Fyrstu skrefin í útför velferðarkerfisins

Hið vestræna velferðarkerfi er dauðadæmdur sjúklingur sem verður annaðhvort skorinn af samfélaginu eða dregur það með sér í dauðann. Hugsunin á bak við það er órökrétt og stenst ekki til lengri tíma. Þetta gildir bæði um "lítil" velferðarríki og "stór" (því "lítil" kerfi verða fyrr eða síðar "stór", og þar með banvæn). 

Dauðadómur velferðarkerfisins/ríkisins er rökstuddur með nokkrum athugunum:

Það er pólitískt auðvelt að þenja velferðarríkið út, en nánast pólitískt ómögulegt að draga úr stærð þess. Þetta er vegna þess að um leið og einhver (einstaklingur eða hópur einstaklinga) fer "á spenann", er speninn orðinn að líflínu viðkomandi, og ef speninn er fjarlægður skapar það þörf á erfiðri og oft tímafrekri aðlögun fyrir þá sem nærast á spenanum. Þrýstingurinn á að viðhalda og stækka er því miklu meiri frá afmörkuðum og beinum hagsmunaaðilum en þrýstingur dreifðra skattgreiðenda er á að draga úr stærð velferðarkerfisins.  

Velferðarkerfinu er ætlað að draga úr ýmsum "óþægindum" á lífsleiðinni, svo sem kostnaði vegna menntunar, starfsloka, örorku og atvinnuleysis. En hvað gerist þegar þú niðurgreiðir eitthvað? Gerir það ódýrara fyrir þig en ef þú þyrftir að fjármagna úr eigin vasa, annaðhvort beint eða í gegnum tryggingar? Það sem gerist er að þú færð meira af því sem þú niðurgreiðir en ef þú ella hefðir án niðurgreiðslunnar. Velferðarkerfið eykur því umfang þeirra "vandamála" sem því er ætlað að gera bærilegri, og getur því varla annað en þanist út og orðið að óbærilegri byrði fyrir þá sem greiða kostnaðinn af kerfinu.

Velferðarkerfið er tilflutningur á fé frá þeim sem afla þess og til þeirra sem afla þess ekki. Fáir sem engir skattgreiðendur koma út "á sléttu" gagnvart kerfinu (því þá væri það sjálfkrafa óþarfi og fólk mundi jafnvel sjá það). Og hvað verður um fé sem er flutt frá þeim sem aflar þess og til annars sem krefst þess? Því er sóað. Eftir því sem kerfið er dýrara og þyngra, því meira fé er sóað. Og ekkert samfélag eða hagkerfi getur þolað of mikla sóun á afrakstri verðmætaskapandi vinnu til eilífðar. Á endanum kemur að því að kerfið heimtar meira en það getur kreist út úr skattgreiðendum. Dauðadómur kerfisins er því innbyggður inn í hugarfarið á bak við það.

Um allan heim er ýmist unnið hægt og bítandi að því að draga úr útþenslu velferðarkerfisins, eða hratt að því að auka hana. Hraði aukningar er alltaf meiri en hraði samdráttar, og til lengri tíma litið er útþenslan (pólitískt) óumflýjanleg reglan. Þótt pólitíkusar og "hagsmunaaðilar" sjái skýrt og greinilega að í óefni stefnir er að því er virðist ekkert hægt að gera til að stöðva útþenslu velferðarkerfisins. Það mun því á endanum verða of þungt lóð um háls skattgreiðenda, og afleiðingin verður löng og sársaukafull aðlögun að nýjum og velferðarkerfislausum veruleika. 


mbl.is Ræða hækkun á eftirlaunaaldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband