Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013
Föstudagur, 30. ágúst 2013
Japan á leið í þynnku (eftir fylleríið)
Í Japan vinna nú yfirvöld hörðum höndum að því að skapa falskt góðæri sem mun ljúka á sársaukafullri aðlögun fyrir launþega, eigendur sparifjár og þá sem hafa skuldsett sig.
Fyrsta skrefið er að auka peningamagn í umferð. Þetta lækkar vexti og gefur fjárfestum þau fölsku skilaboð að nægur sparnaður sé til staðar til að fjármagna kaup á dýrum fjárfestingum (t.d. húsnæði eða verslunrrými í verslunarmistöð) í framtíðinni.
Þeir sem ætla sér að spara er sagt að vextir séu ekki háir og þeir fara því að eyða. Eftirspurn eftir neysluvarningi eykst, en fjárfestingar leita í dýr langtímaverkefni í stað þess að leita í aukna framleiðslu á neysluvarningi. Misræmið þarna á milli er augljóst.
Þegar rýrnun gjaldmiðilsins er orðin of mikil, og almenningur orðinn ósáttur við aukna dýrtíð (þar sem verðlag er að hækka mun hraðar en laun, og vextir á útlánum eru byrjaðir að klifra hratt upp til að bæta upp fyrir rýrnun á kaupmætti peninganna), þá verður hægt á aukningu peningamagns í umferð. Vextir hækka enda ekki annað fé til útlána en hið nýprentaða, því ekki er sparnaðinum fyrir að fara.
Niðursveifla skellur á. Tekjur fyrirtækja lækka á meðan skuldirnar standa í stað. Einstaklingar sem tóku stór lán fyrir dýrum fjárfestingum fara sömu leið. Yfirvöld gefa þá aftur í peningaprentvélarnar.
Þessu ferli hampa nú glórulausir blaðamenn og hagfræðingar frá virtustu háskólunum.
Síðan mönnum datt það í hug á 18. öld eða þar um bil að hægt væri að prenta peninga til að örva hagkerfi hefur almenningur í auknum mæli þurfa að sjá á eftir traustu peningunum sínum. Í staðinn hafa komið pappírspeningar sem ríkisvaldið eða seðlabanki þess hefur haft umsjón með.
Við þurfum gull og silfur aftur. Stjórnmálamenn geta þrátt fyrir allt ekki framleitt það í jafnmiklum mæli og rafpeninga og pappír.
Verðhjöðnun að baki í Japan? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 29. ágúst 2013
Norður-Kórea
Íbúar Norður-Kóreu eru sennilega kúgaðasta fólk jarðar. Þeir eru svo kúgaðir að þeir gera sér ekki einu sinni grein fyrir því. Ég sá heimildamynd um daginn sem sýndi fólk lýsa yfir aðdáun sinni á kúgurum sínum af mikilli einlægni en um leið af miklum ótta. Það veit að ef það hrósar ekki yfirvöldum sínum og lofar þau í hverjum andadrætti þá tekur við líf í fangabúðum; strit til dauðadags, þar sem dauðinn er sennilega meiri blessun en lífið.
Engu að síður virðist ríkja ákveðið umburðarlyndi gagnvart yfirvöldum þarna. Þau fá skuldir afskrifaðar, neyðaraðstoð og hálfgerða vorkunn. Þau eiga ekkert slíkt skilið.
Yfirvöld Norður-Kóreu eru ekki fordæmd fyrir að slátra saklausu fólki eða hneppa í þrælahald. Þau komast upp með að ræna erlendum ríkisborgurum. Þau eru í rólegheitum að byggja upp vopnabúr af langdrægum eldflaugum, útbúnum kjarnorkuoddum, og "æfa sig" í að skjóta þeim í átt að Suður-Kóreu og Japan.
Eitthvað minna hefur nú verið notað til að réttlæta innrás í ríki. Það ætla ég nú samt ekki að reyna gera. Skattgreiðendur eiga ekki að þurfa fjármagna lögregluleik stjórnmálamanna. Aldrei.
Er enginn málaliðaher að safna fé til að fjármagna leynilegt ferðalag inn í Norður-Kóreu til að myrða alla æðstu toppa hersins og Kommúnistaflokksins? Mér er illa við að segja það, en ég myndi íhuga að styrkja slíkan leiðangur. Kannski þarf ekki meira til að losa um heljartakið. Ég held að meira að segja hermenn landsins yrðu því fegnir að geta lagt byssuna á hilluna.
Norður-Kórea er víti á Jörðu fyrir þá sem fæðast þar. Er ekki hægt að gera eitthvað í því án þess að gefa stjórnmálamönnum frjálsar hendur til að kaupa atkvæði með stríðsrekstri og sjálfsupphafningu?
Lét taka fyrrverandi unnustu sína af lífi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 28. ágúst 2013
Gert upp við Icesave
Hérna er gerð ágæt grein fyrir þróun Icesave-málsins svokallaða. Icesave-málið má ekki gleymast. Í raun eru "Icesave-mál" alltaf að skjóta upp kollinum í þeim skilningi að sífellt er verið að reyna klína auknum byrðum á skattgreiðendur. Í Icesave-málinu stóðu nokkrir einstaklingar í lappirnar og fræddu almenning og forseta Íslands um ranglætið sem felst í því að moka gjaldþrotum ríkisábyrgða (beinna og óbeinna) á almenning, hvað sem lagabókstafurinn tautar og raular.
Raunveruleikinn er raunar verri en það. Hin svokallaða stjórnarskrá Íslands er meðhöndluð eins og gólfteppi til að þurrka skít af skósólum stjórnmálamanna og helstu vina þeirra. Auðlegðarskatturinn svokallaði er til dæmis af mörgum talinn vera hrein eignaupptaka í trássi við fyrirmæli stjórnarskrár. Stjórnmálamenn tala niður til þeirra sem reyna að verja sig með stjórnarskránni. Í fæstum tilvikum fá kjósendur að tjá sig um væntanlegan yfirgang stjórnvalda. Stjórnmálamenn telja sig hafa frjálsar hendur til að setja hvað sem er í lög og eiga heilt bókasafn af "ástæðum" fyrir hinni og þessari "neyðarráðstöfuninni", sem enda oft á að verða varanlegar.
Icesave-málið kenndi vonandi Íslendingum að elítan sem vill stjórna okkur hefur einfaldlega ekki alltaf rétt fyrir sér. Vonandi taka sem flestir lexíuna alla leið og hefja baráttuna fyrir stórkostlega minnkuðum völdum og umsvifum hins opinbera.
Miðvikudagur, 28. ágúst 2013
Ríkisstjórnin strax komin í tímahrak
Ríkisstjórnin er í tímahraki. Þetta hljómar kannski ótrúlega, en því skal samt trúa. Hún er í tímahraki því mörg stór mál þurfa að komast af stað, og reynslan hefur strax sýnt að ríkisstjórnin stígur varlega til jarðar og lætur háværa álitsgjafa trufla einbeitingu sína. Lítil og létt mál, eins og að senda tölvupóst til Brussel og tilkynna endalok aðlögunarviðræðna, ætla að taka ótrúlega langan tíma, svo dæmi sé tekið.
Mikilvægt er að ríkissjóður hætti að safna skuldum. Gríðarlegur niðurskurður ríkisútgjalda þarf að eiga sér stað, og samningaviðræður við lánadrottna ríkissjóðs sömuleiðis.
Þetta er samt ekki nóg. Ekki dugir að mikilvæg "kerfi", eins og heilbrigðiskerfið, drepist eins og sveltur grís á þurrum spena hins opinbera. Því þarf að koma úr snöru ríkisvaldsins og út á hinn frjálsa markað. Eilífur niðurskurður í kæfandi faðmlögum hins opinbera er engum til góðs. Heilbrigðiskerfið þarf að komast frá ríkisvaldinu til að geta dafnað í krafti einkaframtaks, frumkvöðla og samkeppni.
Þegar stórir bitar eins og heilbrigðiskerfið og skólakerfið eins og það leggur sig eru komnir úr höndum hins opinbera þarf ekki lengur að gera rekstur þeirra að pólitísku bitbeini og ástæða skuldasöfnunar fyrir hönd skattgreiðenda.
Er ég bjartsýnn þegar ég sting upp á því að stjórnmálamenn mættu e.t.v. aðeins lækka væntingar sínar til eigin hæfni til að ráðskast með Íslendinga og hagkerfið sem þeir starfa í?
Þingið kemur saman 10. september | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 23. ágúst 2013
Ísland og Sviss í sömu skúffu
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, segir í svari til Árna Páls Árnasonar formanns Samfylkingarinnar, að hlé hafi verið gert á aðildarviðræðum við Evrópusambandið en umsóknin hafi ekki verið afturkölluð.
Þetta eru góðar fréttir. "Hlé" á umsókn þýðir væntanlega að her skrifstofufólks, sem fram til dagsins í dag hefur unnið að því hörðum höndum að svara spurningum Evrópusambandsins um íslenska stjórnsýslu, þýða lög og reglugerðir sambandsins og skrifa lagafrumvörp sem aðlaga íslenska stjórnkerfið að kröfum sambandsins fer að gera eitthvað annað.
Það ætti að spara skattgreiðendum heilmikið fé.
Ef ríkisstjórnin þorir ekki að afturkalla umsóknina formlega hefur hún vonandi hugrekki til að gera ekki meira í henni. Íslenska umsóknin lendir þá vonandi og væntanlega í sömu skúffu og umsókn Sviss sem hefur legið í dvala síðan árið 1992. Það gerir ekkert til á meðan það kostar íslenska skattgreiðendur ekkert.
Núna þurfa ráðherrar ríkisstjórnarinnar að gera það skýrt að umræða um aðild Íslands að ESB er aftur orðin að kaffihúsaspjalli og hefur ekki áhrif á störf yfirvalda á þessu kjörtímabili (og vonandi um alla framtíð). Allskyns fyrirspurnir ráðherra og ESB-blaðamanna má skjóta niður með því að benda á útgefið svar ráðherra. Næsta spurning, takk? á að verða staðlað svar um leið og vísað er í stjórnarsáttmálann og svar ráðherra fyrir fyrirspurn.
Umsóknin hefur ekki verið afturkölluð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 20. ágúst 2013
Já Ísland - Nei ESB
Umræðunni, ef svo má kalla, um umsóknaraðild og aðlögunarferli Íslands að ESB er núna haldið mjög á lofti af aðildarsinnum. Starfsmenn RÚV (margir hverjir ESB-aðildarsinnar, eða "Evrópusinnar" eins og það kallast víst af þeim sjálfum) hafa grafið upp þá örfáu þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem vilja halda umræðum um aðild og aðlögun áfram. Undirskriftum er safnað. Tindátar ESB-aðildarsinna eru komnir á fullt á Facebook.
Gott og vel. Sumir vilja einfaldlega að Ísland gangi í ESB. Lái þeim það enginn. Aðrir Íslendingar hafa talað um aðild Íslands að NAFTA. Enn aðrir tala fyrir úrsögn úr EES. Fyrir öllum þessum skoðunum má færa rök.
Fyrir mitt leyti finnst mér sumt aðlaðandi við ESB: Aðgangur að innri markaði sambandsins, í raun þýsk yfirstjórn peningamála (þótt undan henni sé grafið) og franskir hermenn til þjónustu reiðubúnir ef fjölskyldunni minni yrði rænt í Afríku, og svona má lengi telja. Annað finnst mér síðra. Ég vil ekki að Ísland gangi í ESB.
Ég veit hvað er "í pakkanum". Ég þarf ekki að "kíkja í pakkann". Ég bý í ESB-ríki (Danmörku). Ég sé í kringum mig hvað er "í pakkanum". Í "pakkanum" er bannað að kosta ost Feta-ost nema hann sé framleiddur í Grikklandi, og agúrkur þurfa að vera beinar. Munntóbak má selja í lausu en ekki pokum. Ólívuolían á borðum veitingastaða skal vera í merktum neytendaumbúðum en ekki ómerktum glerflöskum. Skatta skal færa upp á að við að þeim þar sem þeir eru hæstir í ESB, svo "skattasamkeppni" valdi ekki stjórnmálamönnum of miklum óþægindum. Og svona má lengi telja.
Að Ísland sé norðar í álfunni og vilji niðurgreiðslur úr vösum danskra skattgreiðenda til íslenskra bænda er eitthvað sem mér finnst óaðlaðandi við innihald "pakkans". Ef ESB ætlar að bjóða Íslendingum upp á slíka millifærslu þá finnst mér það til marks um stjórnlyndi og yfirgang sem er fráhrindandi í mínum augum. Nú þegar íslenska ríkið er á barmi gjaldþrots væri einmitt upplagt og jafnvel pólitískt raunsætt að fella niður allar niðurgreiðslur til atvinnulífsins.
Þeir sem vilja að aðildar- og aðlögunarviðræður haldi áfram við ESB eru að ljúga þegar þeir segjast ekki vita um hvað "stendur til boða". Jú, það vita þeir vel. Það hafa meira að segja menn eins og Össur Skarphéðinsson játað. Þessi hola gulrót sem er notuð til að teyma Íslendinga áfram í stuðningi við ferlið er fals.
ESB er ekki lokaður pakki. Allt lagasafn þess er aðgengilegt á netinu. ESB montar sig af því að vera gegnsætt og lýðræðislegt. Umsókn um aðild að ESB er engin óvissuferð. Hún er jafnmarkviss ásetningur og umsókn um aðild að Viðskiptakorti Hagkaupa eða Saga Club Icelandair. Lestu bara smáaletrið ef þú ert í vafa - það er einum músasmelli í burtu!
Og ég er á móti aðild. Það er mín upplýsta afstaða.
Mánudagur, 19. ágúst 2013
Gatinu má loka með því að minnka ríkisvaldið
Áhyggjum veldur hversu lítill hagvöxtur mælist um þessar mundir, en hann er langt undir því sem forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir. Fyrir vikið verður erfiðara að loka fjárlagagatinu.
Getur það verið? Stóðust ekki áætlanir um "hagvöxt"? Ekki batnar ástandið þegar það er haft í huga að ekki er um raunverulegan vöxt hagkerfisins að ræða í merkingunni "fleiri vörur og meiri þjónusta í boði en áður", heldur það sem ég vil kalla Excel-hagvöxt; vöxt í peningastærðum sem koma verðmætasköpun í hagkerfinu ekkert við. (Ef hagkerfið væri raunverulega að styrkjast án fikts með peningastærðir þá væri aukning í framleiðslu og bæting framleiðni vegna fjárfestinga að valda lækkandi verðlagi. Vesturlönd hafa ekki séð slíkt í 100 ár með fáum undantekningum.)
Hvað sem því líður er ljóst að hallarekstur ríkissjóðs þarf að stöðva. Tvær leiðir eru oftast nefndar til þess:
- Að ríkið hækki skatta.
- Að ríkið lækki útgjöld.
Fyrri punkturinn er eitur sem heldur áfram að veikja heilsu hagkerfisins. Seinni punkturinn er pólitískt erfiður því er ekki búið að skera allan ríkisrekstur "niður að beini"?
Ég ætla því að mæla með þriðju leiðinni:
- Að ríkisvaldið skeri heilu afkimana af sér og komi þeim alveg úr umsjón sinni.
Þessi leið hefur marga kosti, til dæmis þessa:
- Ríkið þarf ekki að fá hausverk yfir "niðurskurði", verkföllum, skipulagsbreytingum og öðru vegna reksturs sem það hefur einfaldlega ekki á sinni könnu.
- Neytendur og seljendur fá frjálsar hendur til að semja sín á milli um kaup og kjör.
- Markaðsaðhaldið kemur til leiks; slæm fyrirtæki fá slæmt umtal og upplifa lækkandi hlutabréfaverð, en góð fyrirtæki fjölga í hópi viðskiptavina sinna og eflast.
- Opinberar ráðningar, sem hafa verið mikið í umræðunni undanfarið (t.d. í tengslum við Íbúðalánasjóð) heyra vitaskuld sögunni til.
- Þeir fáu sem geta sér litla sem enga björg veitt þurfa ekki lengur að passa inn í þrönga ramma opinberra eyðublaða "velferðar"kerfisins og geta látið vita af nauð sinni. Góðhjartað fólk, sem vill styðja þá sem minna mega sín, þarf ekki lengur að fjármagna sligandi ríkisreksturinn og getur látið gott af sér leiða fyrir eigið fé og hvatt aðra til að gera það sama.
- Ríkisvaldið getur "lokað fjárlagagatinu" með því að koma heilu afkimunum úr ríkisrekstrinum og þar með af borði fjármálaráðherra. "Vandræðakerfi" eins og heilbrigðiskerfið hætta þá að vera hausverkur ráðherra og ríkisstjórnar.
Fleira má telja til en kjarni málsins er þessi; ríkisvaldið hefur alltof mikið á sinni könnu, og tekst ómögulega að láta enda ná saman, og á því að fækka á verkefnalista sínum þar til það tekst. Við hin fáum í staðinn aukið svigrúm til að ná markmiðum okkar, aðstoða hvert annað, versla við hvert annað og senda slæma rekstraraðila á hverju sem er í gjaldþrot eftir eigin geðþótta.
Erfiðara að loka fjárlagagatinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 15. ágúst 2013
Brunað að bjargbrúninni
Fyrirtæki í biðstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Miðvikudagur, 14. ágúst 2013
'Mælt' en ekki rétt
Í mörgum ríkjum tíðkast að "mæla" atvinnuleysi þannig að það komi vel út fyrir stjórnmálamenn. Ísland er engin undantekning.
"Mælingin" á atvinnuleysi telur bara lítinn hóp þeirra sem vantar vinnu.
Stundum eru þeir dregnir frá sem er búið að koma á skólabekk á bótum. Stundum eru þeir dregnir frá sem eru bara í hlutastarfi en langar í fullt starf en hafa gefist upp á leitinni. Stundum eru þeir dregnir frá sem eru á annars konar framfærslu en "atvinnuleysisbótunum". Þeir sem hafa einfaldlega gefist upp á leitinni að einhverri vinnu koma vitaskuld ekki fram í tölfræðinni. Sumum finnst til dæmis ekki borga sig að vinna á launum sem eru litlu hærri en bæturnar og halda í 40 tíma frítímann sinn í skiptum fyrir mjög litla skerðingu á ráðstöfunarfé.
Á móti kemur að sumum langar bara alls ekki að vinna en hanga á spenanum því þeir geta það. Sumir eru á leið úr einu starfi í annað en taka því rólega á bótum á meðan.
Tölfræðin er jafngóð og handahófskennd tala sem er dregin upp úr hatti.
En er þá engin leið að átta sig á ástandinu á atvinnumarkaðinum? Jú, ætli það ekki. Ekki treysti ég mér samt í slíka vinnu. Skattar og ýmis önnur opinber gjöld rugla myndina. Ríkistryggingarkerfi atvinnuleysis, fjármagnað með sköttum á fyrirtæki, ruglar enn frekar myndina. Ýmis lög um lágmarkslaun og lífeyrissjóðsgreiðslur bæta gráu ofan á svart. Raunveruleg samskipti atvinnuveitenda og -leitenda eru gríðarlega flækt, og þá sérstaklega fyrir þá sem fá laun "á mörkum" þess sem hið opinbera borgar fyrir að gera ekkert.
Eitt er víst: Talan "6,8%" er marklaus með öllu.
Atvinnuleysi mælist 6,8% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 13. ágúst 2013
Vandamálið: Of margt er lögbrot
Íslensk fangelsi hafa verið að fyllast hratt á seinustu árum, og fjölgun fanga er miklu, miklu meiri en fjölgun á fjölda einstaklinga á umráðasvæði íslenska ríkisins (heimild vantar mig en treysti á minnið).
Kannski er ástæðan sú að meira og meira er orðið ólöglegt. Það er mín kenning. Listinn yfir boð og bönn hefur vaxið, skattar hafa hækkað og ýtt undir smygl og vöxt "svarta markaðarins" og ríkisvaldið er byrjað að taka harðar á því sem e.t.v. var bannað en jafnframt umborið. Kannski.
Kannski er ástæðan sú að glæpamönnum af "gamla skólanum"hefur einfaldlega fjölgað. Það er örugglega líka rétt, en ég efast um að það útskýri af hverju fangelsin á Íslandi hafi ekki undan lengur.
Hvað sem því líður er til auðveld leið til að fækka glæpum og minnka álag á íslensk fangelsi: Fækka á listanum yfir það sem er ólöglegt að gera á Íslandi. Í raun ætti sá listi bara að vera tvö atriði: Líkamleg árás eða hótun um slíka annars vegar, og þjófnaður hins vegar.
Upplagt væri nú samt að hætta eltingaleik við fíkniefnaneytendur og sölumenn þeirra. Síðan mætti afnema alla tolla og virðisaukaskatt (líka á tóbak og sígarettur) og gera allan inn- og útflutning til og frá Íslandi löglegan og afskiptalausan. Svarti markaðurinn þurrkast þá út og lögreglan og tollgæslan geta farið að sinna einhverju öðru en eftirliti með honum.
Hætta á að 19 refsidómar fyrnist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |