Bloggfærslur mánaðarins, desember 2019
Mánudagur, 9. desember 2019
Listin að móðga
Það er ákveðin list að móðga fólk. Ásetningurinn getur verið mismunandi og aðferðirnar fjölbreyttar.
Sumir móðga af ásetningi til að særa annað fólk á persónulegan hátt.
Sumir móðga til að koma áleiðis mikilvægum og gjarnan umdeildum skilaboðum.
Sumir móðga til að gera grín að þeim sem hafa móðgunina að lífsreglu. Til dæmis með því að ganga í bol sem lofar Kölska til að gera grín að djöfladýrkendum.
En það er því miður orðið alltof auðvelt að móðga og það mætti ætla að margir hafi aldrei átt vini í kringum unglingsárin þegar allt er látið flakka. Mínir bestu vinir segja allskyns hluti um mig við mig og ég svara fullum hálsi og að lokum segja allir skál og hlægja. Ég á fjölbreyttan vinahóp sem aðhyllist allskyns trúarbrögð, stjórnmálaskoðanir og mataræði. Ekkert er samt heilagt í góðra vina hópi og það má bæði ræða allt af fullri alvöru og gera grín að því.
Þetta er lífið að mínu mati og forsenda þess að menn geti skipst á skoðunum, ögrað huga sínum og þroskað sjálfið.
Þessu eru samt ekki allir sammála. Ég sé allskyns umfjöllun um að menn reyni að loka á sumar skoðanir með notkun ofbeldis, lögreglu, dómstóla og óhróðurs. Þeir sem uppnefna aðra nasista og fasista beita sjálfir fasískum aðferðum (ritskoðun, ofbeldi og svívirðingar), sem er alveg einstaklega kaldhæðnislegt.
Þetta er furðulegt því hvernig er besta leiðin til að mæta fullyrðingum þess sem hefur rangt fyrir sér, að mati einhvers? Það er jú að leyfa viðkomandi að tala og vera síðan svarað með rökum.
Besta leiðin til að útrýma því óvelkomna er að draga það fram í dagsljósið.
Eftir að leikskóla sleppir á enginn að geta heimtað öruggt rými þar sem bara hið saklausa, viðtekna og samþykkta fær að heyrast. Þeir sem vilja slík örugg rými er bent á að kaupa sér bleiupakka og snuð og yfirgefa heim fullorðinna.
Satanískur bolur veldur uppþoti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Laugardagur, 7. desember 2019
Mikilvægara að hleypa áfengi í matvöruverslanir
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir það eindregna skoðun sína að seinka skuli klukkunni á Íslandi, enda sé það lýðheilsumál.
Gott hjá henni. Á meðan önnur ríki ræða að hætta eilífu hringli með klukkuna tekur heilbrigðisráðherra Íslands þetta ómerkilega mál upp á sína arma.
Ég er samt með annað lýðheilsumál sem er sennilega brýnna: Að hleypa áfengi inn í íslenskar matvöruverslanir og gera það ódýrara.
Þetta hefur marga kosti.
Í fyrsta lagi fær kaupmaðurinn á horninu annað tækifæri til að halda lífi í samkeppni við stórmarkaðina sem deila bílastæði með áfengisverslunum ríkisins. Um leið minnkar þetta umferð inn á þau bílastæði. Nærumhverfið styrkist.
Í öðru lagi getur áfengi komist nær því að verða afslappandi neysluvara sem má njóta í hófi og oft frekar en að vera sjaldgæfur lúxusdropi sem þarf að sturta í sig í miklu magni. Menn kaupa oftar áfengi og minna í einu og læra að umgangast það eins og hverja aðra óhollustu.
Í þriðja lagi er dregið úr freistingunni að sækja sér önnur vímuefni, lögleg eða ólögleg. Áfengi er fyrirsjáanlegt og rennur hratt úr kerfinu. Unglingar og ungt fólk gæti haldið sig við áfengið og látið önnur efni eiga sig. Ef hverfissjoppan selur bjórkippu er komin samkeppni við heimsend vímuefni glæpamannanna.
Í fjórða lagi er ekkert að því að lina aðeins þjáningar myrkursins með svolitlu áfengi. Eitt vínglas eða bjór er bæði andlegur og líkamlegur gleðigjafi, rúsína í pylsuenda skammdegisins og leið til að hrista af sér drunga dagsins.
Kæri heilbrigðisráðherra, áfengi í matvöruverslanir - fyrir lýðheilsuna!
Svandís vill seinka klukkunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 5. desember 2019
Borið saman við hvað?
Við höfum val.
Við getum valið að láta blekkja okkur.
Við getum valið að láta hræða okkur.
Við getum valið að láta siða okkur til þótt við höfum ekki gert neitt af okkur.
Nú eru þeir til sem telja að íslenskir jöklar séu að bráðna meira en hæfilegt er að það sé mannkyninu að kenna.
Myndir af jöklum eru bornar saman og niðurstaðan dregin fram: Sjáðu! Jöklarnir bráðna og eina hugsanlega ástæðan er notkun mannkyns á hagkvæmu eldsneyti!
Þó blasir við að ef menn velja myndir á annan hátt þá sést engin sérstök bráðnun. Til að mynda er jökullinn Ok álíka lítill árið 1960 og hann er í dag (sjá myndina, tekin héðan). Síðan tók við svolítið kuldaskeið og hann stækkaði. Þá tók við svolítil hlýnun og hann bráðnaði aftur.
Hamfarir? Nei. Bara náttúrulegar sveiflur sem taka rúmlega mannsaldur að eiga sér stað, sem um leið er nógu lengi til að enginn muni neitt.
Ég vel að láta ekki hræða mig. Gildir þá einu hvort um er að ræða stjórnmálamenn, trúboða eða fréttamenn. Auðvitað er margt hræðilegt í gangi í heiminum, svo sem barnaþrælkun í kóbolt-námum Afríku til að útvega hráefni í batterí Vesturlandabúa, eilíft stríðsástand í Miðausturlöndum, eldflaugasmíði í Norður-Kóreu og spenna í samskiptum Vesturlanda og Rússa. Það er samt óþarfi að missa svefn yfir því og tapa um leið heilsu sinni. Betra er að halda sínu striki og leggja sitt af mörkum til að bæta heiminn, einn dag í einu.
Sekúndubrot að klúðra málum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Mánudagur, 2. desember 2019
Plastframtíðin okkar
Plast hefur orðið fyrir miklu aðkasti undanfarið. Að sumu leyti er það skiljanlegt: Í stórum ríkjum þar sem iðnvæðing er ennþá á fullum hraða hafa menn ekki alveg náð að taka á sorpvandamálinu: Nokkur stórfljót eru notuð til að losa gríðarlegt magn af rusli í hafið, þar á meðal plastræmur sem ýmis dýr flækjast í og verða að myndefni fyrir ljósmyndara.
En plast er dásamlegt. Það er ekki bara notað til að verja matvæli frá skemmdum og minnka þannig matarsóun. Það er líka notað sem byggingarefni í bíla, flugvélar og báta og létta þannig þessa hluti töluvert miðað við stálsmíðina. Þetta bætir eldsneytisnýtingu, eykur hagkvæmni og minnkar hina óttuðu losun á kolefni í andrúmsloftið. Hjólreiðamenn Tour de France klæðast plasti, hjóla á plasti og drekka úr plasti. Plastið er á hraðri leið með að ýta stálinu til hliðar og það er jákvætt.
Til að búa til plast þarf olíu og sem betur fer er ofgnótt olíu í jörðu og jafnvel á yfirborðinu því eitt helsta vandamál margra olíuframleiðenda er of lágt verð á olíu, sem er til merkis um að framboðið er mikið.
Er þá ónefnt að olía er alveg frábær orkugjafi: Færanlegur, geymanlegur og hár í orkuinnihaldi.
Það er mikilvægt að benda á þetta því samkvæmt minni reynslu er almenn vitneskja um útbreiðslu, notagildi og ágæti plastsins í lágmarki. Ég hef staðið fyrir framan bekk af greindum grunnskólakrökkum sem létu koma sér mjög á óvart að plastið er að finna í skóbúnaði okkar, bíldekkjum (gervi-gúmmí), fatnaði, bifreiðum og mun víðar. Þeim er bara kennt að hata olíuna, en til vara að hlakka til brotthvarfs hennar. Þess í stað þarf að fagna tilvist hennar í umhverfi okkar.
Áfram plast!
Bárður stærstur plastbátanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 1. desember 2019
Kjósendur og hvatar
Stjórnmálamenn eru í vanda staddir.
Hafir þeir sínar eigin hugsjónir og samfélagssýn er hætt við að kjósendur hafni þeim sem einhvers konar róttæklingum eða draumóramönnum. Ef þeir breyta of oft um stefnu og aðlaga stefnu sína að skoðanakönnunum er hætt við að þeir verði óaðgreinanlegir frá öðrum stjórnmálamönnum.
Það sem virðist virka best er að taka þátt í loforðakapphlaupinu og helst lofa miklu meira en næsti stjórnmálamaður. Og þá skiptir miklu máli að vera góður ræðumaður. Það skiptir mestu máli til að skera sig úr.
Til að geta lofað öllu fögru þarf að afneita öllum niðurstöðum þeirra sem rannsaka hegðun og atferli manna, hvort sem fagið heitir félagsfræði, hagfræði eða sálfræði. Í staðinn skal öll trúin sett á Excel-skjölin: Ef skattur er hækkaður um 5% aukast skattheimtur um 5%. Enginn mun hafa vit á því að forða eigum sínum frá aukinni skattheimtu. Slíkir hvatar eru bara dýrslegar hvatir sem mannfólkið ber ekki í brjósti. Og ef stjórnmálamaður vill banna gashylkin sem fólk notar í rjómaspraututækin sín þá er hægt að gera það afleiðingalaust. Unglingar hætta einfaldlega að sækja í vímuna og enginn annar valkostur tekur við.
Stjórnmálamaður þarf því að vera góður ræðumaður og einblína á reikniformúlur Excel.
Kjósendur falla fyrir þessu, því miður.
Pútín sýnir mjúku hliðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |