Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2017

Gæti orðið sammála um að gera ekkert

Ríkisstjórn Vinstri-grænna, Sjálfstæðismanna og Framsóknar gæti orðið sammála um að gera ekkert. Það væri frábær ríkisstjórn!

Í stað þess að deila um það hvort skatta eigi að hækka eða lækka er sammælst um að halda þeim óbreyttum. Auðvitað væri betra að fá lægri skatta en það er skárra að þeir haldist óbreyttir en hækki.

Í stað þess að þjóðnýta er ákveðið að þjóðnýta ekki. Um leið er sammælst um að ekkert verði einkavætt, því miður. 

Það er kannski von fyrir íslenskan almenning ef til valda kemst ríkisstjórn sem ákveður að gera ekkert frekar en að gera illt verra og bæta við skuldirnar og skattana. 


mbl.is Myndi skapa pólitískan stöðugleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki nógu vinsælir, eða of dýrir í rekstri?

Tveimur vinsælum tónleikastöðum í miðborg Reykjavíkur hefur nýlega verið lokað. Hjá borginni er nú verið að skoða að skattgreiðendur styðji rekstur slíkra staða úr því viðskiptavinirnir vilja ekki gera það.

Þetta er auðvitað fáheyrt. Rekstur tónleikastaða er ekki verkefni borgaryfirvalda. Hverja á að styðja og um hvað mikið og hversu lengi? Á að styðja tóman stað þar sem spiluð er tónlist sem enginn nennir að hlusta á? Á að styðja tónleikastað sem fyllist um hverja helgi? Hvernig á að gera upp á milli? Er nóg að einhver glamri á gítar eða þarf fleiri en tvo á sviðið eða hvað? 

Nákvæmlega hvaða tónleikar eru það sem skattgreiðendur eiga að styðja við, og hvers vegna?

Þetta meinta vandamál er einfalt í eðli sínu. Annaðhvort er of dýrt að reka skemmtistað eða fólk er einfaldlega hætt að stunda þá. Háan rekstrarkostnað má rekja til margra hluta sem má flesta rekja til hins opinbera: Ýmis leyfi og gjöld, eftirlit, skattar á aðföng og fleira slíkt kostar kannski bara of mikið til að það sé hægt að velta því út í verðlagið og ætlast til að fólk vilji borga. 

Ef fólk er hætt að nenna í bæinn og hella í sig áfengi er ekkert víst að það sé slæmt. Leigubílaleyfin eru hvort eð er of fá til að hægt sé að koma of mörgum heim til sín eftir kvöld í miðbænum. Þeir sem slást fullir en ekki edrú slást minna ef þeir eru sjaldnar fullir. Túristarnir geta væflast um í miðbænum án þess að óttast áreiti. Borgaryfirvöld geta sparað enn meira við sig í þrifum og viðhaldi. Tómur bær er hreinn bær. 

Lengi vel þjarmaði borgin að þeim sem vildu reka skemmtistaði í miðbænum. Lokunartímar eru takmarkaðir, áfengisgjöldin himinhá og leigubílarnir troðfullir. Nú er hins vegar talað um að niðurgreiða starfsemi sömu skemmtistaða.

Geta yfirvöld ekki ákveðið sig bráðum?


mbl.is Vinsælum tónleikastöðum lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstristjórn í tilraunaglasi

Reykjavík hefur, síðan á dögum R-listans, verið eins konar tilraunaglasaútgáfa af vinstristjórn á landsvísu. Nokkur einkenni slíkrar stjórnar eru:

- Skuldir vaxa jafnvel þótt skatttekjur vaxa

- Hoggið er í grunnstoðirnar en gæluverkefnunum hleypt áfram

- Áætlanir um að skila rekstrarafgangi settar fram árlega, en standast ekki árlega

- Skattalækkanir veittar á afmarkaða en atkvæðamarga hópa, en aðrir fá skattahækkanir inn um sína lúgu

- Reynt að kenna öðrum um eigin vandræði í rekstri og stjórnsýslu. Einhverjum utanaðkomandi er um að kenna

- Erfiðum málum kastað á milli eins heitri kartöflu þar til þau lenda á grandlausum embættismönnum

R-listinn var ákveðin fyrirmynd vinstristjórnar Jóhönnu og Steingríms. Borgarstjórn Dags er vísbending um það sem koma skal ef Katrín Jakobsdóttir fær nógu marga á sitt band í Stjórnarráðinu.


mbl.is Reksturinn verði jákvæður upp á 3,4 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með þessa brandara?

Brandarar sem gera grín að heilu þjóðunum eru oft fyndnir. Brandarar sem alhæfa um heilu hópana eru það almennt. Sem MR-ingur er ég t.d. alinn upp við það að hæða veslinga (nemendur verslunarskóla Íslands, eða vÍ). Sem fyrrum Árbæingur hef ég heyrt margar alhæfingar um fólk úr Breiðholti og Grafarvogi. Sem starfsmaður í verkfræðideild fyrirtækis finnst mér fyndið að alhæfa um verkefnastjórana, starfsmannadeildina og fleiri. 

Sem frjálshyggjumaður finnst mér líka fyndið að lesa brandara sem alhæfa um fólk með annars konar pólitískar hugsjónir (eða hugsjónaleysi). 

Sem betur fer hefur pólitískur rétttrúnaður ekki náð tökum sínum á bröndurum af þessu tagi. Pólitískur rétttrúnaður hefur að mestu útrýmt bröndurum um þeldökka og nasista, svo dæmi sé tekið ("Hver er munurinn á svertingja og körfubolta?", "Hvað komast margir Gyðingar fyrir í Volkswagen bjöllu?").

Brandarar fá okkur til að hugsa um marga hluti og svartur húmor fær okkur jafnvel til að hugleiða ýmis alvarleg vandamál í samfélaginu sem við gerðum annars ekki.

Megi sem flestir brandarar um sem flesta og sem flest vera sagðir um alla framtíð!

Hér er svo að lokum einn frumsaminn (ekki mjög góður samt):

Hver er munurinn á Vinstri-grænum og Pírötum?
Vinstri-grænir vilja stela peningunum þínum en Píratar vilja stela innihaldi tölvu þinnar. 


mbl.is Er eitthvað til að grínast með?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunamannastjórnin?

"Fulltrúar fjögurra stjórnmálaflokka, sem stefna að því að mynda nýja ríkisstjórn, munu hittast á fyrsta formlega fundi stjórnarmyndunarviðræðnanna að heimili Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, á Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi, í dag."

Það er vel til fundið að hittast í Hrunamannahreppi. Stjórnin, ef úr verður, gæti þá heitið Hrunamannastjórnin.

Framundan er áfall á alþjóðlegum fjármálamarkaði sem verður engu minna en það árið 2008, og jafnvel miklu verra því heilu ríkin gætu sogast niður í gjaldþrotaholuna sem gleypti fyrst og fremst banka árið 2008. Búið er að blása í hlutabréfabólur, fasteignaverð víða um heim er í hæstu hæðum og skuldirnar víða geigvænlegar og þola ekki kommutölu í vaxtahækkun, sem þó er óumflýjanleg eftir stanslausa peningaprentun í 10 ár. Jarðvegurinn hefur verið lagður. Núna vantar bara þetta "eitthvað" sem hrindir dómínókubbunum af stað.

Ísland er að mörgu leyti betur statt en mörg ríki og mun betur statt en árið 2008 að mörgu leyti, fyrir utan að ríkið skuldar of mikið og allir skattar eru í hæstu hæðum.

Hið komandi alþjóðlega hrun mun samt ekki hlífa Íslendingum. Margir erlendir markaðir munu þurrkast út og krónan mun veikjast. Það leiðir til verðbólgu og þess að öll verðtryggð lán hækka. Stjórnvöld munu ekki hafa náð að greiða upp skuldir sínar (enda stendur það ekki til) og það er lítið svigrúm til skattahækkana sem einhverju máli skipta nema gramsa dýpra í vösum almenns launafólks, sem um leið missir getuna til að borga af eigin lánum.

Þetta verður eitthvað.

Að ríkisstjórnin sem situr heiti Hrunamannastjórnin væri því ákaflega viðeigandi. 


mbl.is Funda heima hjá Sigurði Inga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstristjórn, og hvað svo?

Nú eru kosningar yfirstaðnar og stjórnarmyndunarviðræður hafnar undir forystu Vinstri-grænna.

Nú spyr ég, í fullri einlægni: Við hverju má búast af vinstristjórn?

Það er búið að lofa auknum ríkisútgjöldum. Ég held að enginn sé að reyna kjafta sig út úr því. Það er líka búið að lofa því að fjármagna þau með hærri sköttum. Ég held að enginn reyni heldur að kjafta sig út úr því.

Nú þegar hafa ríkisútgjöld aukist mikið. Sá vöxtur hefur aðallega verið fjármagnaður með því sem mætti kalla góðærisskattheimtu: Skattskyldar tekjur hafa aukist mjög og því duga óbreyttar eða örlítið lækkandi skattprósentur til að fjármagna aukin ríkisútgjöld.

Þetta dugir samt vinstriflokkum seint. Þeir kalla líka svona tegund vaxtar á ríkissjóði "vúdú-hagfræði", þ.e. sú hagfræði sem segir að ef ríkisvaldið minnkar skattheimtu þá eykst vöxtur og velmegun hins frjálsa markaðar sem borgar þá um leið meira í skatta, jafnvel þótt skattprósentur lækki og sumar jafnvel hverfi alveg. 

Vinstrimenn munu því ekki treysta á "vúdú-hagfræðina" til að stækka ríkissjóð. Nei, þeir munu hækka skatta og bæta við sköttum. Vonandi dylst það engum.

Spurningin er bara: Á hvern á að hækka skatta?

Á það hefur verið bent að til að ríkið geti krafsað í meira en örfáa milljarða þurfi að hækka skatta á miðstéttina. Hátekjuskattar munu því aftur leggjast á miðtekjur. 

Annar möguleiki er að ríkið safni skuldum. Vinstrimenn hafa aldrei verið feimnir við slíkt, jafnvel á þenslutímum þegar ríkið ætti að vera draga saman útgjöld eins hratt og hægt er.

Þriðji möguleikinn er að forgangsraða öðruvísi og hætta fjármögnun á ýmsum hlutum ríkisrekstursins sem koma kjarnakjósendum vinstrimanna lítið við, t.d. lista- og menningarstarfsemi, landbúnaði og sendiráðum. Vinstrimenn hafa samt aldrei lagt niður nokkurn afkima ríkisreksturs. Aldrei. Mun það breytast? 

Katrín Jakobsdóttur kemur vel fyrir og talar að jafnaði skýrt. Núna er samt algjör þoka í kringum hana og hennar ásetning. Veit einhver hvernig þetta fer? 


mbl.is Viðræður hefjast formlega í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löggjafinn sem siðapostuli

Það eru til tvenns konar lög.

Fyrri tegundin snýst um að hindra glæpi. Það eru lög sem taka á ofbeldi, þjófnuðum, ógnum og árásum.

Seinni tegundin snýst um að framleiða glæpi. Það eru lög sem gera friðsamt, ofbeldislaust og sjálfviljugt samstarf einstaklinga að afbroti.

Seinni tegund laganna er mjög í tísku, sérstaklega hjá þeim sem hafa gefist upp á að sannfæra aðra um málstað sinn með rituðu eða töluðu máli og vilja nú bara að allir sem fylgja ekki eigin sannfæringu fari í grjótið.

Er ekki kominn tími til að afnema öll lög af hinni síðari tegund og hlúa þess í stað betur að lögum sem eiga að hindra glæpi?


mbl.is Segir kannabissúkkulaðimálið vera einstakt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband