Mánudagur, 1. mars 2021
Ef þetta væri bara spurning um dánartíðni
Rakst á þessa samsettu mynd (enginn vandi að biðja um frumheimildir):
Dauðsföll vegna COVID-19 eru oft notuð sem rökstuðningur fyrir því að fletja út samfélagið. En hvar voru sömu raddir seinustu 100 ár? Þegar lítil börn dóu úr flensu? Þegar skólakrakkar dóu úr flensu? Þegar vinnandi fólk dó úr flensu? Þegar aldraðir dóu úr flensu?
Hvergi, auðvitað, enda ganga veirur yfir okkur og ýmist leiða til uppfærða bóluefna, mótefnaframleiðslu eða eru punkturinn yfir i-ið.
En auðvitað hafa bandarísk sóttvarnaryfirvöld bara rétt fyrir sér þegar þau syngja með kórnum.
Mánudagur, 1. mars 2021
Á meðan í Danmörku
Veirutímar í Danmörku eru að taka á sig furðulega ásýnd. Fyrir jól var lokað á meira og minna allt og síðan þá er enn lokað á ýmislegt og verður fram yfir páska, svo sem að fara í klippingu sem hefur ekki verið rakið til eins einasta smits.
En skítt með það. Hárprúðir geta snoðað sig eða safnað í eitthvað hippalegt.
Það eru þeir sem deyja vegna óbeinna afleiðinga sóttvarnaraðgerða eða missa lífsviðurværi sitt sem eru hin raunverulegu fórnarlömb.
Danski fjölmiðillinn BT er með tvær nýlegar fréttir um þessar hliðar hins (nánast) veirulausa samfélags.
Í fréttinni Kræftpatient rystet over statsministeren: "Jeg er stiktosset" (krabbameinssjúklingur hneykslaður á forsætisráðherra: "Ég er brjáluð") er sagt frá nokkrum einstaklingum sem sitja nú við dauðans dyr, eða skriðnir yfir þær, því veiran lokaði á aðgang þeirra að heilbrigðiskerfinu. Það var ekki áætlun yfirvalda, auðvitað, en bara framkvæmdin.
Þeirra örlög rata ekki inn í "smit" línuritin, sem virðast vera eina stjórntækið.
Í fréttinni Mette Frederiksen til 37-årige Edel: "Jeg beklager det er ikke godt nok" (MF segir til hinnar 37 ára gömlu Edel: "Afsakið - þetta er ekki nógu gott") er sagt frá sjálfstæðum atvinnurekanda, hárgreiðslukonu, sem er búinn að steypa sér í djúpar persónulegar skuldir og komin í þrot vegna sviksemi yfirvalda í greiðslum á bótum vegna þvingaðra lokana. Þetta var ekki áætlun yfirvalda, auðvitað, en bara framkvæmdin.
Þeirra örlög rata ekki inn í "smit" línuritin, sem virðast vera eina stjórntækið.
Er búið að rekja smit til veikra einstaklinga sem leita að læknisaðstoð vegna gruns um krabbamein og annað slíkt, sem drepur utan við tölfræði veirunnar?
Er búið að rekja smit til klippinga?
Og úr því ég er að spyrja spurninga:
- Var ekki ætlunin að koma í veg fyrir yfirhlaðið heilbrigðiskerfi frekar en að gera það alveg veirulaust?
- Var ekki ætlunin að halda út í nokkrar vikur frekar en heilt ár og jafnvel annað til?
- Var ekki ætlunin að verja ákveðna hópa, en ekki skola námsfólki úr námi og heilbrigt fólk úr störfum sínum?
- Var ekki lagt upp með allt þetta ævintýri á forsendum sem hafa verið traðkaðar í svaðið?
- Er "betra" að horfa upp á aðstandanda deyja hægum dauðdaga vegna seinkunar á krabbameinsskimun og -meðferð en vegna loftborinnar veiru sem fyrir langflesta hópa er skaðminni en flensan?
Þetta glapræði verður að stoppa. Kannski borgaraleg óhlýðni sé orðið eina úrræðið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 1. mars 2021
Ólesinn og ósamkvæmur sóttvarnarlæknir
Í stórfurðulegu samtali við sóttvarnarlækni kemur margt athyglisvert fram. Það helsta er:
Honum finnst ekkert liggja á að létta á sóttvarnaraðgerðum - að veita meirihluta fólks mikla vernd frekar en að veita minnihlutanum aðeins meiri vernd og meirihlutanum enga. Það er stórmerkilegt. Núna stefnir í að hópurinn "Aðrir" (aðrir en fangaverðir, skrifstofufólk heilbrigðiskerfisins og leikskólakennarar sem eru í nákvæmlegri engri smithættu) fái ekki sprautuna fyrr en sumarfríið er búið og yfirvöld tilbúin að lýsa yfir tíundu bylgjunni eða hvað það mun þá heita.
Hann hefur ekki kynnt sér rannsóknir um virkni bóluefna, og spyr heldur ekki þegar honum er bent á að slíkar finnast. Það tók mig 120 sekúndur að finna þessa frétt sem vísar á þessa umfjöllun um niðurstöður skoskra vísindamanna. En kannski þarf umfjöllunin að vera á PDF-formi?
Þetta gerði kannski minna til ef það væri ekki búið að boða takmarkanir á ferðafrelsi fólks og möguleikum til að heimsækja vini og ættingja í öðrum löndum nema með svokallað bólusetningarvegabréf í vasanum. Hvað var nú aftur sagt í Þýskalandi á sínum tíma?
Wo sind deine Papiere?
Ég velti því fyrir mér hvort sóttvarnaryfirvöld hafi hreinlega áhyggjur af því að veiran hætti að mælast. Nú þegar hún mælist nánast ekkert er samt ekki hægt að blása í tónleika eða brúðkaup fyrir 101 dansandi gesti. "Nýja normið", sem er ekkert norm en samt lægsta viðbúnarstig sóttvarnarlitrófsins, bannar líka hitting yfir 100 manns. Það ætlar að reynast þungur róður að skrapa þennan hrúðurkall sem sóttvarnaraðgerðirnar eru af samfélagi manna. Og alltaf er forsendan sú að læknar hafi ekkert lært seinasta árið, að óbeinar afleiðingar sóttvarnaraðgerða skipti ekki máli, að það liggi ekkert á og að það sé ekki mark takandi á neinum rannsóknum sem segja annað.
Er von að ÁTVR sé að slá sölumetin sín á meðan Vogur undrar sig á lítilli aðsókn?
![]() |
Ná sem mestri vernd hjá viðkvæmasta hópnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 1. mars 2021
Útgöngubann í stærstu borg Nýja-Sjálands
Mánudagur, 1. mars 2021
Neyðarástandi lýst yfir í Finnlandi
Sunnudagur, 28. febrúar 2021
Engar grímur, engar lokanir - enginn heimsendir
Í Suður-Dakóta ríki Bandaríkjanna sagði ríkisvaldið engu fyrirtæki að loka. Engin grímuskylda var sett á. Enginn var þvingaður til að vera heima hjá sér. Ríkisstjórinn hélt svolitla tölu um þetta um daginn sem er alveg rosalega hressandi tilbreyting frá heimsendaboðskap eiginlega allra annarra, sjá hér.
Þessum ríkisstjóra var sagt að þúsundir einstaklega myndu flykkjast inn á sjúkrahúsin. Tölurnar hafa hlaupið á nokkrum hundruðum.
Í stað þess að einblína á smit var fylgst með álaginu á heilbrigðiskerfið. Þetta sögðust allir ætla að gera í upphafi faraldurs en enduðu á að svíkja þann ásetning.
Þeir sem vilja skoða tölfræði ríkisins geta smellt hérna. Sem augljósan samanburð má notast við Norður-Dakóta, hér. Línuritin eru nánast eins, enda eru ríkin tvö í sama loftslagi.
Skipta þá sóttvarnaraðgerðir ekki máli? Jú, kannski, en þær geta virkað á ófyrirsjáanlegan hátt. Grímur ýta undir kæruleysi og valda öðrum vandræðum, svo dæmi sé tekið.
Þegar geðveikin er liðin hjá mun koma í ljós að þeir sem stóðu sig best - til lengri tíma - eru þeir sem héldu ró sinni.
Föstudagur, 26. febrúar 2021
Stríðið endalausa
Í gær byrjaði ég á bókinni Enough Already: Time to End the War on Terrorism, og er mjög spenntur fyrir henni eftir að hafa heyrt fjölmörg viðtöl við höfundinn, Scott Horton, og lesið þónokkrar greinar eftir hann. Afstaða hans er skýr: Bandaríkjamenn eiga að hætta að berjast í útlöndum. Punktur.
Hann sá fyrir að Bidan yrði engu skárri en forverar hans í embætti forseta Íslands, og það er að rætast. Forsetinn ræður ekki förinni nema að litlu leyti. Það gera hershöfðingjar og svokallaðir "war hawks" innan stjórnsýslunnar. Forsetinn er strengjabrúða. Stríðið gegn hryðjuverkum er ekki stríð: Það er hlaðborð fyrir heimsveldissinna.
Ég vona að bandarískur almenningur átti sig á þessu og heimti að hermennirnir komi heim. Heilu heimshlutarnir þurfa alveg rosalega mikið á því að halda.
![]() |
Gerðu loftárásir í Sýrlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Smitrakning í hvelli!
Í frétt segir:
Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í verslun í hverfi 105 á fimmta tímanum í dag.
Þar neitaði viðskiptavinur að virða grímuskyldu. Hann var farinn þegar lögregla kom á vettvang.
Ég geri ráð fyrir að her opinberra starfsmanna hefji nú vöktun á smitum sem mætti rekja til verslunar í hverfi 105. Hinn grímulausu einstaklingur var jú grímulaus, dró að sér takmarkaðar auðlindir lögreglu og skattgreiðenda og beindi athygli framkvæmdavaldsins frá innbrotum, ofbeldisglæpum og skipulagðri glæpastarfsemi með því að takmarka ekki súrefnisinntöku sína.
Grímuskylda, sjáið nú til, er afgerandi!
Í annarri frétt segir svo:
Síðast greindist einhver utan sóttkvíar 1. febrúar en þá höfðu liðið 12 dagar frá því síðustu smit utan sóttkvíar voru greind hér á landi.
Já, grímuskyldan er algjör nauðsyn! Enda hefur því verið velt upp að gera hana varanlega, t.d. til að forðast flensuna. Bóluefnið er svo ekki að fara færa samfélagið í eðlilegt horf nema að litlum hluta. Gefið, auðvitað, að fólk kæri sig um bóluefnið.
Það er maðkur í mysunni, svo vægt sé til orða tekið. Óttasleginn almenningur er kominn á hnén og réttir út handlegginn. Er einhver að hagnast á því, beint að eða óbeint?
![]() |
Neitaði að virða grímuskyldu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Bítlalandið
Í Danmörku hefur ekki verið hægt að komast í klippingu síðan fyrir jól. Danir eru því að verða hárprúðari með hverjum deginum og fara bráðum að minna á veggspjald með Bítlunum.
Einhverjar búðir eru vissulega opnar: Matvöruverslanir, apótek og sérverslanir með neysluvarning (kaffi, rafsígarettur, snyrtivörur).
Verslunarmiðstöðvar eru lokaðar nema fyrir verslanir af þessu tagi.
Nú á að opna stærri verslanir og hleypa krökkum aftur í íþróttir ef þeir nenna á annað borð að byrja æfa aftur.
En um þessar tilslakanir er engin sátt. Ríkisstjórnin og stuðningsflokkar hennar hentu stjórnarandstöðunni út af svokölluðum samráðsfundi. Stjórnarandstaðan hafði heimtað útreikninga af afleiðingum hinna ýmsu takmarkana en fengið voðalega lítið í staðinn. Efnisleg rök eru fá og fátækleg.
En sólin er hátt á lofti þessa dagana og fólk viðrar sig og drekkur bjóra á almenningsbekkjum svo það er plástur á sárið.
Í Sviss er nú búið að knýja á um þjóðaratkvæðagreiðslu um nýjustu sóttvarnarlög landsins. Þar í landi geta 50 þúsundir undirskriftir komið á þjóðaratkvæðagreiðslu um nánast hvað sem er. 90 þúsundir undirskriftir söfnuðust.
Í fjölmörgum ríkjum eru andspyrnuhreyfingar gegn yfirgengilegum sóttvarnarúrræðum að bæta við sig fólki. Og þótt fyrr hefði verið! Við erum að fórna unga fólkinu án þess að hjálpa gamla fólkinu. Við erum að svipta fólk lífsviðurværinu, börn félagslífi sínu og menntun og grafa undan framtíð allra með skuldsetningu og vaxandi ríkisvaldi.
Og nú má vera að einhverjar sóttvarnaraðgerðir séu nauðsynlegar og jafnvel gagnlegar án þess að steypa samfélaginu í glötun, hvort sem á okkur herjar veira eða baktería, en þetta tal um "nýja normið" þarf að kveða í kútinn.
![]() |
Fyrstu skrefin í opnun Danmerkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 24. febrúar 2021
Heimsfaraldur
Línuritið hér að neðan er byggt á gögnum sænsku hagstofunnar um lífslíkur áranna 2000-2020 (heimild).
Það blasir við að COVID-19 heimsfaraldurinn hafði áhrif á lífslíkur elstu hópanna. En ekki annarra.