Bönnum líka hnetusmjör

Nú verða settar hömlur á verðtryggingu á Íslandi. Gott og vel. Ríkisvaldið ræður öllu og getur leyft hvað sem er og bannað hvað sem er.

Verðtryggingin er samt ekki vandamálið. Það er ríkiseinokun á peningaútgáfu á Íslandi hins vegar. 

Neytendur gera miklar kröfur til framleiðenda síma, sjónvarpa og hlaupafatnaðar. Þeir prófa eitt og annað og velja að lokum það sem hentar þeim best með tilliti til verðs, gæða, útlits, áferðar, hönnunar og fleira.

Þessi tilraunastarfsemi með peninga er í raun bönnuð. Ekki er hægt að hefja útgáfu annarra peninga á Íslandi en íslensku krónunnar. Allir eru þvingaðir til að klæðast sama litlausa straupokanum og þola öll þau óþægindi sem honum fylgja. Sumir kunna að meta einsleitnina og aðgengið að þessum straupokum. Öðrum klæjar í klofinu eða eru jafnvel með ofnæmi fyrir efninu. 

Íslenska krónan er stundum gefin út í miklu magni og stundum ekki. Sé magnið aukið mikið minnkar kaupmáttur hennar. Afleiðingin er verðbólga - hækkandi verðlag í íslenskum krónum. Verðtryggingin veitir lánveitendum vernd fyrir þessu hringli með krónuna. Nú á að setja hömlur á þá vörn. Getur einhver giskað á hverjar afleiðingarnar verða?


mbl.is Verðtryggingin ekki afnumin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Geir.

"Verðtryggingin er samt ekki vandamálið. Það er ríkiseinokun á peningaútgáfu á Íslandi hins vegar."

Báðar þessar fullyrðingar eru rangar. Í fyrsta lagi er ekki "ríkiseinokun" á peningaútgáfu. Þvert á móti eru það bankarnir sem einoka í sameiningu peningaútgáfuna, með því að gefa út um 95% af öllu peningamagni í umferð. Seðlabankinn fyrir hönd ríkisins gefur ekki út nema þau 5% sem eru í formi seðla og skiptimyntar. Aftur á móti er það hárrétt hjá þér að offramleiðsla þeirra á peningum skapar verðbólgu, og þess vegna er skalegt að leyfa þeim að fara með þetta valdeins óheft og þeir gera. Í öðru lagi er það rangt hjá þér að verðtrygging sé ekki vandamál í þessu samhengi, því það er einmitt á grundvelli hennar sem megnið af peningaprentun þeirra fer fram.

Þetta útskýrði ég rækilega fyrir þér í athugasemd við aðra nýlega færslu þína þar sem verðtrygging var umfjöllunarefnið:

http://geiragustsson.blog.is/blog/geiragustsson/entry/2177827/#comment3630318

Ef þú ert ekki búinn að lesa hana ráðlegg ég þér að gera það, og ef þú ert búinn að því þá ráðlegg ég þér að lesa hana aftur.

Hér eru aðalatriðin samandregin:

    • Of mikil verðbólga er skaðleg.

    • Offramleiðsla á peningamagni er helsta orsök of mikillar verðbólgu.

    • Helsta orsök offramleiðslu á peningamagni er verðtrygging útlána.

    • Verðtryggð útlán eru því helsta orsök of mikillar verðbólgu.

    • Þar af leiðandi eru verðtryggð útlán þjóðhagslega skaðleg.

    Með öðrum orðum, þá er verðtrygging alvarlegt vandamál, nema fyrir þá sem eru verndaðir fyrir verðbólguáhrifum hennar þ.e lánveitendurna.

    "Getur einhver giskað á hverjar afleiðingarnar verða?"

    Auðveldlega. Brotthvarf skaðvalds er til þess fallið að draga úr skaðsemi. Afleiðingarnar yrðu því minna tjón og betra ástand peningakerfisins.

    Guðmundur Ásgeirsson, 15.8.2016 kl. 22:36

    2 Smámynd: Geir Ágústsson

     Sæll Guðmundur,

    Takk fyrir fróðlegar athugasemdir.

    Ég þarf samt að biðja um hjálp. Hvernig getur leiðréttining á höfuðstól (fyrir verðbólgu) í sjálfu sér aukið peningamagnið? 

    Segjum að ég láni 1000 kr. frá þér í gjaldmiðli þar sem grunnféð er frosið, segjum í 1 milljarði. Hvernig er verðtryggingin að fara auka við peningamagnið? (Ég tek fram að ég er ekki að véfengja neitt, bara að reyna skilja.)

    Geir Ágústsson, 16.8.2016 kl. 03:45

    3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

    Sæll Geir.

    Þetta er útskýrt rækilega í rannsóknarskýrslunni sem ég vísaði til, ég hvet þig til að lesa hana. Athugaðu samt að þessi áhrif verða ekki í því dæmi sem þú nefnir þar sem þú lánar mér eða venjulegur aðili lánar öðrum venjulegum aðila, að þá prentast ekki peningar. Bankar eru hinsvegar ekki venjulegir aðilar og þegar þeir veita lán þá prentast peningar. Þegar banki hefur veitt verðtryggt lán og lánið hækkar vegna verðbólgu, þá prentast líka peningar rétt eins og veitt hefði verið viðbótarlán sem nemur hækkuninni, jafnvel þó að lántakandinn hafi hvorki beðið um viðbótarlán né fengið neitt viðbótar lánsfé afhent. Í því liggur kjarni vandamálsins.

    Hér má nálgast skýrsluna þar sem þetta er rakið og greint í smáatriðum: [1302.4112] An examination of the effect on the Icelandic Banking System of Verðtryggð Lán (Indexed-Linked Loans)

    Guðmundur Ásgeirsson, 16.8.2016 kl. 14:32

    4 Smámynd: Geir Ágústsson

    En er það ekki galdurinn? Að til að bæta upp fyrir kaupmáttarrýrnun höfuðstólsins þá bætast peningar við hann? Og að hinn möguleikinn - að höfuðstóllinn rýrni í kaupmætti - sé vandamálið sem leiddi til verðtryggingarinnar á sínum tíma?

    Nú er verðtrygging á mörgum lánum og peningamagn er nokkuð stöðugt. Verðbólga er líka lítil sem engin. Fólk er að lána eins og enginn sé morgundagurinn. 

    En gott og vel, ég sæki þessa skýrslu og finn tíma fyrir hana. 

    Geir Ágústsson, 16.8.2016 kl. 17:35

    5 identicon

    Guðmundur: Ágætis greining. Hún gæti líka vel verið nothæf sem ágætis byrjun í núverandi stjórnmálaumhverfi, þar sem oft er erfitt að ráðast að rót vandans og menn neyðast til að lagfæra vandamál eins regluverks með því að bæta við öðru regluverki - eða taka burt eitt regluverk sem enginn þörf hefði verið á til að byrja með hefði annað regluverk ekki verið til staðar.

    Hver er kjarni vandamálsins að mínu mati? Andstaða flestra gegn einstaklingsfrelsinu. Ef einhverjir tilteknir aðilar vilja virkilega, af fúsum og frjálsum, nota gjaldmiðil með mikla verðbólgu þar sem bankarnir framleiða 95% peningamagnsins og gefa út verðtryggð lán, þá á þeim að vera frjálst að gera það. Ef hins vegar aðrir vilja nota gull, bitcoin eða svissneska franka og stunda viðskipti við banka sem framleiða nákvæmlega enga peninga þá eiga þeir líka að geta gert það án þessa að vera handsamaðir og settir í fangaklefa.

    Í þessum skilningi er vissulega ríkiseinokun á peningaútgáfu í dag. Samkeppni er ekki leyfð.

    RS (IP-tala skráð) 16.8.2016 kl. 18:01

    6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

    Geir.

    "Og að hinn möguleikinn - að höfuðstóllinn rýrni í kaupmætti - sé vandamálið sem leiddi til verðtryggingarinnar á sínum tíma?"

    Jú en það er líka til önnur leið til að ná sama markmiði. Það er sú sem er notuð í öllum öðrum löndum. Hún felst í því að verðbótaþáttur sé einfaldlega innifalinn í vöxtunum. Það prentast nefninlega engir peningar þegar vextir eru greiddir, og það veldur þar af leiðandi ekki verðbólgu. Þessi aðferð var meira að segja notuð hérna á Íslandi, áður en verðtrygging höfuðstóls var gerð að meginreglu með gildistöku svokallaðra Ólafslaga nr. 13/1979. Ef vel er að gáð þá eru slík lán nú þegar í boði hér á landi, og eru í auglýsingum bankanna kölluð "óverðtryggð lán". Það er reyndar villandi vegna þess að frádreginni verðbólgu eru raunvextir þeirra beinlínis hærri en verðtryggðu lánanna, sem er ekki síður galið. Svo dæmi sé tekið þá eru lægstu breytilegu vextir slíkra lána nú rúmlega 7% á meðan verðbólga er aðeins 1% sem þýðir að bankinn er að fá 6% raunvexti af slíku láni, og það er er jafnvel betra en af verðtryggða láninu. Ef þessir vextir myndu endurspegla sömu raunvexti og á verðtryggðum lánum þá ættu þeir með réttu að vera undir 5% núna.

    RS. Þér er nú þegar frjálst að nota gull, bitcoin eða svissneska franka ef þú finnur einhvern sem vill taka við þeim sem greiðslu fyrir eitthvað. Þú getur hinsvegar ekki átt viðskipti við banka sem framleiðir ekki peninga, því samkvæmt núgildandi skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki þá væri það ekki banki, heldur eitthvað annað fyrirbæri. Eina leiðin til þess væri því að breyta lögunum þannig að bönkum verði bannað að framleiða peninga. Hér er athyglisverð þingsályktunartillaga þar sem er lagt til að gerð verði úttekt á fýsileika þess að koma á umbótum í þá veru:

    Umbætur á fyrirkomulagi peningamyndunar (169. mál, 145. löggjafarþing)

    Guðmundur Ásgeirsson, 16.8.2016 kl. 20:34

    7 Smámynd: Geir Ágústsson

     Guðmundur,

    Ég tók einmitt eftir þessu frumvarpi og það hefur vakið athygli erlendis, t.d. hér þar sem það fær blandaða dóma (sem skref í rétta átt en engin lausn á vandamálum peningafjöldaframleiðslu ríkisins). 

    Geir Ágústsson, 17.8.2016 kl. 06:20

    8 Smámynd: Geir Ágústsson

    En það er rétt að breytilegir vextir koma að sumu leyti í stað verðtryggingar. Ég er einmitt með lán í Danmörku á breytilegum vöxtum (sem verður bráðum úr sögunni vona ég). Gallinn er að bankinn leiðréttir ekki bara fyrir verðbólgu heldur einnig eigin lántökukostnaði og rekstrarkostnaði. Vextirnir hafa farið úr 5% í 9% og aftur niður í 5% á örfáum árum á meðan verðbólga (sú sem hið opinbera gefur út) hefur verið lítil sem engin. 

    Best er auðvitað að halda peningamagni stöðugu, alltaf. Menn hafa reynt ýmsar leiðir til að treysta hinu opinbera og skjólstæðingum þess fyrir þeirri framkvæmd. Í stuttu máli hefur það ekki borið árangur. Evran og dollarinn eiga inni mikla rýrnun á kaupmætti sem og yenið og margir aðrir gjaldmiðlar. Næsta hrun verður svakalegt!

    Geir Ágústsson, 17.8.2016 kl. 06:23

    9 identicon

    Guðmundur: "Þér er nú þegar frjálst að nota gull, bitcoin eða svissneska franka ef þú finnur einhvern sem vill taka við þeim sem greiðslu fyrir eitthvað." Þetta er ekki alveg rétt, myndi ég segja. Í fyrsta lagi verða menn að mæla allt í krónum og borga skatta í krónum. Það getur engin alvöru samkeppni átt sér stað ef þú þarft að borga fjármagnstekjuskatt bara vegna þess að þú fluttir sparifé þitt á milli mismunandi gjaldmiðla (og virðisaukaskatt fyrir marga gjaldmiðla eins og bitcoin, gull, silfur, rækjur og sauðfé). Og svo eru náttúrulega gjaldeyrishöft í dag, en það er annað mál. Það gætu verið aðrir yfirburðir sem ríkið gefur krónunni. Það er a.m.k. ýmislegt sem þyrfti að afnema til að fá fram alvöru gjaldmiðlasamkeppni á Íslandi.

    "Eina leiðin til þess væri því að breyta lögunum þannig að bönkum verði bannað að framleiða peninga." Ég er ósammála. Önnur leið væri að hætta að vera alltaf að "banna" þetta og "leyfa" hitt. Með öðrum orðum, að láta fólk í friði. Ef einhverjir vilja virkilega nota gjaldmiðil sem tilteknir aðilar geta framleitt þá eiga þeir að geta gert það ef þeir vilja. Staðallinn á að vera einstaklingsfrelsi.

    RS (IP-tala skráð) 17.8.2016 kl. 10:15

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband