Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2019
Miðvikudagur, 27. febrúar 2019
Opinber verðskrá skilnaðar og gjaldþrot feðra
Þegar par eða hjón sem eiga barn eða börn skilja tekur við ákveðið ferli sem byrjar á því að aðilar reyna að ná sáttum og mistekst. Hið opinbera skerst þá í leikinn og úrskurðar að maðurinn greiði konunni meðlag (óháð því hvað barnið er mikið hjá móður eða föður) sem hún fær skattfrjálst sem tekjur. Konan getur svo hent í eins og eina eða tvær ásakanir á föðurinn og hann fær þar með ekki að sjá barnið sitt eins lengi og konunni sýnist.
Þetta er vonandi ekki sviðsmynd flestra sambandsslita á Íslandi en gildir þó um mörg hundruð tilvik. Fráskildir feður eru oft útilokaðir frá því að hitta barn sitt, og það er þeim þungbært. Þeir eru mjög oft á vanskilaskrá enda eru meðlagsgreiðslurnar háar. Þeir fremja oft sjálfsmorð.
Auðvitað er ég ekki með tölurnar á hreinu enda er ekki í tísku að rannsaka svona mál. Vonandi breytist það í náinni framtíð.
Hið opinbera stuðlar að því að skilnaður getur orðið mjög fjárhagslega ábatasamur fyrir mæður. Með skilnaði má líka rústa lífi makans og er oft gert.
Dag einn munu fráskildir feður rísa upp og mótmæla óréttlætinu. Ég bíð spenntur. Börn eiga ekki skilið að vera notuð eins og vopn og enn síður að vera svipt föður sínum.
Sáttameðferð mikilvæg við skilnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 25. febrúar 2019
Lömbin leidd til slátrunar
Hvernig er hægt að koma sem flestum lömbum til slátrunar til að hlaða undir eigið egó? Áætlunin virðist vera svohljóðandi:
- Tromma upp herskáa stemmingu ("himinháir skattar eru ekki ástæða dýrtíðar á Íslandi, heldur níska atvinnurekenda")
- Framleiða meingallaða hagfræði ("verðhækkanir leiða ekki til minnkandi eftirspurnar")
- Bera fjarstæðukenndar kröfur á borðið
- Gefast hratt upp á að semja
- Fara í verkföll (því fleiri og lengri, því betra)
- Ná fram óraunhæfum kröfum af einhverju tagi
- Sjá meðlimi sína sópast á atvinnuleysisskrá þar sem þeir breytast í öskuilla kjósendur
- Bjóða fram til kosninga og ná þessum öskuillu kjósendum á sitt band
- Komast til valda
- Ráða Gunnar Smára Egilsson og bandamenn í þægilega og vel launaða innivinnu
Fyrstu atriðin eru nú þegar komin til framkvæmda. Sjáum hvað setur.
Greiða atkvæði með verkfallinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 24. febrúar 2019
Drepum fátæklinga
Þeir sem tala í nafni umhverfisverndar eru oftar en ekki bara að berjast gegn frjálsum markaði.
Stór yfirlýsing? Nei, alls ekki.
Úti í hinum stóra heimi er fólk án menntunar, kaffihúsa, fjármagns og Apple-síma. Hvað á þetta fólk að gera til að afla sér lífsviðurværis? Það hefur ýmislegt til sölu, þrátt fyrir allt: Vinnuafl sitt og auðlindir. Þessar auðlindir geta verið vatn, tími, landbúnaðarafurðir, hafnaraðstaða og ódýrt land. Þetta fólk getur boðið aðilum með fjármagn að fjárfesta, ráða fólk í vinnu og nýta auðlindirnar til að skapa störf.
Á að banna þetta?
Nei, auðvitað ekki.
En þá kemur vestræni græninginn og bendir á að verið sé að menga vatnið, nota mikið af auðlindum og láta fólk vinna lengi.
Mengun er slæm, en hún er nánast undantekningalaust afleiðing illa skilgreindra eignaréttinda. Það eiga allir að berjast fyrir vernduðum eignarrétti. Þar sem fólk getur varið eigur sínar, t.d. fyrir dómstólum, þar er mengun haldið í skefjum.
En auðlindir og vinnuafl eru það sem fólk í fátækjum ríkjum getur selt og það eigum við að kaupa. Þannig verður fátækt fólk ríkara.
Kaupum ódýra boli en hjálpum um leið öllu mannkyni að verja eigur sínar gegn mengun, ríkisvaldi og ræningjahópum. Þá erum við að tala um frjálsan markað sem kemur mannkyninu öllu til góða, bæði til lengri og skemmri tíma.
2.700 vatnslítrar í einn stuttermabol | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 21. febrúar 2019
Hvað vilt þú í laun? Djók, þú færð taxtalaun
Það eru til tvær tegundir launafólks:
- Þeir sem geta samið um sín kaup og kjör (og nota gjarnan viðmiðanir úr könnunum og aðstoð sérfræðinga eða ráðgjafa til að hafa hugmynd um raunhæf launakjör)
- Þeir sem geta ekki samið um sín kaup og kjör (en vona það besta þegar aðrir semja fyrir þeirra hönd)
Af hverju vilja margir að sem flestir tilheyri seinni hópnum?
Núna eru þeir í seinni hópnum á leið í verkfall nema eitthvað kraftaverk eigi sér stað (t.d. það að herskáir og háværir verkalýðsforingjar kyngi yfirlýsingum sínum um einhvers konar byltingu).
Nú þegar eru fyrirtæki byrjuð að segja upp fólki til að lækka launakostnað.
Ef launakostnaður hækkar meira munu fyrirtæki færa störf til útlanda (ef þau eru ekki byrjuð að því nú þegar). Fyrirtæki og ferðamenn hætta við að koma til Íslands (ef það er ekki orðin raunin nú þegar).
Til að bæta kjör launafólks þarf að auka verðmætasköpun þess eða lækka skatta á laun, varning, þjónustu og fjármagn, en gjarnan bæði.
Til að gefa þeim duglega færi á hærri launum þarf að frelsa hann frá launatöxtum verkalýðsfélaganna.
Til að gefa þeim lata hvata til að standa sig betur þarf að koma honum af launatöxtum verkalýðsfélaganna.
Til að bæta kjör launafólks þarf að létta á þeirri byrði sem ríkisvaldið er. Þeir sem fjármagna hið opinbera verða alltaf venjulegir starfsmenn venjulegra fyrirtækja. Töflureiknaforritum skjátlast þegar þau segja að það megi mjólka þá ríku meira.
Vonum að Íslendingar komist í gegnum þetta tímabil ólæsis í hagfræði og skilningsleysis á hegðun raunverulegs fólks.
Viðræðum hefur verið slitið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Dansað við djöfulinn
Fjármálaráðherra lét plata sig. Hann hélt að hann gæti friðað lítinn fjölda verkalýðsfélaga með einhverjum plástri. Það tókst ekki og núna er hann í vandræðum. Hann lét draga sig að svokölluðu samningaborði þar sem eina mögulega niðurstaðan var að hann kæmi illa út og yrði úthrópaður. Og núna kemst hann ekki í burtu.
En það er fleira slæmt við að fjármálaráðherra lét plata sig.
Í fyrsta lagi lagði hann til enn flóknara skattkerfi, með enn skæðari jaðarsköttum á þá sem voga sér að auka tekjur sínar. Reynslan sýnir að þegar flækjustig hefur verið aukið er erfitt að minnka það aftur.
Í öðru lagi gaf fjármálaráðherra í skyn að sértækar aðgerðir séu vænleg leið til árangurs. Svo er ekki. Best er að skattar séu sem flatastir og einfaldastir og þar með fyrirsjáanlegir og auðskiljanlegir. Um leið er auðvitað best að skattar séu sem lægstir, þ.e. að ríkisvaldið sé sem fyrirferðarminnst. Ríkið er hinn stóri dragbítur sem heldur aftur af batnandi kjörum allra.
Í þriðja lagi hefur nú verið gefið fordæmi fyrir því að það sé hægt að hóta ríkisvaldinu. Verkalýðsfélögin hóta verkföllum, þ.e. því að fólk hætti að vinna án þess að því megi segja upp. Í núverandi lagaumhverfi er slíkt ávísun á að fámennir hópar hertaki samfélagið í heild sinni og skaði hagsmuni almennings og launafólks.
Núna er komið blóðbragð í munninn á þeim sem vilja berja samfélagið til hlýðni og geta það með notkun laga sem veita sumum meiri réttindi en öðrum til að heimta með valdi.
Viðbrögð verkalýðsfélaganna koma á óvart | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 17. febrúar 2019
Hugleiðingar um neyslu og gróða
Nína Guðrún Geirsdóttir skrifar þarfar hugleiðingar um neyslu, nýtni og nægjusemi. Þær eru að mörgu leyti góðar. Það er rétt að margir kaupa meira en þeir þurfa, eða kaupa nánast til þess eins að kaupa. Mörg fyrirtæki eru rekin í kringum þá hugsun að við þurfum endalaust að vera endurnýja. Slíkt kostar auðlindir og leiðir oft til sóunar. Að hugsa málið aðeins og kaupa minna og velja betur er því alveg ágætt markmið, í sjálfu sér.
En þá kemur að hagfræðinni. Þar þurfa menn að vanda sig aðeins. Gróði, eða hagnaður, er ekki bara góður heldur beinlínis nauðsynlegur. Hagnaður segir fyrirtæki að það sé að sinna þörfum neytenda. Fyrirtæki sem skilar tapi er ekki að standa sig og sóar þar með fé eigenda sinna eða lánadrottna í vitleysu. Neytendur eru beinlínis ósammála fyrirtækinu í vali þess á framboði og þjónustu og slíku fyrirtæki þarf að loka.
En af hverju eyða neytendur í vitleysu og taka jafnvel lán fyrir slíkri eyðslu í stað þess að leggja fyrir, kaupa vandaðri hluti sem endast lengur og fjárfesta meira?
Neytendur eru drifnir áfram af því sama og drífur áfram allar lifandi verur: Hvötum. Hvatar geta breytt neytanda í fjárfesti, og öfugt. Ef það borgar sig betur að leggja fyrir og byggja upp sjóð en kaupa nýja en lélega ferðatölvu á hverju ári þá hefur það áhrif. Ef sá skuldsetti getur alltaf búist við því að verða bjargað af stjórnmálamönnum þegar skuldir hans verða óyfirstíganlegar þá heldur hann áfram að safna skuldum. Ef seðlabankar rýra í sífellu innistæður bankareikninga (t.d. með því að halda úti markmiði um ákveðna lágmarksverðbólgu) og halda vöxtum á sparifé lágu þá leggur fólk minna fyrir.
Við getum róleg huggað okkur við það að jörðin er ekki komin að einhverjum endimörkum. Um leið getum við velt því fyrir okkur hvaða langtímaafleiðingar fylgja því að verðlauna í sífellu neyslu og refsa fyrir ráðdeild. Er þá stærð ruslahauganna kannski meðal mildustu afleiðinganna.
Neysluhyggjupælingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 16. febrúar 2019
Ríkisstyrkir leiða til einsleitni
Ríkisstyrkir umbuna sumum og gefa þeim forskot. Það er nánast ómögulegt að keppa við ríkisstyrkta starfsemi. Samkeppnisaðilar þeirra á ríkisstyrkjunum lognast út af. Þeir sem standa eftir hafa uppfyllt kröfur yfirvalda. Einsleitni er niðurstaðan.
Þetta eru sumir blaðamenn að uppgötva núna, alltof seint. Þeir hjá Bændablaðinu og ýmsum fréttasíðum íþrótta sjá að núna á að styrkja samkeppnisaðila þeirra. Þeir sem skrifa á ensku fá ekki aðgang að spenum ríkisgyltunnar.
Blaðamenn telja sig yfirleitt vera svo upplýsta, vel lesna og klára. Og þeir eru yfirleitt vinstrimenn og illa að sér í hagfræði. Það er því alltaf fyndið að sjá þá sprikla og kvarta þegar þeirra eigin hugmyndafræði snýst í höndunum á þeim.
Lesendur ekki bara einhverjir túristar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 15. febrúar 2019
Auðvitað eru skattalækkanir kjarabót
Verkalýðsfélagið Efling leggur til að skattar á launafólk lækki til að bæta kjör þess.
Þetta er að mörgu leyti undarleg tillaga frá blóðrauðu verkalýðsfélagi en hagfræði tillögunnar stenst fullkomlega. Skattar eru kjaraskerðing og því lægri sem þeir eru, því betra.
(Að vísu er líka lagt til að skattar á þá launahæstu hækki eitthvað en þeir peningar munu ekki skila sér í ríkiskassann og hið opinbera ætti því að semja fjárlög sem miðast við lækkandi skattheimtu á laun.)
Það má svo bæta kjör launafólks enn meira með eftirfarandi skattalækkunum:
- Virðisaukaskatta ætti að afnema
- Tolla ætti að afnema
- Eldsneytis- og bifreiðaskatta ætti að afnema
Um leið þarf ríkið auðvitað að fækka verkefnum sínum til að koma til móts við minnkandi skattheimtu. Það gæti hætt að reka heilbrigðis- og menntakerfi, hætt að styrkja landbúnað og hætt að styrkja hitt og þetta. Það gæti selt vegakerfið og lagt niður velferðarkerfið. Góðhjartað fólk kæmi í stað opinberra möppudýra. Einkaaðilar í samkeppnisrekstri kæmu í staðinn fyrir miðstýrt einokunarbatterí.
Ætlar Efling að taka kjarabætur launafólks alla leið?
Efling leggur fram gagntilboð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 12. febrúar 2019
Grænir vitleysingar og Rússagrýlan
Vestur-Evrópa er á blússandi hraðferð upp í hendurnar á tækifærissinnum austar í álfunni.
Grænir vitleysingar vilja loka kolaorku- og kjarnorkuverum og halda að almenningur sætti sig bara við að þurfa slökkva ljósin eða borða minna til að borga hærri rafmagnsreikning.
Veðmálið gengur út á að það verði hægt að reisa vindmyllur nógu hratt til að bæta upp fyrir lokuð orkuver.
Gangi það upp gerist ekki annað en að lífskjör almennings versna.
Gangi það ekki upp er búið að ýta Vestur-Evrópu í fangið á Rússum sem skammta álfunni orku í skiptum fyrir pólitíska greiða.
Um þetta er fjallað aðeins nánar hér.
Það þarf að loka kjaftinum á þessum gróðurhúsakór sem spýtir endurunnum hræðsluáróðri yfir almenning og stjórnmálamenn. Hættan er annars sú að tækifærissinnar í austri fái ókeypis hreðjatak á okkur.
Tökum svo aðeins saman, í stuttu máli, staðreyndir málsins:
- Kol eru skítug en útvega efnaminnum íbúum jarðar lífsnauðsynlega orku
- Með auði koma kröfur um hreinna loft, og þá getur olía og gas tekið við af kolum, en einnig dýrari valkostir eins og vatns- og kjarnorka
- Batterísbílar bæta loftgæði borga og eru ágætir þar sem er nóg af innstungum, en eiga ekki heima úti á landi eða á þjóðvegum
- Framleiðsla vindmylluvængja og battería er frek á bæði orku og hráefni
- Ríkt fólk er pjattaðra og kröfuharðara en fátækt fólk
Súrnun og hlýnun eru ekki góð blanda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 10. febrúar 2019
Gamalt vín í nýjum belgjum: Vilja allir vera eins og Pamela Anderson?
Á öllum tímum hafa foreldrar miklar áhyggjur af fyrirmyndum krakka sinna.
Meðal stórhættulegra fyrirmynda má nefna Elvis, Rolling Stones, Def Leopard, Metallica, Bítlana og Pamelu Anderson.
Hefur eitthvað breyst? Það held ég ekki. Hafa ekki allir séð myndbandið þar sem Christinu Aguilera segist vilja vera skítug?
Hvað hefur orðið um alla drengina og stúlkurnar sem sáu þetta myndband í óharðnaðri barnæsku? Fóru þeir krakkar allir til fjandans?
Ef eitthvað hefur breyst þá hugsa ég að það hafi frekar breyst til batnaðar. Ariana Grande er t.d. róleg og skapstillt stúlka sem kýs frekar að vera einhleyp en með einhverju bjána. Það er hægt að hugsa sér margt verra. Sonur minn lítur upp til hraustra og duglegra atvinnumanna í fótbolta. Það gæti varla verið betra.
Öndum með nefinu, reynum að tala við börnin okkar um lífið og tilveruna og hættum að mála skrattann á vegginn. Vinsamlegast.
Vill dóttir mín vera eins og hún? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |