Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2019
Föstudagur, 8. febrúar 2019
Grafið undan velferðarkerfinu
Guðmundur og kona hans, Ólöf Guðfinnsdóttir, gáfu öll rúmin til Seltjarnar, hins nýja hjúkrunarheimilis sem vígt var á Seltjarnarnesi í byrjun mánaðarins.
Hvað vakir fyrir þeim? Að grafa undan velferðarkerfinu? Að gera opinberan rekstur háðan duttlungum einstaklinga? Að kaupa sér greiða? Að ná stjórn á rekstrarákvörðunum opinberra yfirmanna?
Svona lagað á ekki að viðgangast. Hér ber að leita fordæma til Reykjavíkurborgar. Þar má ekki gefa skólakrökkum reiðhjólahjálma. Það er til fyrirmyndar. Þar forðast menn spillinguna eins og dæmin sanna.
Opinber einokunarrekstur sem er ekki plagaður af samkeppni og hagræðingarkröfum neytenda er hin eina rétta leið til að tryggja lífsgæði fólks og stuðla að áhyggjulausum ævikvöldum aldraðra. Slíkur rekstur á ekki að þola að einstaklingar kaupi sér inn vinagreiða og sérmeðferð með rausnarlegum gjöfum. Er þá betra að aldraðir sofi á teppum á gólfinu en rúmum sem eru fjármögnuð með gróðarekstri og efnahagslegum yfirburðum fárra útvaldra.
Seltjarnarnes - skilið þessum rúmum! Þau eru smánarblettur á starfsemi bæjarins!
Lögðu til öll rúmin á nýju hjúkrunarheimili | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 7. febrúar 2019
Óformleg tillaga
Icelandair tapar milljörðum. WOW Air er nánast orðið að ferðaskrifstofu. Ferðamannastraumurinn er að gefa aðeins eftir. Mörg flugfélög eru rekin á lánsfé og bjóða ósjálfbær fargjöld. Olíuverð er alltaf að breytast. Hvað er til ráða?
Ég er með hugmynd: Rúllið áfengisvagninum út áður en nokkuð annað gerist í fluginu.
Einu sinni sat ég í lítilli flugvél sem flaug frá Álaborg til Osló. Þar var flugfreyjan komin af stað á meðan flugvélin var ennþá á leiðinni upp, og ýtti á undan sér vagni með mat og áfengi. Ég var kominn með bjór í hendurnar áður en flugvélin var orðin lárétt í loftinu. Ég var kominn með annan bjór þegar flugvélin seig niður á við aftur, ekki löngu síðar. Þetta var gott flug.
Í dag eyða flugþjónar miklum tíma í allskonar sem aflar flugfélaginu engra tekna. Ég efast um að það sé allt vegna reglugerða.
Rúllið áfengisvagninum út um leið og það má, og gerið viðskipti við hann eins auðveld og hægt er á öllu fluginu.
Vandamál leyst. Það var ekkert.
Tap Icelandair nemur 6,7 milljörðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 3. febrúar 2019
Það sem vantar í íslenska fjölmiðlaflóru
Íslensk fjölmiðlaflóra er frekar einsleit. Kannski er það óumflýjanlegt á litlum markaði: Ekki er ráðrúm til að framkvæma ítarlega rannsóknarblaðamennsku á hverri einustu innantómu yfirlýsingu alltof margra stjórnmálamanna.
Þó er einsleitnin oft alveg yfirdrifin og þá má velta því fyrir sér hvers vegna.
Ég er með kenningu:
Blaðamenn eru oftar en ekki mjög klárir einstaklingar. Þetta er fólk sem fylgist með umræðunni og telur sig vera vel með á nótunum. Það kann yfirleitt að setja sig inn í málin og skrifa læsilegan texta.
Um leið er þetta klára fólk af þeirri sannfæringu að það sé upplýstara en almenningur almennt og í betri aðstöðu en aðrir til að segja hvað virkar vel og hvað virkar illa í samfélaginu, og hvað þarf að gera til að láta það sem virkar illa virka vel. Það telur sig vita hvernig ríkisvaldið getur reist girðingar svo hjörðin sem almenningur er fari sér ekki að voða. Það telur sig vita hvernig skattkerfið á að vera skrúfað saman (þeir ríku eigi að borga meira og allt það).
Með öðrum orðum: Blaðamenn eru flestir sjálfumglaðir vinstrimenn.
Þessi kenning útskýrir að hluta einsleitnina í fjölmiðlaflórunni en ekki hvers vegna sjálfumglaðir vinstrimenn fylla flest sæti ritstjórna og blaðamanna. Hvar eru hógværu hægrimennirnir, sem vilja bara að fólk fái sem mesti svigrúm til að leita hamingjunnar á eigin vegum?
Þeir hægrimenn leita kannski ekki í blaðamennskuna. Þeir vilja láta hendur standa fram úr ermum, og framleiða verðmæti með hæfileikum sínum og getu. Þeir nenna ekki að básúna í sífellu skoðunum sínum yfir hausamótum annarra í gegnum hlutdræga fréttasmíði. Þeir ná sér í verðmætaskapandi menntun eða þjálfun og hefjast handa. Blaðamennska er fyrir þeim innantómt gaul úr tómri tunnu, og það blasir líka við að það er engin sérstök eftirspurn eftir kröftum þeirra hjá fjölmiðlunum.
Það er kannski af þessari ástæðu að flestir íslenskir fjölmiðlar eru hálfdauðar skeljar sem lifa af eigin fé eigenda þeirra. Þeir eru allir að eltast við sama markhópinn og sjá einfaldlega ekki aðra mögulega viðskiptavini.
Eftir að Vefþjóðviljinn fór í nánast algjöran dvala hefur vantað aðhald frá hægri í íslenska fjölmiðlaflóru. Þar er óplægður akur. Ætlar enginn að sækja á hann?
Uppsagnir hjá DV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 2. febrúar 2019
Enginn fær eitthvað fyrir ekkert
Mikið hefur verið rætt um rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi eftir að hið opinbera valdi þá fyrirsjáanlegu aðferð að leggja til sértækar ívilnanir sem koma bara fáum til góða.
Að sjálfsögðu voru augljósar leiðir ekki nefndar: Að koma ríkinu af útvarps- og sjónvarpsmarkaði og afnema RÚV-nefskattinn í leiðinni (ef ríkið vill að ákveðið efni sé framleitt eða sent út getur það boðið slíkt út, án þess að halda úti heilli sjónvarpsstöð fyrir svoleiðis), að lækka skatta á allt og alla, og að sjálfsögðu að leyfa áfengisframleiðendum að auglýsa eins og þeir vilja og dæla þannig fé í sjónvarp, útvarp og prentmiðla.
En sértækum ívilnunum fylgja alltaf skilyrði og það getur enginn fjölmiðill blekkt sig með öðru. Þeir sem eru ekki nefndir á ívilnanalistanum lenda í skekktri samkeppnisstöðu. Þeir sem senda út efni sem er yfirvöldum ekki þóknanlegt verða túlkaðir út af ívilnanalistanum því stjórnmálamenn verða annars ásakaðir um að styðja við óæskilega tjáningu (segjum t.d. að múslímar stofni fjölmiðil sem uppfyllir öll skilyrði ívilnana, en einu sinni á dag eru þar lesnir upp valdir kaflar úr Kóraninum þar sem hvatt er til morða á trúleysingjum - gæti forsætisráðherra setið undir ásökunum um að hampa slíkum viðhorfum?).
Ríkið veitir aldrei neitt án skilyrða, og ríkið getur aldrei veitt einhverjum einum án þess að taka af einhverjum öðrum.
Skekki samkeppnisstöðuna alvarlega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |