Bloggfærslur mánaðarins, maí 2018

Vextir og vitleysa

Hvað eru réttir vextir?

Lágir vextir? Þeir auðvelda vissulega lántöku en draga um leið úr sparnaði.

Háir vextir? Þeir tryggja ákveðið aðhald og það að fjárfestingar séu úthugsaðar en gera vissulega lántökur erfiðari.

Á að stuðla að lágri en stöðugri verðbólgu? Það þenur vissulega út hagkerfið en eykur ekki verðmætasköpun. 

Á að heimila almenna verðhjöðnun, þ.e. að halda peningamagni í umferð föstu og leyfa bættri framleiðni að leiða til lækkandi verðlags? Það kemur útlánendum vel og skuldurum illa. Kjósendur sem skulda eru fleiri en kjósendur sem lána út. 

Á að miða vexti á Íslandi við vexti erlendis? Af hverju?

Ríkisvaldið á ekki að koma nálægt fjármálamörkuðum og Seðlabanka Íslands á að leggja niður. Þá verða spurningar um vexti, lántökur, verðlag og peningaprentun að verkefni hins frjálsa markaðar þar sem framboð og eftirspurn takast á, verðlag aðlagar sig að breyttum aðstæðum og stjórnmálamenn fá næði til að skrifa allskyns hvítbækur. 


mbl.is Sagði krónuna auka vaxtakostnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið komi sér úr veginum

Hvað stuðlar að nýsköpun?

Opinberar nefndir? 

Opinberir styrkir?

Opinber nýsköpunarstefna?

Það held ég ekki. Auðvitað má borga manni til að finna upp hluti en það hefur fyrst og fremst þann tilgang að kaupa atkvæði handa stjórnmálamönnum.

Fyrirtæki og einstaklingar stunda nýsköpun - áhættusama, óvissa, tímafreka og krefjandi nýsköpun sem felur jafnvel í sér tekjutap og skuldsetningu - því í henni liggur gróðavon.

Össur, CCP, Skaginn X og Marel eyða stórum fjárhæðum í nýsköpun til að tryggja stöðu sína á samkeppnismörkuðum.

Ríkisvaldið skattleggur þessi fyrirtæki hægri og vinstri. Slíkt dregur úr nýsköpun þeirra.

Ríkisvaldið reynir um leið að styðja aðra til nýsköpunar, t.d. með styrkjum og undanþágum, en um leið og hún tekst upp tekur við full skattheimta sem mörg nýsköpunarfyrirtæki ná aldrei að ráða við, og þau deyja.

Það besta sem ríkisvaldið getur gert til að stuðla að nýsköpun er að fækka reglum, lækka skatta, fækka hindrunum eins og leyfisveitingum og ýmsum skráningum, og koma sér úr veginum.


mbl.is Hefja mótun nýsköpunarstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósmæður eru ríkiseign, og vilja ekkert annað

Ljósmæður geta ekki valið um aðra atvinnurekendur en opinbera aðila. Ég hef ekki séð eina ljósmóður berjast fyrir því að annað sé í stöðunni.

Það er mikið framboð af fólki sem vill vinna sem ljósmæður - svo mikið það þarf að setja upp mjög stífar aðgangshindranir að ljósmæðrastéttinni (langt nám) til að hún fyllist ekki af fólki. 

Svo já, þær eru ríkiseign og gera ekkert til að breyta því ástandi.


mbl.is Hafa engin vopn í baráttunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annaðhvort 100% traust eða 0%

Það er ekkert nýtt að ákveðinn hópur þingmanna noti aðgang sinn að trúnaðarskjölum til að búa til bitastæðar fyrirsagnir í fjölmiðlum. Menn hafa jafnvel grunað ráðherra um slíkt athæfi. 

Það þarf ekki að sanna slíka hluti svo þeir hafi áhrif á hegðun - það er nóg að menn gruni þá til að traustið sé horfið. Ef þú heldur að nágranni þinn steli hnífapörum frá þér þegar hann heimsækir þig er það nóg ástæða til að þú bjóðir honum ekki aftur í heimsókn. Komi í ljós að eitt barna þinna var bara að leika sér með hlutina og þeir enduðu í dótakassanum fær nágranninn auðvitað að koma aftur en grunurinn var nægur til að breyta hegðun þinni.

Nú hefur verið kastað skugga á traust innan nefndarstarfa á Alþingi. Menn fara því um leið að passa sig meira en áður, hvort sem hægt sé að sanna ásakanirnar eða ekki. Og slíkt er slæmt.


mbl.is „Mígleki“ upplýsingum til Stundarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband