Ísland með sín boð og bönn

Á Íslandi er allt bannað sem er bannað einhvers staðar í Vestur-Evrópu eða allt að því. Ef eitthvert ríkið tekur upp bann við einhverju er það bann strax komið í umræðuna á Íslandi sem vænlegt bann fyrir Íslendinga. 

En á sama tíma vilja Íslendingar alltaf "bera sig saman" við einhverja. Viljum við ekki háa skatta eins og Norðurlöndin sem "við berum okkur saman við"? Viljum við ekki útblásið velferðarkerfi eins og það sem finnst í "löndunum sem við berum okkur saman við"? Íslendingar vilja banna allt sem er bannað einhvers staðar, og apa svo eftir því versta sem Norðurlandaþjóðirnar stunda.

Ef við einbeitum okkur að Norðurlöndunum (uppáhaldssamanaburðarlöndin okkar) er hægt að taka nokkur dæmi um banngleðina miklu á Íslandi.

Í Danmörku og Noregi er hægt að kaupa áfengi í matvöruverslunum. Í Danmörku mun víðar, og allan sólarhringinn og á samkeppnismarkaði (í Danmörku eru allir tilboðsbæklingar stórmarkaða með margar blaðsíður af áfengistilboðum), en í Noregi fyrir himinhátt verð og bara fyrir klukkan 20 á kvöldin. Í Svíþjóð eru ríkisreknar áfengisverslanir með brúnum og gráum innréttingum og takmarkaðan opnunartíma. Og Ísland? Svarið vita allir.

Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er hægt að kaupa svokallað munntóbak, en margir nota slíkt í stað sígaretta til að fá nikótín í kroppinn. Í Svíþjóð fæst þess konar tóbak út um allt, í Noregi ansi víða en á færri stöðum í Danmörku. Á Íslandi er munntóbak bannað alveg og fæst bara gegn himinháu gjaldi á hinum svarta markaði.

Í Noregi og Svíþjóð er bannað að kaupa sér þjónustu vændiskvenna og -karla (eða var það bara Svíþjóð?). Í Danmörku gerir lögreglan lítið við viðskiptum vændiskvenna- og karla við viðskiptavini þeirra, en tekur einstaka "rassíur" til að skoða vegabréf og henda nokkrum illa klæddum konum í fangelsi. Og Ísland? Þar á að ganga eins langt og sá sem lengst gengur.

Í Danmörku gerir lögreglan lítið við því að menn fái sér eins og eina jónu eða safnist saman til að neyta "vægra" fíkniefna. Danmörk er ekki fyrirmynd Íslands í þessum málum, og bannar eins mikið og sá sem mest bannar (enda fara fangelsismál á Íslandi að líkjast þeim í Bandaríkjunum).

Íslendingar banna sem sagt allt sem einhver bannar, og taka bannið eins langt eða jafnvel lengra og sá sem tekur það lengst.

Er skrýtið að Íslendingum finnist gaman að skvetta aðeins í sig í útlöndum, og fá sér jafnvel eins og eina jónu eða drátt? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Ég held að prýðileg rök megi færa fyrir því að ef lög og reglur eru brotnar oft og af stórum hópi segi það meira um lögin og reglurnar en þá sem þær brjóta.

Mér finnst samanburðurinn á fangelsismálum hérlendis og í USA ansi langsóttur. Fangelsi eru að setja Kanann á hausinn - slík er refsigleðin :-( Ég held að obbi þeirra sem þar sitja inni séu þar vegna fíkniefna - sem á auðvitað ekki að banna fólki að nota.

Helgi (IP-tala skráð) 30.8.2012 kl. 23:31

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Helgi,

Sennilega var of djúpt í árina tekið hjá mér að bera fangelsismál á Íslandi saman við þau í USA. Á Íslandi eru "bara" um 40 af hverju 100 þúsund íbúum í grjótinu, en rúmlega 700 í USA (http://www.nationmaster.com/graph/cri_pri_per_cap-crime-prisoners-per-capita).

En er þróunin ekki sú að troða fleirum og fleirum í grjótið á Íslandi vegna minni og minni "afbrota"? Fíkniefni, að dansa allsber en á röngum tíma og röngum stað, og ýmislegt annað sem ætti miklu frekar að kalla "löst" en "glæp", og löstur er ekki glæpur.

Geir Ágústsson, 7.9.2012 kl. 09:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband