Eru byggingarvörur arðbærasta smásöluvara á Íslandi?

Í byrjun árs 2015 voru vörugjöld afnumin af byggingarvörum. Einnig hefur virðisaukaskattur lækkað síðan þá og gengi krónunnar styrkst. Einhverjir hafa reiknað út að miðað við allt þetta ætti verð á byggingarvörum að hafa lækkað um a.m.k. 15% en jafnvel enn meira.

Menn spyrja sig hvað varð um lækkunina.

Það er freistandi að álykta að smásöluaðilar með byggingarvörur hafi einfaldlega hækkað álagningu sína sem nemur lækkun skatta og styrkingu krónunnar. Ekki veit ég hvort það er rétt eða ekki en hitt veit að sé það rétt þá gerist nokkuð á hinum frjálsa markaði. Í fyrsta lagi eykst hagnaður smásöluaðila byggingarvöru. Fjárfestar taka eftir þessu og byrja að leggja fé til þessarar smásölu og þá ýmist kaupa hlutabréf í þessum fyrirtækjum eða stofna til samkeppnisrekstur. Fé er jú alltaf í leit að bestu ávöxtun og sé hún betri hjá byggingarvörusöluaðilum en öðrum er tekið eftir því.

Hin aukna samkeppni leiðir til aukinnar samkeppni um neytendur og þeir upplifa því fljótlega lækkandi verðlag. Ávöxtun fjárfesta jafnast út og verður svipaðri ávöxtun fjárfesta í öðrum iðnaði. Jafnvægi næst.

Þetta er hins vegar bara einn möguleiki. Annar er sá að eftirspurn eftir byggingarvörum hafi aukist, t.d. vegna aukinna umsvifa byggingarverktaka eða aukinnar endurnýjunar hjá fólki. Þetta setur þrýsting á smásöluaðilana sem setur þrýsting á heildsala þeirra og framleiðendur sem finna þá fyrir svigrúmi til að hækka verð hjá sér, sem hækkar verð á hráefni þeirra sem eykur hagnað hráefnisframleiðenda. Aðrir hráefnisframleiðendur sjá þetta og byrja að aðlaga sína vinnslu að þörfum byggingarvöruframleiðenda. Samkeppni eykst og verð lækkar.

Það er nánast sama hvernig þessu dæmi er snúið: Ef hinn frjálsi markaður fær að starfa óáreittur verða hækkanir til skamms tíma alltaf að lækkunum til lengri tíma. Tímabilið þarna á milli er einfaldlega aðlögun markaðarins að breyttum aðstæðum.

Einn ein ástæða óbreytts eða jafnvel hækkandi verðlags á byggingarvörum getur verið kerfið sjálft. Kannski er dýrara en áður að fá að flytja inn, t.d. vegna þess að aukin umsvif festast í gjaldeyrishöftum eða einhverju regluverki. 

Ef einhver tekur eftir því að hagnaður Húsasmiðjunnar, BYKO og Múrbúðarinnar er að aukast mikið er bara tímaspursmál þar til markaðurinn bregst við. Ef ástæður verðlagsþróunarinnar liggja annars staðar er næstum því öruggt að ríkisvaldið er blóraböggullinn. 


mbl.is 15% lækkun ekki skilað sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að eiga fyrir náminu

Það er gott að LÍN upplifi nú fækkun á umsóknum um námslán frá ríkinu. Það bendir til þess að fleiri hafi nú efni á því að sjá fyrir sjálfum sér. Efnahagsástandið er líka betra en það hefur verið í 10 ár og auðveldara fyrir ungt fólk að skrapa saman aur fyrir veturinn. 

Námsmenn vinna yfirleitt ekki fulla vinnu nema á sumrin. Það þýðir að þeir geta nýtt sér uppsafnaðan persónuafslátt og borgað nánast enga tekjuskatta af sumarlaununum. Þeir geta því safnað peningum og sleppt því að taka lán. Að hugsa sér ef skattar væru yfirleitt og almennt lægri og jafnvel nálægt núllinu! Þá gætu mun fleiri en ungir námsmenn leyft sér að eiga fyrir framfærslu sinni í stað þess að sökkva sér í skuldafen, t.d. vegna húsnæðis- eða bílakaupa!

Yrði það ekki stórkostleg búbót fyrir samfélagið - að fólk ætti yfirleitt fyrir hlutunum í stað þess að borga himinháa skatta og vonast svo til að "fá eitthvað til baka" í formi allskyns styrkja, bóta og niðurgreiðsla?

Nú fyrir utan að það er hundleiðinlegt að skulda LÍN. 

Það besta við að námsmenn eigi fyrir náminu er að ég tel að það bæti val þeirra á námi. Námsmaður sem er að reyna hámarka afraksturinn af þeirri fjárfestingu sem nám er hlýtur að velja frekar nám sem skilar honum vinnu og tekjum en sá sem lítur á niðurgreidd námslán sem einhvers konar réttmæta heimtingu á fé annarra. Vonandi. 


mbl.is Færri sækja um námslán hjá LÍN
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er löglegt í ESB?

Það virðist vefjast fyrir bandarískum stórfyrirtækjum hvaða lög gilda í ESB. Einstök ríki virðast ekki mega gera samninga sem fullvalda ríki. Þau virðast heldur ekki vita hvaða lög gilda í ESB.

Löggjöf ESB er sennilega þannig skrúfuð saman að allt er (hugsanlega) ólöglegt nema það sem hefur hlotið sérstaka blessun ESB. Það má bjarga bönkum fyrir skattfé en ekki lokka fyrirtæki til tiltekins ríkis með afslætti af sköttum. ESB er almennt ekki hrifið af því að einstaka ríki ráði því sjálf hvað skattheimtan er mikil. 

Sumir vilja eflaust meina að viðhorf ESB snúi að mismunun: Ekki má skattleggja lögaðila á mismunandi hátt innan sama ríkis. En það má niðurgreiða landbúnað. Það má niðurgreiða fiskveiðar. Það má borga kröfuhöfum banka með fé skattgreiðenda. Það má eyða skattfé í hvað sem er en ekki gefa afslátt af innheimtu þess. 

ESB virðist vera komið í óopinbert viðskiptastríð við Bandaríkin. Slíkt endar illa. 

"When goods don't cross borders, soldiers will" sagði eitt sinn vitur maður

Vonum samt ekki. 


mbl.is Fleiri mál ESB gegn bandarískum risum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný vinstristjórn gýs bráðum

Nú virðist eldfjallið Katla eitthvað vera að rumska. Miðað við reynslu seinustu 1000 ára á hún inni eitt gott gos núna eða í náinni framtíð. Það verður væntanlega svakalegur atburður.

Það mætti eiginlega segja að eldgos séu einskonar vinstristjórn. Samlíkingin nær til margra atriða.

Í fyrsta lagi fara allir á tærnar og byrja að forða verðmætum sínum.

Í öðru lagi fylgir hvoru tveggja eyðilegging á verðmætum. Til að endurheimta þau verðmæti þarf að eyða miklu fé sem að öðru leyti hefði farið í fjárfestingar eða neyslu sem einhver hefði gagn og gaman af (en ekki bara í að laga það sem virkaði áður).

Í þriðja lagi fær Ísland athygli utan landsteinana. Eldgosið spýr gjósku sem tekið er eftir. Vinstristjórnin sendir umsóknir í ríkjasambönd og gerir vafasama samninga um greiðslu á ólögmætum kröfum.

Í fjórða lagi fagna vinstrisinnaðir hagfræðingar allri eyðileggingunni, sem birtist m.a. í þeirri furðufullyrðingu bandaríska hagfræðingsins (og Nóbelsverðlaunahafans) Paul Krugman sem sagði að hagkerfi Bandaríkjanna hefði gott af ógn af árás geimvera á Jörðina (því þá færi af stað vopnakapphlaup fyrir lánað og nýprentað fé). 

Ef Íslendingar kjósa með ákveðnum hætti í næstu kosningum er mögulegt að á Ísland herji bæði Kötlugos og vinstristjórn á sama tíma. Eyðileggingin yrði gríðarleg og fagnaðarlæti vinstrimanna sömuleiðis.

Við hin megum hins vegar vona það besta og að bara annað hvort verði raunin. 


mbl.is Jarðskjálftahrina í Kötluöskjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bannið er oft vandamálið

Úti um allan heim á sér stað framleiðsla, sala og kaup á einhverju ólöglegu. Listinn yfir það sem er bannað að stunda viðskipti með en viðskipti eru engu að síður stunduð með er langur og teygir sig frá hörðum fíkniefnum til beina úr einhverjum dýrum.

Menn bregðast yfirleitt við viðskiptum með eitthvað óæskilegt með fyrirsjáanlegum hætti: Að bannað viðskiptin. 

Oftar en ekki verður þá til nýtt vandamál og stærra. Bannið verður vandamálið.

Sem dæmi má nefna fílabein. Víða eru of margir fílar og þeir skotnir til að halda fjölgun þeirra í skefjum. Á öðrum svæðum eru þeir í útrýmingarhættu. Í stað þess að heimsmarkaðurinn sé fullur af ofgnótt af fílabeini til sölu á löglegan hátt eru beinin brennd. Veiðiþjóðar sjá þá verðlagið rísa til himinhæða og leggja á sig mikla áhættu til að útvega sér bein og selja fyrir mikinn ágóða.

Nú má vel vera að siðprúðir Vesturlandabúar sofi rólegir á nóttunni við að vita af banni á einhverju og endalausum (en yfirleitt vonlausum) eltingaleik lögreglu við þá sem brjóta það bann. Bannið er hins vegar oftar en ekki aðalvandamálið. 


mbl.is Gjalda með blóði fyrir brotin loforð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neytendur ráða laununum, ekki stjórnendur

Oft er mönnum tíðrætt um launamun karla og kvenna. Gott og vel, oft er hægt að greina launamun. Hann hefur hins vegar sínar ástæður.

Neytendur ráða því hver fær hvað í laun. Hér er nærtækt að líta á kvikmyndastjörnur. Þær sem skófla peningum inn í kassa framleiðenda fá hærri laun en þeir sem gera það ekki. Einstaklingur sem sogar ítrekað 100 milljónir inn í aðgangseyri fær meira í laun en sá sem sogar að jafnaði 80 milljónir inn. 

En hvað með skrifstofufólk sem situr 8 tíma á dag á skrifstofu? Hér reyna menn að flækja málin með því að leiðrétta fyrir hinu og þessu, svo sem menntun og aldri, en að jafnaði er það sá sem er með meiri verðmætaskapandi þekkingu sem fær meira í laun. Konur líða hér oft fyrir barneignir. Fjarvera vegna þeirra heldur þeim utan við vinnumarkaðinn og hægir þar með á öflun verðmætaskapandi reynslu og þekkingar. Sumir kalla þetta mismunun. Hin raunverulega mismunun væri fólgin í því að borga minna fyrir meiri verðmætasköpun en minni. Tölfræðin leiðir raunar í ljós að barnlausar konur en betur launaðar en barnlausir karlmenn með sama bakgrunn, menntun og svo framvegis. 

Frjáls markaður er afstöðulaus gagnvart kyni, húðlit, ásetningi, menntun og félagslegum bakgrunni. Hann verðlaunar þá sem framleiða verðmæti fyrir neytendur í hlutfalli við þá verðmætasköpun. 


mbl.is Munar 2,3 milljörðum á árslaununum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmaður með bein í nefinu

Ég vil hvetja alla með kosningarétt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík til að styðja Sigríði Á. Andersen og setja hana hátt á lista, að lágmarki í 2. sætið. Hún hefur sýnt það og sannað að hún er þingmaður með bein í nefinu sem fylgir sannfæringu sinni. Um leið er hún ákaflega viðkunnaleg. Hvað geta kjósendur beðið um fleira?

Um leið vil ég hvetja kjósendur í sama prófkjöri til að styðja Guðmund Egdarsson í 5. sætið

Í suðvesturkjördæmi ættu Sjálfstæðismenn hiklaust að kjósa Óla Björn Kárason í 3. sæti. Hann hefur stundum komið inn á Alþingi sem varaþingmaður og jafnan gustar um hann þegar hann flettir ofan af froðunni sem viðgengst á löggjafarsamkomu Íslendinga.

Margir aðrir góðir og frjálshuga einstaklingar eru í framboði hjá Sjálfstæðisflokknum en þessir þrír sem ég hef nefnt hef ég persónulegan áhuga á að fái umbeðin sæti og komist svo vonandi á Alþingi. Ekki veitir af. 


mbl.is Sigríður sækist eftir 2. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ríkiseign ekki þjóðareign? Ónei

Reykjavík innheimtir gjald fyrir ýmislegt, t.d. afnot af landi borgarinnar. Þetta kemur sumum á óvart. Sumir halda að eigur hins opinbera séu um leið eigur skattgreiðenda - sameign, þjóðareign eða álíka.

Það er gott að Reykjavík leiðréttir þennan misskilning með gjaldskrá sinni. Hún rukkar einfaldlega skattgreiðendur sína og annarra sveitarfélaga um afnot af landi sínu ef þannig liggur á borgaryfirvöldum. Það verður ekki skýrara hver á hvað - borgin annars vegar og skattgreiðendur hins vegar. 

Samt eru þeir til sem vilja meina að sumt eigi að vera sameign þjóðarinnar og um leið að sú eign verði falin hinu opinbera til umráða og yfirráða. Þar ruglast menn. Sameign er eitthvað annað en ríkiseign. Sameign er t.d. andrúmsloftið og íslenska tungumálið sem allir Íslendingar hafa afnot af. Ríkiseign er t.d. Austurvöllur. 

Ruglum ekki saman sameign og ríkiseign og vörum okkur á því að heimta ríkiseignarhald á því sem við teljum að allir eigi að hafa afnot af. 


mbl.is Rukka ekki gjald vegna mótmæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mokað í skurði og málið er dautt

Það er margbúið að benda á hvernig megi loka þessari gróðurhúsalofttegundaumræðu á Íslandi í eitt skipti fyrir öll en a.m.k. til ársins 2030:

"Ísland getur því samkvæmt alþjóðlegum loftslagssáttmálum minnkað losun sína um 72% með því að moka ofan í alla framræsluskurði landsins. Aðeins um 15% af hinu framræsta landi er talið nýtt til landbúnaðar." (Vefþjóðviljinn)

Ráðuneytið getur þá farið að snúa sér að einhverju gagnlegra eins og eigin lokun og flutningi á verkefnum yfir í önnur ráðuneyti (sé þörf á því). 


mbl.is Svarar ekki bréfi um loftslagsaðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfhverfir fjölmiðlar hitta naglann á höfuðið

Fjölmiðlafólk lítur oft stórt á sig. Það telur sig vera einhvers konar lýðræðisafl sem tryggir að sagt sé satt og rétt frá og veitir yfirvöldum aðhald. Stundum er þetta rétt, stundum ekki. Oftar en ekki er fjölmiðlafólk málpípa viðtekinna skoðana, stundum ekki.

Stundum hittir fjölmiðlafólk samt naglann á höfuðið. Í yfirlýsingu Útvarps Sögu, ÍNN, miðlum Hring­braut­ar, Sím­ans og 365 miðla er bent á að virðisaukaskattur af starfsemi þeirra komi niður á rekstri þeirra og að samkeppni við ríkisfyrirtæki á opinberum niðurgreiðslum sé hamlandi fyrir þá. Skiljanlega. En gildir ekki sama lögmál um alla aðra starfsemi á Íslandi? Jú, vissulega. En taka fjölmiðlar einhvern tímann upp hanskann fyrir skattgreiðendur? Það er sjaldgæft, svo vægt sé til orða tekið.

Yfirlýsingin hittir vissulega naglann á höfuðið þegar kemur að áhrifum skatta á rekstur (almennt) og samkeppni við opinbert fyrirbæri. Hún er hins vegar ákaflega sjálfhverf - eins og fjölmiðlafólk sjálft. 


mbl.is Fjölmiðlar vilja sjá breytingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband