Þriðjudagur, 9. mars 2021
Fleiri kínversk úrræði innleidd á Vesturlöndum
Fyrir um ári síðan hentu Vesturlönd áratugareynslu- og þekkingu í sóttvörnum út um gluggann og tóku upp kínversk úrræði: Að loka heilbrigt fólk inni til að reyna útrýma loftborinni veiru.
Af einhverjum ástæðum "virkaði" þetta í Kína, strax, en ætlar ekki að ganga jafnvel á Vesturlöndum.
Núna bæta Kínverjar í og gefa út veiruvegabréf, og Vesturlönd fylgjast auðvitað spennt með og ætla að gera það sama.
Væntanlega verður enginn vandi að samtvinna þessi vegabréf við bólusetningarskráningar almennt og hafna fólki inngöngu í flugvélar ef það er ekki búið að fá nýjustu flensusprautuna, eða ef einhver bólusetning er allt í einu talin vera of gömul. Möguleikarnir eru endalausir þegar borgararnir raða sér upp til að láta flokka sig, í von um að komast til Tenerife í smávegis sól.
Hvaða fleiri hugmyndir frá kínverskum kommúnistum ætli skjóti upp kollinum á Vesturlöndum á næstu misserum? Andlitsrakning með myndavélum á opinberum stöðum?
![]() |
Fyrstu veiruvegabréfin gefin út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 8. mars 2021
Ástandið í Svíþjóð
Andlátum sem eru rakin til COVID-19 fækkar óðfluga í Svíþjóð. Álagið á heilbrigðiskerfið er stöðugt. Er þá ekki kominn tími til að taka félagslífið, kaffihúsin og líkamsræktina af Svíunum?
Dauðsföll eru í samræmi við seinustu ár. Sérstaklega virðast fáir Svíar almennt vera að deyja eftir að nýja árið hófst. Er þá ekki kominn tími til að skella öllu í lás og setja grímur á fólk?
Sóttvarnarsérfræðingar eru búnir að rýra orðspor sitt varanlega með því að gera stjórnmálamenn að talsmönnum sínum. Þeir eru þar komnir í hóp með flestum loftslagsvísindamönnum. Ekki góður félagsskapur það!
![]() |
Kallar eftir allsherjarlokun í Svíþjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 7. mars 2021
Fletjum kúrvuna, eða hvað?
Fyrir um ári síðan var talað um að fletja út kúrvuna. Það tókst, af ýmsum ástæðum, meðal annars með því að gera fjórðung vinnufærra á Suðurnesjum atvinnulausa.
Þrátt fyrir að leggja þrjú veirupróf á þá sem vilja koma til Íslands hafa komið upp "smit". Enginn veikur, vel á minnst. Ekkert Landakotsklúður í uppsiglingu, vel á minnst. En "smit", segja þeir.
Strax er talað um næstu bylgju. Þetta ítrekaða bylgjutal er séríslenskt, svo því sé haldið til haga. Flest ríki eru enn í bylgju tvö.
Allt tal um að fletja út kúrvuna er gufað upp. Það er ekki ætlunin lengur. Ætlunin er að eyða loftborinni veiru algjörlega, eða bíða á meðan afgangur heimsins gerir það á einhvern undraverðan hátt.
Læknar segja að þeir hafi lært ýmislegt seinustu 12 mánuði en greinilega ekkert nothæft: Engar forvarnir eru taldar duga, engin lyf eru talin áreiðanleg og engar meðferðir eru taldar nægjanlega góðar til að leyfa veiru að fjara út af náttúrulegum ástæðum, á meðan læknar grípa þá örfáu sem þurfa á aðstoð að halda.
Íþrótta- og skólastarf barna er enn og aftur komið í skuggann á bylgjutali. Ef þú átt fyrirtæki skaltu byrja að fylla út umsóknir fyrir styrki sem koma seint eða jafnvel aldrei.
Það er bara eitt að segja: Helvítis andskotans vitleysa.
![]() |
Framhald faraldursins ræðst á þriðjudag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 6. mars 2021
Aðhald og óánægja
Yfirvöld í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum hafa kynnt tilslakanir á samkomutakmörkunum. Hin opinbera skýring er sú að nýju reglurnar séu til komnar í ljósi lækkandi nýgengi smita, færri innlagna á sjúkrahús og mikillar fækkunar dauðsfalla af völdum veirunnar að undanförnu en vel gengur að bólusetja í ríkinu.
Sú skýring er kannski sú rétta, en önnur möguleg skýring er það kannski líka.
Í Kaliforníu er búið að safna svokölluðum "recall signatures" seinustu vikur. Þær geta gert það að verkum að kosning til ríkisstjóra er dæmd ógild ef ég skil kerfið rétt:
Article II of the California Constitution, approved by California voters in 1911, allows people to recall and remove elected officials and justices of the State Supreme Court from office.
Þann 26. janúar sagði CNN svo frá:
Recall proponents must gather 1.5 million signatures, which are due March 17. Leaders of the recall say they have gathered more than a million signatures.
Sem betur fer fylgdist ríkisstjórinn vel með þessari söfnun:
Nýjustu tölur hljóða upp á 1,9 milljónir undirskrifta. Það er orðið verulega heitt undir pottinum!
Opnaði maðurinn af því veiran var á niðurleið og bólusetningar gengu vel eða af því hann sá fram á að missa völdin?
Og hafi ástæðan verið ótti við að missa völdin hvað getur það kennt okkur hinum? Að eina leiðin til að hrista af sér veirusamfélag sé að þrýsta á stjórnmálamanninn til að hrökklast úr stól sínum?
Hér er auðvitað gullið tækifæri fyrir einhvern sem vantar ókeypis fylgi í kosningabaráttu að gera sig gildan og krefjast afsagnar ráðandi afla ef það má ekki leyfa fólki að fá líf sitt til baka.
![]() |
Skemmtigarðar fá að opna í Kaliforníu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 4. mars 2021
Afbrigði og afleiðingar
Úr frétt visir.is:
Einn hefur greinst með suður-afríska afbrigði SARS-CoV-2 hér landi, það var fyrir fjórum dögum.
Þetta afbrigði virðist vera mikil blessun. Það breiðist að sögn hratt út og verður ráðandi. Í kjölfarið dregur úr faraldrinum.
Eða svo Suður-Afríka sé notuð sem sýnidæmi um hegðun hins suður-afríska afbrigðis:
Hér er annað dæmi þar sem er búið að merkja inn spakmæli hinna vitru sóttvarnarsérfræðinga um tilkomu hins nýja afbrigðis:
Það er vitað að flensuveiran stökkbreytir sér þannig að hún smiti hraðar en verður um leið hættulausari. Með því að halda smituðum á lífi lengur nær veiran þannig meiri útbreiðslu. Kannski - og ég segi bara kannski - er hið sama að eiga sér stað hérna? Þá verður kannski fagnaðarefni að fá hin nýju afbrigði sem leysa hin fyrri af hólmi.
![]() |
8 fölsk neikvæð PCR-próf við landamærin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 4. mars 2021
Var bara hringt í fólk vestan við Elliðaárdalinn?
Þegar fylgi flokka í Reykjavík er mælt er mikilvægt að hafa í huga að um er að ræða meðaltal allra Reykvíkinga. Ef margir Vesturbæingar svöruðu símtalinu þá mælast vinstriflokkarnir hátt. Ef margir austan við Elliðaárdalinn svöruðu símtalinu þá mælast vinstriflokkarnir lágt.
Árið 2018 var gerð athyglisverð könnun á fylgi flokka í Reykjavík og má lesa um hana hér. Þegar meðaltal allra sem svöruðu var reiknað út endaði Samfylkingin með 31%. Ef Grafarvogur er skoðaður sérstaklega endar Samfylkingin með 22% (og Sjálfstæðisflokkurinn með 42%).
Það skiptir því máli hvort skoðanakönnunin nái til margra námsmanna í niðurgreiddu húsnæði við Eggertsgötu eða vinnandi fólks með reikninga og skattgreiðslur austan við Elliðaárnar. Það skiptir máli hvort viðmælandi lifir hinum bíllausa lífsstíl í nágrenni ÁTVR á Austurstræti eða þurfi að sækja sína þjónustu og sitt áfengi í stærri verslunarkjarna eftir að hafa plægt þunga umferð á heimleið úr vinnunni.
Bara svo því sé haldið til haga.
![]() |
Samfylkingin stærst í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 4. mars 2021
Ferðalög í heimsfaraldri!
Þeir sem hafa kvartað yfir yfirgengilegum sóttvarnaraðgerðum vegna neikvæðra áhrifa á hagkerfi Íslands og þá sérstaklega ferðamannaiðnaðinn hafa oftar en ekki fengið þær mótbárur að það vilji enginn ferðast hvort eð er. Það er jú heimsfaraldur! Ferðamenn hefðu ekki komið þótt stofufangelsið við landamærin væri ekki til staðar!
Þetta er auðvitað bara bull og vitleysa. Vissulega er minna um ferðalög og margir hræddir við veiru. En aðallega fylgir því einfaldlega of mikið af flækjustigum að ferðast. Til dæmis er oft erfitt að gera sér grein fyrir því hvaða sóttvarnarreglur gilda á hverjum stað. Grímuskylda? Fjarlægðaskylda? Háar sektir? Er hægt að gera eitthvað, t.d. fara á barinn eða í skemmtigarð? Allt þetta bætist ofan á ótta við veiruna.
En margir vilja ferðast og bíða bara eftir því að geta það án yfirgengilegra sóttvarnarráðstafana. Um leið og Ísland opnaðist seinasta sumar flykktist fólk í flugvélar, og um leið og stofufangelsi við landamærin var komið á þá hurfu ferðamennirnir jafnharðan. Það var ekki vegna einhverrar bylgju eða smitrakningar. Það var vegna stofufangelsisins.
Kannski sumarfríið í ár verði bara til frjálsu ríkjanna vestan við Atlantshafið? Til dæmis Norður-Dakota þar sem er hreinlega ólöglegt að skylda fólk til að vera með grímur.
![]() |
Íslendingum hefur fjölgað á Tenerife |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 3. mars 2021
Fallegt, heilbrigt, ánægjulegt og yndislegt fjölskyldulíf: BANNAÐ
Vegna sóttvarnaraðgerða er búið að aflýsa fjölskylduboðum, ættarmótum, brúðkaupum, fermingarveislum, tónleikum, útihátíðum, bíóferðum, utanlandsferðum, sumarbústaðarferðum, skírnarveislum, matarboðum, drykkjuferðum, heimsóknum, utanlandsferðum, kaffiboðum, hópeflum, fundum, ráðstefnum, vinnuferðum, sölusýningum og matarboðum, svo fátt eitt sé nefnt.
En þetta er ekki nóg. Alltaf skal hrópað á nágrannann eða náungann í búðinni eða jafnvel á ókunnugt fólk víðsfjarri sem birtir myndir af fjölskyldu á góðri stundu.
Geðveikin er allsumlykjandi.
En sem betur fer er verið spyrna við fótum, af ýmsum ástæðum.
Ef nú bara sóttvarnaraðgerðir hefðu frá því seinasta vor nokkurn veginn tekið tillit til raunveruleikans (fyrir seinasta vor voru allir á sama báti og tilbúnir að fylgja yfirgengilegum sóttvarnaraðgerðum; að fara varlega á meðan vísindamenn áttuðu sig á veirunni).
Þá held ég ekki að fólk væri á öskra á hvert annað fyrir að fylgja ekki gagnslausri grímunotkun og voga sér í klippingu. Og uppnefna hvert annað.
Vonandi eru dómínó-kubbar sóttvarnarlögreglunnar og leyniþjónustu hennar í umbúðum hins áhyggjufulla borgara að hrynja. Hratt.
![]() |
Samfélagsmiðlar loga vegna Kate og fjölskyldu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 3. mars 2021
Styttist í áfengi í matvöruverslanir og fjölgun hverfisbúða
Ný aðgerðaáætlun og loftslagsstefna Reykjavíkurborgar var nýlega samþykkt á fundi borgarstjórnar og felur meðal annars í sér svokölluð 15 mínútna hverfi þar sem allt er innan hjólafæris.
Sérstaklega er tekið fram að í þessu felist aðgangur að grænum svæðum, útivist og þjónustu.
Ekki er tekið fram að þjónustan skuli vera "allt nema áfengi".
Og ólíklegt er að ÁTVR sé að fara stórfjölga útibúum sínum og pipra yfir Reykjavík.
Það blasir því við að til að ná markmiðinu um 15 mínútna hverfi þurfi borgarstjórn að taka aftur til umræðu að senda áskorun til Alþingis um að hleypa áfengi í matvöruverslanir. Með tilkomu áfengisins breytist rekstrargrundvöllur lítilla hverfisverslana alveg og þeim mun stórfjölga og vera lengur opnar. Fólk þarf þá ekki lengur að sækja í stærri verslunarkjarna á bílum sínum til að gera stórinnkaup sín. Svolítill göngutúr er nóg og kippa af bjór tryggð fyrir fótboltaleikinn.
Góð tíðindi, dömur mínar og herrar!
![]() |
Reykjavík verði hjólreiðaborg á heimsmælikvarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 2. mars 2021
Stóra uppstokkunin
Ein af mörgum neikvæðum afleiðingum yfirgengilegra sóttvarnaraðgerða er stórkostleg uppstokkun á auði. Efnað fólk sem getur unnið að heiman í gegnum tölvu hefur varla séð nein áhrif á efnahag sinn og er jafnvel búið að safna í stóra sjóði á meðan ekki er hægt að flakka um heiminn að vild og eyða fé í skíðalyftupassa í Ölpunum og margarítur á spænskri strönd.
Á hinum endanum er fólk sem vinnur með höndunum, ef svo má að orði komast: Fólk í ferðaþjónustu, veitingageira, við ræstingar og þjónustu almennt. Þegar því er sagt að fara heim þá fer það heim með skertar tekjur - jafnvel mjög skertar tekjur. Reikningarnir koma engu að síður. Margir hafa og eru að lenda á götunni. Ungt fólk fær ekki tækifæri og missir vonina. Innflytjendur eru látnir fjúka.
Nú þegar samfélög fara að opnast aftur (vegna bóluefna, árstíðabreytinga og hvaðeina) þá munu efstu lögin - heimavinnandi miðstéttin og efnaða fólkið - fljótlega taka upp fyrri siði. En á botninum er fólk sem nær ekki að spyrna sér úr skuldafeninu.
Ekki bætir úr skák að ýmsar björgunaraðgerðir yfirvalda eru að gagnast þeim sem höfðu mest á milli handanna til að byrja með. Á heimsvísu eru milljarðamæringar að verða ríkari en þeir fátækari - og fátækustu - að verða fátækari.
Þetta eru menn að kalla "K-laga efnahagsbata" og má lesa nánar um hér, meðal annars þetta:
Economic performance of different sectors, industries, and groups within an economy always differ to some extent, but in a K-shaped recovery some parts of the economy may see strong growth while others continue to decline.
Þetta útskýrir auðvitað mismunandi viðhorf mismunandi þjóðfélagshópa við lokunum vegna veiru. Fólk sem er búið að missa lífsviðurværið og jafnvel aleiguna vill eðlilega frekar fá veiru en vera svangt, einmana og húsnæðislaust. Heimavinnandi fólkið telur sig vera að gera öllum góðverk með því að vinna að heiman og panta mat á netinu. En raunveruleikinn blasir mismunandi við okkur og fer eftir því hvar við erum stödd í lífinu og hvernig framtíðin virðist ætla að þróast.
Það ætti ekki að koma nokkrum manni á óvart, en gerir það samt. Eða eins og einn ágætur prófessor skrifaði nýlega (feitletrun mín):
Við búum svo vel að eiga heima á strjálbýlasta landi Evrópu og að vera eyja lengst norður í hafi. Við erum líka vel upplýst þjóð og lítið og samheldið samfélag. Það hefur því gengið nokkuð vel að takast á við faraldurinn hér, þ.e.a.s. að því leyti að takmarka smit og afleiðingar þeirra. Hins vegar hafa afleiðingar af aðgerðum gegn faraldrinum verið alvarlegar og þær eru sennilega ekki komnar að fullu fram enn. Þar má nefna seinkun nauðsynlegra skurðaðgerða og skimunar við krabbameinum, aukið ofbeldi gegn börnum, aukið heimilisofbeldi og aukna drykkju áfengis og vandamál því tengd. Ísland er háðara ferðamannastraumi en löndin í kringum okkur og nú er svo komið að við erum með mesta atvinnuleysi á Norðurlöndum. Það er vel þekkt að atvinnuleysi leiðir af sér dauðsföll og fleiri hörmungar. Ríkissjóður starfar í ósjálfbæru umhverfi og safnar skuldum, sem mun koma niður á nauðsynlegri þjónustu og velferð á komandi árum. Þetta alvarlega ástand á Íslandi skapast að mestu vegna aðgerða gegn Covid-19 en leggst misjafnlega illa á samfélagið. Þeir sem eru í fílabeinsturni akademíunnar og eða í þægilegu starfi hjá ríkinu hafa það bara nokkuð gott. Það eru þessir aðilar sem hafa mestan aðgang að fjölmiðlum og stýra því umræðunni.
Það er víða ójafnt gefið af ýmsum ástæðum, en nú hefur verið bætt töluvert í þann ójöfnuð: Fílabeinsturninn hefur stækkað og holan í jörðinni fyrir marga aðra hefur dýpkað.
En það liggur ekkert á, er það nokkuð?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)