Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012
Fimmtudagur, 30. ágúst 2012
Ísland með sín boð og bönn
Á Íslandi er allt bannað sem er bannað einhvers staðar í Vestur-Evrópu eða allt að því. Ef eitthvert ríkið tekur upp bann við einhverju er það bann strax komið í umræðuna á Íslandi sem vænlegt bann fyrir Íslendinga.
En á sama tíma vilja Íslendingar alltaf "bera sig saman" við einhverja. Viljum við ekki háa skatta eins og Norðurlöndin sem "við berum okkur saman við"? Viljum við ekki útblásið velferðarkerfi eins og það sem finnst í "löndunum sem við berum okkur saman við"? Íslendingar vilja banna allt sem er bannað einhvers staðar, og apa svo eftir því versta sem Norðurlandaþjóðirnar stunda.
Ef við einbeitum okkur að Norðurlöndunum (uppáhaldssamanaburðarlöndin okkar) er hægt að taka nokkur dæmi um banngleðina miklu á Íslandi.
Í Danmörku og Noregi er hægt að kaupa áfengi í matvöruverslunum. Í Danmörku mun víðar, og allan sólarhringinn og á samkeppnismarkaði (í Danmörku eru allir tilboðsbæklingar stórmarkaða með margar blaðsíður af áfengistilboðum), en í Noregi fyrir himinhátt verð og bara fyrir klukkan 20 á kvöldin. Í Svíþjóð eru ríkisreknar áfengisverslanir með brúnum og gráum innréttingum og takmarkaðan opnunartíma. Og Ísland? Svarið vita allir.
Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er hægt að kaupa svokallað munntóbak, en margir nota slíkt í stað sígaretta til að fá nikótín í kroppinn. Í Svíþjóð fæst þess konar tóbak út um allt, í Noregi ansi víða en á færri stöðum í Danmörku. Á Íslandi er munntóbak bannað alveg og fæst bara gegn himinháu gjaldi á hinum svarta markaði.
Í Noregi og Svíþjóð er bannað að kaupa sér þjónustu vændiskvenna og -karla (eða var það bara Svíþjóð?). Í Danmörku gerir lögreglan lítið við viðskiptum vændiskvenna- og karla við viðskiptavini þeirra, en tekur einstaka "rassíur" til að skoða vegabréf og henda nokkrum illa klæddum konum í fangelsi. Og Ísland? Þar á að ganga eins langt og sá sem lengst gengur.
Í Danmörku gerir lögreglan lítið við því að menn fái sér eins og eina jónu eða safnist saman til að neyta "vægra" fíkniefna. Danmörk er ekki fyrirmynd Íslands í þessum málum, og bannar eins mikið og sá sem mest bannar (enda fara fangelsismál á Íslandi að líkjast þeim í Bandaríkjunum).
Íslendingar banna sem sagt allt sem einhver bannar, og taka bannið eins langt eða jafnvel lengra og sá sem tekur það lengst.
Er skrýtið að Íslendingum finnist gaman að skvetta aðeins í sig í útlöndum, og fá sér jafnvel eins og eina jónu eða drátt?
Fimmtudagur, 30. ágúst 2012
Svokölluð bókhaldsbrella
Þeir sem standa Hörpu og hafa stutt við bakið á byggingu hennar eru í miklum vandræðum. Ekki tekst lengur að fela falsaðar kostnaðaráætlanir (t.d. þær þar sem skattheimta er skilgreind upp á nýtt), og "tekjur" af samkeppnisstarfssemi ríkisins við einkarekna ráðstefnuhaldara hafa ekki skilað sér.
Hvað er þá eftir? Jú, bókhaldsbrellur. Núna er talað um að ríkiseiningar, rækilega studdar af skattgreiðendum hvort sem þeim líkar betur eða verr, "leigi" húsakost í Hörpu. Þetta mætti kalla að moka fé úr vösum skattgreiðenda ofan í annan hvorn vasa ríkisvaldsins, og úr þeim vasa yfir í hinn vasann. Ríkisvaldið er beinlínis að fara styðja við bakið á sjálfu sér.
Allt þetta vesen í kringum Hörpuna ætlar engan endi að taka. Húsið á að setja til sölu strax, öllum samningum í tengslum við það á að segja upp og svo vona að einhver sé tilbúinn að taka að sér rekstur á þessum dýrasta steypukassa Íslands án aðskomu skattgreiðenda.
Vilja nýta Hörpu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 27. ágúst 2012
Stjórnmálamenn og loforð: Mótsögn
Stjórnmálamenn eru oft krafðir um að "standa við orð sín", t.d. kosningaloforð eða yfirlýsta stefnu í kosningabaráttu. En hvers vegna ættu þeir að gera það? Þeir eru með "samning" til fjögurra ára um að fá að sitja á Alþingi og þiggja fyrir það laun. Þetta er meira starfsöryggi til lengri tíma en flestir geta látið sig dreyma um. Starfsmenn fyrirtækja geta alltaf átt von á því að verða sagt upp með að jafnaði 3ja mánaða fresti. Það er "venjulegt" starfsöryggi. Um það gilda önnur lögmál en hjá þeim sem eru með fjögur ár af tryggðum launagreiðslum.
Stjórnmálamenn þurfa í stuttu máli ekki að standa við orð sín. Þeir geta svikið hvert einasta loforð í 3,5 ár og á seinasta augnabliki, rétt fyrir kosningar, rýnt í skoðanakannanir til að athuga hvað sé nú "rétt" að segja og lofa fyrir næstu kosningar. Reynslan sínir að það dugi mörgum til að ná endurkjöri. Sú reynsla er mikið nýtt.
Einkafyrirtæki sem haga sér svona þurrkast út á augabragði. Neytendur geta lýst yfir andúð á fyrirtækjum með því að hætta á einu augabragði að kaupa vörur og þjónustu þess. Tekjur fyrirtækis geta farið niður í núll á svipstundu. Þau verða því að vanda sig og standa við sína samninga, t.d. um ábyrgð af varningi eða umsamið viðhald og þjónustu. Engar slíkar kröfur er hægt að gera til stjórnmálamanna.
Af þessari ástæðu meðal margra annarra er nauðsynlegt að ríkisvaldið sé sem minnst og að stjórnmálamenn hafi sem minnst að gera, hafi sem minnsta ábyrgð og taki sem minnst af verðmætum hagkerfisins og samfélagsins í sína vörslu til endurdreifingar. Því minna sem ríkisvaldið er og hefur til ráðstöfunar, þeim mun minni skaði er af stjórnmálamönnum með fjögurra ára tryggðar launagreiðslur.
Samstaða um að fara yfir stöðuna í Evrópumálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 23. ágúst 2012
Menntun er ...tímasóun?
Sum menntun er hrein tímasóun (og um leið sóun á fé). Nokkur dæmi:
Háskólanám fyrir þá sem eiga ekki erindi í háskóla er tímasóun. Af hverju þurfa allir að fara í háskóla? Hin mikla áhersla á háskólanám hefur margar afleiðingar í för með sér, sem margar eru slæmar: Háskólar byrja að "létta" gamalt og gott nám til að fleiri komist í gegnum það. Háskólar finna upp allskonar nám til að soga til sín fólk sem komst t.d. ekki inn í arkitektarnám eða sálfræði ("light" útgáfur ýmis konar). Mörgum er talin trú um að háskólanám sé hið eina rétta, og hætta þá kannski við að mennta sig í því sem viðkomandi finnst áhugavert og spennandi, og þessir einstaklingar flosna gjarnan upp úr námi og missa móðinn og finnst tíma hafa verið sóað í skóla og sleppa því þá alveg að fá sér menntun.
Ekki er allt nám gott. Allskyns kjaftafög og "light" útgáfur af rótgrónara námi nýtast atvinnurekendum ekki, og þessir einstaklingar þurfa því að leita á náðir ríkisvaldsins til að búa til störf handa sér (annaðhvort beint sem opinberir starfsmenn, eða óbeint með því að skylda fyrirtæki til að hafa t.d. jafnréttisfulltrúa/kynjafræðinga á launaskrá sinni ef starfsmannafjöldi þeirra fer yfir ákveðið lágmark).
Við þurfum klárt fólk sem velur að fara ekki í háskóla. Þetta gleymist. Margir telja að allt "klára fólkið" sem getur lært eigi að fara í háskóla. En af hverju? Samfélagið þarf klára smiði, pípara, suðumenn og rafvirkja. Þessir kláru iðnaðarmenn þéna vel en það gleymist oft að nefna. Gríðarleg áhersla á að koma fólki í gegnum menntaskóla, t.d. með því að létta námið, og þaðan í háskóla, þar sem létt nám er sífellt að aukast í framboði, er banvæn. Hún eykur á fordóma fyrir þeim sem velja ekki háskólanám.
Ríkisvaldið segir að nám eigi að vera "ókeypis" eða a.m.k. ekki á kostnað þeirra sem fara í nám. Ríkisvaldið innheimtir fé frá vinnandi fólki og notar til að niðurgreiða nám námsmanna. Þannig hefur hið opinbera skorið rækilega á tengsl framboðs og eftirspurnar. Nemendur ættu að öllu jöfnu að þurfa fjármagna nám sitt sjálfir, og vega kostnað við nám upp á móti væntigildi tekna að námi loknu (sem stjórnast af verðmætasköpun tiltekinnar getu og þjálfunar). Þannig má samstilla markað við menntun. Þetta er ekki sú leið sem farin er. Þess vegna sitjum við núna uppi með þúsundir einstaklinga, sprenglærða í einhverju sem enginn kærir sig um, og þetta fólk situr því áfram á spena skattgreiðenda sem opinberir starfsmenn sem búa til þykkar skýrslur sem enginn les.
Verðbólga í einkunnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 17. ágúst 2012
Skattgreiðendur þurfa að standa saman (einhvern veginn)
Í seinasta lagi næsta vor (en kannski miklu fyrr) verður kosið til Alþingis á Íslandi. Hættan er sú að nú fari stjórnmálamenn og tilvonandi stjórnmálamenn af stað á loforðafyllerí, og lofi hver ofan í annan að seilast dýpra og dýpra ofan í vasa skattgreiðenda til að þóknast hinum og þessum.
Skattgreiðendur verða að láta heyra í sér og reyna einhvern veginn að standa saman (t.d. með því að skrá sig í og styrkja Samtök skattgreiðenda).
Eitt lítið dæmi um áganginn á laun skattgreiðenda er slegið upp í "frétt" á Pressunni: Stúdentar æfir út af 96% hækkun á verði nemakorta hjá Strætó segir fyrirsögnin og virkar vissulega sláandi, enda er 96% "hækkun á verði" mikil hækkun.
Síðan kemur í ljós að um er að ræða hækkun frá 20.000 krónum í 38.500 krónur á korti sem gerir handhafa kleift að sitja í strætó alla daga í heilt ár! Í heilt ár! Hvað ætli slíkt kosti í raun og veru? Strætó fær hundruðir milljóna á ári í niðurgreiðslur úr vösum skattgreiðenda, og er meira að segja í þeirri slæmu stöðu að geta ekki tekið við auknum fjölda farþega án þess að það hreinlega komi fram í auknum taprekstri.
Hérna er því lítill hópur stúdenta að krefjast aukinna framlaga í formi aukinnar niðurgreiðslu á ferðalögum sínum um borgina þvera og endilanga, allt árið um kring. Þessa heimtufrekju á einfaldlega ekki að líða, og hana ber að leiða hjá sér. Námsmenn eru nú þegar niðurgreiddir í formi niðurgreiddra eða engra skólagjalda, niðurgreiddra neyslulána og niðurgreiddra samgangna (umfram þá farþega sem eru ekki í skóla), og sennilega er ég að gleyma einhverju. Að vilja enn meira, að vilja strætókortið sitt enn ódýrar en sem nemur rúmum 100 krónum á dag, er vægðarlaus heimtufrekja.
Skattgreiðendur, stöndum saman!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 15. ágúst 2012
Fyrstu skrefin í útför velferðarkerfisins
Hið vestræna velferðarkerfi er dauðadæmdur sjúklingur sem verður annaðhvort skorinn af samfélaginu eða dregur það með sér í dauðann. Hugsunin á bak við það er órökrétt og stenst ekki til lengri tíma. Þetta gildir bæði um "lítil" velferðarríki og "stór" (því "lítil" kerfi verða fyrr eða síðar "stór", og þar með banvæn).
Dauðadómur velferðarkerfisins/ríkisins er rökstuddur með nokkrum athugunum:
Það er pólitískt auðvelt að þenja velferðarríkið út, en nánast pólitískt ómögulegt að draga úr stærð þess. Þetta er vegna þess að um leið og einhver (einstaklingur eða hópur einstaklinga) fer "á spenann", er speninn orðinn að líflínu viðkomandi, og ef speninn er fjarlægður skapar það þörf á erfiðri og oft tímafrekri aðlögun fyrir þá sem nærast á spenanum. Þrýstingurinn á að viðhalda og stækka er því miklu meiri frá afmörkuðum og beinum hagsmunaaðilum en þrýstingur dreifðra skattgreiðenda er á að draga úr stærð velferðarkerfisins.
Velferðarkerfinu er ætlað að draga úr ýmsum "óþægindum" á lífsleiðinni, svo sem kostnaði vegna menntunar, starfsloka, örorku og atvinnuleysis. En hvað gerist þegar þú niðurgreiðir eitthvað? Gerir það ódýrara fyrir þig en ef þú þyrftir að fjármagna úr eigin vasa, annaðhvort beint eða í gegnum tryggingar? Það sem gerist er að þú færð meira af því sem þú niðurgreiðir en ef þú ella hefðir án niðurgreiðslunnar. Velferðarkerfið eykur því umfang þeirra "vandamála" sem því er ætlað að gera bærilegri, og getur því varla annað en þanist út og orðið að óbærilegri byrði fyrir þá sem greiða kostnaðinn af kerfinu.
Velferðarkerfið er tilflutningur á fé frá þeim sem afla þess og til þeirra sem afla þess ekki. Fáir sem engir skattgreiðendur koma út "á sléttu" gagnvart kerfinu (því þá væri það sjálfkrafa óþarfi og fólk mundi jafnvel sjá það). Og hvað verður um fé sem er flutt frá þeim sem aflar þess og til annars sem krefst þess? Því er sóað. Eftir því sem kerfið er dýrara og þyngra, því meira fé er sóað. Og ekkert samfélag eða hagkerfi getur þolað of mikla sóun á afrakstri verðmætaskapandi vinnu til eilífðar. Á endanum kemur að því að kerfið heimtar meira en það getur kreist út úr skattgreiðendum. Dauðadómur kerfisins er því innbyggður inn í hugarfarið á bak við það.
Um allan heim er ýmist unnið hægt og bítandi að því að draga úr útþenslu velferðarkerfisins, eða hratt að því að auka hana. Hraði aukningar er alltaf meiri en hraði samdráttar, og til lengri tíma litið er útþenslan (pólitískt) óumflýjanleg reglan. Þótt pólitíkusar og "hagsmunaaðilar" sjái skýrt og greinilega að í óefni stefnir er að því er virðist ekkert hægt að gera til að stöðva útþenslu velferðarkerfisins. Það mun því á endanum verða of þungt lóð um háls skattgreiðenda, og afleiðingin verður löng og sársaukafull aðlögun að nýjum og velferðarkerfislausum veruleika.
Ræða hækkun á eftirlaunaaldri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 2. ágúst 2012
Hvað er 'verðbólga'?
Fæstir gera sér nægjanlega góða grein fyrir því hvað "verðbólga" er.
Stutta útgáfan er þessi: Fleiri og fleiri peningar að elta svipað eða sama magn af vörum og þjónustu og áður.
Fleiri og fleiri peningar verða til vegna peningaútgáfu ríkisvaldsins.
Magn íslenskra króna í umferð er að öllu jöfnu alltaf að aukast. Þess vegna rýrnar kaupmáttur þeirra, og almenningur upplifir "verðbólgu". Verðbólga er aukning á peningamagni í umferð (á ensku "inflation" sem þýðir útþensla og vísar til útþenslu á peningamagni í umferð). Hækkandi verð er afleiðing verðbólgu, en ekki orsök. Vísindavefurinn er villandi að þessu leyti.
Hérna er flóknari og jafnvel villandi skilgreining á verðbólgu, einnig í boði Vísindavefsins.
En hvað nú ef "gengið styrkist"? Lækkar þá verðið ekki? Kannski. En fyrst þarf að lækka verð starfsmanna verslana, því það hækkaði líka í verðhækkunum (verðbólgunni), sem sagt lækka laun þeirra. Húsaleiga verslana, rafmagnsreikningar og önnur útgjöld þurfa líka að lækka, því þau hækkuðu í verðbólgunni. Hagkerfið er eins og flókin vél. Ekki er bara hægt að hægja á einu tannhjóli og ætlast til þess að öll hin snúist áfram. Allt gangverkið þarf að fínstilla saman og ná nýju jafnvægi í ljósi hins nýja kaupmáttar peninganna.
Auðvitað gerist ekkert af þessu. Verðbólgan fer af stað á ný, verslanir vita þetta, sem og allir þeirra birgjar. Verðlaginu verður því haldið þar sem það er, því það mun á endanum skapa minnst illt umtal, miðað við til dæmis að lækka verð núna til þess eins að þurfa hækka það seinna og fá ekki neina lækkun á rafmagnsreikningi, húsaleigu eða launakostnaði.
Styrking krónu mun skila sér út í verðlagið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 1. ágúst 2012
Lögreglan aðþrengd úr öllum áttum
Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins segir að allt of langt hafi verið gengið í niðurskurði til löggæslu á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta segir lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, og mér sýnist hann ekki njóta sérstaklega mikils skilnings á ummælum sínum. Við skulum samt ekki gleyma því að löggæsla er í raun og veru þörf og eftirsótt þjónusta, og eitthvað sem fólk væri tilbúið að borga fyrir ef ríkisvaldið kæmi sér út úr rekstri lögreglu. Sömu sögu er ekki hægt að segja um mýgrút af opinberum stofnunum, einingum og skrifstofum sem blóðsjúga skattgreiðendur um gagnslausa "þjónustu" sína.
En hvað um það, "allir" þurfa að taka á sig niðurskurð (nema sumir, sem eru jafnari en aðrir). Lögreglan er þar engin undantekning, og sjálfsagt hægt að finna fitu þar til að skera af eins og annars staðar, enda um ríkisrekstur að ræða.
Lögreglan er samt aðþrengd úr öllum áttum, því á sama tíma og hún þarf að taka á sig niðurskurð er henni sagt að skipta sér af fleiri og fleiri ofbeldislausum og friðsömum samskiptum og viðskiptum landsmanna. Henni er sagt að elta uppi ungt fólk sem hefur í fórum sínum nokkur grömm af vímuefnum til eigin neyslu. Henni er sagt að hella niður áfengi hjá nánast fullorðnu fólki ef það hefur ekki náð "forræðisaldri". Henni er sigað á hina og þessa sem fækka fötum á dansgólfi, skiptast á fé og snúningi rúllettuhjóls, og standa vörð við kosningar sem enda á að vera ógildar (stjórnlagaþing) eða hafa ekkert að segja fyrir neinn (dýrasta skoðanakönnun Íslandssögunnar um uppkast stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá).
Svo ég sýni lögreglunni samúð hérna. Í fyrsta lagi fær hún ekki (að eigin mati) nægt fé til að sinna lögbundnum verkefnum sínum. Í öðru lagi er lögbundnum verkefnum hennar fjölgað út í hið óendanlega til að nokkrir þingmenn geti sagt að þeir hafi bannað eitthvað.
Er furða að lögreglustjóri sé ósáttur?
Of langt gengið í niðurskurði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)