Þegar heyrnaskertir þurftu að bíða

Árið 2006 birtist lítil frétt í Fréttablaðinu þar sem lesendum var tjáð að biðlistar hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands heyrðu nú sögunni til, hvorki meira né minna, og eitthvað sem er varla hægt að segja um mörg önnur svið heilbrigðiskerfisins.

Hvernig stóð á bidlistarþví að biðlistar eftir heyrnartækjum hurfu? Fréttin veitir örlitla innsýn í það: Kostnaðarþáttur einstaklingsins hafði „aukist“ og fjármagn hafi „myndast“ eftir reglugerðarbreytingu tæpum þremur árum áður.

Á mannamáli þýddi reglugerðarbreytingin einfaldlega að ríkið afnám einokun sína af viðskiptum með heyrnartæki. Einkaaðilar urðu til sem náðu til sín vel borgandi viðskiptavinum, þ.e. þeim sem gátu keypt sig út úr biðröð hins opinbera, og flöskuhálsar, biðlistar og önnur óþægindi hurfu á örfáum misserum.

Talsmenn ríkiseinokunar á heilbrigðisþjónustu segja gjarnan að aukin aðkoma einkaaðila muni leiða til þess að þeir ríku kaupi sig „fram fyrir“ í röðinni. Hvað ef þeir ríku mynda einfaldlega aðra röð og stytta þannig hina sem hinir efnaminni þurfa að standa í, eða hreinlega útrýma henni? Eru þá ekki allir betur staddir?

Reynsla heyrnaskertra bendir a.m.k. til þess og aldrei hafa sjónskertir þurft að standa í röð svo hví ekki að leyfa einstaklingum með athyglisbrest að njóta sömu þjónustu?


mbl.is 636 fullorðnir bíða greiningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarandstaðan í vörn

Stjórnarandstaðan er skiljanlega í mikilli vörn eftir að meirihluti fjárlaganefndar gaf út skýrslu um embættisafslöp fyrrverandi fjármálaráðherra.

Hún segir að þessi nefnd hafi ekki unnið innan verksviðs síns. Þó ber henni að fjalla um "fjár­mál ríkis­ins, fjár­veit­ingar, eignir ríkis­ins, láns­heimildir og ríkis­ábyrgðir og lífeyris­skuld­bindingar ríkis­sjóðs" samkvæmt lögum

Hún segir að fyrri nefnd hafi komist að ákveðinni niðurstöðu og að þar með sé málinu lokið. En hvað ef nýjar upplýsingar hafa komið fram, eða ný tenging á milli fyrri upplýsingabrota? Má þá ekki fjalla um það? 

Hún segir að nefndin sé notuð í pólitískum tilgangi og að það sé ekki við hæfi. En er nefndin ekki skipuð stjórnmálamönnum sem ýmist eru í meirihluta eða minnihluta á þingi? Er stjórnarandstaðan allt í einu utan við stjórnmálin? Í nefndinni var meirihluti fyrir því að skrifa skýrslu. Má þá ekki skrifa þá skýrslu?

Stjórnarandstaðan (eða þeir flokkar sem standa að henni í dag) er búin að láta rannasaka eldgamlar einkavæðingar banka trekk í trekk. Hún flæmdi þrjá seðlabankastjóra úr embætti. Hún dró Landsdóm upp úr hattinum til að knésetja einn forsætisráðherra á meðan öðrum ráðherrum sömu ríkisstjórnar var hlíft. Hún er í sífellu að biðja um nefndir, rannsóknir, úttektir og kannanir til að skoða allt milli himins og jarðar, oft í þeim tilgangi að svæfa mál sem henni líkar ekki við. Um leið og spjótin beinast að henni sjálfri er allt alveg ómögulegt.

Það er eitt að vera í vörn en að vera líka í hrópandi ósamræmi við sjálfan sig er e.t.v. óþarfi. 

Á Alþingi eru stunduð stjórnmál, og þar takast á stjórn og stjórnarandstaða. Það er sennilega rétt að halda því til haga. 


mbl.is Nefndin notuð í pólitískum tilgangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vofir bæði vinstristjórn og Kötlugos yfir Íslandi?

Hér gefur að líta litla grein eftir mig sem birtist í Morgunblaðinu seinasta laugardag. Myndina má stækka með því að smella á hana. 

morgunbladid_10-Sep-2016


Ríkisstjórnin sem gerði illt verra

Hún mátti eiga það, ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms, að hún tók við erfiðu búi. Hún má líka eiga það að hún gerði illt ástand verra. 

Skýrsla meirihluta fjárlaganefndar er vonandi bara byrjunin. Nú hlýtur að taka við ítarlegri rannsókn þar sem týndu fundargerðir þáverandi fjármálaráðherra verða grafnar upp (í eiðsvörnum viðtölum við viðstadda fundargesti af því er að skipta). Lærdómur hennar verður vonandi sá að ríkisvaldinu megi ekki hleypa nærri gjaldþrota fyrirtækjum því það endar oftar en ekki á að þjóðnýta þau og varpa byrðunum á herðar skattgreiðenda. Útlendingar sitja brosandi á hliðarlínunni á meðan og þakka fyrir hagnaðinn. 

Alþjóðafjármálakerfið hrundi haustið 2008. Í kjölfarið hefði átt að koma skörp leiðrétting og uppsveifla fljótlega í kjölfarið. Í staðinn hrundi íslenska hagkerfið árið eftir í boði stjórnvalda. 


mbl.is Tugmilljarða meðgjöf með bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fröken ívilnanasamningar

Eftir Ragnheiði Elínu Árnadóttur liggja einhver furðulegustu ummæli nokkurs þingmanns og ráðherra Sjálfstæðisflokksins nokkurn tímann (að mínu mati) - tekin héðan:

„Ég ætla að fullyrða það hér og nú að þetta mál og þessi samningur hefði fengið nákvæmlega sömu afgreiðslu í tíð þriggja síðustu iðnaðarráðherra, þeirra Katrínar Júlíusdóttur, Oddnýjar Harðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar“

Það á því e.t.v. ekki að koma henni á óvart að lenda neðarlega í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Kjósendur sem vilja vinstrimenn á þing geta kosið vinstriflokkana. 

Elín Hirst hlaut einnig lélega kosningu í prófkjöri en hún hefur verið með duglegri þingmönnum að stinga upp á ríkisútgjöldum og á e.t.v. betur heima í öðrum stjórnmálaflokki.

Raunar væri það best fyrir alla að vinstrimenn störfuðu í vinstriflokkum, hægrimenn í hægriflokkum og miðjumenn í miðjuflokkum. Því miður er aðgreiningin ekki alltaf svo skýr. Meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn hegðar sér oft eins og vinstriflokkur ef maður ber hann saman við hægriflokka annarra Norðurlanda. Það kemur e.t.v. ekki á óvart enda eru íslensk stjórnmál mun vinstrihneigðari en þau á hinum Norðurlöndunum ef Grænland er e.t.v. undanskilið. Þess vegna tekst illa að koma á norrænu fyrirkomulagi í t.d. heilbrigðisgeiranum. Á Íslandi láta menn sovéska ríkiseinokunarmódelið duga sem fyrirmynd. 


mbl.is Ragnheiður Elín kveður stjórnmálin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandamálin við skattheimtu í flóknu skattkerfi

Skattkerfi eru víða flókin og erfið í framkvæmd. Þetta veldur mörgum tegundum af vandræðum.

Í fyrsta lagi getur heiðarlegt fólk sem gjarnan vill greiða alla skatta í topp lent í vandræðum með að gera það því skattkerfið er svo flókið að fólk getur einfaldlega ekki komist að því hvað það á að borga í skatt. Ágætur vinnufélagi minn hérna í Danmörku sagði mér einu sinni að hann þyrfti að fá endurskoðanda á hverju ári til að fara yfir gögnin hans og að það færi í taugarnar á honum að geta ekki reiknað út sína eigin skattbyrði.

Í öðru lagi er eftirlit með skattheimtu allt í senn þungt, tímafrekt og dýrt. Oft er miklu fé eytt í að fylgjast með skattheimtunni. Í Danmörku gera vinnufélagar mínir nú grín að því að vegna einhverra mistaka hjá hinu opinbera þarf nú að eyða 7 milljörðum danskra króna til að rekja 7 milljarða af töpuðu skattfé. Er þá ekki betur heima setið en af stað farið?

Í þriðja lagi eru flókin skattkerfi alltaf full af holum. Engu máli skiptir hvað hið opinbera gerir til að reyna loka holunum - alltaf eru til duglegir lögfræðingar sem gera ekki annað en að þefa þær uppi og nýta fyrir skjólstæðinga sína. Hér er ég ekki að tala um lögbrot heldur löglegar leiðir til að lágmarka eða a.m.k. takmarka skattheimtuna.

Í fjórða lagi geta þeir sem vilja brjóta lög nýtt sér alla ringulreiðina og komist hjá skattgreiðslum með ýmsum aðferðum, bæði löglegum og ólöglegum. Fórnarlömbin eru fyrstu og fremst þeir sem eru heiðarlegir en lenda í ítrekuðum fyrirspurnum tortrygginna skattayfirvalda og þurfa að gera grein fyrir öllu með smásmugulegum hætti - nokkuð sem er ekki á færi allra nema mestu sérfræðinganna.

Best væri auðvitað að ríkisvaldið væri svo lítið og afmarkað að skattheimta væri varla nokkur. Næstbest er að átta sig á því að einfalt, gegnsætt, hófsamt og undanþágulaust skattkerfi er að sama skapi skilvirkast og réttlátast. Um leið skilur það ekki eftir sig slóð af vel meinandi fórnarlömbum meðal þeirra sem vilja vera löghlýðnir en vita ekki hvernig á að fara að því.


mbl.is Greiddu 155 milljónir fyrir Panamagögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falla heimsins gæði ókeypis á yfirvöld?

Ekki skilja allir hvernig lækkandi eða staðnaðar skattprósentur og jafnvel afnám skatta getur leitt til þess að skattheimta ríkisvaldsins eykst.

Ástæðan er samt einföld í eðli sínu: Þegar yfirvöld stöðva ágang sinn á verðmæti annarra skapast fleiri verðmæti en áður og lægri skattprósentur geta þannig skilað hærri fjárhæðum. Sneiðin sem er tekin minnkar hlutfallslega en kakan er orðin stærri og því meira í hverri sneið en áður.

Nú ætla ég ekki að hrósa ríkisstjórninni alltof mikið fyrir að hafa verið dugleg að lækka skatta. Þar má ganga miklu, miklu lengra og það án þess að neinar breytingar séu gerðar á rekstrarfyrirkomulagi heilbrigðisþjónustu, vegagerðar og menntamála svo eitthvað sé nefnt.

Yfirvöld hafa þó náð að knýja fram afnám vörugjalda og stefna á afnám tolla (af öllu öðru en matvælum að vísu, en það er a.m.k. góð byrjun).

Yfirvöld hafa líka unnið eftir fyrirsjáanlegri verkáætlun. Það minnkar óvissu og um leið tiltrú fjárfesta á að fjármunir þeirra verði ekki gerðir upptækir með einum eða öðrum hætti.

Það má því eiginlega segja að stjórnvöld sem aðhafast lítið séu skárri en þau sem aðhafast mikið. Betra er sofandi ríkisvald en ríkisvald með mörg járn í eldinum. 

Sumir halda að sú efnahagsuppsveifla sem er í gangi á Íslandi hafi fallið af himnum ofan með ferðamannastraumnum og fiskveiðum. Þeir um það. Ég mæli samt með því að þeir sem trúa á himnesk inngrip í líf mannanna snúi sér frekar að trúarbrögðunum og láti hagfræðina eiga sig. 


mbl.is Tekjur ríkissjóðs jukust milli ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flókin vísindi soðin saman í eina formúlu

Öll umræða um breytingar á loftslagi jarðar ætti í raun að vera gríðarlega flókin vísindaleg umræða sem fáir nema þeir hörðustu gætu sett sig inn í.

Hún ætti að snúast um samspil geimgeisla, sólgosa, skýjafars, losunar manna á hinum ýmsu lofttegundunum, losunar eldfjalla og hvera á sömu lofttegundum og öðrum, áhrifa hinna ýmsu lofttegunda á hegðun lofthjúpsins og gróðurfars og sjávar, reglunar lofthjúpsins og sjávarins, hafstrauma, náttúrulegra langtíma- og skammtímasveiflna, tölfræði, óvissu, líkanasmíði, einfaldana á líkönum, reiknigetu og mælingarnákvæmni, svo eitthvað sé nefnt.

Umræðan ætti að fara fram á þeim forsendum að ekki sé búið að afla allra gagna, smíða líkön sem geta spáð nægilega nákvæmt fyrir um framtíðina og skort á skilningi á ýmsum þáttum sem hafa áhrif á loftslag jarðar.

Umræðan ætti einnig að vera hógvær - að menn viðurkenni að enn sé verið að rannsaka málið en að vissulega sé búið að afla þekkingar á ákveðnum sviðum sem má ræða út frá (en þar sem einhugur er fjarri því raunin á fjölmörgum sviðum).

Menn ættu einnig að segja það skýrt að verið sé að ræða út frá empírískum kenningum og að slíkar kenningar séu háðar mikilli óvissu. 

En hvað gera menn? Menn stinga allri viti borinni umræðu ofan í skúffu og segja:

Hitastig jarðar er línulegt fall af styrkleika koltvíoxíðs í andrúmsloftinu.

T[°C] = k[°C]/[ppm]*CO2[ppm] 

... þar sem k er tala sem er búið að ákvarða.

Aukist styrkleiki C02 hækkar hitastigið. Nái menn að minnka losun CO2 ná menn einnig að temja hitastigið. Eða svo er okkur sagt. 

Þetta er auðvitað gert til að stjórnmálamenn og blaðamenn og talsmenn þrýstihópa fái það á tilfinninguna að þeir skilji hin flóknu vísindi sem þeir gera auðvitað ekki (frekar en nokkur maður í raun).

Að vísindamenn séu ekki hreint og beint sármóðgaðir yfir þessari meðferð á vísindalegu viðfangsefni er ofar mínum skilningi. 


mbl.is Bandaríkin og Kína skrifa undir Parísarsamkomulagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðtogar ræða á röngum forsendum um vandamál sem þeir skilja ekki

Leiðtogar G20-ríkjanna koma saman í Kína í dag til að ræða stefnur og aðferðir við efnahagsstjórn þannig að styrkja megi alþjóðahagkerfið.

Gangi þeim vel! 

Gallinn er sá að þarna ætla leiðtogar að ræða vandamál á röngum forsendum og komast að röngum niðurstöðum. Þeir skilja ekki vandamálin og munu bara gera illt verra.

Vandamálið er jú leiðtogarnir sjálfir og þau miklu völd sem þeir hafa. Þessi völd nota þeir til að reisa viðskiptahindranir og sólunda fé skattgreiðenda í hernað, bætur, styrki og annað sem bætir í vandamálin í stað þess að leysa þau.

Lausnin er ekki að leiðtogarnir geri meira á morgun en í dag heldur að þeir geri minna. Þeir þurfa að draga úr völdum sínum og hins opinbera og leyfa frjálsum markaði að ná andanum og geti þvert á landamæri án heimatilbúinna hindrana. 

Leiðtogafundir eru sennilega ágæt leið til að ná mönnum í sama herbergi og skiptast á skoðunum. Verst að höfuðlausar hænur gætu sennilega gert betur þegar kemur að því að leysa vandamálin sem blasa við. 


mbl.is Stærstu efnahagsmálin til umræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn og frjálshyggja

Í dag hafa flokksbundnir Sjálfstæðismenn í Reykjavík einstakt tækifæri til að blása lífi í veikar glæður frjálshyggjunnar innan Sjálfstæðisflokksins. Ég vona að þeir nýti það tækifæri. 

Af nægu er að taka meðal frambjóðenda í prófkjöri flokksins í Reykjavík. Ég vona að flokknum beri gæfa til að velja þá sem hafa hugsjónir frelsisins að leiðarljósi og kjarkinn til að berjast fyrir þeim. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband