Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Höftin eru pólitískt stjórntæki, ekki hagstjórnartæki

Gjaldeyrishöftin eru ekki hagstjórnartæki. Þau eru höft. Höft hægja á hagkerfi. Þau draga úr verðmætasköpun, brengla verðmyndun og raska áætlunum. Höftin mætti afnema með ýmsum hætti og mjög fljótlega ef vilji stæði til þess.

Gjaldeyrishöftin eru pólitískt stjórntæki og þjóna pólitískum hagsmunum stjórnlyndra stjórnmálamanna á margan hátt:

  • Þau láta krónuna líta illa út miðað við t.d. evruna. Þetta er að skapi þeirra sem vilja innlimun Íslands inn í Evrópusambandið.
  • Þau veita fullt af stjórnlyndum einstaklingum vinnu við að skipuleggja, skipa fyrir og hafa eftirlit með öðrum. Seðlabankastjóra líður vel í þessari valdamiklu stöðu. Mörgum stjórnmálamönnum líður vel að vita af þessu mikla og öfluga agatæki ríkisvaldsins sem er hægt að nota til að flengja óprúttna einkaaðila.
  • Höftin eru höft. Þau hefta. Þau flytja ákvörðunarvald frá þeim sem skapa og afla, og til þeirra sem eru kosnir til valda og telja að það gefi þeim rétt til að ræna og rupla þá sem skapa og afla.

Pólitískur ásetningur viðheldur höftunum. Sem hagstjórnartæki gera þau illt verra. Sem pólitískt vopn gefa þau völd og vellíðan til þeirra sem þrífast á því að geta sagt öðrum fyrir verkum.


mbl.is Gengi krónunnar leitar áfram niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landið komið í var, betri tíð í vændum eða landið að rísa?

Steingrímur J. Sigfússon, jarðfræðingur, er heldur betur búinn að nota mörg orð um "ástandið" á Íslandi í dag. Núna er Ísland "komið í var". Á öðrum stað talar Steingrímur um að það sé "betri tíð í vændum", en það var að vísu fyrir rúmum 20 dögum síðan og hagtölur hafa sennilega versnað síðan. Í ágúst 2010 skrifaði Steingrímur mörg orð undir yfirskriftinni "Landið tekur að rísa", en hann hefur líklega áttað sig á því síðan að svo er alls ekki.

Svo eftir því sem við nálgumst kosningar (sem verða í seinasta lagi vorið 2013), þeim mun varkárari verða yfirlýsingar Steingríms.

Ætli þær muni á endanum nálgast sannleikann? Ætli Steingrímur muni nokkurn tímann játa að hann tók við slæmu búi og gerði miklu, miklu, miklu verra? Því sannleikurinn er sá, og þetta ættu meira að segja menntaðir jarðfræðingar að sjá, að ástandið á Íslandi hefur aldrei verið verra seinustu áratugi, og fer versnandi. Já, versnandi. Ísland er ekki "komið í var", hin meinta "betri tíð" var aldrei í vændum, og landið er ekki byrjað að rísa. 

Annaðhvort er Steingrímur J. að vísvitandi ljúga til að verja pólitískan og gjaldþrota sósíalismann sinn, eða hann veit ekki betur. Ég held að það sé sittlítið af hvoru.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VSK hluti af verðtryggingunni?

Hin íslenska verðtrygging er reiknuð út frá breytingum í verðlagi. Þetta þýðir að þegar yfirvöld raða sköttum og gjöldum ofan á kaup og sölu á varningi og þjónustu þá uppreiknast öll verðtryggð lán í himinhæðir.

Þetta finnst mér skrýtið. Þeir sem vilja verja kaupmátt króna sinna eiga ekki að fá vernd fyrir skattahækkunum og ég held að réttlætingin fyrir því sé takmörkuð. 

Ég sé núna að prófessor Júlíus Sólnes veltir þessu líka fyrir sér, en þó með annarri nálgun. 

Hann skrifar:

Hér er varpað fram þeirri hugmynd að breyta lánskjaravísitölunni með einfaldri aðgerð, það er að hreinsa burt allar innlendar skattbreytingar og önnur álíka ósanngjörn áhrif og nota framvirkt veldismeðaltal vísitölunnar til að draga úr miklum sveiflum á henni. Það er ef til vill ekki óeðlilegt, að lánskjör Íslendinga versni við að kaffi hækki í Brazilíu. Það gildir hins vegar ekki, þegar ríkið hækkar virðisaukaskatt skyndilega um 1%, eykur tekjuskatt eða álögur á áfenga drykki og benzín.

Ég held svei mér þá að ég geti tekið undir þessi orð. 


Hinn 'þröngi markaður' eða sósíalismi?

Nánast undantekningarlaust þegar menn tjá sig á neikvæðum nótum um "markaðslögmálin" er hægt að sýna fram á að þeir hinir sömu vita ekkert hvað þeir eru að tala um (hafa t.d. ranghugmyndir eða hafa hlotið menntun í einhverri vitleysu), eða eru að boða sósíalisma, eða bæði.

Hvað er "hinn þröngi markaður"? Hann er samfélag einstaklinga sem eiga frjáls viðskipti og samskipti sín á milli. Þessi viðskipti hafa það markmið að hámarka hag allra sem að þeim koma (ef þátttakendur héldu að það væri niðurstaðan þá mundu þeir láta viðskiptin eiga sig). Stundum eru þau fjárhagslegs eðlis, en stundum sálræns, en oftar bæði í senn. Stundum eiga viðskiptin sér stað með því að einn maður afhentir öðrum manni fé og fær í staðinn epli. Stundum eiga þau sér stað þannig að maður gefur fé til góðgerðarmála og ætlast ekki til að fá neitt í staðinn nema vellíðan.

Sumir skilja andstæðu hins "þrönga markaðar" sem öll þau viðskipti sem fara fram án þess að einhver fái ávöxtun fjár eða varning í skiptum fyrir fé, t.d. gjafir til góðgerðarmála eða faðmlög til heimilislausra. En þetta eru viðskipti. Þau lúta sömu lögmálum og viðskipti með fé, góðmálma og nuddþjónustu. Flutningur á fé úr vösum þeirra sem þess afla og í vasa einhverra annarra hættir fyrst að vera viðskipti þegar ríkisvaldið tekur að sér þennan tilflutning fjár og fer að ákveða hversu mikið á að flytja til og til hverra og hvenær, með hótun um fangelsisvist eða ofbeldi ef eigandi fjárins sleppir því ekki.

Hver er svo raunveruleg andstæða hins "þrönga markaðar" og valkosturinn við hann? Það er hinn víðfeðmi faðmur ríkisvaldsins. Í stað þess að einstaklingur skipti á vinnu og fé og noti þetta fé til að kaupa sér varning og þjónustu, þá hrifsar ríkisvaldið eignir hans úr höndum hans og notar í hvað sem því sýnist. 

Þeir sem tala gegn hinum frjálsa og "þrönga" markaði eru meðvitað eða ómeðvitað að boða sósíalisma.


mbl.is Forsetinn: Ísland land tækifæranna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skipta út kúk fyrir skít?

Íslenska krónan er í höndum óvita. Ég nota hérna orðið "óviti" í saklausu merkingu þess sem veit einfaldlega ekki betur.

Hagfræðin sem ræður ríkjum í heiminum, bæði í flestum háskólum og öllum seðlabönkum, gengur út á það að ríkisvaldið geti stjórnað verðlagi á peningum í gegnum hæga eða hraða peningaútgáfu. Það eina sem þurfi sé vilji og góður ásetningur. Hinum góða ásetningi megi ná fram með faglegum ferlum og vali á rétta fólkinu.

Allt er þetta tálsýn. Ríkisvaldið getur einfaldlega ekki stillt sig um að beita peningaútgáfuvaldinu og einokunni á því til að hygla sjálfu sér á kostnað notenda peninganna.

Ég skil alveg þá sem vilja að Íslendingar taki upp annan gjaldmiðil sem sveiflast hægar en íslenska krónan. En munurinn á íslensku krónunni og t.d. evrunni er ekki eðlismunur, heldur stigsmunur. Það tekur að jafnaði lengri tíma að drepa gjaldmiðil í miklu upplagi og sem margir nota (t.d. Þjóðverjar) en það tekur að drepa gjaldmiðil í litlu upplagi sem fáir nota. En það þýðir ekki að það sé ekki hægt. Bæði dollarinn og evran eru óðum að breytast í rusl. 

Leiðin úr ógöngum íslensku krónunnar er ekki sú að skipta út einum lélegum gjaldmiðli fyrir annan lélegan gjaldmiðil (og innlima Íslendinga í leiðinni í stórríkið á meginlandinu), heldur að fella niður peningaútgáfuvald ríkisins og leyfa markaðnum að finna bestu lausnina. Sögulega séð hefur markaðurinn valið sé gull sem peninga, og það er því ekki slæm ágiskun á val markaðarins í framtíðinni ef hann fær frelsi til að velja. En hver veit? Kannski velja sumir ríkisgjaldmiðil Evrópusambandsins á meðan aðrir velja sér Kanadadollar, norska krónu, dollar, yen, svissneskan franka eða eitthvað allt annað.

Forstjóri Össurar sér að tekjur hans fyrirtækis eru að mestu leyti í evrun og hann vill því evru og þar með Evrópusambandsaðild (nema hann sé flokksbundinn í Samfylkingunni og vill Evrópusambandsaðild aðildarinnar vegna). En á hann að ráða? Hvað ef hann fær stóran samning við bandarískan kaupanda og fær allt í einu megnið af tekjunum í bandarískum dollar? Eiga Íslendingar þá að ganga í Bandaríkin Norður-Ameríku?

Íslenska krónan er vissulega fíllinn í stofunni. Á þeim fíl stendur "ef þú treystir ríkisvaldinu fyrir peningaútgáfunni þá traðka ég á þér".


mbl.is Krónan er fíllinn í stofunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bóla í skjóli gjaldeyrishaftanna

Eignabóla er að myndast á Íslandi á ný. Þetta hjálpar skuldsettum húsnæðiseigendum en refsar öllum öðrum.

Í gríðarlega áhugaverðri grein skrifar Heiðar Guðjónsson, fjárfestir (úr framtíðinni árið 2016):

Verðbólgan var mikil, sökum þess að enginn treysti krónunni og hún gaf hægt og sígandi eftir, en hækkun eignaverðs var ennþá meiri. Almenningur reyndi að forða eignum sínum frá verðbólgubálinu með fjárfestingum í alls konar fastafjármunum, ekki síst húsnæði. Fasteignaverð hafði til dæmis hækkað um 50% á 3 árum og lán til framkvæmda höfðu margfaldast.

Á öðrum stað (í Viðskiptablaðinu að þessu sinni) segir:

Stærsti vandinn sem steðjar að lífeyrissjóðakerfinu núna eru gjaldeyrishöftin. Það er ekki nóg með að þau hamli æskilegri og eðlilegri áhættudreifingu í eignasöfnum lífeyrissjóða, heldur hafa þau valdið eignabólu innanlands. Á meðan verði er ekki leyft að koma á jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar eftir íslenskum krónum hlaðast upp krónur innanlands sem sést meðal annars á því að innstæður í bönkum hafa verið í sögulegu hámarki eftir hrun. Þetta fé leitar ávöxtunar á skuldabréfamarkað sem hefur stuðlað að mikilli lækkun á ávöxtunarkröfu þeirra, of margar krónur eru að elta of fáar eignir.

Með öðrum orðum: Gjaldeyrishöftin eru að loka sífellt fjölgandi krónum inni í landinu, og eigendur þessara króna hafa ekki úr miklu að moða. Peningar leita í skuldabréf og það mun þrýsta vöxtum niður. Eignabóla er að myndast á hinum íslenska fasteignamarkaði. Til lengri tíma litið mun þetta ástand hafa skelfilegar afleiðingar í för með sér, bæði fyrir þá sem eru að reyna byggja upp eigið fé í húsnæði, og þá sem treysta á lífeyrissjóðinn sinn í ellinni.

Íslenska hagkerfið hrundi árið 2008 og hvað hafa yfirvöld og Seðlabanki Íslands lært af því? Ekki nokkurn skapaðan hlut. 


mbl.is Íbúðaverðið á uppleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sem sagt, 8,08% atvinnuleysi

Þegar atvinnuleysi er orðið það mikið og langvarandi og ráðaleysi stjórnmálamanna orðið nógu mikið þá byrjar leikurinn með tölfræðina.

Í fréttinni segir að 500 manns hafi verið sópað af skrá atvinnulausra og inn á námskeið, og að 900 manns sem eru í hlutastörfum eða tímabundnum störfum, en langar í fullt starf, séu einnig dottnir af skránni síðan um áramót. Sé þessum fjölda bætt við fjölda atvinnulausra verður atvinnuleysið 8,08%. 

Þessi tilflutningur á fólki af skrá yfir atvinnulausa og yfir á skrá yfir eitthvað allt annað (námskeið, sjúkraleyfi, bætur af ýmsu tagi o.s.frv.) er vel þekkt leikfimi í mörgum ríkjum þar sem langvarandi og viðvarandi atvinnuleysi hrjáir hagkerfið eða er að verða að óþægilegu pólitísku vandamáli. Í sumum ríkjum er jafnvel hægt að reikna opinberar tölur um atvinnuleysi upp í hið tvöfalda þegar allt er tekið með í reikninginn og kallað sínu rétta nafni (atvinnubótavinna, tilgangslaus námskeið og fleira af því tagi).

Eftir því sem nær líður kosningum mun brögðum af þessu tagi fjölga til að reyna fegra ástandið í hagkerfinu. Atvinnuleysisbótaþegum mun fækka, en þeim fjölga mikið sem sitja námskeið, grafa holur og fylla í þær aftur og sinna "sérverkefnum" hjá ríkinu og fyrirtækjum/stofnunum þess, að ógleymdum þeim sem skyndilega "verða" öryrkjar sem fara á örorkubætur (en þær eru pólitískt mun síður skeinuhættari en atvinnuleysisbæturnar). 

Nema ríkisstjórninni detti nú allt í einu í hug að hverfa frá hagkerfisdrepandi stefnu sinni. En ég held að það sé langsótt.


mbl.is Atvinnuleysið 7,2%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Offramboð af 'menntuðum' kennurum á Íslandi?

Í mjög athyglisverðri grein skrifar fyrrverandi ráðherra, Sighvatur Björgvinsson, eftirfarandi orð:

Stendur þá námsárangur barna í grunnskóla í öfugu hlutfalli við námskröfur til kennaranna? Slíkt mætti halda á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga. Samt er það ekki svo. Örugglega ekki.

(Ekki vantar svo að yfir hann sé hraunað fyrir vangaveltur sínar, en svona er það nú oft á Íslandi í dag.)

Íslenskir kennarar eru vægast sagt sprenglærðir. Þeir eru gjarnan með margra ára háskólanám í kennarafræðum á bakinu. Þeir vita mjög mikið um fjölmargt sem kennarar höfðu ekki hugmynd um í gamla daga.

Og alltaf hrakar íslenskum nemendum í lesskilningi.

Ég leyfi mér að fullyrða að margt af því sem íslenskum skólabörnum er kennt í dag er gagnslaust fyrir þá. 

Ég leyfi mér líka að fullyrða að ekki sé öll menntun góð fyrir alla. Sumir ættu að fara á vinnumarkaðinn vel fyrir tvítugsaldurinn og byrja að afla sér starfsreynslu og þjálfunar. Skólaganga er ekki fyrir alla.

Hið takmarkalausa menntasnobb sem gegnsýrir svo marga er ekki hollt fyrir samfélagið. Það dregur sjálfstraust úr þeim sem geta ekki sópað að sér fínum gráðum í fínum fögum og ættu e.t.v. frekar að einbeita sér að því að skapa verðmæti en skapa gagnslausar háskólagráður.  Og þetta takmarkalausa menntasnobb gefur litlum hópi á toppi háskólasamfélagsins leyfi til að tala niður til þeirra sem hafa aðrar áherslur en að krækja sér í 5 háskólagráður sem á endanum nýtast engum en í besta falli ríkisvaldinu (og þar með engum sem skapa verðmæti). 


mbl.is Skortur á menntuðum kennurum í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hatar þú hommahatarann?

Sumar skoðanir eru einfaldlega ekki leyfðar í opinberri umræðu á Íslandi. Ein er sú að telja samkynhneigð vera synd. Skal engan undra að þeir sem taka meira mark á orðum Biblíunnar en öðrum bókum hafi þá skoðun. Biblían er nokkuð skýr hvað þetta varðar og má t.d. lesa um það hérna.

Aðrar bannaðar skoðanir eru þær að telja neyslu vímuefna vera einkamál hvers og eins, að vændi sé þjónusta eins og nudd og naglalökkun, að börn séu heilaþvegin til hlýðni við ríkisvaldið á skólaskylduárum sínum, að sífellt meiri menntun kennara sé tíma- og peningasóun sem virðist bara leiða til lakari og lakari námsárangurs barna, og svona má lengi telja.

Samkynhneigð er auðvitað eins og gagnkynhneigð að því leyti að hún er einkamál hvers og eins, sem hver og einn má bera á borð annarra eins og viðkomandi hefur áhuga á, en á ekki að koma neinum við ef viðkomandi vill halda hneigð sinni fyrir sjálfan sig.

Að kennari í skóla prediki orð Biblíunnar á einkabloggi sínu er hans mál og viðkomandi gerir sér væntanlega grein fyrir því að það valdi einhverjum taugatitringi. En nema hægt sé að sýna fram á að hann sé verri kennari fyrir vikið þá á það ekki að setja ráðningu hans í uppnám. 

Hatar þú hommarahatarann? Gott og vel. Hefur það hatur áhrif á þig í starfi? Kannski. Ef svo er, þá á atvinnuveitandi þinn að hugleiða uppsögn á þér. En annars ekki.


mbl.is Æfir vegna skrifa um samkynhneigð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir skattar eru slæmir skattar

Hópur níu evruríkja undir forystu Frakklands og Þýskalands hafa óskað eftir því við Dani, sem fara nú með forsætið innan Evrópusambandsins, að flýta áætlunum um sérstakan skatt á fjármagnsflutninga.

Hugmyndir um nýja skatta og hækkanir á gömlum sköttum eru alltaf að skjóta upp kollinum. Þær eru undantekningalaust slæmar.

Allir skattar eru slæmir skattar. Þeir sjúga verðmæti úr höndum þeirra sem afla þeirra og setja í hendur stjórnmálamanna sem sóa þeim. Engu máli skiptir hvað skattarnir heita eða á hvað þeir "leggjast". Þeir eru alltaf slæmir. Og þegar ég segi "slæmir", þá meina ég: Draga úr verðmætasköpun, senda verðmæti á flótta í aðrar áttir en þær hagkvæmustu, og brengla frjáls viðskipti í átt frá mestri ávöxtun og mestum ábata og í átt að einhverju öðru, t.d. skjól frá skattheimtu.

Ég hef enga sérstaka skoðun á þessum tiltekna skatti sem núna er barist fyrir að sjúgi blóð úr fjármálageiranum og setji í tómar hirslur ríkissjóða gjaldþrota ríkja. Hann er jafnslæmur og hver annar skattur. Hann mun þyngja ríkisvaldið enn frekar og veikja markaðinn og leiða til þess að allir séu verr settir en áður, ef undan eru skildir embættismenn ríkisvaldsins og helstu skjólstæðingar þess í atvinnulífinu.


mbl.is Níu evruríki vilja skatt á fjármagnsflutninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband