Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Já... og nei

Mikið er hressandi að sjá greiningardeildir bankanna (eða forstöðumenn þeirra) tala skýrt. 

Það sem gamla skólasystir mín í verkfræðinni, Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, er rétt, en samt ekki.

Spurt er: Hvað stækkar hagkerfi? Það gerir aukin verðmætasköpun. Hvernig fer hún fram? Hún fer fram með fjárfestingum sem gera hvern og einn starfsmann verðmætari, þ.e. verðmæti vinnu hans eykst með aðgangi að betri tækjum og tólum, tækni og þjálfun.

Þessi fjárfesting getur komið úr tveimur áttum: Sparnaði (innlendum eða erlendum) eða peningaprentun. Seinni aðferðin rýrir kaupmátt peninga og sparnað allan og er að öllu leyti slæm hugmynd.

Hvernig eykst sparnaður sem verður aðgengilegur til fjárfestinga? Hann eykst ef t.d. skuldir einstaklinga og fyrirtækja lækka án þess að neysla aukist. Fé verður þá afgangs til fjárfestinga. Hann eykst líka ef tilhneiging fólks til að eyða í neyslu minnkar. Ef ríkið hættir að hirða stóra hluta af launum fólks verður meira eftir í launaumslögunum til að leggja til hliðar og/eða greiða niður skuldir.

Neysla er ekki drifkraftur hagvaxtar, heldur má fjármagna aukna neyslu með auknum hagvexti, þ.e. ef hagkerfið er að stækka; meira er framleitt eða innflutt og er hægt að kaupa fyrir annaðhvort hækkandi laun eða bættan kaupmátt peninga ("verðhjöðnun" á tungutaki hagfræðinnar).

Nú er sú kennsla sem Háskóli Íslands býður upp í hagfræði meira og minna þvæla. Hin viðtekna hagfræði er sú sem er að keyra hagkerfi þróaðra ríkja um koll og hefur verið að því í um 100 ár eða svo. Að geta skilið einföld vensl orsaka og afleiðinga er verðmætari eiginleiki en formleg kennsla í viðtekinni hagfræði. Sem betur fer virðist slíka jarðtengingu vera að finna líka, meira að segja í bönkunum.


mbl.is Skattalækkanir ýti undir neyslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltof mikið! Eða lítið? Hver veit!

Ríkisvaldið er eins og eyja ringulreiðar á annars frjálsum markaði. Ríkisvaldið getur ómögulega reiknað út skynsemi rekstrarákvarðana sinna því það getur ekki borið rekstrarkostnað saman við tekjur og reiknað út hagnað eða tap. Afleiðingin er því blind sóun á fé og fjármunum og handahófskennd forgangsröðun í rekstri, sem yfirleitt leiðir til þess að einhver afkiminn er "fjárvana" á meðan annar getur vaxið og vaxið. 

Um þetta vandamál ríkisreksturins og sósíalisma almennt má lesa víða, t.d. hér.

Af þessu leiðir að allir samningar um kaup og kjör við opinbera starfsmenn, ákvarðanir um fjölda þeirra og verkefni, ábyrgð og árangur eru fullkomin ringulreið.  

Hugsanlega eru laun opinberra starfsmanna að jafnaði of lág og þeir of margir. Kannski eru þeir of fáir og kannski er hægt að fjölga þeim án þess að hækka laun þeirra og samt ná sömu rekstrarlegu markmiðum. Kannski eru of margir skrifstofustarfsmenn hjá hinu opinbera en ekki nógu margir á heilbrigðisstofnunum. Kannski vinnur fólk á heilbrigðisstofnunum of mikla skrifstofuvinnu.

Er hægt að spurja sig sömu spurninga um fyrirtæki í einkaeigu? Já auðvitað. Svörin er samt auðveldara að finna þar. Ef fyrirtæki skilar minni hagnaði en keppinautar eða fyrirtæki í skyldum rekstri þá er eitthvað sem þarf að laga. Ef fyrirtækið skilar tapi er eitthvað sem þarf að laga. Í tilviki hins opinbera er ekki hægt að finna svörin. Þar ríkir ringulreiðin ein.  


mbl.is Fá 4,8% launahækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danskari en Daninn

Þurfa Íslendingar alltaf að vera kaþólskari en páfinn? Eða í þessu tilviki: Danskari en Danir.

Jarðefnaeldsneyti er ekki fullkomið, en það er enn sem komið er það besta sem mannkynið hefur til að knýja áfram bætt lífskjör og útvega sér orku án þess að sópa öllu skóglendi ofan í brennsluofna (sjá t.d. þessar sláandi myndir frá landamærum Haítii og Dóminíska lýðveldisins, og þennan texta).

Danir hafa notið góðs af olíulindum sínum, þótt litlar séu í samanburði við nágranna þeirra í Norðursjó. Þannig verður það um einhver ár í viðbót.  

Nú hefur hið íslenska ríki gefið út leitar- og vinnsluleyfi fyrir lítinn blett í efnahagslögsögu Íslands. Núna þarf ríkisvaldið ekki að gera meira við það svæði. Að taka pólitíska ákvörðun um að stöðva leit og hugsanlega vinnslu af því Ísland á að verða "kolefnisfrítt" er bara dekstur við áhugamál.  


mbl.is Íslendingar hætti við olíuleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takmarkanir fylgja ríksafskiptum (og ríkisgjaldmiðlum)

Ísland kann að þurfa takmarkanir við ákveðnum tegundum fjármagnshreyfinga til frambúðar, segir nýr fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur undir orð Bjarna Benediktssonar, samkvæmt frétt Bloomberg.

Auðvitað er það svo að ríkisafskiptum fylgja haftir, takmarkanir, reglur, hliðranir og þess háttar. Sé það ætlun íslenskra stjórnvalda að halda áfram að einoka peningaútgáfu á Íslandi og skylda landsmenn til að nota ákveðna mynt til ákveðinna viðskipta þá eru höft auðvitað óumflýjanleg.

Auðvitað er hægt að losa öll höft af notkun hinnar íslensku krónu, en slíkt hefur í för með sér mikil pólitísk óþægindi vegna óþæginda sem margir verða fyrir ef og þegar höftunum sleppir. Ríkisvaldið missir líka mikil völd. Tregða stjórnvalda til að gefa frá sér völd er alltaf mikil.  

Því miður er gríðarlegur og nánast einróma stuðningur við ríkisrekinn seðlabanka og ríkiseinokun á peningaútgáfu á Íslandi.


mbl.is Áfram takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil og erfið tiltekt framundan

Gríðarleg tiltekt er framundan hjá komandi ríkisstjórn. Fráfarandi ríkisstjórn skilur eftir sig marga og risastóra gjalddaga á risavöxnum lántökum sínum á þessu kjörtímabili. Seðlabanki Íslands er að fara hamförum og hann þarf að temja og síðan leggja niður. Gjaldeyrishöftin þurfa að fara sem fyrst og það verður sársaukafullt fyrir marga, en afleiðingar hafta verða verri og verri eftir því sem þeim er lengur haldið við og því brýnt að skera á þau sem fyrst. 

Ríkisstjórnin þarf að setjast við samningaborð ásamt lánadrottnum sínum og semja um afskriftir. Hún þarf að segja það strax hvernig hún ætlar að minnka stærð ríkissjóðs á næstu 4 árum, hvaða skatta á að lækka og hversu mikið, hversu hratt hið opinbera ætlar að greiða niður skuldir, hvaða skattar verða lagðir af á næstu misserum og hvaða afkima ríkisrekstrarins á að einkavæða eða hreinlega leggja niður. Stöðugleiki er eitthvað sem íslenska hagkerfið og samfélagið þarf á að halda eftir ringulreið seinustu fjögurra ára.

Umsókn um aðlögun og aðild að ESB á að draga til baka hið fyrsta. 

Ríkisstjórnin þarf að muna að langt er í næstu kosningar og á því ekki að hafa áhyggjur af þeim. Hún hefur öll völd í fjögur ár. Hún á að nýta þau völd vel til að draga sem mest úr eigin völdum og skila því af sköttum og svigrúmi sem var tekið af almenningi seinustu árin. 

Takist þetta, og takist að vinna vel og skipulega og af einurð að því að draga sem mest úr vexti hins opinbera á Íslandi, þá verður uppskeran ríkuleg fyrir alla Íslendinga. Til skamms tíma verður að taka erfiðar ákvarðanir sem munu valda mörgum erfiðleikum. Sterka leiðtoga þarf til að taka erfiðar og óvinsælar ákvarðanir. Núna reynir á.  Tiltektinni verður ekki slegið á frest mikið lengur. 


mbl.is Ný stjórn tekur á sig mynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattar letja, svæfa og deyfa

Skattahækkanir letja, deyfa, svæfa og fæla frá. Þetta vita allir. Af þessum ástæðum leggur ríkið ofurskatta á áfengi á tóbak. Tilgangurinn er beinlínis að draga úr neyslu. Háir skattar á tekjur af hverju tagi hafa sömu áhrif. Viljinn til að þéna löglega er minni en ella.

Þetta er vitað. Stjórnlyndir stjórnmálamenn vilja beinlínis að einkaframtakið sé minna og að hið opinbera spili stærra hlutverk. Þeim er alveg sama þótt lífskjör batni hægar fyrir vikið. Þegar batnandi lífskjör eru vegin upp á móti auknum ríkisafskiptum þá velur sá stjórnlyndi hið síðarnefnda. Jöfnuður er honum mikilvægari en hraður bati lífskjara allra þar sem lífskjör sumra batna hraðar en annarra.

Samtök atvinnulífsins eru ekki að þylja upp nein ný sannindi. Mistök þeirra eru e.t.v. þau að trúa því að stjórnlyndir stjórnmálamenn vilji "frumkvæði í atvinnulífinu og nýsköpun". Sú er ekki raunin. Stjórnlyndir stjórnmálamenn vilja frumkvæði ríkisvaldsins. Þeir vita alveg hvaða áhrif ofurskattar á tóbak og áfengi hafa í för með sér, og sömuleiðis ofurskattar á tekjur. Og þeim líkar vel við þau áhrif. 


mbl.is Versnandi afkoma afleiðing „ofurskattastefnu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leggjum niður Seðlabanka Íslands

Ég legg til að Seðlabanki Íslands verði lagður niður og öll lög um skyldur og verkefni ríkisins í peningamálum numin úr gildi.

Rekstur seðlabanka þjónar eingöngu því hlutverki að gefa ríkisvaldinu verkfæri til að stunda hallarekstur, skipta sér af einstaklingum og fyrirtækjum þeirra, rýra kaupmátt og sparnað til að fjármagna skuldsettan ríkisrekstur og flengja þá sem haga sér ekki eins og hið opinbera ætlast til.

Rekstur seðlabanka hjálpar ekki hagkerfinu að vaxa, fyrirtækjum að skipuleggja rekstur fram í tímann, einstaklingum að spara eða kaupmætti peninga okkar að halda sér.

Rekstur seðlabanka er uppfinning stjórnmálamanna og skjólstæðinga þeirra í bankakerfinu til að auka eigin völd.

Fríhöfnin á Leifsstöð í Keflavík getur tekið við greiðslu í mörgum gjaldmiðlum. Hið íslenska ríki ætti því að geta það sama.

Fyrirtæki geta valið á milli fjölmargra gjaldmiðla til að gera upp í og jafnvel greiða út laun í. Að fjöldi mismunandi tegundir peninga (seðlar, góðmálmar, inneignarnótur) og gjaldmiðla (evrur, dollarar, pund, jen) séu í umferð er ekkert sérstakt vandamál.

Vilji einhver gefa út seðla með mynd af Jóni Sigurðssyni og Hallgrími Péturssyni og kalla þá "krónur" þá er honum það velkomið. Viðkomandi þarf bara að búa til traustari peninga en þeir sem fyrir eru (t.d. með því að bakka þá með góðmálmum) til að þeir nái útbreiðslu.  

Með því að leggja niður Seðlabanka Íslands fækkar tækifærum stjórnmálamanna til að senda skattgreiðendum, sparifjáreigendum og launþegum reikninginn þegar þeim tekst illa að hafa stjórn á útgjöldum hins opinbera. 

Rökin fyrir rekstri seðlabanka eru veik og hafa ekki reynst halda vatni. Það sér vonandi hver maður. 


mbl.is Hagvaxtarhorfur hafa versnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru laun ráðherra of há miðað við almennra þingmanna?

Endalaus slagur um ráðherraembætti er furðulegur að mínu mati og bendir til að laun ráðherra séu of há miðað við laun almennra þingmanna. Til ráðherra veljast oft hryggleysingjar sem þora ekki að taka ákvarðanir og skilja eftir sig meiri ringulreið en hefði verið til staðar ef þeir hefðu hreinlega ekki mætt í vinnuna. Þessir hryggleysingjar hafa ekki upp á neitt að bjóða og völdust í embætti ráðherra og sama hátt og ryk sýgst inn í ryksugu: Holrými í undirþrýsing saug til sín það næsta sem var fyrir framan það.

Einnig þykir mjög eftirsótt að verða formaður í einhverri af alltof mörgum þingnefndum.

Öll þessi aukastörf ætti að leggja niður. Ráðherrum mætti fækka niður í fjóra eða fimm. Allt sem flokkast sem of mikið álag á þær greyið sálir ætti að einkavæða út úr ríkisvaldinu eða hreinlega leggja niður.

Að Íslendingar með íbúafjölda á við lítið úthverfi í meðalstórri borg í Evrópu þurfi að halda uppi öllum þessum ráðherrafjölda er til marks um algjöran skort á jarðtengingu.

Með "skiptingu ráðherraembætta" úr sögunni gætu þingmenn farið að einbeita sér að málefnavinnu. Enginn sérstakur fjárhagslegur ávinningur fælist í aukaembættum eða formannstitlum. Þingmenn ættu hreinlega á hættu að ná að lesa yfir eitthvað af þeim lagafrumvörpum sem þeir kjósa yfir okkur almenning.

Sem betur fer fáum við ekki allt það ríkisvald sem við borgum fyrir, en það mætti engu að síður verða miklu, miklu minna. Skref í þá átt væri að lækka laun ráðherra næstum því niður í laun þingmanna, útnefna bara fjóra eða fimm ráðherra, gefa hverjum og einum þeirra fullt af ráðuneytum, og byrja svo að skera þau niður eða afnema þar til þessir fjórir eða fimm ráðherrar eru orðnir sáttir við vinnuálagið við stjórnun á okkur hinum. 


mbl.is Formenn funda áfram í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðalnemandinn með hæstu einkunnina

Það er til marks um afskaplega slappa frammistöðu opinberra eininga á Íslandi að Seltjarnarnesbær sé talinn til fyrirmyndar. Bærinn sýgur 13,66% af launum bæjarbúa í sjóði sína og hirðir að auki enn meira af þeim í gegnum allskyns "gjöld" og aðra skatta. Bærinn hefur til umráða marga milljarða. Fyrir þá ætlast löggjafinn til þess að bærinn reki skóla og leikskóla, leggi og viðhaldi vegum og fleira. Að auki er bærinn með óteljandi önnur verkefni á sinni könnu sem enginn bað hann um að taka að sér eða finna upp og engin lög skylda hann til. 

Niðurstaðan er "jákvæð afkoma" (skattheimta umfram brennslu skattfjár) upp á tæpar 300 milljónir. Bærinn skuldar að auki einhverjar upphæðir sem hann er ekki enn búinn að mjólka bæjarbúa upp í.

Það skal játast að miðað við flest önnur sveitarfélög landsins er þetta glæsileg frammistaða! Hana má engu að síður miða við það að hæsta einkunn í prófi sé 5,0 af 10,0 mögulegum - að hæsta einkunnin hafi hlotnast meðalnemanda. Það segir mörg um það hvað rekstur opinberra eininga á Íslandi eru í hrikalega slæmum málum.


mbl.is Jákvæð afkoma Seltjarnarnesbæjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kapphlaupið á botninn

Bandaríkin og Japan eru komin í einhvers konar kapphlaup um það hvor á hraðar rýrnandi gjaldmiðil. Japanir boðuðu nýlega mjög hraða og markvissa rýrnun á sínum gjaldmiðli, sennilega að einhverju leyti vegna pólitískrar pressu frá Bandaríkjunum sem hafa verið að rýra gjaldmiðil sinn í fjölda ára. 

Gríðarlegar breytingar á gjaldmiðlaskipan heimsins eru viðbúnar í náinni framtíð. Bandaríski dollarinn er loksins og verðskuldað að missa sinn sess sem "forðamynt" heimsins. Þýskaland, svo dæmi sé tekið, er að draga gullforða sinn úr geymslum bandaríska seðlabankans (sem reynir allt sem hann getur til að tefja ferlið). Arabaríkin eru að tala um að setja á laggirnar eigin gjaldmiðil og koma olíuviðskiptum úr bandaríska dollaranum. BRIK-löndin svokölluðu eru líka að reyna kljúfa sig frá sökkvandi skipum bandaríska dollarans og evrunnar. 

Spennandi tímar eru framundan. Ekki treysta á að geta lifað af lífeyri þínum. Ekki treysta á sparnað í neinni ríkismynt eða hlutabréfum. Reyndu að skulda sem minnst. Reyndu að eiga sem mest af einhverju sem nær örugglega er hægt að skipta í neysluvarning hvenær sem er, t.d. góðmálma. Reyndu að afla þér og viðhalda sem mest af verðmætaskapandi þekkingu og reynslu. Ekki gera ráð fyrir að geta lagst í helgan stein snemma. Vonaðu svo að gjaldmiðlastríð nútímans endi ekki eins og svo mörg önnur: Með stríði. 


mbl.is Hressileg lækkun á olíumarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband