Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2016

Þegar framboð og eftirspurn mætast ekki

Hvað getur það kallast þegar framboð og eftirspurn mætast ekki? Þetta virðist vera staðan á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Margir sem vilja kaupa eru þess í stað að leigja. Afborganir yrðu yfirleitt ekki hærri við kaup en þetta fólk greiðir nú þegar í leigu. Sumir eiga smávegis sparifé en aðrir ekki, m.a. af því að leigan er svo há að ekkert svigrúm er til að spara.

Hvað geta svona aðstæður kallast?

Sumir myndu segja að þetta sé dæmi um svokallaðan markaðsbrest og að til að leiðrétta hann þurfi hið opinbera að dæla skattfé í byggingaframkvæmdir og tapa svo á rekstri leiguíbúða (eða verðleggja neðar en markaðsverð, sem er önnur leið til að segja að ávöxtun á skattfénu á að vera lægri en hún yrði ef peningarnir yrðu eftir í vösum skattgreiðenda).

Svo er hins vegar ekki. Þetta ástand er dæmi um slæmar afleiðingar ríkisafskipta. Ríkisvaldið heldur úti svo löngum lista af skilyrðum og reglum vegna bygginga að það væri oftar en ekki bilun fyrir einkafyrirtæki að ætla sér að hagnast á þeim. Reglurnar eru skraddarasaumaðar í kringum kröfur þingmanna og opinberra starfsmanna sem búa í rúmgóðu húsnæði á góðum svæðum. Þetta fólk gerir kröfu um lyftu, svalir, geymslu og fullbúið eldhús og sér ekki hvernig nokkur maður getur viljað eitthvað annað. Fyrir vikið rísa bara rándýrar og risastórar íbúðir sem er ekki á færi allra að kaupa.

Nú á að gefa fólki leyfi til að beina sparnaði sínum úr læstum reikningum sem það hefur litla stjórn á og yfir í húsnæðiskaup. Það er út af fyrir sig allt í lagi - valið á að fá að vera til staðar fyrir þá sem vilja. Þetta er hins vegar engin lausn á vandamálinu fyrir flesta. Að afnema megnið af byggingareglugerðum landsins væri rökréttara skref. Þá væri hægt að byggja ódýrt og láta þannig framboð og eftirspurn mætast. 


mbl.is Leysir ekki neinn bráðavanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilaskylda á gjaldeyri - kanntu annan!

Lög eða réttara sagt reglur um skilaskyldu á gjaldeyri eru sennilega einhver minnst virtu opinberu fyrirmæli Íslandssögunnar.

Samkvæmt þeim á fólk sem á erlendan gjaldeyri að labba af fúsum og frjálsum vilja í næsta banka og skipta á honum og íslenskum krónum.

Það er eflaust leit að þeim sem hefur gert þetta ótilneyddur (t.d. af því tollurinn gómaði viðkomandi með þykkt seðlabúnt á leið til landsins). 

En þessi fyrirmæli leiða hugann að öðrum álíka vanvirtum fyrirmælum hins opinbera.

Ein snúa að áfengisneyslu ungmenna. Samkvæmt lögum má Íslendingur á aldrinum 18-19 ára ekki kaupa áfengi, fá það gefins, vera afhent það, ekki brugga það og almennt ekki komast yfir það. Hafi hann hins vegar af einhverjum ástæðum komist yfir áfengi má hann, sem sjálfráða einstaklingur, eiga það og neyta þess. Þessu má hlæja að.

Önnur vanvirt fyrirmæli snúa að öllu niðrandi tali um útlendinga, konur, þeldökka, múslíma, innflytjendur, gleraugnagláma, offitusjúklinga og hvaðeina. Þeir sem hafa uppi niðrandi tal um þessa hópa eru ýmist sóttir til saka - hafir þeir brotið einhver lög sem skerða tjáningarfrelsið - eða fá yfir sig vanlætisskammt. En hvað gerist þegar fólk fær ekki að tjá sig (af hvaða hvötum sem er)? Hverfur talið? Nei. Það færist bara. Menn byrja að tjá sig við aðra sem eru sama sinnis og án þess að nokkur sé til staðar til að rökræða við viðkomandi. Það sem byrjar sem saklaus athugasemd vindur upp á sig í skjóli frá almennri umræðu og breytist jafnvel í blússandi hatursumræðu sem brýst svo fram á yfirborðið á einhvern óvæntan og jafnvel óheppilegan hátt. Nær væri að leyfa öllum að tjá sig og bjóða til yfirvegaðrar rökræðu. En nei, fyrirmælin skulu standa og síðan krossleggja menn fingur og vona að þau dugi. Sem þau gera auðvitað ekki. 

Enn eitt dæmið um vanvirt fyrirmæli hins opinbera snúa að svartri atvinnustarfsemi. Nú eru skattar á laun, vinnu, þjónustu, innkaup og hvaðeina svo háir að eingöngu örfáir geta fjármagnað ýmsa vinnu löglega. Menn grípa því oftar en ekki til hinnar svokölluðu svörtu atvinnustarfsemi. Siggi frændi getur lagað vaskinn fyrir fimm þúsundkall. Binni félagi getur skipt um púströr. Lási lögga getur reddað þér sænsku munntóbaki sem tollurinn gerði upptækt hjá einhverjum unglingnum á leið til landsins. Það mætti jafnvel segja að án þessarar svörtu atvinnustarfsemi lægju bílar, hús og innbú mun víðar undir skemmdum en raunin er í dag. Hið svarta bætir upp fyrir skaðsemina af skattheimtunni á þá hvítu. Þetta kannast bókstaflega hver einasti Íslendingur við.

En já, skilaskylda á gjaldeyri verður nú rýmkuð. Kanntu annan!


mbl.is Dregið úr höftum á heimili og fyrirtæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bönnum líka hnetusmjör

Nú verða settar hömlur á verðtryggingu á Íslandi. Gott og vel. Ríkisvaldið ræður öllu og getur leyft hvað sem er og bannað hvað sem er.

Verðtryggingin er samt ekki vandamálið. Það er ríkiseinokun á peningaútgáfu á Íslandi hins vegar. 

Neytendur gera miklar kröfur til framleiðenda síma, sjónvarpa og hlaupafatnaðar. Þeir prófa eitt og annað og velja að lokum það sem hentar þeim best með tilliti til verðs, gæða, útlits, áferðar, hönnunar og fleira.

Þessi tilraunastarfsemi með peninga er í raun bönnuð. Ekki er hægt að hefja útgáfu annarra peninga á Íslandi en íslensku krónunnar. Allir eru þvingaðir til að klæðast sama litlausa straupokanum og þola öll þau óþægindi sem honum fylgja. Sumir kunna að meta einsleitnina og aðgengið að þessum straupokum. Öðrum klæjar í klofinu eða eru jafnvel með ofnæmi fyrir efninu. 

Íslenska krónan er stundum gefin út í miklu magni og stundum ekki. Sé magnið aukið mikið minnkar kaupmáttur hennar. Afleiðingin er verðbólga - hækkandi verðlag í íslenskum krónum. Verðtryggingin veitir lánveitendum vernd fyrir þessu hringli með krónuna. Nú á að setja hömlur á þá vörn. Getur einhver giskað á hverjar afleiðingarnar verða?


mbl.is Verðtryggingin ekki afnumin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ertu búin(n) að ráðstafa þínum skattahækkunum?

Á næstu mánuðum verður kosið. Hvort sem kosningar fara fram í haust eða samkvæmt fyrirmælum stjórnarskrár næsta vor er aukaatriði. Kosningar nálgast. 

Skoðanakannanir benda til að flokkar sem vilja skattahækkanir muni ná meirihluta. Í raun má setja alla stjórnmálaflokka í þann hóp en e.t.v. á Sjálfstæðisflokkurinn síst heima þar af þeim flokkum sem eiga þingmenn á Alþingi í dag.

Gott og vel. Skattahækkanir eru líklega framundan. Spurningin er þá bara hvernig skattgreiðendur ætla að fjármagna þær.

Ert þú búin(n) að ráðstafa þínum skattahækkunum?

Fyrir suma þýða komandi skattahækkanir að sumarfríið verður fábrotnara. Fyrir aðra þýðir það að gamla druslan í bílastæðinu þarf að tóra aðeins lengur. Fyrir enn aðra þýða komandi skattahækkanir að sparnaðurinn er ekki að fara aukast og fyrir suma jafnvel að hann þurfi að dragast saman.

Afleiðingar komandi skattahækkana eiga eftir að bitna á öllum einhvern veginn, beint eða óbeint. Sumir missa vinnuna og fara á bætur því atvinnurekandinn þurfti að skera niður í rekstrinum til að eiga fyrir sköttunum. Sumir missa sparnaðinn. Sumir missa af tækifærum til að kaupa öruggari bifreið. Sumir þurfa jafnvel að fresta barneignum eða selja eigur sínar.

Ég bið fólk um að byrja nú þegar að hugleiða hvernig það ráðstafar sínum skattahækkunum svo sársaukinn vegna þeirra verði sem minnstur.


Kostir og gallar kosninga í haust

Það að kjósa í haust hefur bæði kosti og galla. Kostanirnar og gallarnir eru ekki þeir sömu fyrir stjórnarflokka og stjórnarandstöðu. 

Kostirnir fyrir stjórnarandstöðuna er að hún kemst hugsanlega til valda og nær meirihluta og myndar ríkisstjórn og getur hafist handa við að auka útgjöld, bæta við skuldir ríkisins og hræra í stjórnskipan landsins. Ísland færist skrefum nær sósíalísku þjóðskipulagi sem er draumur margra sem sækjast eftir þingmennsku. 

Ókostirnir fyrir stjórnarandstöðuna er að hún er yfirleitt illa undirbúin undir kosningar. Kosningaloforðin eru ekki ekki tilbúin. Ekki er búið að ákveða hvern eigi að ræna og hverja eigi að niðurgreiða nema að takmörkuðu leyti. 

Kostirnir fyrir stjórnarflokkana er að með því að henda þeim frá völdum er erfitt að saka hana um að hafa svikið loforð sín því hún fékk ekki að klára kjörtímabilið. Gjaldeyrishöftin standa því ekki eftir á þeirra ábyrgð svo dæmi sé tekið. Að vísu finnst mér að ríkisstjórnin ætti að hafa unnið mun hraðar að því að vinda ofan af Jóhönnu-ósómanum (sérstaklega öllum skattahækkunum Steingríms J.) en það er önnur saga. 

Ókostirnir fyrir stjórnarflokkana eru að samkvæmt könnunum ætla kjósendur að henda þeim frá völdum og við taka önnur Jóhönnu-ár með tilheyrandi óvissu og þjáningum fyrir allt og alla (nema innvígða). 

Ég er auðvitað svolítið litaður í greiningu minni. Ég er frjálshyggjumaður og get í besta falli kosið síst lélega kostinn í sérhverjum kosningum. Þó finnst mér skárra að núverandi ríkisstjórn sitji fram á næsta vor en að Birgitta Jónsdóttir geti myndað ríkisstjórn með vinstriflokkunum.


mbl.is „Þessari störukeppni verður að ljúka“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisvaldið í borðspili

Flestir kannast við borðspilin Matador og Monopoly sem snúast um að kaupa og selja og kreista leigu út úr þeim sem lenda á tilteknum reitum. Menn spila oft kæruleysislega og taka áhættur enda eru þátttakendur ekki að spila með eigin peninga. Auðvitað er metnaður að þéna sem mest og vinna spilið en lengra nær það samt ekki. Spilað er með gervipeninga og leikendur eru jafnvel staddir eftir spilið hvort sem þeir vinna eða ekki.

Þegar ríkisvaldið reynir að reka fyrirtæki er svipuð staða í gangi. Stjórnmála- og embættismenn reyna að græða og vinna ákveðna leiki en eru ekki að spila með eigin peninga. Þeir fá sín laun hvort sem spilið gengur upp eða ekki.

Menn geta alveg ímyndað sér muninn á hvötum þegar þetta er staðan samanborið við viðskipti einkaaðila sem leggja eigið fé undir. Hvatarnir eru einfaldlega aðrir.

Sumir vilja meina að sá sem spilar borðspil spili með betra hugarfari eða göfugra - hann fjárfestir í sjálfbærni, umhverfi, jafnrétti og til langtíma á meðan sé sem spilar með eigið fé spilar til skamms tíma og af annarlegum hvötum. Þessu er ég ósammála. 

Íslenska ríkisvaldið á auðvitað að koma sér út úr rekstri flugvalla með öllu. Til vara ætti að minnka hlut ríkisins til mikilla muna. Hér má leita fordæma í hinum Norðurlandanna (frekar en til Sovétríkjanna sálugu eins og Íslendingum er gjarnan tamt). Til dæmis er Kaupmannahafnarflugvöllur að mestu leyti í eigu einkaaðila. Margir óttuðust það versta þegar ríkisvaldið seldi ráðandi hlut sinn á sínum tíma en enginn kvartar í dag enda flugvöllurinn einn sá besti í heimi að margra mati.

Borðspil eru skemmtileg en eiga ekki að spilast með eignir annarra.  


mbl.is Of mikil áhætta fyrir ríkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sparnaðarhugmynd fyrir ríkisvaldið

Fjöldi nefnda, starfshópa og verkefnastjórna innan hins opinbera er gríðarlegur. Að sumu leyti er það skiljanlegt. Þingmenn eru oft að fást við flókin mál sem erfitt er að taka afstöðu til og þá er auðvitað leitað ráðgjafar frá öðrum sem þekkja til. Stundum eru stjórnmálamenn með frestunaráráttu og ýta málum frá sér með því að setja þau í nefnd eins og sagt er. Þannig nefndir eru jafnvel ódýrari fyrir skattgreiðendur en að láta einhvern ráðherrann taka ákvörðun. 

Þingmenn geta hins vegar nýtt sér nefndafyrirkomulagið með öðrum hætti. Þeir geta nýtt það sem innblástur í sparnaðaraðgerðir fyrir hið opinbera og vísbendingu um hvar megi einkavæða tiltekinn hluta ríkisrekstursins.

Þetta færi þannig fram að eitthvað mál kemur á borð hins opinbera, t.d. hvar eigi að reisa spítala, leggja veg, byggja skóla eða reisa virkjun. Ráðherra finnst málið erfitt viðureignar. Hann hugsar ósjálfrátt að best sé að stofna nefnd. Hann ætti hins vegar að hugsa: Af hverju er ég, kjörinn fulltrúi, að eiga við svona tæknilegt úrlausnarefni? Af hverju eru einkaaðilar ekki að finna út úr þessu með viðskiptum, samningum, ráðgjöf sérfræðinga og kaupum og sölu á aðföngum, svo sem landi og nýtingarrétti? 

Næsta spurning sem ætti að leita á ráðherra er: Hvernig kem ég þessu hvimleiða máli, sem færi yfirleitt beint í nefnd, af verkefnadagskrá hins opinbera og til einkaaðila?

Því höfum eitt á hreinu: Opinber rekstur er aldrei rétt verðlagður og minnir á mann að fálma út í loftið í dimmu herbergi í leit að stystu leið að dyrunum. Til að úthluta auðlindum, verðmætum og fé rétt (eða sem réttast) þarf að hlusta á skilaboð hagnaðar og taps af rekstri. Opinber rekstur býr ekki við slíkt rekstraraðhald. Nefndir leysa ekki það vandamál.

Þarf að stofna nefnd? Nei, það þarf að einkavæða. 


mbl.is Rúmlega 1,1 milljarður fyrir 536 nefndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtrygging er viðbragð við vandamáli en ekki vandamálið í sjálfu sér

Íslenska ríkisvaldið hefur ásetning um að gefa út gjaldmiðil: Íslensku krónuna. Útgáfan sem slík hefur alltaf gengið ágætlega. Að hafa hemil á útgefnu magni hefur ekki gengið eins vel. 

Verðbólga er afleiðing aukningar á peningamagni í umferð. Hún kemur fram þegar aukið magn peninga keppir um svipað magn af vörum og þjónustu. Verð er einfaldlega sú upphæð sem verður til þegar framboð og eftirspurn nær jafnvægi. Verðbólga er niðurstaðan þegar eftirspurnin eykst en framboðið helst óbreytt eða svipað.

Verðtrygging er viðbragð við verðbólgunni, þ.e. hinu aukna peningamagni í umferð. Hún er ekki vandamálið. Henni var ekki komið á af einhverri léttúð. Lánamarkaðir voru ekki til staðar á Íslandi og verðtryggingin var viðbragð við því. 

Ef menn banna verðtrygginguna eða setja hömlur á hana sem valkost fyrir þá sem vilja (því ekki er hún lagaskylda) þá geta menn búist við afleiðingum.

Auðvitað væri réttast að íslenska ríkið léti peningaútgáfu alveg eiga sig og gerði val fólks á peningum frjálst, sem og útgáfu á peningum. Við því er samt ekki að búast í náinni framtíð. Á meðan er verðtryggingin í einhverri mynd e.t.v. nauðsynleg til að dempa óhagræðið af ríkisafskiptunum. 


mbl.is Verða Íslandslán bönnuð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðaratkvæðagreiðsluflokkarnir

Það virðist vera hálfgert lögmál í íslenskum stjórnmálum að þeir sem tala mest fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum vilja ekki - þegar á hólminn er komið - fara út í slíka áhættu. Þeir ákveða yfirleitt að lokum að knýja bara á samþykkt Alþingis. 

Kjósendur láta vonandi ekki táldraga lengur sig með gylliboðum um þjóðaratkvæðagreðslur um hápólitísk mál. Stjórnmálin munu þar alltaf hafa betur. 


mbl.is Kjósa um ESB við upphaf samstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðmæti fyrir hvern?

Menn tala gjarnan um að til séu verðmæti sem virðast samt ekki vera verðmæt fyrir neinn. Munir, byggingar og annað er talið vera rosalega verðmætt en enginn virðist samt vilja kaupa þau eða halda við. 

Hvað gerist þá?

Þá eru skattgreiðendur boðaðir á staðinn og þeir látnir greiða fyrir varðveislu og viðhald. Þeir eru ekki spurðir mjög kurteisislega. Þeim er bara sagt að um verðmæti sé að ræða sem þeir þurfi að greiða fyrir án þess að eignast neitt í staðinn.

Ég legg til að gamlir skúrar sem einhver kallar verðmæti verði seldir til þeirra sem kalla þá verðmæti og hinir nýju eigendur geta svo gert það sem þeir vilja - varðveitt, viðhaldið eða valtað til jarðar. 


mbl.is Menningarverðmæti í mikilli niðurníðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband