opinbera sjái um fjármögnun á hinu og þessu eru um leið að boða háa skatta. Krafan er svo að sjálfsögðu sú að skattarnir dugi til að fjármagna hitt og þetta.

Síðan kemur í ljós að skattarnir duga ekki til. Þá kemur hið opinbera á greiðsluþátttöku umfram skattheimtuna. Í stað þess að losna við gíróseðlana eftir að skattheimtumaðurinn er farinn fá skattgreiðendur bæði skattheimtuna og greiðsluþátttökuna.

Síðan kemur í ljós að greiðsluþátttakan dugir ekki til. Þá eru skattar hækkaðir eða greiðsluþátttakan en yfirleitt hvoru tveggja.

Nú sitja skattgreiðendur uppi með háa skatta og háa greiðsluþátttöku og geta ekkert gert því hið opinbera situr þungt á verkefninu og neitar að sleppa. 

Miklu hreinlegra væri að lækka skattana og gera greiðsluþátttökuna að einu fjármögnuninni. Það veitir ákveðið aðhald. Markaðurinn opnast skyndilega. Fyrirtæki eru í sífellu að skipta um mötuneytisþjónustu og leika sér að því að láta einkaaðila bítast um viðskipti þeirra. Skólabörn hafa ekkert slíkt val enda látin eiga við einokunarfyrirtæki. Kannski væri ráð að breyta því í stað þess að horfa upp á bæði skattana og greiðsluþátttökuna aukast og aukast. 


mbl.is Fæðisgjald hækkar um 31%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framboðslistar og frjálshyggja

Nú eru listar flokkanna óðum að líta dagsins ljós. Ég ætla að renna stuttlega yfir nokkra þeirra til að sjá hvar atkvæði frjálshyggjumannsins er best borgið. Ég læt duga að fjalla um Sjálfstæðisflokk, Pírata og Viðreisn enda engin von til þess að frjálshyggjumenn finnist í öðrum flokkum. Ég held mig við topp 7 á listunum. 

Þessi upptalning gæti breyst ef ég fæ nýjar upplýsingar.

Reykjavík suður

Sjálfstæðisflokkur

Hér er að finna eftirfarandi frjálshyggjumenn: Sigríði Andersen og Hildi Sverrisdóttur og Katrínu Atladóttur. Katrín, sem er vinkona mín, er hér að spreyta sig í pólitík í fyrsta skipti og ég vil eindregið hvetja alla til að fylgjast með henni á næstu vikum. Hún er með hjartað á réttum stað og öflug í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur.

Píratar

Hér er bara einn einstaklingur sem gæti flokkast sem frjálshyggjumaður, Hákon Helgi Leifsson. Þessi gamli skólabróðir minn úr grunnskóla er sífellt að spá í hlutunum og spyrja gagnrýninna spurninga. Ég held að Alþingi hefði gott af því að fá hann. Gallinn er að kjósa þarf 6 ekki-frjálshyggjumenn inn á þing áður en hann kemst að.

Viðreisn

Hér er bara einn frjálshyggjumaður að því er best ég veit - Pawel Bartoszek stærðfræðingur og skólabróðir minn úr MR. Allir þekkja Pawel og hvernig hann dregur fram eitrið í ríkisafskiptunum. Hann vill að vísu að Ísland gangi í ESB en sem betur fer eru engar líkur á að það gangi eftir og hann ætti því að geta einbeitt sér að frjálshyggju sinni. Vonandi.

Reykjavík norður

Sjálfstæðisflokkur

Hér eru tveir frjálshyggjumenn meðal efstu sætanna - Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Jón Ragnar Ríkharðsson. Það yrði fengur fyrir Alþingi að fá Áslaugu á þing. Einhvern veginn nær hún að hrífa mann með sér. Jón Ragnar er nýr á opinberum vettvangi stjórnmálanna en ég held að frjálshyggjan hans sé í góðu lagi.

Píratar

Hér er ekki að finna einn einasta frjálshyggjumann. Listinn er jafnvel baneitraður fyrir frjálshyggjumanninn. 

Viðreisn

Hér er ekki að finna einn einasta frjálshyggjumann. Raunar ætti fyrsti maður á listanum miklu frekar heima í Framsóknarflokknum eða Samfylkingunni. 

Suðurkjördæmi

Sjálfstæðisflokkur

Hér er ekki að finna einn einasta frjálshyggjumann. Fyrsti maður, Páll Magnússon, gæti þó hrist upp í hlutunum enda maður sem hefur engu að tapa og hefur sannað að hann þorir að leggja allt undir.

Píratar

Hér er ekki að finna einn einasta frjálshyggjumann. Listinn er jafnvel baneitraður fyrir frjálshyggjumanninn.

Viðreisn

Hér er ekki að finna einn einasta frjálshyggjumann.

Suðvesturkjördæmi

Sjálfstæðisflokkur

Ég get ekki séð að endanlegur listi sé tilbúinn ennþá en ef marka má niðurstöður prófkjörsins (sem er varhugavert, enda niðurstöður lýðræðislegra prófkjöra óvinsælar um þessar mundir) þá er þarna að finna Óla Björn Kárason sem er næg ástæða í sjálfu sér til að hugleiða flokkinn í þessu kjördæmi. Óli Björn er öflugur stjórnmálamaður sem hefur alltaf átt góða spretti þegar hann hefur komið á þing sem varaþingmaður, nú fyrir utan öll hans góðu framlög til þjóðmálaumræðunnar í gegnum ræðu og rit.

Píratar

Hér er bara einn maður sem gæti komist nálægt því að kallast frjálshyggjumaður - efsti maður á lista, Jón Þór Ólafsson. Hann á ekki eftir að berjast fyrir einkavæðingu og skattalækkunum en hann á eftir að berjast fyrir gegnsæi og opinni stjórnsýslu. 

Viðreisn

Hér er ekki að finna einn einasta frjálshyggjumann í efstu sjö sætunum. Maðurinn í áttunda sæti, Tómas Möller, gæti kannski flokkast sem slíkur. Kannski. 

Tíminn hleypur nú frá mér svo ég næ ekki að fjalla um önnur kjördæmi en ég er opinn fyrir athugasemdum og hugleiðingum um þessar vangaveltur mínar. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband